Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Metum „gjafir í mönnum“

Metum „gjafir í mönnum“

Metum „gjafir í mönnum“

„[Sýnið] þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar . . . Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:12, 13.

1. Hvað segir Postulasagan 20:35 að gjafmildi hafi í för með sér? Lýstu með dæmi.

 „SÆLLA er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Manstu hvenær þú reyndir síðast sannleikann í þessum orðum Jesú? Kannski gafstu ástvini einhverja gjöf. Þú valdir gjöfina vandlega því að þú vildir að honum þætti vænt um hana. Gleðisvipurinn á andliti hans yljaði þér um hjartaræturnar. Þegar gjöf er gefin af réttum hvötum er hún gefin af kærleika, og kærleikur getur verið hamingju- og gleðigjafi.

2, 3. (a) Af hverju má segja að enginn sé hamingjusamari en Jehóva og hvernig geta ‚gjafirnar í mönnum‘ glatt hjarta hans? (b) Hvernig viljum við ekki fara með gjöf frá Guði?

2 Getur þá nokkur verið hamingjusamari en Jehóva, gjafari ‚sérhverrar góðrar gjafar‘? (Jakobsbréfið 1:17; 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Allar gjafir hans eru gefnar af kærleika. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Það má vissulega segja um ‚gjafirnar í mönnum‘ sem Guð hefur gefið söfnuðunum fyrir milligöngu Krists. (Efesusbréfið 4:8, NW) Það er merki um djúpan kærleika hans til fólks síns að gefa öldunga til að gæta hjarðarinnar. Þessir menn eru vandlega valdir og verða að uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Þeir vita að þeir verða að fara vel með hjörðina því að sauðirnir hafa þá ástæðu til að vera þakklátir fyrir þessa kærleiksríku hirða. (Postulasagan 20:29; Sálmur 100:3) Það hlýtur að gleðja hjarta Jehóva þegar hann sér að sauðir hans eru fullir þakklætis í hjörtum sér. — Orðskviðirnir 27:11.

3 Við viljum sannarlega ekki gera lítið úr gjöf frá Guði og ekki heldur vera vanþakklátir. Það vakna því tvær spurningar: Hvernig ættu öldungar að líta á hlutverk sitt í söfnuðinum? Og hvernig geta aðrir í hjörðinni sýnt að þeir kunni að meta ‚gjafirnar í mönnum‘?

‚Við erum samverkamenn ykkar‘

4, 5. (a) Við hvað líkir Páll söfnuðinum og af hverju er þetta viðeigandi samlíking? (b) Hvernig ættum við að líta á og koma fram hver við annan samkvæmt líkingu Páls?

4 Jehóva hefur fengið ‚gjöfunum í mönnum‘ ákveðið vald í söfnuðinum. Öldungarnir vilja auðvitað ekki misbeita valdi sínu en þeir vita mætavel að það er mjög auðvelt fyrir ófullkomna menn að gera það. Hvernig ættu þeir þá að líta á sjálfa sig í samanburði við hina í hjörðinni? Lítum á samlíkingu sem Páll postuli gerir. Eftir að hafa rætt um ástæðuna fyrir því að gefa „gjafir í mönnum“ skrifaði hann: „Vér eigum [að] vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, — Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.“ (Efesusbréfið 4:15, 16) Hér líkir Páll söfnuðinum, að öldungunum meðtöldum, við mannslíkama. Af hverju er þetta viðeigandi líking?

5 Mannslíkami hefur marga limi en aðeins eitt höfuð. Ekkert í líkamanum — hvorki vöðvi, taug né æð — er þó gagnslaust. Hver einasti líkamshluti er verðmætur og stuðlar á einhvern hátt að heilbrigði og fegurð heildarinnar. Söfnuðurinn er líka myndaður úr mörgum og ólíkum einstaklingum en hver og einn — ungir sem gamlir, sterkir sem veikbyggðir — getur átt einhvern þátt í heilbrigði og fegurð safnaðarins í heild. (1. Korintubréf 12:14-26) Enginn þarf að láta sér finnast hann vera of lítilfjörlegur til að skipta máli. En enginn ætti heldur að láta sér finnast hann öllum hinum fremri því að við erum öll — jafnt hirðar sem sauðir — hluti af líkamanum og líkaminn hefur aðeins eitt höfuð sem er Kristur. Páll dregur því upp hlýlega mynd af þeim kærleika, umhyggju og virðingu sem við ættum að bera hvert fyrir öðru. Ef öldungarnir viðurkenna þetta hjálpar það þeim að vera auðmjúkir og sjá hlutverk sitt í söfnuðinum í réttu ljósi.

6. Hvernig sýndi Páll auðmýkt þótt hann færi með postulavald?

6 Þessar „gjafir í mönnum“ leitast ekki við að stjórna lífi eða trú samþjóna sinna. Þótt Páll færi með postulavald sagði hann Korintumönnum auðmjúkur í bragði: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.“ (2. Korintubréf 1:24) Páll vildi ekki ráða yfir trú og líferni bræðra sinna og systra. Hann sá reyndar enga þörf á því vegna þess að hann treysti að þau væru trúföst og tilheyrðu skipulagi Jehóva af því að þau vildu gera rétt. Páll sagði því í reynd um sjálfan sig og Tímóteus, ferðafélaga sinn: ‚Það er hlutverk okkar að starfa með ykkur að því að þjóna Guði með gleði.‘ (2. Korintubréf 1:1) Hvílík auðmýkt!

7. Hvað gera auðmjúkir öldungar sér ljóst í sambandi við hlutverk sitt í söfnuðinum og hvaða traust bera þeir til samverkamanna sinna?

7 „Gjafir í mönnum“ nú á tímum hafa sama verkefni. Þeir eru ‚samverkamenn að gleði okkar.‘ Auðmjúkir öldungar gera sér ljóst að það er ekki þeirra að ákveða hve mikið aðrir geta gert í þjónustu Guðs. Þeir vita að þótt þeir geti hvatt aðra til að auka eða bæta þjónustuna við hann ætti hún að eiga rætur sínar í fúsu hjarta. (Samanber 2. Korintubréf 9:7.) Þeir treysta að samverkamenn sínir geri allt sem þeir geta ef þeir eru glaðir. Það er því innileg löngun þeirra að hjálpa bræðrum sínum að ‚þjóna Jehóva með gleði.‘ — Sálmur 100:2.

Hjálpið öllum að þjóna með gleði

8. Nefndu nokkrar leiðir fyrir öldungana til að hjálpa bræðrum sínum að þjóna Jehóva með gleði.

8 Öldungar, hvernig getið þið hjálpað bræðrum ykkar að þjóna með gleði? Þið getið verið hvetjandi fordæmi. (1. Pétursbréf 5:3) Látið kostgæfni ykkar og gleði í þjónustunni sjást; það getur hvatt aðra til að líkja eftir fordæmi ykkar. Hrósið öðrum fyrir heilshugar viðleitni þeirra. (Efesusbréfið 4:29) Hlýlegt og ósvikið hrós hjálpar öðrum að finna að þeir séu gagnlegir og að þeirra sé þörf. Það hvetur sauðina til að vilja gera sitt besta í þjónustu Guðs. Forðist óhagstæðan samanburð. (Galatabréfið 6:4) Slíkur samanburður letur aðra frekar en hvetur þá til að bæta sig. Auk þess eru sauðir Jehóva einstaklingar og aðstæður þeirra og hæfni ólík. Látið í ljós traust til bræðra ykkar, líkt og Páll. Kærleikurinn „trúir öllu“ svo að við eigum að trúa því að bræður okkar elski Guð og vilji þóknast honum. (1. Korintubréf 13:7) Þegar þið ‚veitið öðrum virðingu‘ dragið þið fram hið besta í fari þeirra. (Rómverjabréfið 12:10) Þið megið treysta því að þegar sauðirnir fá hvatningu og eru hressir gera flestir allt sem þeir geta í þjónustu Guðs og hafa yndi af því. — Matteus 11:28-30.

9. Hvaða afstaða til annarra öldunga hjálpar öldungi að þjóna með gleði?

9 Að vera auðmjúkir og líta á sjálfa ykkur sem „samverkamenn“ auðveldar ykkur að þjóna með gleði og meta samöldunga ykkar sem sérstakar gjafir. Hver öldungur hefur sína sérstöku hæfileika sem hann getur notað til gagns fyrir söfnuðinn. (1. Pétursbréf 4:10) Einn er mjög fær kennari, annar hefur góða skipulagsgáfu og sá þriðji er kannski einstaklega viðmótsgóður sökum hlýju og hluttekningar. Enginn öldungur hefur alla hæfileika í sama mæli. Er einn öldungur öðrum meiri ef hann hefur sérstaka hæfileika, til dæmis kennsluhæfileika? Alls ekki. (1. Korintubréf 4:7) Hins vegar er engin ástæða til að öfunda annan af hæfileikum hans eða finnast maður sjálfur ófullnægjandi ef öðrum öldungi er hrósað fyrir hæfileika sína. Mundu að þú býrð sjálfur yfir hæfileikum sem Jehóva sér hjá þér. Og hann getur hjálpað þér að rækta þessa hæfileika og nota þá til gagns fyrir bræður þína. — Filippíbréfið 4:13.

‚Verið hlýðnir og eftirlátir‘

10. Af hverju er viðeigandi að við sýnum þakklæti fyrir ‚gjafirnar í mönnum‘?

10 Þegar okkur er gefin gjöf er viðeigandi að sýna þakklæti. „Verðið þakklátir,“ segir Kólossubréfið 3:15. Hvað þá um hinar dýrmætu „gjafir í mönnum“ sem Jehóva hefur gefið okkur? Að sjálfsögðu erum við fyrst og fremst þakklát hinum örláta gjafara, Jehóva. En hvað um ‚gjafirnar‘ sjálfar? Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta þær?

11. (a) Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir ‚gjafirnar í mönnum‘? (b) Hvað þýða orðin „hlýðið“ og ‚verið eftirlátir‘?

11 Við getum sýnt þakklæti okkar fyrir ‚gjafirnar í mönnum‘ með því að fylgja fúslega biblíulegum ráðum þeirra og ákvörðunum. Biblían ráðleggur okkur: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ (Hebreabréfið 13:17) Tökum eftir að við verðum bæði að ‚hlýða‘ og ‚vera eftirlátir‘ þeim sem fara með forystuna. Gríska orðið, sem þýtt er ‚verið eftirlátir,‘ merkir bókstaflega „verið þið eftirgefanlegir undir.“ Biblíufræðingurinn R. C. H. Lenski segir um orðin „hlýðið“ og ‚verið eftirlátir‘: „Maður hlýðir þegar maður er sammála því sem manni er sagt að gera, sannfærist um að það sé rétt og gagnlegt; maður lætur undan . . . þegar maður er annarrar skoðunar.“ Þegar við skiljum og föllumst á fyrirmæli þeirra sem fara með forystuna er yfirleitt auðvelt að hlýða. En hvað þá ef við skiljum ekki ástæðuna að baki vissri ákvörðun?

12. Af hverju ættum við að vera eftirlát eða eftirgefanleg, jafnvel þegar við skiljum ekki fyllilega ástæðuna að baki vissri ákvörðun?

12 Þá getum við þurft að vera eftirlát eða eftirgefanleg. Af hverju? Meðal annars af því að við þurfum að treysta að þessir andlega hæfu menn beri hag okkar fyrir brjósti. Þegar allt kemur til alls vita þeir mætavel að þeir verða að standa Jehóva reikning af því hvernig þeir annast sauðina sem þeim er falin umsjón með. (Jakobsbréfið 3:1) Og það er gott fyrir okkur að hafa hugfast að við vitum kannski ekki allar staðreyndir sem liggja að baki ákvörðun þeirra. — Orðskviðirnir 18:13.

13. Hvað getur hjálpað okkur að vera eftirlát þegar dómsúrskurðir öldunganna eru annars vegar?

13 Þegar dómsúrskurðir eru annars vegar getur stundum verið erfitt að sýna undirgefni, einkum ef tekin hefur verið ákvörðun um að víkja einhverjum ástvini okkar úr söfnuðinum, til dæmis ættingja eða nánum vini. Enn sem fyrr er okkur fyrir bestu að virða dóm ‚gjafanna í mönnum.‘ Þeir geta verið hlutlægari en við og vita eflaust meira en við um málið. Það er oft kvalræði fyrir þessa bræður að taka slíka ákvörðun og það er alvarleg ábyrgð að ‚dæma í umboði Jehóva.‘ (2. Kroníkubók 19:6) Þeir leggja sig í líma við að vera miskunnsamir, minnugir þess að Guð er „fús til að fyrirgefa.“ (Sálmur 86:5) En þeir verða líka að halda söfnuðinum hreinum og Biblían segir að þeim beri að víkja iðrunarlausum syndurum úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:11-13) Syndarinn sjálfur sættir sig í mörgum tilvikum við ákvörðunina. Kannski þarf hann einmitt að fá þennan aga til að koma til sjálfs sín. Ef við, ástvinir hans, erum eftirlát í sambandi við þessa ákvörðun getur það hjálpað honum að hafa gagn af aganum. — Hebreabréfið 12:11.

„Auðsýnið þeim sérstaka virðingu“

14, 15. (a) Af hverju verðskulda öldungarnir virðingu okkar samkvæmt 1. Þessaloníkubréfi 5:12, 13? (b) Hvers vegna má segja að öldungarnir ‚erfiði á meðal okkar‘?

14 Við getum líka sýnt þakklæti okkar fyrir ‚gjafirnar í mönnum‘ með því að sýna þeim virðingu. Páll hvatti safnaðarmenn í Þessaloníku: „[Sýnið] þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður. Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra.“ (1. Þessaloníkubréf 5:12, 13) Er ekki ‚erfiði‘ réttnefni á starfi dyggra öldunga sem gefa af sjálfum sér fyrir okkur? Veltum aðeins fyrir okkur hinni þungu byrði sem þessir kæru bræður bera.

15 Margir öldungar eru fjölskyldumenn sem þurfa að vinna úti til að sjá fjölskyldunni farborða. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Ef öldungurinn á börn þarfnast þau tíma hans og athygli. Hann þarf kannski að hjálpa þeim við heimaverkefnin og taka sér einhvern tíma til að vera með þeim svo að þau geti fengið útrás fyrir æskuþróttinn með heilnæmri afþreyingu. (Prédikarinn 3:1, 4) Mestu máli skiptir að hann sinni andlegum þörfum fjölskyldunnar, stýri reglulegu biblíunámi hennar, taki þátt í boðunarstarfinu með henni og taki hana með sér á kristnar samkomur. (5. Mósebók 6:4-7; Efesusbréfið 6:4) Þessar skyldur eru mörgum okkar sameiginlegar, en gleymum ekki að öldungarnir hafa aðrar skyldur að auki. Þeir þurfa að undirbúa verkefni sín á samkomum, fara í hirðisheimsóknir, annast andlega velferð safnaðarins og, þegar nauðsyn krefur, að annast dómsmál. Sumir hafa þar að auki skyldur í sambandi við svæðismót, umdæmismót, ríkissalabyggingar og spítalasamskiptanefndir. Það má með sanni segja að þessir bræður ‚erfiði.‘

16. Lýstu hvernig við getum sýnt öldungunum virðingu.

16 Hvernig getum við sýnt þeim virðingu? Biblíuorðskviður segir: „Hversu fagurt er orð í tíma talað!“ (Orðskviðirnir 15:23; 25:11) Einlæg þakkar- og hvatningarorð geta sýnt þeim að við tökum ekki erfiði þeirra sem sjálfsagðan hlut. Og við ættum ekki að gera nema sanngjarnar kröfur til þeirra. Við ættum auðvitað að telja okkur frjálst að leita hjálpar þeirra. Stundum ‚berst hjartað ákaft í brjósti okkar‘ og við þörfnumst biblíulegrar uppörvunar, leiðsagnar eða ráðlegginga þeirra sem eru ‚góðir fræðarar‘ orðs Guðs. (Sálmur 55:5; 1. Tímóteusarbréf 3:2) En við þurfum líka að hafa hugfast að öldungurinn getur ekki gefið okkur nema ákveðinn tíma því að hann má ekki vanrækja þarfir fjölskyldu sinnar eða annarra í söfnuðinum. ‚Hluttekning‘ með þessum eljusömu bræðrum ætti að koma í veg fyrir að við gerum ósanngjarnar kröfur til þeirra. (1. Pétursbréf 3:8) Verum heldur þakklát fyrir þann tíma og þá athygli sem þeir geta með góðu móti gefið okkur. — Filippíbréfið 4:5.

17, 18. Hvaða fórnir færa margar eiginkonur öldunga og hvernig getum við sýnt að við tökum ekki þessar trúföstu systur sem sjálfsagðan hlut?

17 Verðskulda ekki eiginkonur öldunganna virðingu okkar líka? Þegar allt kemur til alls deila þær eiginmönnum sínum með söfnuðinum og þurfa oft að færa fórnir í því sambandi. Stundum þurfa öldungar að eyða kvöldum í að sinna safnaðarmálum sem þeir gætu annars eytt með fjölskyldunni. Margar trúfastar kristnar konur í söfnuðunum færa slíkar fórnir fúslega svo að eiginmenn þeirra geti annast sauði Jehóva. — Samanber 2. Korintubréf 12:15.

18 Hvernig getum við sýnt að við tökum ekki þessar trúföstu systur sem sjálfsagðan hlut? Til dæmis með því að gera ekki ósanngjarnar kröfur til manna þeirra. En gleymum ekki heldur einföldum þakkarorðum. Orðskviðirnir 16:24 segja: „Vingjarnleg orð eru hunangsseimur, sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin.“ Tökum dæmi. Eftir samkomu komu hjón að máli við öldung og báðu hann að tala við sig um unglingsson sinn. Kona öldungsins beið þolinmóð meðan hann talaði við hjónin. Á eftir gekk móðirin til hennar og sagði: „Mig langar til að þakka þér fyrir tímann sem maðurinn þinn notaði til að hjálpa fjölskyldu minni.“ Þessi einföldu og hlýlegu þakkarorð snertu hjarta hennar.

19. (a) Hvaða markmiði ná trúfastir öldungar sem heild? (b) Hvað ættum við öll að vera staðráðin í að gera?

19 Sú ráðstöfun Jehóva að sjá fyrir öldungum til að annast sauðina er „góð gjöf.“ (Jakobsbréfið 1:17) Þeir eru auðvitað ekki fullkomnir heldur gera mistök eins og við öll. (1. Konungabók 8:46) En sem heild ná öldungar safnaðanna um heim allan því markmiði sem Jehóva hafði í huga, það er að segja að leiðrétta, uppbyggja, sameina og vernda hjörðina. Megi hver einstakur öldungur vera staðráðinn í að halda áfram að annast sauði Jehóva blíðlega og sýna þar með að hann er gjöf til bræðra sinna og blessun fyrir þá. Og verum öll staðráðin í að sýna að við kunnum að meta þessar „gjafir í mönnum“ með því að vera þeim hlýðin og eftirlát og sýna þeim virðingu fyrir erfiði sitt. Við getum verið Jehóva innilega þakklát fyrir að hann skuli í kærleika sínum hafa látið í té menn sem segja efnislega við sauðina: ‚Það er hlutverk okkar að hjálpa ykkur að þjóna Guði með gleði.‘

Hvert er svarið?

◻ Af hverju má réttilega líkja söfnuðinum við líkama?

◻ Hvernig geta öldungar hjálpað bræðrum sínum að þjóna Jehóva með gleði?

◻ Af hverju ættum við að vera bæði hlýðin og eftirlát þeim sem með forystuna fara?

◻ Hvernig getum við sýnt öldungunum virðingu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Öldungar, hrósið öðrum fyrir heilshugar viðleitni þeirra.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Með kostgæfni sinni í boðunarstarfinu geta öldungar hjálpað fjölskyldu sinni og öðrum að þjóna með gleði.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Við metum eljusama öldunga mikils.