Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Þar sem ófrjósemisaðgerðar eru nú taldar afturkræfar, sé þess óskað, getur kristinn maður nú litið á þær sem sem möguleika við getnaðarvörn?

Þar sem ófrjósemisaðgerðar eru nú taldar afturkræfar, sé þess óskað, getur kristinn maður nú litið á þær sem sem möguleika við getnaðarvörn?

Ófrjósemisaðgerðir eru orðnar algengasta aðferðin í heiminum til að takmarka barneignir. Þjóðfélagsuppruni, menntun og trúarviðhorf virðast ráða miklu um það hvort fólk telur slíka aðgerð við hæfi eða ekki. Trúarviðhorf hafa vissulega áhrif á afstöðu votta Jehóva sem biðja eins og sálmaritarinn: „Vísa mér veg þinn, [Jehóva], leið mig um slétta braut.“ (Sálmur 27:11) Í hverju er ófrjósemisaðgerð fólgin?

Ófrjósemisaðgerð karla kallast öðru nafni sáðrásarúrnám. Aðgerðin felst í því að skera sundur og loka fyrir tvær smágerðar sáðrásir í pungnum. Þetta má gera með ýmsum hætti en markmiðið er að koma í veg fyrir að sæðisfrumur geti borist frá eistunum. Ófrjósemisaðgerð kvenna er fólgin í því að skera á og klemma (eða brenna) fyrir legpípurnar sem eggin berast eftir frá eggjastokkunum niður í legið.

Lengi var talið að þessar aðgerðir yllu varanlegri ófrjósemi, það er að segja að það væri ekki hægt að láta þær ganga til baka. En nú kemur fyrir að fólk sér eftir að hafa látið gera á sér ófrjósemisaðgerð eða breyttar aðstæður verða til þess að það leitar læknishjálpar til að endurheimta frjósemi sína. Með tilkomu sérhæfðra tækja og smásjáraðgerða hefur náðst nokkur árangur af slíkum aðgerðum. Oft má lesa um það að í völdum hópi karla takist í 50 til 70 prósentum tilvika að tengja sundurskorna enda hinna örsmáu sáðrása á nýjan leik og endurheimta frjósemina. Talað er um 60 til 80 prósenta árangur af legpíputengingum hjá konum. Sumir hafa þar af leiðandi ályktað sem svo að ekki sé lengur ástæða til að líta á ófrjósemisaðgerð sem endanlega. Þeim finnst kannski að líta megi á sáðrásarúrnám og legpípulokun eins og getnaðarvarnarpillur, smokka og hettur sem hægt sé að hætta notkun á ef ætlunin sé að eignast barn. En það er ýmislegt sem þarf að skoða alvarlega í sambandi við þetta mál.

Eitt er það að skemmdirnar, sem urðu á legpípum og sáðrásum við ófrjósemisaðgerðina, geta haft veruleg áhrif á líkurnar á því að hægt sé að endurheimta frjósemina með læknisaðgerð. Þá skiptir máli hve stór hluti sáðrásanna og legpípnanna var fjarlægður eða skemmdur, árafjöldinn sem liðinn er frá aðgerðinni, og hjá körlum skiptir einnig máli hvort myndast hafa mótefni gegn sæðisfrumunum. Og þá má ekki gleyma því að það er ekki alls staðar boðið upp á smásjáraðgerðir og kostnaðurinn getur einnig verið mörgum ofviða. Margir, sem ef til vill vildu endurheimta frjósemi sína, eiga því alls engan kost á því. Hjá þeim er ófrjósemisaðgerðin endanleg. * Tölurnar, sem nefndar eru hér á undan um hlutfall árangursríkra aðgerða, eru því í rauninni fræðilegar tölur en ekki áreiðanleg meðaltöl.

Hér skulu nefndar nokkrar staðreyndir til glöggvunar. Í grein, sem birtist í Bandaríkjunum um sáðrásartengingar, kom fram að aðgerðin kosti næstum 900.000 krónur en „aðeins 63 prósent sjúklinga geti getið barn með maka sínum.“ Og aðeins „sex prósent karla, sem fara í ófrjósemisaðgerð, óska nokkurn tíma eftir sáðrásartengingu.“ Í þýskri rannsókn, sem náði til Mið-Evrópu, leituðu um þrjú prósent karla, sem létu gera á sér ófrjósemisaðgerð, eftir sáðrásartengingu síðar. Jafnvel þótt helmingur þessara aðgerða heppnaðist þýddi það að hjá 98,5 prósentum karla væri ófrjósemisaðgerðin varanleg. Og hlutfallið væri enn hærra í löndum sem hafa fáa eða enga smásjárskurðlækna.

Þar af leiðandi er óraunhæft að gera lítið úr ófrjósemisaðgerðum rétt eins og um væri að ræða tímabundna getnaðarvörn. Og í hugum einlægra kristinna manna eru fleiri hliðar á málinu sem athuga þarf.

Eitt mikilvægt umhugsunarefni er það að getnaðarmátturinn er gjöf frá skapara okkar. Upphaflegur tilgangur hans gerði ráð fyrir að fullkomnir menn eignuðust börn sem myndu ‚uppfylla jörðina og gera sér hana undirgefna.‘ (1. Mósebók 1:28) Guð endurtók þessi fyrirmæli eftir að jarðarbúum hafði fækkað niður í átta í flóðinu. (1. Mósebók 9:1) Guð endurtók þetta boð ekki við Ísraelsmenn en í hugum þeirra voru barneignir mjög eftirsóknarverðar. — 1. Samúelsbók 1:1-11; Sálmur 128:3.

Í lögmáli Guðs til Ísraels er að finna vísbendingar um virðingu hans fyrir getnaðarmætti manna. Ef giftur maður dó án þess að hafa eignast son til að viðhalda ætt hans átti bróðir hans að geta konunni son í svonefndu mágskylduhjónabandi. (5. Mósebók 25:5) Enn sterkari vísbendingu er að finna í lagaákvæði um konu sem reyndi að hjálpa manni sínum í áflogum. Ef hún greip í kynfæri andstæðingsins skyldi höggva af henni höndina. Athygli vekur að Guð setti ekki ákvæði um að vinna skyldi sams konar tjón á kynfærum hennar eða eiginmanns hennar samkvæmt reglunni um auga fyrir auga. (5. Mósebók 25:11, 12) Þetta lagaákvæði hefur greinilega ýtt undir virðingu fyrir getnaðarfærunum því ekki átti að eyðileggja þau að þarflausu. *

Við vitum að kristnir menn eru ekki undir lögmáli Ísraels svo að ákvæðið í 5. Mósebók 25:11, 12 er ekki bindandi fyrir þá. Jesús hvorki fyrirskipaði né gaf í skyn að lærisveinar sínir yrðu að giftast og eignast eins mörg börn og þeir gætu, og fjöldi hjóna hefur tekið mið af því við að ákveða hvort þau ættu að nota einhvers konar getnaðarvarnir. (Matteus 19:10-12) Páll postuli hvatti ástríðufullar, ‚ungar ekkjur til að giftast og ala börn.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:11-14) Hann minntist ekki á varanlega ófrjósemisaðgerð hjá kristnum mönnum, það er að segja að fórna sjálfviljuglega hæfileikanum til að eignast börn.

Allt eru þetta merki um að Guð meti getnaðarmáttinn mikils og kristnir menn ættu að hugsa alvarlega um þau. Hjón verða að ákveða hvort þau vilja takmarka barneignir og hvenær. Þetta væri að sjálfsögðu sérstaklega veigamikil ákvörðun ef það væri læknisfræðilega staðfest að móður og barni stafaði veruleg hætta af þungun, jafnvel lífshætta. Við þær aðstæður hafa sumir með nokkurri tregðu gengist undir ófrjósemisaðgerð eins og áður er lýst, til að tryggja að ekki væri hætta á að þungun ógnaði lífi móðurinnar (sem á kannski börn fyrir) eða barns sem gæti fæðst með lífshættulegan sjúkdóm.

En kristnir menn, sem standa ekki frammi fyrir svona óvenjulegri og sérstakri hættu, ættu vissulega að vera „heilbrigðir í huga“ og láta virðingu Guðs fyrir getnaðarmættinum móta hugsun sína. (1. Tímóteusarbréf 3:2; Títusarbréfið 1:8; 2:2, 5-8, NW) Það bæri vott um þroska og næmi fyrir vísbendingum Biblíunnar. En hvernig ber að líta á það ef það er almennt vitað að kristinn maður hafi, eins og ekkert sé, haft gildismat Guðs að engu? Myndu aðrir þá ekki draga í efa að hann (eða hún) væri góð fyrirmynd og temdi sér að taka ákvarðanir í samræmi við Biblíuna? Slíkur mannorðsblettur gæti auðvitað haft á það áhrif hvort hann teldist hæfur til sérstakra þjónustusérréttinda. Á því gæti þó verið undantekning ef hann hefði látið gera þessa aðgerð í vanþekkingu. — 1. Tímóteusarbréf 3:7.

^ „Tilraunir til að tengja [sáðrásina] aftur heppnast í að minnsta kosti 40 prósentum tilfella, og vísbendingar eru um að ná megi meiri árangri með bættri smásjáraðgerðatækni. Engu að síður ber að líta svo á að ófrjósemisaðgerð með sáðrásarúrnámi sé varanleg.“ (Encyclopædia Britannica) „Líta ber á ófrjósemisaðgerð sem varanlega aðgerð. Þótt sjúklingar hafi heyrt að hægt sé að láta ófrjósemisaðgerð ganga til baka eru slíkar aðgerðir dýrar og árangur er ekki tryggður. Veruleg hætta er á utanlegsþykkt hjá konum sem láta tengja legpípur aftur.“ — Contemporary OB/GYN, júní 1998.

^ Annað lagaákvæði, sem getur virst varða málið, var ákvæðið um að enginn maður með alvarlega sködduð kynfæri gæti verið í söfnuði Guðs. (5. Mósebók 23:1) En bókin Insight on the Scriptures bendir á að þetta ákvæði virðist „eiga við vísvitandi vönun í siðlausum tilgangi, svo sem til kynvillu.“ Hér var því ekki átti við vönun eða eitthvað slíkt til getnaðarvarna. Insight segir enn fremur: „Jehóva boðaði hughreystandi þann tíma er hann myndi taka við geldingum sem þjónum sínum og þeir myndu, ef þeir væru hlýðnir, eignast nafn sem væri betra en synir og dætur. Þegar Jesús Kristur afnam lögmálið gátu allir sem iðkuðu trú orðið andlegir synir Guðs, óháð fyrri stöðu eða ástandi. Holdlegur greinarmunur féll úr gildi. — Jes 56:4, 5; Jh 1:12.“