Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Elskarðu lífið?

Elskarðu lífið?

Elskarðu lífið?

„LÁT mig sjá ljósið.“ Ítalska ljóðskáldið Giacomo Leopardi á að hafa sagt þessi orð við þá sem önnuðust hann rétt áður en hann dó. Orðin minna á sterka ást mannsins á lífinu sem ljósið táknar.

Lífsástin er dýrmæt hvöt sem fær flesta til að forðast hættur og gera allt sem þeir geta til að halda lífi. Að þessu leyti er ekki ýkja mikill munur á mönnum og dýrum sem búa yfir sterkri sjálfsbjargarhvöt.

En hvers konar líf er þess virði að lifa og elska? Lífeðlisfræðileg tilvera ein sér — það eitt að anda og hreyfast — er ekki nóg. Og það fylgir því ekki mikil lífsfylling að reyna að njóta lífsins gæða til hins ítrasta. Sú lífsspeki Epíkúringa að ‚eta og drekka því að á morgun deyjum vér‘ hefur yfirleitt ekki veitt fólki neina ánægju. (1. Korintubréf 15:32) Maðurinn hefur vissulega margar efnislegar frumþarfir, en hann hefur líka menningarlegar og félagslegar þarfir, að ekki sé minnst á andlegar þarfir sem tengjast trú á æðri máttarvöld. Því miður búa hundruð milljóna manna, eða jafnvel milljarðar, við svo ömurlegar þjóðfélags- og umhverfisaðstæður víða um heim að tilveran snýst um lítið annað en það að draga fram lífið. Þeir sem lifa aðeins til að fullnægja efnisþörfum sínum — að borða, drekka, eiga hluti eða fullnægja kynhvötinni — lifa nánast eins og dýr og hafa takmarkaða ánægju af. Í rauninni nota þeir sér ekki úrræði lífsins til að fullnægja vitsmunalegum og tilfinningalegum þörfum sínum. Og hver sá sem reynir að fullnægja eigingjörnum löngunum og engu öðru fer bæði á mis við mestu gæði lífsins og spillir því samfélagi sem hann býr í. Slíkur maður stuðlar ekki að farsæld annarra.

Dómari við unglingadómstól staðfestir þetta og segir að „brenglað gildismat, dýrkun neikvæðra fyrirmynda og skjótfenginn gróði“ stuðli gjarnan að „óhóflegum samkeppnisanda.“ Þetta leiðir svo til hegðunar sem er skaðleg þjóðfélaginu og mannskemmandi fyrir unglinga, einkum þá sem fara út í fíkniefnaneyslu.

Lífið hefur upp á margt að bjóða eins og þú veist — frí á fallegum stöðum, skemmtileg lestrar- eða rannsóknarefni, ánægjulegan félagsskap og fagra tónlist. Og margt annað mætti nefna sem veitir lífi okkar fyllingu í smáu og stóru. Fólk sem hefur sterka trú á Guð, einkum Jehóva, Guð Biblíunnar, hefur enn fleiri ástæður til að elska lífið. Sönn trú veitir fólki styrk og stillingu til að takast á við erfiðleika lífsins. Þeir sem trúa á Guð geta sagt með öryggi: „[Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast.“ (Hebreabréfið 13:6) Þeir sem þekkja kærleika Guðs finna að hann elskar þá. Þeir bregðast vel við kærleika hans og hafa djúpstæða gleði af. (1. Jóhannesarbréf 4:7, 8, 16) Þeir geta notið þess að vera athafnasamir og bera umhyggju fyrir öðrum. Eins og Jesús Kristur sagði er ‚sælla að gefa en þiggja.‘ — Postulasagan 20:35.

Því miður er önnur hlið á lífinu eins og það er núna — víðtækar þjáningar, ranglæti, fátækt, sjúkdómar og dauði. Og þá er aðeins fátt nefnt af því kvalræði sem gerir lífið oft illbærilegt. Hinn ríka, vitra og volduga Salómon, konung Ísraels til forna, skorti ekkert af þeim gæðum sem geta veitt fólki hamingju og gleði. En eitt angraði hann. Hann gerði sér ljóst að við dauðann yrði hann að eftirláta einhverjum öðrum allt sem hann hafði gert og aflað með ‚striti‘ sínu, „hyggindum, þekking og dugnaði.“ — Prédikarinn 2:17-21.

Flestir eru sér meðvita um það, eins og Salómon, hve stutt lífið er og hversu hratt ævin líður. Biblían segir að Guð hafi ‚lagt eilífðina í brjóst mannsins.‘ (Prédikarinn 3:11) Þessi eilífðarvitund fær manninn til að ígrunda hve lífið er skammvinnt. Ef okkur tekst ekki að finna sannfærandi svör við spurningum okkar um tilgang lífs og dauða, þá getum við orðið bölsýn og fundist lífið tilgangslaust og dapurlegt.

Er einhver svör að fá við þeim spurningum sem ásækja manninn? Breytist ástandið einhvern tíma þannig að lífið verði eftirsóknarverðara og lengra en nú er?