Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Franskir vottar fara til almennings

Franskir vottar fara til almennings

Franskir vottar fara til almennings

SNEMMA morguns föstudaginn 29. janúar 1999 hófust vottar Jehóva í Frakklandi handa við að dreifa 12 milljónum eintaka af smáriti sem nefnist Frakkar, það er verið að blekkja ykkur! Dreifingin stóð alla helgina og ritinu var fyrst dreift á götum úti og síðar hús úr húsi. Hvert var tilefni þessarar herferðar?

Tilefnið var skýrt á fréttamannafundi sem haldinn var í París að morgni föstudags. Talsmaður vottanna sagði: „Við viljum koma sannleikanum um okkur á framfæri og kveða niður þær ærumeiðingar sem við höfum mátt þola. Við höfum ekkert á móti gagnrýni en við ætlum ekki að sitja þegjandi undir lygum og mannorðsmeiðingum.“

Þótt vottar Jehóva séu þriðja stærsta kristna trúfélagið í Frakklandi hafa vottabörn í tugatali verið smánuð og áreitt í skólum. Fólk hefur misst vinnu og verið ógnað vegna trúar sinnar. Svo ótrúlegt sem það er hefur jafnvel verið lagður 60 prósenta skattur á frjáls framlög sem trúfélagið hefur fengið til að kosta starfsemi sína. Hvernig vakti herferðin athygli á þessu misrétti?

Í smáritinu segir: „Hinir 250.000 vottar Jehóva og velunnarar þeirra í Frakklandi MÓTMÆLA harðlega að sér skuli ranglega hafa verið slegið saman við hættulega sértrúarflokka undanfarin fjögur ár. Þeir vekja athygli á að vottar Jehóva eru kristið trúfélag og hafa starfað í Frakklandi í heila öld. . . . MÓTMÆLA þeirri stöðugu áreitni sem þeir hafa orðið fyrir.“ Smáritið afhjúpar ærumeiðingar og lævísar aðdróttanir mannorðsníðinganna sem hafa reynt að koma af stað neikvæðri umræðu um söfnuðinn. Í lokaorðum ritsins segir: „Nú búa um tvær milljónir votta Jehóva og velunnara þeirra í Evrópu. Þeir virða lög þess lands þar sem þeir búa með því að halda á loft gildum fagnaðarerindisins. Frakkar, þetta eru staðreyndir. Það er skylda okkar að koma þeim á framfæri sannleikanum samkvæmt.“

Skjót og jákvæð viðbrögð

Milljónum smárita var dreift fyrsta daginn. Sjö þúsund vottar í París voru búnir að dreifa rösklega 1,3 milljónum eintaka um miðjan dag. Fólk hafði aldrei áður séð svona marga votta dreifa smáritum á götum úti. Fjölmiðlar brugðust vel við þessari kynningarherferð og bæði dagblöð og sjónvarpsstöðvar fjölluðu um hana. Dagblaðið Le Progrès de Lyon sagði: „Þetta frumkvæði . . . vekur athygli á útbreiddum misskilningi í sambandi við eitt orð. Síðastliðin tíu ár hefur orðið ‚sértrúarflokkur‘ . . . fengið á sig merkingarblæinn öfugsnúinn, hættulegur og skaðlegur. . . . Vottar Jehóva eru hvorki hættulegir né líklegir til að setja samfélagið úr skorðum.“

Þeir sem þekkja til votta Jehóva vita að þeir eru friðsamir og bera mikla virðingu fyrir ríkjandi þjóðfélagsskipan. Margir vegfarendur lýstu ánægju sinni og stuðningi við þær tugþúsundir votta sem tóku þátt í herferðinni. Fólk tók að hringja, senda símbréf eða skrifa bréf næstum samstundis til að lýsa þakklæti sínu. Mest er þó um vert að einlægt fólk fékk tækifæri til að heyra staðreyndirnar um vottana í stað ósannra og heimskulegra ummæla, og þeir sem höfðu verið rægðir fyrir trú sína fengu tækifæri til að verja það sem þeim er kært.