Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Knúin af kærleika með vonina að akkeri

Knúin af kærleika með vonina að akkeri

Knúin af kærleika með vonina að akkeri

„Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ — 1. KORINTUBRÉF 13:13.

1. Hverju varar Páll postuli við?

 PÁLL postuli segir að trúin sé eins og skip sem getur farist. Hann talar um ‚trú og góða samvisku sem sumir hafa frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:19) Til forna voru skip smíðuð úr tré. Sjófærnin réðst af góðum efniviði og góðri smíð.

2. Af hverju þarf trúarskip okkar að vera vel smíðað og hvað útheimtir það af okkur?

2 Trúarskip okkar verður að haldast á floti í ólgusjó mannkynsins. (Jesaja 57:20; Opinberunarbókin 17:15) Það þarf því að vera vel smíðað og það er undir okkur komið. Þegar „sjórinn“ í heimi Gyðinga og Rómverja gerðist mjög úfinn fyrir frumkristna menn skrifaði Júdas: „Þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda. Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.“ (Júdasarbréfið 20, 21) Þar eð Júdas talaði einnig um að berjast fyrir ‚þeirri trú sem heilögum hefur verið gefin‘ geta orðin ‚helgasta trú‘ vísað til hinna kristnu kenninga í heild sinni, þar á meðal fagnaðarerindisins um hjálpræðið. (Júdasarbréfið 3) Kristur er undirstaða trúarinnar. Sá sem vill halda sig við sanna kristna trú þarf að hafa sterka trú.

Að standa af sér „sértrúaróttann“

3. Hvernig nota sumir „sértrúaróttann“?

3 Á síðari árum hefur nokkrum sinnum komið til hryllilegra morða, fjöldasjálfsmorða og hryðjuverka af völdum lokaðra sértrúarflokka. Eins og við er að búast vilja margir, þeirra á meðal einlægir stjórnmálamenn, vernda saklaust fólk, og þá ekki síst börn, fyrir hættulegum sértrúarflokkum. „Guð þessarar aldar“ stendur eflaust að baki þessum hræðilegu glæpaverkum. Þar með hefur hann skapað hinn svokallaða sértrúarótta sem hann notar gegn fólki Jehóva. (2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 12:12) Sumir hafa notfært sér þetta ástand til að ýta undir andstöðu gegn starfi okkar. Í sumum löndum hafa þeir hleypt af stað herferð undir því yfirskini að þeir vilji vernda fólk fyrir „hættulegum sértrúarflokkum,“ en dylgja svo ranglega um votta Jehóva. Þetta hefur gert vitnisburðarstarfið hús úr húsi erfitt í sumum Evrópulöndum og einstaka maður hefur hætt biblíunámi sínu. Það hefur síðan dregið kjarkinn úr sumum bræðra okkar.

4. Af hverju ætti andstaða ekki að draga úr okkur kjarkinn?

4 En andstaða ætti ekki að draga úr okkur kjark heldur styrkja þá sannfæringu okkar að við ástundum sanna kristni. (Matteus 5:11, 12) Frumkristnir menn voru sakaðir um að vera villuflokkur og æsingamenn og þeim var „alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 24:5; 28:22) En Pétur postuli hughreysti trúbræður sína og skrifaði: „Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt. Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.“ (1. Pétursbréf 4:12, 13) Og einn úr hinu stjórnandi ráði fyrstu aldar tók í sama streng: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði, en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.“ (Jakobsbréfið 1:2-4) Þegar skip trúarinnar lendir í andstöðu-óveðri koma veikleikar þess í ljós, ef einhverjir eru, ekki ósvipað og það reynir á sjófærni skips í stormi.

Þrengingar skapa þolgæði

5. Hvernig getum við verið viss um að trú okkar standi af sér þrengingar?

5 Kristnir menn geta ekki verið vissir um þolgæði sitt og trúarstaðfestu fyrr en þeir hafa staðið af sér þrengingastorma. Þolgæði okkar ‚birtist í fullkomnu verki‘ í stormi og ólgusjó aðeins ef við erum ‚fullkomin og alger og í engu ábótavant,‘ þar á meðal að við höfum sterka trú. Páll skrifaði: „Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist.“ — 2. Korintubréf 6:4.

6. Hvers vegna ættum við að ‚fagna í þrengingum‘ og hvernig styrkir það von okkar?

6 Við ættum að nýta okkur þá þrengingastorma, sem við kunnum að lenda í, til að sanna að trúarskip okkar sé sterkt og stöðugt. Páll skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. En vonin bregst oss ekki.“ (Rómverjabréfið 5:3-5) Staðfesta í prófraunum veitir okkur velþóknun Jehóva sem styrkir síðan von okkar.

Hvers vegna líða sumir skipbrot?

7. (a) Hvernig höfðu sumir beðið andlegt skipbrot, að sögn Páls? (b) Hvernig hafa sumir villst frá sannleikanum nú á dögum?

7 Þegar Páll varaði við ‚skipbroti‘ var hann að hugsa um menn sem höfðu ‚varpað frá sér‘ góðri samvisku og glatað trúnni. (1. Tímóteusarbréf 1:19) Þeirra á meðal voru Hýmeneus og Alexander sem afneituðu trúnni, villtust frá sannleikanum og lastmæltu. (1. Tímóteusarbréf 1:20; 2. Tímóteusarbréf 2:17, 18) Fráhvarfsmenn, sem villast frá sannleikanum, berja ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ með orðum og eru í raun að bíta í höndina sem hefur nært þá andlega. Sumir líkjast ‚illa þjóninum‘ og segja óbeint: „Húsbónda mínum dvelst.“ (Matteus 24:44-49; 2. Tímóteusarbréf 4:14, 15) Þeir neita því að endir þessa illa heimskerfis sé í nánd og gagnrýna þjónshópinn fyrir andlega árvekni hans og fyrir að halda því vakandi fyrir fólki Jehóva að mikið liggi á. (Jesaja 1:3) Slíkum fráhvarfsmönnum tekst að „umhverfa trú sumra manna“ og valda andlegu skipbroti hjá þeim. — 2. Tímóteusarbréf 2:18.

8. Hvers vegna hafa sumir beðið skipbrot á trúnni eða sökkt trúarskipi sínu?

8 Aðrir vígðir kristnir menn hafa beðið skipbrot á trúnni með því að bæla niður samviskuna og sökkva sér niður í taumlausa skemmtanafíkn heimsins og siðleysi. (2. Pétursbréf 2:20-22) Og sumir sökkva trúarskipinu af því að þeim finnst ekki grilla í höfn nýja heimskerfisins við sjóndeildarhring. Þeir fresta ‚degi Jehóva‘ í huga sér og snúa baki við sannri tilbeiðslu af því að þeir geta ekki reiknað út hvenær vissir spádómar uppfyllast. (2. Pétursbréf 3:10-13; 1. Pétursbréf 1:9) Áður en varir eru þeir komnir aftur út á gruggugan ólgusjó núverandi heimskerfis. (Jesaja 17:12, 13; 57:20) Sumir hafa hætt að sækja samkomur kristna safnaðarins en trúa engu að síður að hann iðki hina sönnu trú. En það er greinilegt að þá skortir þolinmæði og úthald til að bíða nýja heimsins sem Jehóva Guð hefur lofað. Paradís kom ekki nógu fljótt fyrir þá.

9. Hvað gera fáeinir vígðir kristnir menn og hvað ættum við að hugsa um með hliðsjón af því?

9 Fáeinir vígðir kristnir menn sums staðar í heiminum virðast hafa rifað seglin á trúarskipi sínu. Skipið er enn á floti, en í stað þess að sigla fram í fullri trú eru þeir á skemmtisiglingu. Sumir voru tilbúnir að gera hvaðeina til að komast í paradís sem þeir vonuðust til að væri rétt framundan. Þeir voru kostgæfnir í boðunarstarfinu og sóttu allar samkomur og mót reglulega. En núna finnst þeim uppfylling vonarinnar vera fjær en þeir bjuggust við og eru ekki lengur tilbúnir að leggja jafnmikið á sig. Þetta kemur þannig fram að þeir hafa dregið úr prédikunarstarfinu, sækja samkomur óreglulega og eru tilbúnir til að missa að einhverju marki af mótunum. Sumir eru farnir að eyða meiri tíma en áður í að afla sér efnislegra gæða og skemmta sér. Þetta vekur okkur til umhugsunar um það hvað eigi að vera aflvakinn í lífi okkar sem erum vígð Jehóva. Ætti kostgæfni í þessari þjónustu að byggjast á því að við reiknum með að paradís sé alveg að renna upp?

Voninni líkt við akkeri

10, 11. Við hvað líkti Páll voninni og af hverju var það viðeigandi samlíking?

10 Páll bendir á að Jehóva hafi lofað blessun fyrir atbeina Abrahams. Síðan útskýrir hann: „Guð . . . ábyrgðist . . . heit sitt með eiði. Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs [orði hans og eiði], þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun, vér sem höfum leitað hælis í þeirri sælu von, sem vér eigum. Hún er eins og akkeri sálarinnar, traust og öruggt.“ (Hebreabréfið 6:17-19; 1. Mósebók 22:16-18) Smurðum kristnum mönnum er gefin von um ódauðleika á himnum en langflestir þjónar Jehóva hafa stórfenglega von um eilíft líf í paradís á jörð. (Lúkas 23:43) Án slíkrar vonar er ekki hægt að hafa trú.

11 Akkeri er mikilvægt öryggistæki. Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að skip reki. Enginn sjómaður fer akkerislaus úr höfn. Þar eð Páll hafði orðið skipreika nokkrum sinnum vissi hann af reynslunni að líf sjófarenda var oft undir akkerunum komið. (Postulasagan 27:29, 39, 40; 2. Korintubréf 11:25) Skip fyrstu aldar voru vélarlaus svo að skipstjóri gat ekki stýrt skipi sínu hvernig sem honum sýndist. Að undanskildum herskipum, sem var róið, voru skip fyrst og fremst háð vindum. Ef hætta var á að skip ræki upp í grýtta fjöru eða upp á sker átti skipstjóri ekki um annað að velja en að varpa akkerum og bíða af sér storminn. Hann varð að treysta því að akkerið missti ekki festu á sjávarbotninum. Páll kallaði því von kristins manns „akkeri sálarinnar, traust og öruggt.“ (Hebreabréfið 6:19) Þegar andstöðustormar bresta á eða við lendum í öðrum prófraunum er hin dýrlega von eins og akkeri sem gerir okkur stöðug svo að trúarskipið reki ekki upp á hættulegar efasemdagrynningar eða háskaleg fráhvarfssker. — Hebreabréfið 2:1; Júdasarbréfið 8-13.

12. Hvernig getum við hindrað að við föllum frá Jehóva?

12 Páll sagði kristnum Hebreum: „Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.“ (Hebreabréfið 3:12) Gríska orðið, sem þýtt er „falli frá,“ merkir bókstaflega „að halda sig í fjarlægð,“ það er að segja að afneita trúnni. En við getum forðast svona algert skipbrot. Trú og von gera okkur kleift að halda okkur við Jehóva jafnvel í mestu prófraunastormum. (5. Mósebók 4:4; 30:19, 20) Trú okkar verður þá ekki eins og skip sem hrekst fram og aftur af fráhvarfskenningavindum. (Efesusbréfið 4:13, 14) Og með vonina að akkeri getum við, sem erum þjónar Jehóva, staðið af okkur storma lífsins.

Knúin af kærleika og heilögum anda

13, 14. (a) Af hverju nægir akkeri vonarinnar ekki eitt og sér? (b) Hvaða hvöt ætti að búa að baki heilagar þjónustu við Jehóva og hvers vegna?

13 Kristnum manni miðar ekki í átt til nýja heimskerfisins ef hann þjónar Jehóva aðeins í von um að lifa að eilífu í paradís á jörð. Auk þess að láta akkeri vonarinnar veita sér stöðugleika í lífinu þarf hann að leggja kraft kærleikans við það og við trú sína. Páll undirstrikaði það þegar hann skrifaði: „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ — 1. Korintubréf 13:13.

14 Hvötin að baki heilagri þjónustu okkar ætti að vera innilegur kærleikur til Jehóva sem kviknar af óendanlegum kærleika hans til okkar. Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8, 9, 19) Vegna þakklætis til Jehóva ættum við ekki að láta okkur fyrst og fremst umhugað um eigið hjálpræði, heldur að verða vitni að því að heilagt nafn hans helgist og réttlátt drottinvald hans verði upphafið.

15. Hvernig er kærleikur til Jehóva tengdur spurningunni um drottinvald hans?

15 Jehóva vill að við þjónum sér af því að við elskum hann, ekki aðeins paradís. Biblíualfræðibókin Insight on the Scriptures * segir: „Jehóva gleðst yfir því að drottinvald hans og stuðningur sköpunarvera hans við það byggist fyrst og fremst á kærleika. Hann sækist aðeins eftir þeim sem elska drottinvald hans vegna góðra eiginleika hans og vegna þess að það er réttlátt, það er að segja þeim sem taka drottinvald hans fram yfir allt annað. (1Kor 2:9) Þeir velja að þjóna undir drottinvaldi hans í stað þess að reyna að vera sjálfstæðir vegna þess að þeir þekkja hann og kærleika hans, réttvísi og visku sem þeir vita að er miklu meiri en þeirra eigin. (Sl 84:11, 12)“ — 2. bindi, bls. 275.

16. Hvernig er kærleikur til Jehóva aflvaki í lífi okkar?

16 Við elskum líka Jesú vegna kærleika hans til okkar. Páll færði fram þessa röksemd: „Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Kristur er undirstaðan sem andlegt líf okkar, trú og von hvílir á. Kærleikur okkar til Krists Jesú gerir von okkar styrka og trúna stöðuga, einkum í stormasömum prófraunum. — 1. Korintubréf 3:11; Kólossubréfið 1:23; 2:6, 7.

17. Hvaða kraft veitir Jehóva okkur og hvernig kemur það fram í Postulasögunni 1:8 og Efesusbréfinu 3:16?

17 Enda þótt kærleikur til Jehóva Guðs og sonar hans sé aðalaflvakinn í lífi kristinna manna veitir Jehóva þeim annað sem knýr þá, veitir þeim kraft og gefur styrk til að halda áfram í þjónustu hans. Það er starfskraftur hans, heilagur andi. Hebresku og grísku orðin, sem þýdd eru „andi,“ lýsa í meginatriðum hreyfingum loftsins, svo sem vindinum. Seglskip, eins og Páll ferðaðist með, notuðu ósýnilegan vindkraft til að komast leiðar sinnar. Eins þurfum við kærleika Guðs og ósýnilegan starfskraft til að trúarskipið ferji okkur áfram í þjónustu hans. — Postulasagan 1:8; Efesusbréfið 3:16.

Í átt að áfangastað!

18. Hvað gerir okkur kleift að standast trúarprófraunir framtíðarinnar?

18 Það getur reynt mikið á trú okkar og kærleika áður en við náum í höfn nýja heimsins. En Jehóva hefur gefið okkur akkeri sem er bæði „traust og öruggt“ — hina stórkostlegu von. (Hebreabréfið 6:19; Rómverjabréfið 15:4, 13) Þegar andstaða eða aðrar prófraunir bresta á getum við haldið út ef við liggjum fyrir öruggu akkeri vonarinnar. Eftir að storminn lægir og áður en annar stormur skellur á skulum við vera ákveðin í að styrkja vonina og efla trúna.

19. Hvernig getum við haldið trúarskipinu á réttri stefnu og náð í höfn í nýjum heimi Guðs?

19 Áður en Páll nefndi „akkeri sálarinnar“ sagði hann: „Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan [„auki hraðann,“ NW, neðanmáls] allt til enda, þar til von yðar fullkomnast. Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.“ (Hebreabréfið 6:11, 12) Við skulum vera knúin af kærleika til Jehóva og sonar hans og sækja kraft til heilags anda, og halda skipi trúarinnar á réttri stefnu uns við náum höfn í fyrirheitnum nýjum heimi Guðs.

Til upprifjunar

◻ Hverju varar Páll við í sambandi við trú okkar?

◻ Hvernig hafa sumir beðið andlegt skipbrot og hvernig hafa sumir hægt á sér?

◻ Hvaða eiginleiki þarf að vera samfara trúnni?

◻ Hvað gerir okkur kleift að ná í höfn í fyrirheitnum nýjum heimi Guðs?

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Skip trúarinnar þarf að vera vel smíðað til að standa af sér storma lífsins.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Við getum beðið skipbrot á trúnni.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Vonin er akkeri í lífi kristinna manna.