Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í leit að trúverðugum spám

Í leit að trúverðugum spám

Í leit að trúverðugum spám

SKÖMMU eftir að Alexander tók við völdum í Makedóníu árið 336 f.o.t. heimsótti hann véfréttina í Delfí í miðhluta Grikklands. Hinn metnaðarfulli konungur, síðar kallaður Alexander mikli, ætlaði sér ekkert minna en að leggja undir sig stóran hluta þess heims sem þá var þekktur. En hann vildi fá guðlega vissu fyrir því að sér tækist þetta mikla ætlunarverk. Sagnir herma að daginn sem hann kom til Delfí hafi ekki mátt leita til véfréttarinnar. Alexander vildi ekki fara án svars, heimtaði að fá að hitta hofgyðjuna og neyddi hana til að spá fyrir sér. Hún hrópaði gremjulega: „Ó, barn, þú ert ósigrandi!“ Hinn ungi konungur taldi það vita á gott og vera fyrirheit um sigursæla herför.

En Alexander hefði verið miklu fróðari um lyktirnar á herför sinni ef hann hefði kynnt sér spádóma Daníelsbókar í Biblíunni. Með undraverðri nákvæmni sögðu þeir fyrir hina skjótu sigra hans. Sagnir herma að Alexander hafi um síðir fengið tækifæri til að sjá það sem Daníel hafði skrifað um hann. Sagnaritarinn Jósefus, sem var Gyðingur, segir að Makedóníukonungi hafi verið sýndur spádómur Daníels er hann kom til Jerúsalem — væntanlega 8. kafli bókarinnar. (Daníel 8:5-8, 20, 21) Sagt er að fyrir vikið hafi Alexander hlíft borginni við eyðingu.

Eðlislæg þörf manna

Konungar sem kotungar að fornu og nýju hafa fundið fyrir þörf á áreiðanlegum spám um framtíðina. Við mennirnir erum greindar verur; við rannsökum fortíðina, erum meðvita um nútíðina og höfum sérstakan áhuga á framtíðinni. Kínverskur málsháttur segir: „Sá sem gæti séð þrjá daga fram í tímann yrði ríkur um þúsundir ára.“

Milljónir manna hafa um aldaraðir reynt að skyggnast inn í framtíðina með hjálp guðlegra heimilda sem þeir héldu svo vera. Tökum Forn-Grikki sem dæmi. Þeir áttu sér tugi helgra véfrétta, svo sem í Delfí, Delos og Dódónu, og leituðu frétta hjá þeim af guðum sínum um hernaðar- og stjórnmálaþróun og eins um einkamál sín, svo sem ferðalög, hjúskap og barneignir. Það voru ekki aðeins konungar og herforingjar sem leituðu leiðsagnar frá andaheiminum hjá þessum véfréttum heldur einnig heilir ættbálkar og borgríki.

Prófessor nokkur segir að nú hafi „skyndilega sprottið upp fjöldi félaga og samtaka sem helgi sig framtíðarrannsóknum.“ En margir hafa að engu einu áreiðanlegu spádómana sem til eru — spádóma Biblíunnar. Þeir vísa því algerlega á bug að biblíuspádómarnir hafi að geyma þær upplýsingar sem þeir eru að leita. Sumir fræðimenn ganga svo langt að leggja biblíuspádómana að jöfnu við véfréttir fornaldar. Og efahyggjumenn eru yfirleitt haldnir fordómum gagnvart spádómum Biblíunnar.

Við hvetjum þig til að kanna málið sjálfur. Hvað leiðir nákvæmur samanburður á spám Biblíunnar og véfréttum manna í ljós? Er spádómum Biblíunnar betur treystandi en véfréttum fornaldar? Og er óhætt að móta lífi sínu stefnu með hliðsjón af spádómum Biblíunnar?

[Mynd á blaðsíðu 3]

Biblían sagði fyrir skjóta sigurvinninga Alexanders.

[Rétthafi]

Cortesía del Museo del Prado, Madríd

[Mynd á blaðsíðu 4]

Alexander mikli.

[Rétthafi]

Musei Capitolini, Róm