Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva undirbýr veginn

Jehóva undirbýr veginn

Jehóva undirbýr veginn

„Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað.“ — MATTEUS 24:14.

1. Hverju hefur prédikunarstarfið áorkað, bæði á fyrstu öld og þeirri tuttugustu?

 JEHÓVA er Guð kærleikans og vill að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Til þess hefur þurft að prédika og kenna um heim allan. Þessi prédikun varð þess valdandi á fyrstu öld að kristni söfnuðurinn varð „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tímóteusarbréf 3:15) Síðan gekk í garð langt fráhvarfstímabil og ljós sannleikans dofnaði mjög. „Þekkingin“ hefur vaxið á nýjan leik núna á ‚endalokatímanum‘ og fært milljónum manna von Biblíunnar um eilíft hjálpræði. — Daníel 12:4.

2. Hvað hefur Jehóva gert í sambandi við prédikunarstarfið?

2 Þrátt fyrir látlausar tilraunir Satans til að hindra að tilgangur Guðs nái fram að ganga hefur prédikunarstarfið skilað ótrúlegum árangri, jafnt á 20. öld sem þeirri fyrstu. Það minnir á spádóm Jesaja. Hann skrifaði um heimkomu Gyðinganna úr útlegð á sjöttu öld f.o.t.: „Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum!“ (Jesaja 40:4) Jehóva sléttaði og undirbjó veginn fyrir hina miklu prédikunarherferð fyrstu aldar og þeirrar tuttugustu.

3. Hvernig hefur Jehóva getað náð fram tilgangi sínum?

3 Þetta þýðir ekki að Jehóva hafi haft bein áhrif á allt sem gerst hefur á jörðinni til að efla framgang prédikunarstarfsins, og það merkir ekki að hann hafi beitt framsýni sinni til að sjá fyrir í smáatriðum hvað gerast myndi. Auðvitað er hann bæði fær um að sjá framtíðina fyrir og stýra ókomnum atburðum. (Jesaja 46:9-11) En hann er líka fær um að bregðast við framvindu mála eins og hún gerist á hverjum tíma. Jehóva leiðbeinir fólki sínu líkt og reyndur fjárhirðir sem kann bæði að stjórna hjörðinni og vernda hana. Hann leiðir það til hjálpræðis, verndar andlegt hugarfar þess og fær það til að notfæra sér aðstæður og þróun sem stuðla að árangursríkri prédikun fagnaðarerindisins um allan heim. — Sálmur 23:1-4.

Erfitt verkefni

4, 5. Af hverju hefur prédikun fagnaðarerindisins reynst krefjandi verkefni?

4 Prédikun Guðsríkis hefur verið geysilega viðamikið verkefni bæði á fyrstu öld og nú, ekki ósvipað og smíði arkarinnar á dögum Nóa. Það er nógu erfitt að koma einhverjum boðskap til allra manna, en þetta verkefni er sérstaklega krefjandi. Lærisveinarnir voru tiltölulega fáir á fyrstu öld. Leiðtogi þeirra, Jesús, hafði verið tekinn af lífi fyrir meintan uppreisnaráróður. Gyðingatrúin var gömul og gróin. Tilkomumikið musteri stóð í Jerúsalem. Önnur trúarbrögð við Miðjarðarhaf voru einnig rótgróin og áttu sér hof og prestastétt. Þegar ‚endalokatíminn‘ hófst árið 1914 voru smurðir kristnir menn einnig fáir að tölu í samanburði við áhangendur annarra trúarbragða sem sögðust þjóna Guði. — Daníel 12:9.

5 Jesús varaði fylgjendur sína við ofsóknum og sagði: „Menn [munu] framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Ofan á þetta myndu kristnir menn búa við „örðugar tíðir,“ einkum á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Prédikunarstarfið hefur reynst erfitt og krefjandi sökum umfangs, ofsókna og erfiðra tíma og hefur kallað á sterka trú.

6. Hvernig fullvissaði Jehóva fólk sitt um árangur?

6 Þótt Jehóva vissi að erfiðleikar væru framundan vissi hann jafnframt að ekkert gæti stöðvað starfið. Árangrinum var lýst fyrirfram í þekktum spádómi sem hefur ræst með ótrúlegum hætti bæði á fyrstu öld og þeirri tuttugustu: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina.“ — Matteus 24:14.

7. Hve umfangsmikil var prédikunin á fyrstu öld?

7 Þjónar Guðs á fyrstu öld gengu fram til verks fullir trúar og heilags anda. Jehóva var með þeim svo að árangurinn var miklu meiri en þeir höfðu ímyndað sér. Þegar Páll skrifaði Kólossumönnum um 27 árum eftir dauða Jesú gat hann sagt að fagnaðarerindið hefði verið „prédikað . . . fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:23) Til samanburðar er fagnaðarerindið prédikað í 233 löndum núna undir lok tuttugustu aldarinnar.

8. Við hvers konar aðstæður hafa margir tekið við fagnaðarerindinu? Nefndu dæmi.

8 Milljónir manna hafa tekið við fagnaðarerindinu á síðustu áratugum. Margir hafa gert það við erfiðar aðstæður, svo sem á tímum stríðs, grimmilegra ofsókna eða banna. Þannig var það líka á fyrstu öldinni. Einu sinni voru Páll og Sílas húðstrýktir grimmilega og varpað í fangelsi. Fangelsið var ekki beinlínis líklegur staður til að gera menn að lærisveinum. En Jehóva notaði aðstæðurnar einmitt til þess. Páli og Sílasi var sleppt og fangavörðurinn tók trú ásamt fjölskyldu sinni. (Postulasagan 16:19-33) Dæmi sem þetta sýnir að andstæðingar fagnaðarerindisins geta ekki stöðvað framgang þess. (Jesaja 54:17) En saga kristninnar hefur ekki verið óslitinn fjandskapur og ofsóknir. Beinum nú athyglinni að jákvæðri framvindu sem hefur greitt fyrir prédikun fagnaðarerindisins, bæði á fyrstu öld og þeirri tuttugustu.

Trúarumhverfið

9, 10. Hvernig skapaði Jehóva eftirvæntingu í tengslum við prédikun fagnaðarerindisins, bæði á fyrstu öld og þeirri tuttugustu?

9 Lítum á tímasetningu hinna alþjóðlegu prédikunarherferða. Um fyrstu öldina er það að segja að spádómurinn um áravikurnar sjötíu í Daníel 9:24-27 tímasetti hvenær Messías átti að koma fram — árið 29. Þótt Gyðingar á fyrstu öld hafi ekki skilið tímasetninguna nákvæmlega voru þeir eftirvæntingarfullir og biðu Messíasar. (Lúkas 3:15) Franska handbókin Manuel Biblique segir: „Fólk vissi að áravikunum sjötíu, sem Daníel tiltók, var að ljúka og það kom engum á óvart að heyra Jóhannes skírara boða að Guðsríki væri í nánd.“

10 Hvað um nútímann? Það var merkisatburður er Jesús settist í hásæti á himnum og nærvera hans hófst sem konungur Guðsríkis. Biblíuspádómarnir sýna að það gerðist árið 1914. (Daníel 4:13-17) Margt trúhneigt fólk fylltist eftirvæntingu vegna þessa atburðar. Eftirvæntingin var líka greinileg meðal hinna einlægu Biblíunemenda sem hófu útgáfu þessa tímarits árið 1879. Það hét þá Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists. Trúarlegar væntingar undirbjuggu því veginn fyrir prédikun fagnaðarerindisins, bæði á fyrstu öld og okkar tímum. *

11. Hvaða trúarleg undirstaða var prédikun fagnaðarerindisins til framdráttar?

11 Annað auðveldaði kristnum mönnum starf þeirra bæði fyrr og nú, og það var að margir voru vel kunnugir Heilagri ritningu. Á fyrstu öld voru Gyðingasamfélög dreifð meðal heiðingjaþjóðanna umhverfis. Þau áttu sér samkundur þangað sem fólk kom að staðaldri og heyrði Ritninguna lesna og rædda. Frumkristnir menn gátu því byggt á trúarlegri þekkingu fólks. (Postulasagan 8:28-36; 17:1, 2) Snemma á okkar tímum bjó fólk Jehóva við svipaðar aðstæður víða um lönd. Biblían var fáanleg víðast hvar í kristna heiminum, einkum í löndum mótmælenda. Hún var lesin í mörgum kirkjum og milljónir manna áttu hana. Menn voru með Biblíuna í höndunum en þurftu hjálp til að skilja það sem í henni stóð.

Landslög hafa gert sitt gagn

12. Hvernig voru rómversk lög að jafnaði til verndar á fyrstu öld?

12 Landslög hafa oft á tíðum greitt fyrir prédikun kristinna manna. Rómaveldi hafði bæði tögl og hagldir í heimi fyrstu aldar og skráð lög Rómverja höfðu djúpstæð áhrif á daglegt líf manna. Lögin tryggðu vissa vernd sem frumkristnir menn nutu góðs af. Til dæmis skírskotaði Páll til rómverskra laga sem varð til þess að honum var sleppt úr fangelsi og hætt var við að húðstrýkja hann. (Postulasagan 16:37-39; 22:25, 29) Með skírskotun til rómverskra lagaákvæða tókst að róa æstan múg í Efesus. (Postulasagan 19:35-40) Einu sinni var Páli bjargað frá lífláti í Jerúsalem af því að hann var rómverskur ríkisborgari. (Postulasagan 23:27) Síðar gat hann notfært sér rómversk lög til að verja trú sína frammi fyrir keisaranum. (Postulasagan 25:11) Þótt sumir keisaranna hafi verið harðstjórar gátu kristnir menn á fyrstu öld yfirleitt notfært sér lögin til að „verja fagnaðarerindið og staðfesta það.“ — Filippíbréfið 1:7.

13. Hvernig hafa lög oft reynst pédikunarstarfinu hliðholl á okkar tímum?

13 Hið sama er uppi á tengingnum núna víða um heim. Þótt reynt hafi verið að ‚búa mönnum tjón undir yfirskini réttarins‘ er trúfrelsi víðast hvar lögtryggð grundvallarréttindi. (Sálmur 94:20) Stjórnvöldum víða um lönd er ljóst að vottar Jehóva ógna ekki þjóðfélaginu og hafa veitt okkur lagalega viðurkenningu. Í Bandaríkjunum, þar sem vottarnir hafa prentað stóran hluta af ritum sínum, hafa landslög gert þeim kleift að gefa Varðturninn út í 120 ár samfleytt og dreifa honum um heim allan.

Tímar friðar og umburðarlyndis

14, 15. Hvernig greiddi þjóðfélagslegur stöðugleiki fyrir prédikun fagnaðarerindisins á fyrstu öld?

14 Friðartímabil hafa einnig verið prédikunarstarfinu til framdráttar. Þótt Jesús hafi sagt réttilega fyrir að ‚þjóð myndi rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,‘ bæði á fyrstu öld og okkar, hafa verið kyrrlát tímabil þegar hægt hefur verið að prédika Guðsríki af krafti. (Matteus 24:7) Kristnir menn á fyrstu öld bjuggu við Rómarfriðinn, Pax Romana. Sagnfræðingur segir: „Róm hafði svo algerlega yfirbugað þjóðirnar umhverfis Miðjarðarhaf að endi var bundinn á aldalöng og nánast stöðug átök milli þeirra.“ Vegna þessa stöðugleika gátu frumkristnir menn ferðast sæmilega óhultir út um allt Rómaveldi.

15 Rómaveldi kappkostaði að sameina þjóðir undir styrkri stjórn sinni. Þessi stjórnarstefna var ekki aðeins hvati ferðalaga, umburðarlyndis og skoðanaskipta heldur einnig hugmynda um alþjóðlegt bræðralag. Bókin On the Road to Civilization segir: „Eining [Rómaveldis] skapaði hagstæð skilyrði [fyrir prédikun kristinna manna]. Landamæri milli þjóða höfðu verið brotin niður. Rómverskur ríkisborgari var heimsborgari. . . . Og trú, sem boðaði bræðralag manna, var skiljanleg í ríki sem hafði þróað hugmyndina um alþjóðlegan ríkisborgararétt.“ — Samanber Postulasöguna 10:34, 35; 1. Pétursbréf 2:17.

16, 17. Hvað hefur verið mönnum hvati til að vinna að friði nú á tímum og að hvaða niðurstöðu hafa margir komist?

16 Tuttugasta öldin hefur horft upp á verstu styrjaldir mannkynssögunnar og svæðisbundin stríð geisa enn í sumum löndum. (Opinberunarbókin 6:4) En það hafa líka komið tímabil þegar ríkt hefur þokkalegur friður. Helstu ríki heims hafa ekki háð allsherjarstríð hvert við annað í meira en 50 ár. Þetta ástand hefur greitt mjög fyrir prédikun fagnaðarerindisins í þessum löndum.

17 Hinar hryllilegu styrjaldir tuttugustu aldar hafa vakið marga til vitundar um þörfina á heimsstjórn. Óttinn við heimsstyrjöld leiddi til stofnunar Þjóðabandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. (Opinberunarbókin 13:14) Yfirlýst markmið þeirra beggja hefur verið friður og alþjóðasamvinna. Þeir sem skynja þessa þörf bregðast oft vel við fagnaðarerindinu um heimsstjórn, Guðsríki, sem koma mun á sönnum og varanlegum friði.

18. Hvaða afstaða til trúarbragða hefur reynst prédikunarstarfinu hagstæð?

18 Þótt kristnir menn hafi verið ofsóttir grimmilega, bæði á fyrstu öld og þeirri tuttugustu, hafa líka komið tímabil þegar umburðarlyndis hefur gætt í trúmálum. (Jóhannes 15:20; Postulasagan 9:31) Rómverjar tóku fúslega að sér guði og gyðjur þeirra þjóða sem þeir lögðu undir sig. Prófessor Rodney Stark skrifar: „Að mörgu leyti stuðlaði Róm að meira trúfrelsi en þekktist þar til eftir amerísku byltinguna.“ Á okkar tímum hefur fólk víða gerst opnara fyrir nýjum sjónarmiðum með þeim afleiðingum að það hefur verið fúst til að hlusta á boðskap Biblíunnar sem vottar Jehóva boða.

Hlutverk tækninnar

19. Hvernig notuðu frumkristnir menn sér bókina?

19 Að síðustu skulum við skoða hvernig Jehóva hefur gert fólki sínu kleift að nýta sér tækniframfarir. Þótt frumkristnir menn hafi ekki búið við örar tækniframfarir nýttu þeir sér eina uppfinningu. Þetta var bókin sem kom í stað hinnar ómeðfærilegu bókrollu. Bókin The Birth of the Codex segir: „Í veraldlegum bókmenntum var bókarformið lengi að bola bókrollunni burt ólíkt því sem gerðist hjá kristnum mönnum, en þar virðist bókin hvarvetna hafa verið tekin í notkun með hraði.“ Og áfram segir: „Bókin er orðin svo almenn meðal kristinna manna á annarri öld að hún hlýtur að hafa verið komin í notkun töluvert fyrir árið 100.“ Bókin var auðveldari í notkun en bókrollan, til dæmis var fljótlegra að fletta upp ritningarstöðum. Það hlýtur að hafa hjálpað frumkristnum mönnum að útskýra Ritninguna, eins og Páll gerði, og ‚sanna með tilvísunum‘ það sem þeir voru að kenna. — Postulasagan 17:2, 3, NW.

20. Hvernig hefur fólk Guðs notfært sér nútímatækni í prédikun sinni og hvers vegna?

20 Ótrúlegar tækniframfarir hafa orðið á okkar öld. Afkastamiklar prentvélar hafa gert að verkum að hægt er að gefa út biblíurit samtímis á tugum tungumála. Nútímatækni hefur flýtt fyrir biblíuþýðingum. Hægt er að flytja biblíurit með hraði um heim allan með flutningabílum, járnbrautum, skipum og flugvélum. Símar og bréfasímar hafa gert tafarlaus boðskipti að veruleika. Jehóva hefur beitt anda sínum til að láta þjóna sína notfæra sér slíka tækni til að stuðla að útbreiðslu fagnaðarerindisins um heim allan. Það er ekki löngun til að kunna á og nýta sér allt það nýjasta í heimi tækninnar sem rekur þá áfram, heldur hafa þeir fyrst og fremst áhuga á því sem hjálpar þeim að prédika fagnaðarerindið með sem áhrifaríkustum hætti.

21. Hverju megum við treysta?

21 Jesús sagði að ‚fagnaðarerindið um ríkið yrði prédikað um alla heimsbyggðina.‘ (Matteus 24:14) Við sjáum þennan spádóm uppfyllast í stórum stíl, alveg eins og frumkristnir menn gerðu. Þrátt fyrir að prédikun fagnaðarerindisins sé gríðarlega umfangsmikil og erfið hefur verið prédikað og er prédikað við hagstæð skilyrði og óhagstæð, bæði í stríði og friði, í breytilegu lagaumhverfi og á tímum mismunandi viðhorfa og tækniframfara. Fyllist þú ekki lotningu fyrir visku Jehóva og undraverðri framsýni? Við getum fullkomlega treyst að prédikunarstarfið verði fullgert samkvæmt tímaáætlun Jehóva, og að kærleiksríkur tilgangur hans nái fram að ganga til blessunar fyrir réttláta menn. Þeir munu eignast jörðina og búa á henni að eilífu. (Sálmur 37:29; Habakkuk 2:3) Ef við lögum líf okkar að tilgangi Jehóva verðum við þeirra á meðal. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

[Neðanmáls]

^ Ítarlegri skýringar á þessum tveim messíasarspádómum er að finna í bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs, bls. 36, 97 og 98-107, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Til upprifjunar

◻ Hvers vegna hefur prédikun fagnaðarerindisins reynst krefjandi verkefni?

◻ Hvernig hafa ráðstafanir stjórnvalda og þjóðfélagslegur stöðugleiki orðið starfi kristinna manna til framdráttar?

◻ Hvað er tryggt í sambandi við framvindu prédikunarstarfsins vegna blessunar Jehóva?

[Spurningar]