Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjölskyldur, nemið orð Guðs reglulega saman

Fjölskyldur, nemið orð Guðs reglulega saman

Fjölskyldur, nemið orð Guðs reglulega saman

„Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ — MATTEUS 4:4.

1. Hvað segir Biblían um þá ábyrgð að kenna börnum sínum vegi Jehóva?

 JEHÓVA GUÐ minnti fjölskyldufeður oft á ábyrgð þeirra að kenna börnunum. Þessi kennsla myndi búa þau undir hið núverandi líf og gat einnig verið undirbúningur fyrir hið komandi. Engill Guðs benti Abraham á þá ábyrgð hans að kenna heimilisfólki sínu svo að það ‚varðveitti vegu Jehóva.‘ (1. Mósebók 18:19) Ísraelskum foreldrum var sagt að skýra fyrir börnum sínum hvernig Guð hefði frelsað þjóðina frá Egyptalandi og gefið henni lögmál sitt á Sínaífjalli, hjá Hóreb. (2. Mósebók 13:8, 9; 5. Mósebók 4:9, 10; 11:18-21) Kristnir menn, sem veita fjölskyldu forstöðu, eru hvattir til að ala börn sín upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Jafnvel þótt aðeins annað foreldrið þjóni Jehóva ætti það að leitast við að kenna börnunum vegi hans. — 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15.

2. Er fjölskyldunám nauðsynlegt ef engin börn eru á heimilinu? Skýrðu svarið.

2 Þetta merkir ekki að fjölskyldunám í orði Guðs sé aðeins fyrir barnafólk. Þegar hjón nema Biblíuna saman, þótt engin börn séu á heimilinu, ber það vott um rétt mat á því sem andlegt er. — Efesusbréfið 5:25, 26.

3. Af hverju er mikilvægt að fjölskyldunámið sé reglulegt?

3 Kennslan þarf að vera regluleg til að hafa sem mest áhrif, í samræmi við áminningu Jehóva til Ísraelsmanna í eyðimörkinni: „Maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur . . . á sérhverju því, er fram gengur af munni [Jehóva].“ (5. Mósebók 8:3) Hægt er að hafa fjölskyldunámið einu sinni í viku eða daglega en stutt í hvert sinn, allt eftir aðstæðum. Hvað sem verður fyrir valinu er mikilvægt að láta ekki hendingu ráða því hvort námið fer fram. ‚Kaupið tíma‘ til námsins. Það er góð fjárfesting að greiða það sem þarf til þess, því að líf fjölskyldufólksins er í húfi. — Efesusbréfið 5:15-17, NW; Filippíbréfið 3:16.

Markmið sem hafa þarf í huga

4, 5. (a) Hvaða mikilvægt kennslumarkmið setti Jehóva foreldrum á dögum Móse? (b) Hvað felur það í sér nú á dögum?

4 Fjölskyldunámið skilar mestu ef þið hafið skýrt í huga hvaða markmiðum þið viljið ná. Lítum á nokkur dæmi.

5 Reynið að byggja upp kærleika til Jehóva Guðs í hverri námsstund. Þegar Ísraelsmenn voru saman komnir á Móabsvöllum áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið beindi Móse athygli þeirra að því sem Jesús Kristur kallaði síðar „æðsta boðorð í lögmálinu.“ Hvað var það? „Þú skalt elska [Jehóva] Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (Matteus 22:36, 37; 5. Mósebók 6:5) Móse hvatti Ísraelsmenn til að tileinka sér það sjálfir og kenna það börnum sínum. Það kostaði endurtekningar. Foreldrar þurftu að minna börnin á ástæður fyrir því að elska Jehóva, taka á viðhorfum og hegðun sem gátu hindrað að þau gerðu það og sýna sjálfir að þeir elskuðu Jehóva. Þurfa börnin okkar sams konar fræðslu? Já, og þau þurfa líka hjálp til að ‚umskera hjarta sitt,‘ það er að segja að fjarlægja hvaðeina sem getur tálmað kærleika þeirra til Guðs. (5. Mósebók 10:12, 16; Jeremía 4:4) Slíkir tálmar gætu meðal annars verið löngun í það sem heimurinn býður upp á og löngun í að sökkva sér niður í það sem heimurinn gerir. (1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Kærleikur til Jehóva verður að vera virkur og kröftugur og koma okkur til að gera það sem er himneskum föður okkar þóknanlegt. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Til að fjölskyldunámið komi að varanlegu gagni þarf að stýra hverri námsstund þannig að hún styrki þennan kærleika.

6. (a) Hvað er nauðsynlegt til að veita nákvæma þekkingu? (b) Hvernig leggur Ritningin áherslu á að nákvæm þekking sé mikilvæg?

6 Veitið nákvæma þekkingu á kröfum Guðs. Hvað felur það í sér? Það er meira en að geta lesið svarið upp úr blaði eða bók. Það kallar yfirleitt á umræður til að ganga úr skugga um að allir skilji greinilega lykilorð og meginhugmyndir. Nákvæm þekking er mikilvægur þáttur í því að íklæðast nýja persónuleikanum, að hafa augun á því sem raunverulega skiptir máli þegar tekist er á við vandamál lífsins og, í framhaldi af því, að gera það sem er Guði þóknanlegt. — Filippíbréfið 1:9-11; Kólossubréfið 1:9, 10; 3:10.

7. (a) Hvaða spurningar geta hjálpað fjölskyldunni að heimfæra námsefnið upp á sig? (b) Hvernig leggur Ritningin áherslu á gildi slíkra markmiða?

7 Hjálpið þeim að heimfæra upp á sig það sem þau læra. Hafið þetta markmið í huga í hverju fjölskyldunámi og spyrjið: ‚Hvaða áhrif ætti þetta efni að hafa á líf okkar? Krefst það einhverra breytinga frá því sem við erum að gera núna? Af hverju ættum við að vilja leiðrétta okkur?‘ (Orðskviðirnir 2:10-15; 9:10; Jesaja 48:17, 18) Að gefa nægan gaum að raunhæfri heimfærslu námsefnisins getur verið mikilvægur þáttur í andlegum vexti fjölskyldunnar.

Notið kennslugögn viturlega

8. Hvaða biblíunámsgögn hefur þjónshópurinn látið í té?

8 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur látið okkur í té fjölda góðra námsgagna. Tímaritið Varðturninn er biblíunámsgagn sem gefið er út á 131 tungumáli. Til eru biblíunámsbækur á 153 tungumálum, bæklingar á 284, hljóðsnældur á 61 og myndbönd á 41, og á 9 tungumálum er meira að segja til tölvuforrit til biblíurannsókna. — Matteus 24:45-47.

9. Hvernig getum við notfært okkur biblíutilvísanir í þessari tölugrein í Varðturnsnámi fjölskyldunnar?

9 Margar fjölskyldur nota fjölskyldunámstímann til að búa sig undir Varðturnsnám safnaðarins. Það getur verið mjög gagnlegt. Varðturninn inniheldur helstu andlegu fæðuna sem er látin í té til að uppbyggja fólk Jehóva um heim allan. Þegar þið farið yfir námsefni Varðturnsins í fjölskyldunni skuluð þið gera meira en að lesa greinarnar og svara spurningunum. Reynið að skilja efnið. Takið ykkur tíma til að fletta upp þeim ritningarstöðum sem vísað er til en ekki vitnað í. Hvetjið hina til að tjá sig um tengsl þeirra við efni greinarinnar. Látið efnið ná til hjartans. — Orðskviðirnir 4:7, 23; Postulasagan 17:11.

10. Hvernig er hægt að fá börnin til að taka þátt í náminu og gera það ánægjulegt fyrir þau?

10 Hvað er hægt að gera til þess að fjölskyldunámið sé ekki bara vanaverk heldur uppbyggjandi, áhugavert og skemmtilegt fyrir börnin, ef það eru á annað borð börn í fjölskyldunni? Reynið að fá alla til að taka viðeigandi þátt í náminu þannig að athyglin haldist við námsefnið. Sé þess kostur er best að hvert barn hafi eigin biblíu og blað. Margir foreldrar líkja eftir hlýju Jesú og láta ungt barn sitja hjá sér og halda jafnvel utan um það. (Samanber Markús 10:13-16.) Fjölskylduhöfuðið getur látið barn tjá sig um mynd sem fylgir námsefninu. Hægt er að fela ungu barni fyrir fram að lesa ákveðinn ritningarstað. Eldra barn gæti fengið það verkefni að benda á hagnýtt gildi námsefnisins.

11. Hvaða önnur kennslugögn hafa verið látin í té og hvernig mætti nota þau í tengslum við fjölskyldunámið?

11 Enda þótt Varðturninn sé notaður sem umræðugrundvöllur má ekki gleyma öðrum námsgögnum sem til eru á mörgum tungumálum. Ef þörf er á nánari upplýsingum eða skýringum á biblíulegum orðum og tungumálakunnátta leyfir má leita fanga í handbókinni Insight on the Scriptures. Hægt er að leita svara við öðrum spurningum með hjálp efnisskrárinnar (Watch Tower Publications Index) eða með rannsóknarforriti Félagsins. Lærðu að nota þessi hjálpartæki ef þú hefur tök á, vegna þess að þau geta komið að góðum notum við fjölskyldunámið. Einnig mætti nota hluta námstímans til að horfa á kafla úr einhverju myndbandi Félagsins eða hlusta á kafla úr leikriti af hljóðsnældu og ræða síðan um efnið. Það getur örvað áhuga barnanna. Þessi námsgögn geta stuðlað að því að allir hafi gagn og gleði af fjölskyldunáminu.

Lagaðu námið að þörfum fjölskyldunnar

12. Hvernig má nota fjölskyldunámið til að bregðast við aðkallandi þörf í fjölskyldunni?

12 Vera má að fjölskyldunámið byggist venjulega á Varðturnsefni vikunnar. En vertu vakandi fyrir þörfum fjölskyldunnar. Ef móðirin vinnur ekki úti getur hún kannski notað tíma með börnunum eftir að þau koma heim úr skóla. Hún getur þá sinnt sumu sem taka þarf fyrir en annað þarf kannski nánari athygli. Láttu ekki reka á reiðanum þegar nauðsynlegt er að taka eitthvað fyrir í fjölskyldunni. (Orðskviðirnir 27:12) Þetta geta bæði verið vandamál í skólanum og annað. Veldu viðeigandi efni og láttu fjölskylduna vita tímanlega hvað farið verði yfir.

13. Af hverju gætu umræður um fátækt í sumum tilvikum verið gagnlegar fyrir fjölskylduna?

13 Svo dæmi sé tekið er fátækt landlæg víða um heim þannig að sums staðar getur verið nauðsynlegt að ræða um hvernig hægt sé að takast á við fátækt. Hugsanlega gæti verið gott að tengja námið aðstæðum úr daglega lífinu og þeim meginreglum Biblíunnar sem við eiga. — Orðskviðirnir 21:5; Prédikarinn 9:11; Hebreabréfið 13:5, 6, 18.

14. Hvaða aðstæður gera að verkum að það gæti verið tímabært fyrir fjölskylduna að ræða um afstöðu Jehóva til ofbeldis, stríðs og kristins hlutleysis?

14 Ofbeldi er annað efni sem ræða þarf. Við þurfum öll að hafa viðhorf Jehóva skýr í huga og hjarta. (1. Mósebók 6:13; Sálmur 11:5) Ef fjallað er um þetta efni í fjölskyldunáminu er hægt að ræða um hvernig hægt sé að bregðast við yfirgangi í skólanum, hvort rétt sé að læra sjálfsvarnarlist og hvernig hægt sé að velja viðeigandi skemmtiefni. Ofbeldisfull átök eru orðin algeng og borgarastríð, pólitísk átök, þjóðernisátök eða óaldarflokkar nálega alls staðar. Það getur því þurft að ræða í fjölskyldunni um kristilega hegðun í ofbeldisfullu umhverfi. — Jesaja 2:2-4; Jóhannes 17:16.

15. Hvernig ætti að fræða börn um kynferðismál og hjónaband?

15 Þegar börnin stækka þurfa þau að fá leiðbeiningar um kynferðismál og hjónaband í samræmi við aldur sinn og þroska. Í sumum menningarsamfélögum er nánast óþekkt að foreldrar ræði kynferðismál við börnin. Óupplýst börn geta fengið brenglaðar hugmyndir frá öðrum börnum með skelfilegum afleiðingum. Væri ekki betra að líkja eftir Jehóva sem gefur hreinskilnisleg en smekkleg ráð um þessi mál í Biblíunni? Ráð Biblíunnar hjálpa börnunum að varðveita sjálfsvirðingu sína og sýna hinu kyninu virðingu. (Orðskviðirnir 5:18-20; Kólossubréfið 3:5; 1. Þessaloníkubréf 4:3-8) Hikaðu ekki við að ræða þessi mál aftur þótt þú hafir gert það áður. Endurtekning er nauðsynleg við breyttar aðstæður.

16. (a) Hvenær er fjölskyldunámið á dagskrá hjá sumum? (b) Hvernig hefur þú sigrast á hindrunum í vegi fyrir reglulegu fjölskyldunámi?

16 Hvenær er hægt að hafa fjölskyldunámið? Margar fjölskyldur gera það á mánudagskvöldum líkt og á Betelheimilum alls staðar í heiminum. En sumir hafa annan háttinn á. Ellefu manna fjölskylda í Argentínu fór á fætur klukkan fimm á hverjum morgni til fjölskyldunáms. Sökum ólíks vinnutíma var þetta eini tíminn sem kom til greina. Þetta var ekki auðvelt en það innprentaði börnunum að fjölskyldunámið væri mikilvægt. Öldungur á Filippseyjum stýrði reglulegu fjölskyldunámi á heimili sínu meðan börnin þrjú voru að alast upp. Að auki kenndu foreldrarnir börnunum hverju fyrir sig í hverri viku svo að þau myndu tileinka sér sannleikann. Bandarísk systir, sem á vantrúaðan eiginmann, gengur með börnum sínum til móts við skólavagninn á hverjum morgni. Meðan þau bíða eftir vagninum hafa þau um tíu mínútur til að lesa og ræða saman um viðeigandi biblíunámsefni, og síðan fer móðirin með stutta bæn áður en börnin fara upp í vagninn. Í Alþýðulýðveldinu Kongó býr kona sem þarf að leggja hart að sér við nám sökum lítillar menntunar. Vantrúaður eiginmaður hennar yfirgaf hana en fullorðinn sonur hennar hjálpar henni með því að heimsækja fjölskylduna vikulega og stýra námi hjá móður sinni og yngri bræðrum. Móðirin gefur gott fordæmi með því að undirbúa sig vel. Gefstu ekki upp ef þú átt, einhverra orsaka vegna, erfitt með að halda uppi reglulegu fjölskyldunámi. Biddu Jehóva í einlægni um að blessa viðleitni þína til að halda uppi reglulegu biblíunámi. — Markús 11:23, 24.

Þrautseigja borgar sig

17. (a) Hvað þarf til að hafa reglulegt fjölskyldunám? (b) Hvaða dæmi sýnir fram á gildi reglulegrar fjölskyldufræðslu um vegi Jehóva?

17 Reglulegt fjölskyldunám kostar þrautseigju og skipulagningu en það er erfiðisins virði. (Orðskviðirnir 22:6; 3. Jóhannesarbréf 4) Franz og Hilda í Þýskalandi ólu upp 11 börn. Mörgum árum síðar sagði Magdalena, dóttir þeirra: „Það sem ég tel mikilvægast núna er að það leið aldrei sá dagur að við fengjum ekki einhverja andlega fræðslu.“ Þegar þjóðernishyggjan var orðin yfirþyrmandi undir stjórn Adolfs Hitlers notaði faðir hennar Biblíuna til að búa fjölskylduna undir þær prófraunir sem hann vissi að væru framundan. Síðar voru yngri börnin tekin og komið fyrir í betrunarskóla en hinir eldri í fjölskyldunni voru handteknir og hnepptir í fangelsi eða fangabúðir. Sumir voru líflátnir. Öll varðveittu þau trúna — bæði meðan ofsóknirnar voru sem grimmilegastar og einnig á árunum eftir að þeim linnti.

18. Hvernig hafa einstæðir foreldrar fengið umbun erfiðis síns?

18 Margir einstæðir foreldrar og þeir sem eiga vantrúaðan maka hafa líka veitt börnum sínum reglulega biblíufræðslu. Ekkja á Indlandi lagði hart að sér til að glæða kærleika til Jehóva með börnum sínum tveim. Hún var niðurbrotin þegar sonur hennar hætti að sækja samkomur hjá fólki Jehóva. Hún sárbændi Jehóva að fyrirgefa sér það sem vantað hefði í uppeldi sonarins. En sonurinn var ekki búinn að gleyma því sem hann hafði lært. Meira en tíu árum síðar sneri hann aftur, tók góðum andlegum framförum og varð síðar safnaðaröldungur. Núna eru bæði hann og eiginkona hans boðberar í fullu starfi. Þessir foreldrar tóku til sín ráðleggingar Jehóva og skipulags hans um reglulega biblíufræðslu í fjölskyldunni og eru mjög þakklátir fyrir. Farið þið eftir þessum ráðleggingum?

Geturðu svarað?

Af hverju er reglulegt fjölskyldunám mikilvægt?

Hvaða markmið ættum við að hafa í hverri fjölskyldunámsstund?

Hvaða námsgögn hafa okkur verið látin í té?

Hvernig er hægt að laga námið að þörfum fjölskyldunnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Skýr markmið styrkja fjölskyldunámið.