Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gerið líf ykkar farsælt!

Gerið líf ykkar farsælt!

Gerið líf ykkar farsælt!

„Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra . . . Allt er hann gjörir lánast honum.“ — SÁLMUR 1:1, 3.

1. (a) Hvernig líta margir unglingar í heiminum á farsæld og velgengni? (b) Hvernig lýsir Biblían farsælum manni?

 HVAÐ merkja orðin farsæld og velgengni í huga þér? „Mikilvægasta markmið mitt er að komast áfram í viðskiptaheiminum,“ sagði ungur maður. „Mig dreymir um hamingjusamt fjölskyldulíf,“ segir unglingsstúlka. Og önnur unglingsstúlka segir: „Mig dreymir bara um að eignast notalega blokkaríbúð og góðan bíl . . . Ég hugsa aðallega um sjálfa mig.“ En gallinn er bara sá að hvorki peningar, fjölskylda né vel launað starf er mælikvarði á raunverulega farsæld eða velgengni. Við lesum í Sálmi 1:1-3: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, . . . heldur hefir yndi af lögmáli [Jehóva] . . . Allt er hann gjörir lánast honum.“

2. Hvar er raunverulega farsæld að finna og hver er eina leiðin til að hljóta hana?

2 Biblían er að lofa raunverulegri farsæld og velgengni og það er meira en nokkur maður getur boðið. En þar er ekki um fjárhagslegan ávinning að ræða. Biblían segir í viðvörunartón að ‚fégirndin sé rót alls þess sem illt er.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:10) Raunveruleg farsæld er fólgin í því að þóknast Jehóva Guði, þar á meðal að fylgja lögmáli hans eða lögum. Það er það eina sem getur veitt fólki raunverulega lífsfyllingu og sanna hamingju. Það virðist kannski ekki spennandi hugmynd að lúta lögum Jehóva og láta segja sér fyrir verkum, en Jesús sagði: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, NW) Hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eða ekki varstu skapaður með andlegar þarfir, þar á meðal djúpstæða þörf fyrir að þekkja Guð og skilja tilgang hans. Þess vegna nýturðu ekki sannrar hamingju nema þú fullnægir þessum þörfum og fylgir ‚lögmáli Jehóva.‘

Við þörfnumst laga Guðs

3. Af hverju ættum við fúslega að láta Jehóva ‚stýra skrefum okkar‘?

3 Spámaðurinn Jeremía skrifaði: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Þetta gildir um alla menn, jafnt unga sem gamla. Það er ekki aðeins að okkur skorti visku, reynslu og þekkingu til að stýra skrefum okkar heldur höfum við hreinlega ekki rétt til þess. Biblían segir í Opinberunarbókinni 4:11: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Jehóva er skapari okkar og „uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Þar af leiðandi veit hann betur en nokkur annar hvernig við eigum að nota líf okkar. Hann setti lög og lögmál, ekki til að ræna okkur gleðinni heldur til gagns fyrir okkur. (Jesaja 48:17) Það er ávísun á vandræði ef þú virðir þessi lög að vettugi.

4. Af hverju eyðileggja svo margir unglingar líf sitt?

4 Hefurðu til dæmis velt fyrir þér hvers vegna svona margir unglingar eyðileggja líf sitt með fíkniefnum, lauslæti og öðrum löstum? Sálmur 36:2, 3 segir: „Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans. Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.“ Margt ungt fólk skortir heilbrigðan ‚guðsótta‘ og telur sér trú um að hættuleg hegðun hafi engar afleiðingar. En að lokum neyðist það til að horfast í augu við þá óbreytanlegu meginreglu að „það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.“ — Galatabréfið 6:7, 8.

‚Að telja daga okkar‘

5, 6. (a) Hvers vegna ættu unglingar að ‚telja daga sína‘ og hvað merkir það? (b) Hvað merkir það að ‚muna eftir skapara sínum‘?

5 Hvernig geturðu gert líf þitt farsælt og ‚uppskorið eilíft líf‘? Móse skrifaði: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, . . . því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ (Sálmur 90:10) Sennilega hugsarðu sjaldan eða aldrei um dauðann. Margir unglingar hegða sér reyndar eins og ekkert geti orðið þeim að meini. En Móse fær okkur til að horfast í augu við þann sársaukafulla veruleika að lífið er stutt. Það er ekki einu sinni tryggt að við náum að verða 70 eða 80 ára. „Tími og tilviljun“ getur orðið jafnvel ungu og hraustu fólki að aldurtila. (Prédikarinn 9:11) Hvernig ætlarðu þá að nota hið dýrmæta líf sem þú átt? Móse bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ — Sálmur 90:12.

6 Hvað er átt við með því að telja daga okkar? Það merkir ekki að vera gagntekinn af hugsuninni um hve lengi maður geti lifað. Móse var að biðja Jehóva að kenna fólki sínu að nota þá daga, sem það ætti ólifaða, honum til heiðurs. Telur þú ævidaga þína? Líturðu á hvern dag sem verðmæta auðlind sem nota ber Guði til lofs? Biblían hvetur unga fólkið: „Hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful. Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ (Prédikarinn 11:10–12:1) Að muna eftir skapara sínum er meira en aðeins að gleyma ekki að hann er til. Þegar afbrotamaðurinn sárbændi Jesú: „Minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“ var hann ekki að hugsa um það eitt að Jesús myndi hvað hann héti, heldur að hann reisti hann upp frá dauðum. (Lúkas 23:42; samanber 1. Mósebók 40:14, 23; Jobsbók 14:13.) Að muna eftir Jehóva felur einnig í sér að láta verkin tala, að gera það sem þóknast honum. Geturðu sagt að þú munir eftir Jehóva?

Öfundaðu ekki óguðlega

7. Af hverju kjósa sumir unglingar að gleyma skapara sínum? Nefndu dæmi.

7 Margt ungt fólk kýs að gleyma Jehóva vegna þess að því finnst það hefta athafnafrelsi sitt um of að vera vottur. Bróðir á Spáni minnist þess hvernig honum var innanbrjósts þegar hann var unglingur: „Heimurinn togaði í mig af því að sannleikurinn virtist erfiður og strangur. Maður þurfti að sitja, nema, fara á samkomur og hnýta á sig bindi og mér fannst það ekkert gaman.“ Finnst þér þú stundum fara á mis við eitthvað, af því að þú þjónar Guði? Það kemur þér kannski á óvart að einum af biblíuriturunum leið þannig. Opnaðu Biblíuna og lestu Sálm 73.

8. Hvers vegna öfundaði Asaf hina hrokafullu?

8 Lítum nánar á sálminn. Annað og þriðja versið segja: „Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi, því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.“ Yfirskriftin segir að þetta sé sálmur Asafs. Hann var levíti og tónlistarmaður og var samtíða Davíð konungi. (1. Kroníkubók 25:1, 2; 2. Kroníkubók 29:30) Þótt hann hefði þau sérréttindi að þjóna í musteri Guðs ‚fylltist hann gremju‘ og öfund út í þá sem gortuðu af lögleysi sínu. Þeim virtist ganga allt í haginn og þeir virtust búa við frið og öryggi. Reyndar virtist velgengni þeirra „ganga fram úr öllu hófi.“ (Vers 5, 7) Þeir töluðu „í mikilmennsku“ og yfirlæti um afrek sín. (Vers 8) ‚Þeir snertu himininn með munni sínum og tunga þeirra var tíðförul um jörðina‘ án þess að skeyta um nokkurn á himni eða jörð. — Vers 9.

9. Hvernig gæti kristnum unglingi verið innanbrjóst eins og Asaf?

9 Þú getur kannski sagt eitthvað svipað um skólafélagana. Þú heyrir þá gorta óskammfeilna af kynlífsævintýrum sínum, taumlausum partíum, drykkju og fíkniefnaneyslu. Þegar þú berð líferni þeirra og svokallaða skemmtun saman við mjóa veginn, sem þú þarft að ganga af því að þú ert kristinn, ‚fyllist þú kannski gremju í garð hinna hrokafullu‘ og finnur til öfundar. (Matteus 7:13, 14) Það gekk svo langt hjá Asaf að hann sagði: „Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi, ég þjáist allan daginn.“ (Vers 13, 14) Já, hann fór að efast um gildi þess að þjóna Guði og vera ráðvandur.

10, 11. (a) Hvað olli hugarfarsbreytingu hjá Asaf? (b) Hvernig standa óguðlegir ‚á sleipri jörð‘? Nefndu dæmi.

10 Sem betur fer sótti þessi depurð ekki lengi á Asaf. Það rann fljótlega upp fyrir honum að sýndarfriður hinna guðlausu var blekkingin ein, og það skammvinn blekking. „Vissulega setur þú þá á sleipa jörð,“ sagði hann, „þú lætur þá falla í rústir. Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.“ (Vers 18, 19) Margir af jafnöldrum þínum standa líka ‚á sleipri jörð.‘ Fyrr eða síðar fá þeir að kenna á óguðlegu hátterni sínu, kannski með óæskilegri þungun, kynsjúkdómi, jafnvel fangavist eða dauða! Og það sem verra er — þeir eru fjarlægir Guði. — Jakobsbréfið 4:4.

11 Ung vottastúlka á Spáni kynntist þessu af eigin raun. Sem unglingur lifði hún tvöföldu lífi og hafði mikla umgengni við hóp guðlausra unglinga. Ekki leið á löngu áður en hún varð ástfangin af einum þeirra sem var fíkniefnaneytandi. Sjálf neytti hún ekki fíkniefna en keypti þau handa honum. „Ég hjálpaði honum jafnvel að stinga nálinni í sig,“ viðurkennir hún. Sem betur fór tókst að koma vitinu fyrir þessa systur og koma henni aftur til andlegrar heilsu. En óneitanlega var henni brugðið þegar hún frétti nokkru síðar að vinur hennar, fíkniefnaneytandinn, væri dáinn úr alnæmi. Já, eins og sálmaritarinn sagði standa guðlausir menn ‚á sleipri jörð.‘ Sumir deyja óvænt vegna lífernis síns. Um hina er það að segja að bráðlega opinberast „Drottinn Jesús . . . af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8.

12. Hvernig áttaði ungur bróðir í Japan sig á því að það væri heimskulegt að öfunda óguðlega?

12 Það er því heimskulegt að öfunda ‚þá sem þekkja ekki Guð.‘ Það eru þeir sem þekkja Jehóva og eiga von um eilíft líf sem eru öfundsverðir. Þetta rann upp fyrir ungum bróður í Japan. Hann hafði líka „langað í meira frjálsræði“ á unglingsárunum. „Mér fannst ég fara á mis við eitthvað,“ segir hann. „En þá áttaði ég mig á því hvernig lífið yrði án sannleikans. Ég gat séð sjálfan mig lifa í 70 eða 80 ár og deyja svo. En Jehóva gefur okkur von um eilíft líf! Þegar ég áttaði mig á því skildi ég hvað ég raunverulega átti.“ Hvað sem því líður er ekki auðvelt að vera trúfastur þegar maður er umkringdur fólki sem fylgir ekki lögum Guðs. Hvað er hægt að gera til að standast þetta álag?

Gættu að félagsskapnum!

13, 14. Af hverju er mikilvægt að vera vandfýsinn á félagsskap?

13 Snúum okkur aftur að lýsingunni á farsæla manninum í Sálmi 1:1-3: „Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði, heldur hefir yndi af lögmáli [Jehóva] og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“

14 Taktu fyrst eftir að félagsskapurinn hefur mikil áhrif. Orðskviðirnir 13:20 segja: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Þetta þýðir ekki að þú eigir að vera kuldalegur, óvingjarnlegur eða ruddalegur við unglinga sem eru ekki vottar Jehóva. Biblían hvetur okkur til að elska náungann og ‚hafa frið við alla menn.‘ (Rómverjabréfið 12:18; Matteus 22:39) En þú uppgötvar kannski að þú ‚ferð að ráðum‘ þeirra sem ekki fylgja lífsreglum Biblíunnar ef þú átt of náið samneyti við þá.

Biblíulestur er gagnlegur

15. Hvernig geta unglingar byggt upp löngun í biblíulestur?

15 Sálmaritarinn getur þess einnig að farsæll maður hafi yndi af því að lesa og hugleiða lögmál Guðs „dag og nótt.“ (Sálmur 1:1, 2) Biblían er ekki létt lesefni og sumt er „þungskilið“ í henni. (2. Pétursbréf 3:16) En biblíulestur þarf ekki að vera leiðinlegur. Það er hægt að ‚sækjast eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk‘ í orði Guðs og byggja upp löngun í hana. (1. Pétursbréf 2:2) Reyndu að lesa svolítið á hverjum degi. Rannsakaðu málið ef þú skilur ekki eitthvað. Veltu svo fyrir þér því sem þú hefur lesið. (Sálmur 77:12, 13) Ef þú átt erfitt með að einbeita þér skaltu prófa að lesa í hálfum hljóðum. Þú getur treyst að löngun þín í biblíulestur vex. „Mér fannst Jehóva alltaf svo fjarlægur,“ segir ung systir í Brasilíu. „En nú hef ég í nokkra mánuði verið að bæta einkanám og biblíulestur. Nú finnst mér ég eiga sterkara samband við Jehóva. Hann er mér raunverulegri.“

16. Hvernig getum við haft meira gagn af safnaðarsamkomum?

16 Það er líka mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur til að vaxa andlega. Ef þú ‚gætir að hvernig þú heyrir‘ getur það verið mjög hvetjandi fyrir þig. (Lúkas 8:18) Finnst þér stundum að samkomurnar séu ekki sérlega skemmtilegar? Spyrðu þá sjálfan þig hvað þú gerir til að gera samkomurnar skemmtilegar. Fylgistu með? Undirbýrðu þig? Svarar þú? Biblían segir okkur að ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka og uppörva hver annan.‘ (Hebreabréfið 10:24, 25) Til þess þarftu að taka þátt í samkomunum. Og auðvitað þarftu að nema fyrir fram til að geta tekið þátt í þeim. Ung systir viðurkennir: „Það er miklu auðveldara að taka þátt í samkomunum þegar maður undirbýr sig fyrir þær.“

Það er til farsældar að fylgja vegi Guðs

17. Af hverju er sá maður, sem er iðinn að lesa í Biblíunni, „sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum“?

17 Sálmaritarinn heldur áfram og segir að farsæll maður sé „sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum.“ Vera má að þessir rennandi lækir hafi verið áveituskurðir sem notaðir voru til að vökva aldingarða. (Jesaja 44:4) Daglegur biblíulestur er eins og óbrigðul uppspretta næringar og hressingar. (Jeremía 17:8) Þú færð daglega þann styrk sem þú þarft til að standast prófraunir og erfiðleika. Þegar þú veist hvernig Jehóva hugsar býrðu yfir þeirri visku sem þarf til að taka viturlegar ákvarðanir.

18. Hvað getur tryggt ungu fólki farsæld í þjónustu Jehóva?

18 Stundum getur virst erfitt að þjóna Jehóva en láttu þér aldrei finnast það vera þér um megn. (5. Mósebók 30:11) Biblían lofar því að til langs tíma litið ‚lánist þér allt sem þú gerir,‘ svo framarlega sem það er aðalmarkmið þitt að þóknast Jehóva og gleðja hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Og mundu að þú þarft ekki að gera það einsamall heldur nýturðu stuðnings Jehóva og Jesú Krists. (Matteus 28:20; Hebreabréfið 13:5) Þeir vita hvers konar álag þú þarft að þola og þeir yfirgefa þig aldrei. (Sálmur 55:23) Þú hefur líka stuðning alls ‚bræðrafélagsins‘ og foreldra þinna ef þeir eru guðhræddir. (1. Pétursbréf 2:17) Með slíkan bakhjarl og með einbeitni þinni og viðleitni getur þú gert líf þitt farsælt bæði nú og um alla eilífð!

Spurningar til upprifjunar

◻ Hvað er raunveruleg farsæld og velgengni?

◻ Af hverju þurfum við að láta Jehóva stýra skrefum okkar?

◻ Hvernig geta unglingar ‚talið daga sína‘?

◻ Af hverju er heimskulegt að öfunda óguðlega?

◻ Hvernig getur daglegur biblíulestur og regluleg samkomusókn hjálpað unglingum að gera líf sitt farsælt?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Skaðlegt atferli margra unglinga stafar af því að þá skortir heilbrigðan ‚guðsótta.‘

[Mynd á blaðsíðu 30]

Unglingar gleyma oft að hegðun þeirra hefur afleiðingar.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Byggðu upp löngun í biblíulestur.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Þú hefur meira gaman af samkomunum ef þú tekur þátt í þeim.