Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Foreldrar, hvað kennið þið með fordæmi ykkar?

Foreldrar, hvað kennið þið með fordæmi ykkar?

Foreldrar, hvað kennið þið með fordæmi ykkar?

„Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:1, 2.

1. Hvers konar fyrirmæli gaf Jehóva fyrstu mannhjónunum?

 JEHÓVA er höfundur fjölskyldufyrirkomulagsins. Hver einasta fjölskylda á tilveru sína honum að þakka því að hann stofnaði fyrstu fjölskylduna og gaf fyrstu mannhjónunum getnaðarmáttinn. (Efesusbréfið 3:14, 15) Hann gaf Adam og Evu leiðbeiningar um meginskyldur þeirra og gaf þeim gott svigrúm til að beita frumkvæði sínu við framkvæmd þeirra. (1. Mósebók 1:28-30; 2:15-22) Aðstæður urðu flóknari eftir að Adam og Eva syndguðu, en Jehóva lét í té leiðbeiningar til að hjálpa þjónum sínum að takast á við þær.

2. (a) Hvernig hefur Jehóva styrkt hin rituðu ráð með munnlegri kennslu? (b) Hvaða spurninga þurfa foreldrar að spyrja sig?

2 Jehóva er hinn mikli fræðari okkar og hefur ekki látið við það sitja að gefa skriflegar leiðbeiningar um hvað okkur beri að gera og hvað okkur beri að forðast. Til forna héldust skriflegar leiðbeiningar í hendur við munnlegar sem prestar, spámenn og fjölskylduhöfuð fluttu. Nú á dögum notar hann kristna öldunga og foreldra til að veita þessa munnlegu kennslu. Þið foreldrar, gerið þið ykkar besta til að fræða börnin ykkar um vegi Jehóva? — Orðskviðirnir 6:20-23.

3. Hvað geta fjölskylduhöfuð lært af Jehóva um áhrifaríka kennslu?

3 Hvernig ætti að veita slíka fræðslu innan fjölskyldunnar? Jehóva gefur fyrirmyndina. Hann tiltekur skýrt og greinilega hvað sé gott og hvað sé illt og notar endurtekningar ríkulega. (2. Mósebók 20:4, 5; 5. Mósebók 4:23, 24; 5:8, 9; 6:14, 15; Jósúabók 24:19, 20) Hann vekur fólk til umhugsunar með spurningum. (Jobsbók 38:4, 8, 31) Hann hreyfir við tilfinningunum og snertir hjartað með líkingum og raunsönnum dæmum. (1. Mósebók 15:5; Daníel 3:1-29) Foreldrar, reynið þið að líkja eftir þessari fyrirmynd þegar þið kennið börnum ykkar?

4. Hvað lærum við af Jehóva um ögun, og af hverju er agi þýðingarmikill?

4 Jehóva er fastur fyrir í því sem rétt er en skilur áhrif ófullkomleikans á menn svo að hann kennir áður en hann refsar og endurtekur áminningar sínar og viðvaranir. (1. Mósebók 19:15, 16; Jeremía 7:23-26) Hann agar ekki um of heldur í réttu hófi. (Sálmur 103:10, 11; Jesaja 28:26-29) Ef við komum þannig fram við börnin okkar er það merki þess að við þekkjum Jehóva, og þau eiga þá auðveldara með að kynnast honum líka. — Jeremía 22:16; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

5. Hvað geta foreldrar lært af Jehóva um það að hlusta?

5 Jehóva er ástríkur himneskur faðir sem hlustar á okkur. Hann gefur ekki bara skipanir heldur hvetur okkur til að úthella hjörtum okkar fyrir sér. (Sálmur 62:9) Og hann þrumar ekki ávítur af himni ofan þótt þau viðhorf, sem við tjáum honum, séu ekki alls kostar rétt. Hann kennir okkur með þolinmæði. Ráðleggingar Páls postula eru svo sannarlega viðeigandi: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 4:31–5:1) Það er gott fordæmi sem Jehóva gefur foreldrum um uppfræðslu barna sinna, og það snertir hjörtu okkar og lætur okkur langa til að ganga á lífsvegi hans.

Áhrif fordæmisins

6. Hvaða áhrif hafa viðhorf og fordæmi foreldra á börn þeirra?

6 Fordæmi hefur ekki síður sterk áhrif á börn en munnleg fræðsla. Hvort sem foreldrum líkar betur eða ver líkja börnin eftir þeim. Oft gleður það foreldra að heyra börnin hafa eitthvað eftir sér — en það getur líka verið áfall. Þegar hegðun foreldranna og viðhorf bera vott um að andleg mál séu þeim mikils virði hefur það jákvæð áhrif á börnin. — Orðskviðirnir 20:7.

7. Hvers konar fordæmi gaf Jefta dóttur sinni og með hvaða árangri?

7 Áhrifunum af fordæmi foreldranna er vel lýst í Biblíunni. Jefta, sem Jehóva notaði til að leiða Ísraelsmenn til sigurs yfir Ammonítum, var einnig faðir. Svar hans til konungs Ammoníta sýnir að hann hlýtur að hafa marglesið söguna af samskiptum Jehóva við Ísrael. Hann gat vitnað í hana að vild og sýndi sterka trú á Jehóva. Fordæmi hans hefur eflaust hjálpað dóttur hans að byggja upp þá trú og fórnfýsi sem hún sýndi með því að skuldbinda sig til að þjóna Jehóva ævilangt sem einhleyp kona. — Dómarabókin 11:14-27, 34-40; samanber Jósúabók 1:8.

8. (a) Hvaða góð viðhorf sýndu foreldrar Samúels? (b) Hvernig naut Samúel góðs af því?

8 Samúel var til fyrirmyndar sem barn og trúfastur spámaður Guðs alla ævi. Langar þig til að sjá börnin þín verða eins og hann? Veltu fyrir þér hvers konar fordæmi foreldrar Samúels, þau Elkana og Hanna, gáfu honum. Þótt heimilisaðstæður væru ekki fullkomnar fóru þau reglulega til Síló til að tilbiðja Guð þar sem sáttmálsörkin helga var. (1. Samúelsbók 1:3-8, 21) Taktu eftir hve innilega Hanna bað til Guðs. (1. Samúelsbók 1:9-13) Sjáðu hve þýðingarmikið þeim báðum þótti að standa við öll heit sín við Guð. (1. Samúelsbók 1:22-28) Hið góða fordæmi þeirra hefur eflaust þroskað með Samúel þá eiginleika sem gerðu honum kleift að ganga rétta braut — jafnvel þegar þeir sem hann umgekkst og þóttust þjóna Jehóva sýndu enga virðingu fyrir vegum hans. Síðar meir treysti Jehóva Samúel fyrir því ábyrgðarstarfi að vera spámaður sinn. — 1. Samúelsbók 2:11, 12; 3:1-21.

9. (b) Hvaða fordæmi heima fyrir hafði góð áhrif á Tímóteus? (b) Hvers konar maður varð Tímóteus?

9 Myndirðu vilja að sonur þinn líktist Tímóteusi sem varð starfsfélagi Páls postula ungur að aldri? Faðir Tímóteusar var ekki í trúnni en móðir hans og amma gáfu honum gott fordæmi og kunnu að meta það sem andlegt er. Vafalaust hefur það lagt góðan grunn að þjónustu Tímóteusar sem kristins manns. Sagt er að Evnike, móðir hans, og Lóis, amma hans, hafi búið yfir ‚hræsnislausri trú.‘ Kristilegt líferni þeirra var engin uppgerð. Þær lifðu samkvæmt því sem þær sögðust trúa á og kenndu drengnum Tímóteusi að gera slíkt hið sama. Tímóteus reyndist traustur, áreiðanlegur og umhyggjusamur um velferð annarra. — 2. Tímóteusarbréf 1:5; Filippíbréfið 2:20-22.

10. (a) Hvaða fordæmi utan heimilis geta haft áhrif á börnin? (b) Hvernig ættum við að bregðast við þegar þessara áhrifa gætir í orðum eða viðhorfum barnanna?

10 Börnin okkar leita sér fyrirmynda víðar en á heimilinu. Þessar fyrirmyndir eru meðal annars skólafélagarnir, kennararnir sem hafa það starf að móta huga þeirra, fólk sem er eindregið á þeirri skoðun að allir eigi að fylgja rótgrónum ættbálka- eða samfélagssiðum, vinsælar íþróttastjörnur og framámenn sem sagt er frá í fréttum. Milljónir barna hafa líka kynnst grimmdarverkum styrjalda. Engan ætti að undra að þessi áhrif komi fram í orðum eða viðhorfum barna okkar. Hvernig bregðumst við við því? Er málið afgreitt með harkalegum snuprum eða ströngum fyrirlestri? Frekar en að rjúka upp til handa og fóta væri kannski betra að spyrja sig hvort hægt sé að læra eitthvað af samskiptum Jehóva við okkur um það hvernig best sé að taka á málinu. — Samanber Rómverjabréfið 2:4.

11. Hvaða áhrif geta mistök foreldra haft á viðhorf barnanna?

11 Það er auðvitað ekki við því að búast að ófullkomnir foreldrar velji alltaf heppilegustu leiðina. Þeir gera mistök. En ætli það dragi úr virðingu barnanna fyrir foreldrum sínum þegar þau komast að raun um það? Það getur gerst, einkum ef foreldrarnir reyna að breiða yfir mistök sín í skjóli valds síns. En árangurinn getur orðið allt annar ef foreldrarnir sýna auðmýkt og viðurkenna mistök sín fúslega. Með því geta þeir gefið börnunum verðmætt fordæmi því að þau þurfa líka að læra að gera þetta. — Jakobsbréfið 4:6.

Það sem við getum kennt með fordæminu

12, 13. (a) Hvað þurfa börnin að læra um kærleika og hvernig er áhrifaríkast að kenna það? (b) Af hverju er þýðingarmikið að börnin læri um kærleika?

12 Þegar hin munnlega kennsla helst í hendur við gott fordæmi er hægt að kenna margt gagnlegt á mjög áhrifaríkan hátt. Tökum nokkur dæmi.

13 Að sýna óeigingjarnan kærleika: Einhver þýðingarmesta kennslan, sem hægt er að efla með góðu fordæmi, er sú hvað það sé að elska. „Vér elskum, því að [Guð] elskaði oss að fyrra bragði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:19) Hann er uppspretta kærleikans og fremsta fordæmið í að sýna hann. Þessi kærleikur, agaʹpe, er byggður á meginreglum og er nefndur rösklega 100 sinnum í Biblíunni. Þetta er eiginleiki sem sannkristnir menn þekkjast á. (Jóhannes 13:35) Þetta er kærleikur sem við eigum að sýna Guði og Jesú Kristi og einnig hver öðrum — jafnvel mönnum sem okkur þykir ekki vænt um. (Matteus 5:44, 45; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Þessi kærleikur þarf að búa í hjarta okkar og birtast í lífi okkar áður en við getum kennt börnum okkar hann svo vel sé. Verkin segja meira en orðin. Innan fjölskyldunnar þurfa börnin að sjá og finna fyrir kærleika og tengdum eiginleikum, svo sem ástúð. Ef ekki, dregur það úr líkamlegum, andlegum og tilfinningalegum þroska þeirra. Börnin þurfa líka að sjá hvernig kærleikur og ástúð birtist gagnvart trúsystkinum utan fjölskyldunnar. — Rómverjabréfið 12:10; 1. Pétursbréf 3:8.

14. (a) Hvernig er hægt að kenna börnum að skila góðu verki og hafa ánægju af? (b) Hvernig getið þið gert það í ykkar fjölskyldu?

14 Að læra að vinna: Vinna er einn af meginþáttum lífsins. Maður þarf að læra að skila góðu verki til að hafa sjálfsvirðingu. (Prédikarinn 2:24; 2. Þessaloníkubréf 3:10) Ef barni er sagt að vinna eitthvert verk en fær litlar leiðbeiningar um það og er svo skammað fyrir að gera það ekki vel, þá er ólíklegt að það læri að skila góðu verki. En þegar börnin læra með því að vinna með foreldrum sínum og fá hæfilegt hrós fyrir, þá er líklegra að þau læri að hafa ánægju af verki sínu. Ef foreldrarnir gefa þeim skýringar jafnhliða fordæminu læra þau bæði að skila góðu verki, yfirstíga vandamál, þrauka uns verkinu er lokið, rökhugsa og taka ákvarðanir. Við þessar aðstæður er hægt að benda börnunum á að Jehóva vinni líka og skili góðu verki og að Jesús líki eftir föður sínum. (1. Mósebók 1:31; Orðskviðirnir 8:27-31; Jóhannes 5:17) Ef fjölskylda stundar búskap eða einhvern rekstur er líklegt að sumir í fjölskyldunni geti unnið saman. Móðir getur líka kennt syni eða dóttur að elda og ganga frá eftir matinn. Faðir, sem vinnur fjarri heimilinu, getur skipulagt ýmis verkefni heima með börnum sínum. Það er mjög gott að foreldrar hugsi ekki aðeins um að koma verkinu frá heldur jafnframt að búa börnin undir lífið!

15. Hvernig er hægt að byggja upp trú barnanna? Lýstu með dæmi.

15 Að varðveita trú í mótlæti: Trú er líka mikilvægur þáttur í lífi okkar. Börnin geta lært að skilgreina trú þegar trúin er til umræðu í fjölskyldunáminu. Þau geta líka komið auga á sönnunargögn sem verða til þess að trúin fer að vaxa í hjörtum þeirra. En þegar þau sjá foreldrana sýna óhagganlega trú í erfiðum prófraunum getur það haft varanleg áhrif. Kona í Panama var að kynna sér Biblíuna. Maðurinn hennar hótaði að reka hana að heiman ef hún hætti ekki að þjóna Jehóva. En hún hélt áfram að fara fótgangandi með fjórum börnum sínum 16 kílómetra leið og 30 kílómetra til viðbótar með rútu til að komast í næsta ríkissal. Fordæmi hennar hefur haft þau áhrif að nú hafa um 20 ættingjar tekið við sannleikanum.

Fordæmi í daglegum biblíulestri

16. Hvers vegna er mælt með daglegum biblíulestri í fjölskyldunni?

16 Einhver gagnlegasta venjan, sem nokkur fjölskylda getur tamið sér, er reglulegur biblíulestur, og þessi venja er foreldrunum sjálfum til góðs og gott fordæmi til eftirbreytni fyrir börnin. Lesið eitthvað í Biblíunni daglega ef nokkur kostur er. Magnið er ekki aðalatriðið heldur reglufestan og aðferðin. Til viðbótar lestrinum geta börnin hlustað á Biblíusögubókina mína af hljóðsnældum. Daglegur upplestur úr orði Guðs hjálpar okkur að hafa viðhorf hans efst í huga. Og ef fjölskyldan les saman í Biblíunni getur það hjálpað henni allri að ganga á vegum Jehóva. Það var einmitt hvatt til þessa á landsmótinu „Lífsvegur Guðs“ í leikritinu Fjölskyldur — lesið daglega í Biblíunni. — Sálmur 1:1-3.

17. Hvernig er það hjálp til að fara eftir Efesusbréfinu 6:4 að lesa saman í Biblíunni og leggja lykilritningarstaði á minnið?

17 Biblíulestur í fjölskyldunni kemur heim og saman við orð Páls postula í innblásnu bréfi hans til kristinna manna í Efesus: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Hvað merkir þetta? Orðið, sem þýtt er „umvöndun,“ merkir bókstaflega að „setja huga inn í,“ þannig að kristnir feður eru hvattir til að innprenta börnum sínum huga Jehóva Guðs — að hjálpa þeim að kynnast viðhorfum hans. Það er hægt að hjálpa börnunum til þess með því að hvetja þau til að leggja lykilritningarstaði á minnið. Markmiðið er að láta viðhorf Jehóva leiða hugsun barnanna svo að langanir þeirra og hegðun endurspegli smám saman reglur hans, hvort sem foreldrarnir eru nærstaddir eða ekki. Biblían er undirstaða slíkrar afstöðu. — 5. Mósebók 6:6, 7.

18. Hvað getur þurft, samfara biblíulestri, til að (a) skilja textann vel? (b) hafa gagn af ráðleggingunum í honum? (c) bregðast við því sem hann opinberar um tilgang Jehóva? (d) njóta góðs af því sem hann segir um viðhorf manna og verk?

18 Til að Biblían hafi áhrif á líf okkar er auðvitað nauðsynlegt að skilja það sem hún segir. Það getur þýtt að lesa suma kafla oftar en einu sinni. Til að skilja viss orð og vers til fulls getum við þurft að fletta upp í orðabók eða handbókinni Insight on the Scriptures. Ef ritningarstaður hefur að geyma ráðleggingar eða boðorð er gott að taka sér tíma til að tala saman um við hvaða aðstæður nú á tímum ráðin séu viðeigandi. Síðan mætti spyrja: ‚Hvernig getur það verið gagnlegt fyrir okkur að fara eftir þessum ráðum?‘ (Jesaja 48:17, 18) Ef ritningarstaðurinn fjallar um einhvern þátt í tilgangi Jehóva má spyrja: ‚Hvaða áhrif hefur þetta á líf okkar?‘ Kannski ertu að lesa frásögu sem lýsir viðhorfum og verkum fólks. Hvaða þrýstingi varð það fyrir? Hvernig brást það við honum? Hvað getum við lært af fordæmi þess? Takið alltaf tíma til að ræða um þýðingu frásögunnar fyrir okkur núna. — Rómverjabréfið 15:4; 1. Korintubréf 10:11.

19. Hvað gefum við börnum okkar með því að vera eftirbreytendur Guðs?

19 Þetta er afbragðsleið til að innprenta sjálfum okkur viðhorf Guðs og hjálpar okkur til að verða „eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Og við gefum börnum okkar þá fordæmi sem er verðugt eftirbreytni.

Manstu?

◻ Hvernig geta foreldrar notið góðs af fordæmi Jehóva?

◻ Af hverju þarf munnleg kennsla að haldast í hendur við gott fordæmi foreldranna?

◻ Nefndu nokkur dæmi um það sem foreldrar geta best kennt með fordæmi sínu.

◻ Hvernig höfum við mest gagn af biblíulestri fjölskyldunnar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10]

Margar fjölskyldur njóta þess að lesa saman daglega í Biblíunni.