Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við fögnum því að Jehóva skuli vísa okkur veg sinn

Við fögnum því að Jehóva skuli vísa okkur veg sinn

Við fögnum því að Jehóva skuli vísa okkur veg sinn

„Vegur Guðs er lýtalaus, orð [Jehóva] er skírt.“ — 2. SAMÚELSBÓK 22:31.

1, 2. (a) Hvers þarfnast allir menn? (b) Fordæmi hvers er gott að líkja eftir?

 ALLIR menn þarfnast leiðsagnar. Við þörfnumst hjálpar til að rata rétta leið gegnum lífið. Jehóva hefur að vísu gefið okkur ákveðna vitsmuni og samvisku til að hjálpa okkur að greina rétt frá röngu. En það þarf að þjálfa samviskuna til að hún sé áreiðanlegur leiðarvísir. (Hebreabréfið 5:14) Og hugurinn þarf að fá réttar upplýsingar og þjálfun í að vega þær og meta til að við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir. (Orðskviðirnir 2:1-5) Auk þess getur óvissan í lífinu orðið þess valdandi að ákvarðanir okkar fari á annan veg en til stóð. (Prédikarinn 9:11) Við kunnum enga áreiðanlega aðferð til að sjá framtíðina fyrir upp á eigin spýtur.

2 Þetta og margt fleira er ástæðan fyrir því að spámaðurinn Jeremía skrifaði: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Jesús Kristur, mesta mikilmenni sem lifað hefur, þáði leiðsögn. Hann sagði: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.“ (Jóhannes 5:19) Það er því viturlegt að líkja eftir Jesú og leita hjálpar Jehóva til að stýra skrefum okkar. Davíð konungur söng: „Vegur Guðs er lýtalaus, orð [Jehóva] er skírt. Skjöldur er hann öllum þeim, sem leita hælis hjá honum.“ (2. Samúelsbók 22:31) Ef við leitumst við að ganga á vegi Jehóva í stað þess að hafa eigin visku að leiðarljósi njótum við fullkominnar leiðsagnar. Að hafna vegi Guðs er ávísun á ógæfu.

Jehóva vísar veginn

3. Hvernig leiðbeindi Jehóva Adam og Evu og hvaða framtíðarhorfur bauð hann þeim?

3 Tökum Adam og Evu sem dæmi. Þótt syndlaus væru þörfnuðust þau leiðsagnar. Jehóva lét Adam ekki um að skipuleggja alla hluti sjálfur í Edengarðinum fagra heldur fékk honum verkefni. Fyrst átti hann að gefa dýrunum nöfn. Síðan setti Jehóva þeim hjónunum langtímamarkmið. Þau áttu að gera jörðina undirgefna sér, fylla hana afkomendum sínum og annast dýrin. (1. Mósebók 1:28) Þetta var gríðarlegt verkefni en lokaárangurinn yrði paradís um heim allan byggð fullkomnu mannkyni sem lifði í sátt og samlyndi við dýrin. Þetta voru stórkostlegar framtíðarhorfur. Og Adam og Eva myndu eiga tjáskipti við Jehóva meðan þau gengju trúföst á vegi hans. (Samanber 1. Mósebók 3:8.) Hvílík sérréttindi — að eiga stöðugt einkasamband við skaparann!

4. Hvernig sýndu Adam og Eva að þau skorti traust og hollustu og hvaða hrikalegar afleiðingar hafði það?

4 Jehóva bannaði fyrstu mannhjónunum að borða ávöxtinn af skilningstrénu góðs og ills sem óx í Eden og það gaf þeim færi á að sýna hlýðni sína og löngun til að ganga á vegi hans. (1. Mósebók 2:17) En áður en langt um leið reyndi á hlýðnina. Þegar Satan kom með blekkingar sínar þurftu Adam og Eva að sýna Jehóva hollustu og treysta á fyrirheit hans til að vera honum hlýðin. Því miður skorti þau hollustu og traust. Þegar Satan bauð Evu sjálfstæði og sakaði Jehóva ranglega um lygar lét hún blekkjast og óhlýðnaðist Jehóva. Adam elti hana út í syndina. (1. Mósebók 3:1-6; 1. Tímóteusarbréf 2:14) Tjón þeirra var gríðarlegt. Hefðu þau gengið á vegi Jehóva hefðu þau haft sívaxandi gleði af því að vinna jafnt og þétt að vilja hans. En nú var líf þeirra fullt vonbrigða og sársauka uns dauðinn yfirbugaði þau. — 1. Mósebók 3:16-19; 5:1-5.

5. Hver er tilgangur Jehóva með jörðina og hvernig hjálpar hann trúföstum mönnum að sjá hann rætast?

5 Jehóva breytti þó ekki þeim tilgangi sínum að einn góðan veðurdag skyldi jörðin verða paradísarheimili fullkominna og syndlausra manna. (Sálmur 37:11, 29) Og hann hefur aldrei látið hjá líða að veita þeim fullkomna leiðsögn sem ganga á vegi hans og vonast til að sjá þetta fyrirheit rætast. Fyrir þau okkar sem hafa eyru til að heyra ómar rödd Jehóva að baki okkur: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ — Jesaja 30:21.

Sumir gengu á vegi Jehóva

6. Hvaða tveir menn fyrr á tímum gengu á vegi Jehóva og með hvaða árangri?

6 Frásögn Biblíunnar ber með sér að einungis minnihluti afkomenda Adams og Evu hefur gengið á vegi Jehóva. Abel var fyrstur þeirra. Þótt hann dæi um aldur fram var hann velþóknanlegur Jehóva og á því örugga von um hlutdeild í ‚upprisu réttlátra‘ á tilsettum tíma hans. (Postulasagan 24:15) Hann sér hinn mikilfenglega tilgang Jehóva með jörðina og mannkynið rætast um síðir. (Hebreabréfið 11:4) Enok var annar maður sem gekk á vegi Jehóva, en spádómur hans um endalok þessa heimskerfis er varðveittur í Júdasarbréfinu. (Júdasarbréfið 14, 15) Enok lifði líka skemur en hann hefði getað. (1. Mósebók 5:21-24) En hann fékk „þann vitnisburð, ‚að hann hefði verið Guði þóknanlegur.‘“ (Hebreabréfið 11:5) Þegar hann dó hafði hann örugga upprisuvon eins og Abel, og hann verður í hópi þeirra sem sjá tilgang Jehóva uppfyllast.

7. Hvernig sýndu Nói og fjölskylda hans hollustu við Jehóva og traust til hans?

7 Eftir því sem heimurinn fyrir flóðið sökk dýpra ofan í illskuna reyndi æ meira á hollustu manna og hlýðni við Jehóva. Aðeins fámennur hópur gekk á vegi hans er dró að lokum þess heims sem þá var. Nói og fjölskylda hans hlýddi á Guð og treysti því sem hann sagði. Þau unnu trúföst þau verk sem þeim voru falin og neituðu að láta sogast út í vonskuverk umheimsins. (1. Mósebók 6:5-7, 13-16; Hebreabréfið 11:7; 2. Pétursbréf 2:5) Við getum verið þakklát fyrir hollustu þeirra, traust og hlýðni. Hennar vegna lifðu þau flóðið af og urðu forfeður okkar. — 1. Mósebók 6:22; 1. Pétursbréf 3:20.

8. Hvað fólst í því fyrir Ísraelsþjóðina að ganga á vegi Guðs?

8 Síðar gerði Jehóva sáttmála við afkomendur hins trúfasta Jakobs og þeir urðu útvalin þjóð hans. (2. Mósebók 19:5, 6) Jehóva lét sáttmálaþjóð sinni í té ritað lögmál, prestastétt og stöðuga leiðsögn spámanna. En Ísraelsmenn urðu sjálfir að fylgja þessari handleiðslu. Jehóva lét spámann sinn segja þeim: „Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun: blessunina, ef þér hlýðið skipunum [Jehóva] Guðs yðar, sem ég býð yður í dag, en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum [Jehóva] Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt.“ — 5. Mósebók 11:26-28.

Hvers vegna sumir yfirgáfu veg Jehóva

9, 10. Hvaða aðstæður ollu því að Ísraelsmenn þurftu að treysta á Jehóva og rækta með sér hollustu til hans?

9 Ísraelsmenn þurftu að treysta Jehóva og sýna honum hollustu til að vera hlýðnir, alveg eins og Adam og Eva þurftu að gera. Ísrael var smáþjóð umkringd ófriðsömum grannríkjum. Til suðvesturs voru Egyptaland og Eþíópía. Sýrland og Assýría voru til norðausturs. Í næsta nágrenni voru Filistea, Ammon, Móab og Edóm. Öll þessi ríki voru einhvern tíma fjandsamleg Ísrael. Og öll iðkuðu þau falstrú sem einkenndist af skurðgoðadýrkun, stjörnuspám og í sumum tilvikum grófum, kynferðislegum trúarathöfnum og grimmilegum barnafórnum. Grannþjóðir Ísraels treystu guðum sínum til að veita sér stórar fjölskyldur, mikla uppskeru og sigur í hernaði.

10 Ísraelsmenn voru eina þjóðin sem tilbað einn Guð, Jehóva. Hann lofaði að blessa þá með stórum fjölskyldum, góðri uppskeru og öryggi fyrir óvinum þeirra ef þeir hlýddu lögum hans. (5. Mósebók 28:1-14) Margir Ísraelsmenn gerðu það því miður ekki. Margir, sem gengu á vegi Jehóva, máttu líða fyrir hollustu sína. Sumir voru jafnvel pyndaðir, hæddir, húðstrýktir, fangelsaðir, grýttir og drepnir af löndum sínum. (Postulasagan 7:51, 52; Hebreabréfið 11:35-38) Það hlýtur að hafa verið mikil prófraun fyrir trúfasta menn. En af hverju villtust svona margir út af vegi Jehóva? Tvö dæmi úr sögu Ísraels sýna fram á rangan hugsunarhátt þeirra.

Slæmt fordæmi Akasar

11, 12. (a) Hvað vildi Akas ekki gera þegar Sýrlendingar ógnuðu honum? (b) Hvar leitaði Akas öryggis?

11 Akas ríkti yfir suðurríkinu Júda á áttundu öld f.o.t. og stjórnartíð hans einkenndist af ófriði. Eitt sinn tóku Sýrland og norðurríkið Ísrael höndum saman í stríði gegn honum og „skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans.“ (Jesaja 7:1, 2) En þegar Jehóva bauð stuðning sinn og hvatti Akas til að reyna sig afþakkaði hann eindregið! (Jesaja 7:10-12) Það fór því svo að Júdamenn töpuðu stríðinu og biðu mikið manntjón. — 2. Kroníkubók 28:1-8.

12 En þótt Akas hafnaði því að reyna Jehóva var hann ekki yfir það hafinn að leita hjálpar Assýríukonungs. Þrátt fyrir það hélt Júda áfram að líða af hendi grannríkja sinna. Þegar Assýringar snerust líka gegn Akasi og ‚krepptu að honum‘ „færði [hann] fórnir guðunum í Damaskus, þeim er höfðu unnið sigur á honum, og [mælti]: ‚Það eru guðir Sýrlandskonunga, er hafa hjálpað þeim. Þeim vil ég færa fórnir, til þess að þeir hjálpi mér.‘“ — 2. Kroníkubók 28:20, 23.

13. Hvað sýndi Akas með því að snúa sér til guða Sýrlands?

13 Síðar sagði Jehóva við Ísrael: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:17, 18) Með því að leita ásjár hjá guðum Sýrlands sýndi Akas hve fjarri hann væri því að ‚ganga þann veg sem hann átti að ganga.‘ Hann lét algerlega blekkjast af hugsunarhætti þjóðanna og leitaði að fölsku öryggi hjá þeim í stað þess að leita til Jehóva.

14. Af hverju hafði Akas enga afsökun fyrir því að leita til falsguða?

14 Það var löngu ljóst að guðir þjóðanna, þeirra á meðal Sýrlands, voru ‚falsguðir.‘ (Jesaja 2:8) Þegar Sýrlendingar urðu lýðskyldir Davíð konungi forðum daga hafði það sýnt sig berlega að Jehóva hafði algera yfirburði yfir guði Sýrlands. (1. Kroníkubók 18:5, 6) Enginn nema Jehóva, „Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð,“ getur veitt mönnum raunverulegt öryggi. (5. Mósebók 10:17) En Akas hafnaði Jehóva og leitaði öryggis hjá guðum þjóðanna. Það hafði skelfilegar afleiðingar fyrir Júda. — 2. Kroníkubók 28:24, 25.

Gyðingar ásamt Jeremía í Egyptalandi

15. Hvernig syndguðu Gyðingar í Egyptalandi á dögum Jeremía?

15 Vegna hinnar miklu ótryggðar þjóðar sinnar leyfði Jehóva Babýloníumönnum að eyða Jerúsalem og musterinu árið 607 f.o.t. Flestir landsmenn voru fluttir í útlegð til Babýlonar. Fáeinir voru þó skildir eftir ásamt spámanninum Jeremía. Þegar Gedalja landstjóri var ráðinn af dögum flúði hópurinn til Egyptalands og tók Jeremía með sér. (2. Konungabók 25:22-26;2 Jeremía 43:5-7) Þar tóku þeir að færa falsguðum fórnir. Jeremía vandaði um við hina ótrúu Gyðinga en þeir voru þrjóskir. Þeir vildu ekki snúa sér til Jehóva og voru staðráðnir í að halda áfram að færa „himnadrottningunni“ reykelsisfórnir. Af hverju? Af því að forfeður þeirra höfðu gert það ‚í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum og höfðu haft nægð brauðs og liðið vel og enga óhamingju litið.‘ (Jeremía 44:16, 17) Og Gyðingarnir staðhæfðu: „Síðan vér hættum að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, hefir oss skort allt, og vér höfum farist fyrir sverði og af hungri.“ — Jeremía 44:18.

16. Hvers vegna höfðu Gyðingarnir í Egyptalandi kolrangt fyrir sér?

16 Menn eiga ótrúlega auðvelt með að muna aðeins það sem þeir vilja muna! Hverjar voru staðreyndirnar í málinu? Gyðingar höfðu vissulega fært falsguðum fórnir í landinu sem Jehóva hafði gefið þeim. Stundum, eins og á tímum Akasar, höfðu þeir liðið fyrir fráhvarf sitt. En Jehóva var „þolinmóður“ við sáttmálaþjóð sína. (2. Mósebók 34:6; Sálmur 86:15) Hann sendi spámenn sína til að hvetja hana til að iðrast. Stundum, þegar konungurinn var trúfastur, blessaði Jehóva hann og þjóðin naut góðs af því þótt flestir landsmenn væru ótrúir. (2. Kroníkubók 20:29-33; 27:1-6) Það var kórvilla hjá þessum Gyðingum í Egyptalandi að halda því fram að sú velsæld, sem þeir höfðu notið forðum daga í heimalandi sínu, væri falsguðum þeirra að þakka!

17. Af hverju glötuðu Júdamenn landi sínu og musteri?

17 Fyrir árið 607 f.o.t. hafði Jehóva hvatt Júdamenn: „Hlýðið minni raustu, þá skal ég vera yðar Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel.“ (Jeremía 7:23) Gyðingar glötuðu musteri sínu og landi einmitt vegna þess að þeir neituðu að ‚ganga jafnan á þeim vegi sem Jehóva hafði boðið þeim.‘ Gætum þess að gera ekki sömu örlagaríku mistökin og þeir.

Jehóva blessar þá sem ganga á vegi hans

18. Hvað verða þeir sem ganga á vegi Jehóva að gera?

18 Núna, eins og forðum daga, krefst það hollustu að ganga á vegi Jehóva — þeirrar staðfestu að þjóna honum einum. Það útheimtir traust — algera trú á að fyrirheit hans séu áreiðanleg og rætist. Að ganga á vegi Jehóva útheimtir hlýðni — að fylgja lögum hans ófrávíkjanlega og halda háleitar siðferðisreglur hans. „[Jehóva] er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum.“ — Sálmur 11:7.

19. Hvaða guði tilbiðja margir nú á dögum og með hvaða afleiðingum?

19 Akas leitaði öryggis hjá guðum Sýrlands. Ísraelsmennirnir í Egyptalandi vonuðust til að ‚himnadrottningin,‘ sem var dýrkuð mjög víða í Miðausturlöndum fornaldar, myndi veita þeim efnislega velmegun. Margir guðir nútímans eru ekki bókstafleg skurðgoð. Jesús varaði menn við því að þjóna „mammón“ í stað Jehóva. (Kólossubréfið 3:5) Páll postuli talaði um „ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ (Kólossubréfið 3:5) Hann sagði líka að „maginn“ væri guð sumra. (Filippíbréfið 3:19) Já, peningar og efnislegir hlutir eru meðal helstu guða sem nú eru dýrkaðir. Í rauninni treysta flestir „fallvöltum auði,“ þeirra á meðal margir sem telja sig trúaða. (1. Tímóteusarbréf 6:17) Margir þjóna þessum guðum hörðum höndum og sumir hljóta umbun erfiðis síns — búa í fínustu húsum, eiga dýra hluti og borða dýrindismat. En ekki njóta allir slíkra nægta. Og jafnvel þeir sem eignast þetta uppgötva um síðir að það er ófullnægjandi í sjálfu sér. Það er ótryggt, stundlegt og fullnægir ekki andlegum þörfum þeirra. — Matteus 5:3, NW.

20. Hvaða jafnvægi þurfum við að varðveita?

20 Við verðum að vísu að vera hagsýn núna á síðustu dögum þessa heimskerfis. Við þurfum að gera skynsamlegar ráðstafanir til að sjá fjölskyldum okkar farborða. En ef við leggjum meira upp úr miklum lífsgæðum, peningasöfnun og þess háttar en þjónustunni við Guð, þá erum við komin út í nokkurs konar skurðgoðadýrkun og göngum ekki lengur á vegi hans. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) En hvað þá þegar heilsuvandamál, fjárhagserfiðleikar eða önnur vandamál verða á veginum? Verum þá ekki eins og Gyðingarnir í Egyptalandi sem kenndu þjónustunni við Guð um vandamál sín. Reynum heldur Jehóva, öfugt við það sem Akas gerði. Sýnum Jehóva Guði hollustu og leitum leiðsagnar hjá honum. Treystum leiðsögn hans og förum eftir henni, og biðjum um visku og kraft til að takast á við hvað sem að höndum ber. Bíðum síðan með trúartrausti eftir blessun hans.

21. Hvaða blessun hljóta þeir sem ganga á vegi Jehóva?

21 Gegnum alla sögu Ísraels blessaði Jehóva ríkulega þá sem gengu á vegi hans. Davíð konungur söng: „[Jehóva], leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna.“ (Sálmur 5:9) Jehóva veitti honum hersigra yfir grannþjóðum sem herjuðu síðar á Akas. Undir stjórn Salómons naut Ísrael þess friðar og þeirrar velmegunar sem Gyðingarnir í Egyptalandi þráðu síðar. Jehóva gaf Hiskía, syni Akasar, jafnvel sigur yfir hinum voldugu Assýringum. (Jesaja 59:1) Já, hönd Jehóva var ekki stutt gagnvart hollum þjónum hans sem forðuðust ‚veg syndaranna‘ og höfðu yndi af lögmáli hans. (Sálmur 1:1, 2) Eins er það núna. En hvernig getum við verið viss um að við göngum á vegi Jehóva? Um það er fjallað í næstu grein.

Manstu?

◻ Hvaða eiginleikar eru nauðsynlegir til að ganga á vegi Jehóva?

◻ Hvað var athugavert við hugsunarhátt Akasar?

◻ Hvað var að hugsunarhætti Gyðinganna í Egyptalandi?

◻ Hvernig getum við styrkt þann ásetning okkar að ganga á vegi Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 22]

Akas leitaði til guða Sýrlands í stað Jehóva.