Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur treyst spádómum Biblíunnar

Þú getur treyst spádómum Biblíunnar

Þú getur treyst spádómum Biblíunnar

PÝRRHOS konungur í Epíros í Grikklandi norðvestanverðu átti í langstæðum átökum við Rómaveldi. Honum var mikið í mun að fá vísbendingu um lyktir átakanna og leitaði til véfréttarinnar í Delfí. En svarið, sem hann fékk, mátti skilja á tvo vegu: (1) „Ég segi að þú, sonur Ekosar, getur sigrað Rómverja. Þú skalt fara, þú skalt snúa aftur, aldrei skalt þú deyja í stríði.“ (2) „Ég segi að Rómverjar geta sigrað þig, sonur Ekosar. Þú skalt fara, þú skalt aldrei snúa aftur, þú skalt deyja í stríði.“ Hann kaus að skilja véfréttina á fyrri veginn, lagði út í stríð við Rómverja og beið herfilegan ósigur.

Spár sem þessar voru ekkert einsdæmi enda var altalað að véfréttir fornaldar væru óljósar og torræðar. En hvað um biblíuspádómana? Sumir halda því fram að spádómar Biblíunnar séu engu betri en véfréttirnar. Þeir geta sér þess til að spár Biblíunnar séu ekkert annað en forspár greindra og glöggskyggnra manna, yfirleitt af prestastétt. Sökum reynslu sinnar og sambanda hafi þessir menn getað séð fyrir hvernig viss mál myndu þróast eða hvaða stefnu þau myndu taka. Ef við berum saman ýmis einkenni spádóma Biblíunnar og véfréttanna erum við betur í stakk búin til að draga réttar ályktanir.

Andstæður

Margræðni var eitt helsta einkenni véfréttanna. Í Delfí var til dæmis svarað með ógreinilegum hljóðum. Prestar þurftu því að túlka svörin og semja vers sem túlka mátti á tvo ólíka vegu. Krösus Lýdíukonungur fékk svar sem er sígilt dæmi um þetta. Er hann leitaði til véfréttarinnar var honum sagt: „Ef Krösus fer yfir um Halys eyðir hann öflugu veldi.“ En hið ‚öfluga veldi,‘ sem eytt var, reyndist hans eigið veldi. Krösus fór yfir Halys-fljót til að ráðast inn í Kappadókíu en beið ósigur fyrir Kýrusi Persakonungi.

Biblíuspádómarnir eru gerólíkir hinum heiðnu véfréttum og þekktir fyrir nákvæmni og skýrleika. Nefna má sem dæmi spádóminn um fall Babýlonar sem er að finna í Jesajabók Biblíunnar. Um 200 árum fyrir fram lýsti spámaðurinn Jesaja ítarlega og nákvæmlega hvernig Medía-Persía myndi vinna Babýlon. Spádómurinn tiltók að sigurvegarinn myndi heita Kýrus og lýsti því herbragði að þurrka upp fljótið, sem var eins og síki um víggirta borgina, og komast inn um opin hlið á múrnum. Þetta rættist nákvæmlega. (Jesaja 44:27–45:2) Því var líka réttilega spáð að Babýlon myndi um síðir leggjast í eyði. — Jesaja 13:17-22.

Viðvörun spámannsins Jónasar var einnig skýr og afdráttarlaus: „Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð.“ (Jónas 3:4) Þetta er ótvírætt! Svo áhrifamikill og beinskeyttur var boðskapurinn að Nínívemenn „trúðu Guði og boðuðu föstu og klæddust hærusekk“ þegar í stað. Sökum iðrunar þeirra hætti Jehóva Guð við að leiða ógæfu yfir þá á þeim tíma. — Jónas 3:5-10.

Véfréttir voru notaðar í pólitískum tilgangi. Valdhafar og herforingjar vitnuðu oft til þeirrar túlkunar, sem þeir aðhylltust, til að skara eld að sinni köku. Þannig klæddu þeir eigin hagsmuni og viðfangsefni í „guðlegan búning.“ En spámenn Guðs fluttu spádómleg boð hans án tillits til eigin hagsmuna.

Lítum á dæmi: Natan, spámaður Jehóva, veigraði sér ekki við að ávíta Davíð konung fyrir synd hans. (2. Samúelsbók 12:1-12) Í stjórnartíð Jeróbóams 2. í tíuættkvíslaríkinu Ísrael fluttu spámennirnir Hósea og Amos hinum uppreisnargjarna konungi og stuðningsmönnum hans harkalega gagnrýni fyrir að yfirgefa Guð og svívirða hann með breytni sinni. (Hósea 5:1-7; Amos 2:6-8) Viðvörun Guðs fyrir munn spámannsins Amosar var sérstaklega stingandi: „Ég vil rísa gegn Jeróbóams ætt með reiddu sverði.“ (Amos 7:9) Ætt Jeróbóams var útrýmt. — 1. Konungabók 15:25-30; 2. Kroníkubók 13:20.

Oftast þurfti að greiða einhverja þóknun fyrir véfréttirnar. Væri þóknunin nægilega há fengu menn véfrétt að sínu skapi. Þeir sem leituðu til véfréttarinnar í Delfí greiddu hátt gjald fyrir verðlausar upplýsingar og fylltu musteri Apollós og viðbyggingar þess dýrum sjóðum. Spádómar og viðvaranir Biblíunnar voru hins vegar ókeypis og algerlega óhlutdrægar, óháð stöðu eða efnahag þess sem þær beindust að, því að sannur spámaður lét ekki múta sér. Spámaðurinn og dómarinn Samúel gat spurt í einlægni: „Af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó?“ — 1. Samúelsbók 12:3.

Þar eð véfréttirnar voru bundnar við ákveðna staði þurfti hinn almenni maður að leggja mikið á sig til að komast þangað. Flestir voru mjög afskekktir, svo sem Dódóna á Tomarosfjalli í Epíros og Delfí sem var á fjallasvæði um miðbik Grikklands. Að jafnaði voru það einungis hinir ríku og valdamiklu sem gátu leitað leiðsagnar guðanna hjá þessum véfréttum. Og „vilji guðanna“ var opinberaður aðeins fáeina daga á ári. Jehóva Guð sendi spámenn sína og boðbera hins vegar beint til fólksins til að flytja því þá spádóma sem það þurfti að heyra. Á útlegðartíma Gyðinga í Babýlon lét hann að minnsta kosti þrjá spámenn starfa meðal þjóðar sinnar. Þetta voru Jeremía sem starfaði í Jerúsalem, Esekíel sem starfaði meðal útlaganna og Daníel sem starfaði í höfuðborg babýlonska heimsveldisins. — Jeremía 1:1, 2; Esekíel 1:1; Daníel 2:48.

Véfrétt var yfirleitt flutt í einrúmi svo að sá sem fékk hana gæti notað túlkunina sér til framdráttar. Spádómar Biblíunnar voru oft kynntir á almannafæri svo að allir gætu heyrt boðskapinn og skilið þýðingu hans. Spámaðurinn Jeremía talaði margsinnis fyrir opnum tjöldum í Jerúsalem þótt hann vissi að boðskapur sinn væri óvinsæll meðal íbúa og leiðtoga borgarinnar. — Jeremía 7:1, 2.

Nú er litið á véfréttirnar sem þátt í ævafornri sögu. Þær hafa ekkert hagnýtt gildi fyrir fólk á okkar erfiðu tímum. Engar þessara véfrétta fjalla um okkar daga eða framtíðina. Spádómar Biblíunnar eru aftur á móti hluti af ‚orði Guðs sem er lifandi og kröftugt.‘ (Hebreabréfið 4:12) Þeir spádómar Biblíunnar, sem hafa uppfyllst, sýna fram á hvernig Jehóva á samskipti við fólk og opinbera þýðingarmikinn þátt í tilgangi hans og persónuleika. Og mikilvægir biblíuspádómar bíða uppfyllingar í náinni framtíð. Pétur postuli segir um það sem framundan er: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins [hins himneska messíasarríkis] og nýrrar jarðar [réttláts mannfélags], þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.

Þessi stutti samanburður á spádómum Biblíunnar og véfréttum falskra trúarbragða kemur þér kannski til að draga sömu ályktun og fram kemur í bókinni The Great Ideas: „Spámenn Hebrea virðast skera sig úr meðal dauðlegra manna sakir vitneskju sinnar um framtíðina. Ólíkt heiðnum spámönnum og spásagnamönnum . . . þurfa þeir ekki að beita neinum brellum eða brögðum til að skyggnast inn í guðlega leyndardóma. . . . Spádómaræður þeirra virðast að mestu leyti ótvíræðar, ólíkt véfréttunum. Markmiðið virðist að minnsta kosti vera það að opinbera en ekki fela áætlun Guðs um þau mál þar sem hann sjálfur vill að mennirnir sjái gang forsjónarinnar fyrir.“

Ætlar þú að treysta spádómum Biblíunnar?

Þú getur treyst spádómum Biblíunnar. Þú getur reyndar látið líf þitt snúast um Jehóva og uppfyllingu spádómsorðs hans. Spádómar Biblíunnar eru ekki dauð saga um uppfylltar spár. Margir af spádómunum eru að rætast núna eða bíða uppfyllingar í náinni framtíð. Eftir fortíðinni að dæma getum við treyst því fullkomlega að þeir rætist líka. Það er skynsamlegt að taka slíka spádóma alvarlega því að þeir eiga við okkar tíma og varða framtíð okkar.

Þú getur treyst fullkomlega biblíuspádómum eins og þeim sem er að finna í Jesajabók 2:2, 3: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi . . . Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva] . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ Milljónir manna eru að gerast tilbiðjendur Jehóva og læra að ganga á stigum hans. Ætlar þú að grípa tækifærið og læra meira um vegi Guðs og afla þér nákvæmrar þekkingar á honum og tilgangi hans svo að þú getir gengið á stigum hans? — Jóhannes 17:3.

Annar biblíuspádómur er að uppfyllast sem kallar á skjótar aðgerðir af okkar hálfu. Sálmaritarinn boðar um nánustu framtíð: „Illvirkjarnir verða afmáðir . . . Innan stundar eru engir guðlausir til framar.“ (Sálmur 37:9, 10) Hvað heldurðu að þurfi til að umflýja yfirvofandi eyðingu óguðlegra manna, þeirra á meðal manna sem gera gys að spádómum Biblíunnar? Sami sálmur svarar: „Þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar.“ (Sálmur 37:9) Að vona á Jehóva merkir að treysta skilyrðislaust á fyrirheit hans og laga líf okkar að kröfum hans. — Orðskviðirnir 2:21, 22.

Hvernig verður lífið þegar þeir sem vona á Jehóva fá landið eða jörðina til eignar? Spádómar Biblíunnar boða að hlýðið mannkyn eigi unaðslega framtíð í vændum. Spámaðurinn Jesaja skrifaði: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.“ (Jesaja 35:5, 6) Jóhannes postuli skrifaði þessi traustvekjandi orð: „‚Hann [Jehóva] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘ Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: . . . ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — Opinberunarbókin 21:4, 5.

Vottar Jehóva vita að Biblían er áreiðanleg spádómsbók. Og þeir eru fullkomlega sammála Pétri postula sem hvatti: „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.“ (2. Pétursbréf 1:19) Það er einlæg von okkar að hin stórkostlega framtíðarvon, sem spádómar Biblíunnar boða, verði þér til hvatningar.

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 6]

Véfréttin í Delfí var þekktasta véfrétt Grikklands að fornu.

Hofgyðjan sat á þrífættum stól þegar hún bar fram véfréttir sínar.

[Myndir]

Ölvandi gufur komu henni í annarlegt ástand.

Hljóðin, sem hún gaf frá sér, voru talin innihalda opinberanir guðsins Apollós.

[Rétthafi]

Þrífættur stóll: Úr bókinni Dictionary of Greek and Roman Antiquities; Apolló: The Complete Encyclopedia of Illustration/J. G. Heck

[Mynd á blaðsíðu 7]

Spám véfréttarinnar í Delfí var í engu treystandi.

[Rétthafi]

Delfí, Grikklandi.

[Myndir á blaðsíðu 8]

Þú getur borið fullt traust til spádóma Biblíunnar um nýja heiminn.