Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifðu í trú á fyrirheit Guðs

Lifðu í trú á fyrirheit Guðs

Lifðu í trú á fyrirheit Guðs

„Ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ — JESAJA 46:9, 10.

1, 2. Hvaða ólíkar skoðanir hafa menn á afskiptum Guðs af málefnum jarðar?

 HVE mikil afskipti hefur Guð af málefnum jarðar? Skoðanir eru skiptar. Sumir telja að hann hafi alls engin afskipti af jörðinni. Hann hafi skapað alla hluti en eftir það hafi hann annaðhvort ekki viljað gera neitt fyrir okkur eða ekki getað það. Samkvæmt þessari skoðun er Guð eins og faðir sem lætur son sinn fá nýtt reiðhjól, setur hann á bak, ýtir honum af stað eftir götunni og gengur svo burt. Drengurinn verður að bjarga sér sjálfur. Kannski dettur hann, kannski ekki, en faðirinn skiptir sér ekki meira af honum.

2 Aðrir telja að Guð stýri lífi okkar í smáu sem stóru og hafi bein afskipti af öllu sem gerist í sköpunarverki sínu. En ef það væri rétt mætti álykta sem svo að hann sé bæði orsök hins góða sem gerist en einnig þeirra glæpa og harmleikja sem hrjá mennina. Sannleikurinn um afskipti Guðs af mönnum sýnir okkur hvers við megum vænta af honum og styrkir jafnframt trú okkar að fyrirheit hans uppfyllist örugglega. — Hebreabréfið 11:1.

3. (a) Hvernig vitum við að Jehóva er Guð sem hefur tilgang? (b) Af hverju er talað um að Jehóva ‚ásetji sér‘ eða ‚hagi‘ tilgangi sínum svo og svo?

3 Svarið við spurningunni um afskipti Guðs af málefnum mannanna byggist á þeirri staðreynd að hann er Guð sem hefur tilgang. Það er meira að segja gefið í skyn í nafni hans, „Jehóva,“ sem merkir „hann kemur til leiðar.“ Jafnt og þétt kemur hann því til leiðar að öll fyrirheit hans uppfyllast. Það er því talað um að hann ‚ásetji sér‘ eða ‚hagi‘ tilgangi sínum svo og svo í sambandi við atburði eða athafnir framtíðarinnar. (2. Konungabók 19:25; Jesaja 46:11) Þessi orð eru þýðing hebreska orðsins jatsarʹ en það er skylt orði sem merkir „leirkerasmiður.“ (Jeremía 18:4) Á sama hátt og fær leirkerasmiður getur gert fallegan vasa úr leirklumpi, eins getur Jehóva mótað atburði eða stýrt þeim svo að þeir þjóni vilja hans. — Efesusbréfið 1:11.

4. Hvernig bjó Guð jörðina undir ábúð manna?

4 Til dæmis var það ætlun Guðs að jörðin yrði undurfögur og yrði byggð fullkomnum og hlýðnum mönnum. (Jesaja 45:18) Löngu áður en hann skapaði fyrsta manninn og fyrstu konuna bjó hann í haginn fyrir þau. Fyrstu kaflar 1. Mósebókar lýsa hvernig Jehóva gerði dag og nótt og sjó og þurrlendi. Því næst skapaði hann gróðurinn og dýrin. Þessi undirbúningur undir ábúð mannsins tók mörg þúsund ár. Verkið tókst með ágætum. Fyrsti maðurinn og fyrsta konan hófu ævina í Eden, unaðslegri paradís með öllu sem þurfti til að þau gætu notið lífsins. (1. Mósebók 1:31) Jehóva hafði því bein afskipti af málefnum jarðarinnar og hagaði verkum sínum jafnt og þétt þannig að þessi göfugi tilgangur næðist. Breyttist tilgangur hans þegar mönnunum fjölgaði?

Jehóva takmarkar afskipti sín af mönnum

5, 6. Hvers vegna takmarkar Guð afskipti sín af mönnum?

5 Þótt Jehóva hafi vald til, stýrir hann ekki verkum mannanna í smáatriðum. Það eru ástæður fyrir því. Ein ástæðan er sú að mennirnir voru skapaðir í mynd hans, með frjálsan vilja og siðferðisvitund. Jehóva neyðir okkur ekki til að þjóna sér og við erum ekki strengjabrúður hans. (5. Mósebók 30:19, 20; Jósúabók 24:15) Þótt hann geri okkur ábyrg verka okkar hefur hann veitt okkur töluvert svigrúm til að ákveða hvernig við högum lífi okkar. — Rómverjabréfið 14:12; Hebreabréfið 4:13.

6 Önnur ástæða fyrir því að Guð stýrir ekki öllu sem gerist er tengd deilumálinu sem Satan vakti upp í Eden. Satan véfengdi drottinvald Guðs. Hann bauð Evu það sem hún hélt vera tækifæri til sjálfstæðis, og síðar þáðu bæði hún og Adam, eiginmaður hennar, boðið. (1. Mósebók 3:1-6) Guð brást þannig við að hann leyfði mönnum að stjórna sér sjálfir um hríð til að sýna fram á hvort ögranir Satans væru réttlætanlegar. Þess vegna er ekki hægt að kenna Guði um það ranga sem fólk gerir nú á dögum. Móse skrifaði um uppreisnargjarna þjóð: „Þeirra eigin svívirðing spillti þeim fyrir honum [Guði]; þeir eru ekki hans börn, sú umhverfa og öfuga þjóð.“ — 5. Mósebók 32:5, Biblían 1859.

7. Hver er tilgangur Jehóva með jörðina og mannkynið?

7 En þótt Jehóva hafi gefið mönnum frjálst val og leyft þeim að reyna fyrir sér með sjálfstætt stjórnarfar hefur hann ekki látið málefni jarðar algerlega afskiptalaus. Ef svo væri hefðum við litla von um að hann uppfyllti loforð sín. Þótt Adam og Eva hafi gert uppreisn gegn drottinvaldi Guðs breytti hann ekki kærleiksríkum tilgangi sínum með jörðina og mannkynið. Það er öruggt að hann breytir jörðinni í paradís byggða fullkomnu, hlýðnu og hamingjusömu fólki. (Lúkas 23:42, 43) Frásaga Biblíunnar, allt frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar, greinir frá því hvernig Jehóva hefur jafnt og þétt verið að vinna að þessu markmiði.

Guð hrindir vilja sínum í framkvæmd

8. Hvað var fólgið í því að leiða Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið?

8 Guð sýndi fram á í samskiptum sínum við Ísraelsþjóðina að hann hrindir vilja sínum í framkvæmd. Til dæmis fullvissaði hann Móse um að hann myndi frelsa Ísraelsmenn úr Egyptalandi og leiða þá inn í fyrirheitna landið sem flyti í mjólk og hunangi. (2. Mósebók 3:8) Þetta var þýðingarmikil og hughreystandi yfirlýsing. Hún fól í sér að Ísraelsmenn — sem voru um þrjár milljónir að förunautum meðtöldum — yrðu leystir undan oki voldugrar þjóðar sem var ekkert á því að leyfa þeim að fara. (2. Mósebók 3:19) Landið, sem þeir áttu að eignast, var byggt voldugum þjóðum sem öruggt var að veittu þeim mótspyrnu. (5. Mósebók 7:1) Leiðin þangað lá um eyðimörk þar sem Ísraelsmenn þurftu bæði mat og vatn. Þessi staða gaf Jehóva tækifæri til að sýna ofurmátt sinn og guðdóm. — 3. Mósebók 25:38.

9, 10. (a) Af hverju gat Jósúa borið vitni um að fyrirheit Guðs væru áreiðanleg? (b) Hve mikilvægt er að treysta að Guð geti umbunað trúföstum?

9 Guð vann mörg máttarverk þegar hann leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Fyrst sendi hann tíu hrikalegar plágur yfir Egyptaland. Síðan opnaði hann Rauðahafið svo að Ísraelsmenn komust undan en egypski herinn, sem elti þá, fórst. (Sálmur 78:12, 13, 43-51) Eftir það annaðist hann þá á 40 ára eyðimerkurgöngu þeirra, ól þá á manna, gaf þeim vatn og sá jafnvel til þess að skikkjur þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki. (5. Mósebók 8:3, 4) Eftir að Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið veitti hann þeim sigur yfir óvinum þeirra. Jósúa, sem sýndi sterka trú á fyrirheit Jehóva, var sjónarvottur að öllu þessu. Hann gat því sagt öruggur í bragði við öldunga þjóðarinnar: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er [Jehóva] Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ — Jósúabók 23:14.

10 Kristnir nútímamenn treysta, líkt og Jósúa fortíðar, að Guð sé fús og fær um að skerast í leikinn í þágu þeirra sem þjóna honum. Þessi sannfæring er nauðsynlegur þáttur í trú okkar. Páll postuli skrifaði: „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ — Hebreabréfið 11:6.

Guð sér framtíðina fyrir

11. Hvað gerir Guði kleift að uppfylla fyrirheit sín?

11 Við höfum nú séð að enda þótt Guð leyfi manninum að hafa frjálsan vilja og sjálfstæða stjórn hefur hann bæði mátt og vilja til að hrinda tilgangi sínum í framkvæmd. En það er annað sem stuðlar að því að fyrirheit Jehóva rætast örugglega. Hann getur séð framtíðina fyrir. (Jesaja 42:9) Hann sagði fyrir munn spámanns síns: „Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.“ (Jesaja 46:9, 10) Reyndur bóndi veit hvar og hvenær hann á að sá fræi, en uppskeran er samt ekki örugg. ‚Konungur eilífðar‘ býr hins vegar yfir nákvæmri þekkingu svo að hann getur séð fyrir nákvæmlega hvenær og hvar hann á að láta til skarar skríða til að hrinda tilgangi sínum í framkvæmd. — 1. Tímóteusarbréf 1:17.

12. Hvernig beitti Jehóva hæfni sinni til að sjá fram í tímann á dögum Nóa?

12 Líttu á hvernig Guð sá fram í tímann á dögum Nóa. Vegna hinnar útbreiddu illsku, sem fyllti jörðina, ákvað hann að afmá óhlýðið mannkyn 120 árum síðar. (1. Mósebók 6:3) Jehóva hefði getað eytt hinum illu hvenær sem er, en með því að tiltaka þetta ákveðna tímabil tók hann mið af fleiru. Tímaáætlun hans gerði líka ráð fyrir að réttlátum yrði bjargað. (Samanber 1. Mósebók 5:29.) Í visku sinni sá Guð fyrir hvenær hann átti að úthluta verki sem yrði undanfari þessa. Hann gaf Nóa nægilega ítarlegar upplýsingar. Nói átti að smíða örk „til björgunar heimilisfólki sínu“ en óguðlegum yrði eytt í heimsflóði. — Hebreabréfið 11:7; 1. Mósebók 6:13, 14, 18, 19.

Gríðarlegt smíðaverkefni

13, 14. Af hverju var smíði arkarinnar krefjandi verkefni?

13 Lítum á þetta verkefni frá sjónarhóli Nóa. Sem þjónn Jehóva vissi hann að Jehóva gat eytt óguðlegum. En áður en það gerðist var verk að vinna og þetta verk kallaði á trú. Smíði arkarinnar var risaverkefni. Guð hafði tiltekið mál arkarinnar. Hún átti að vera lengri en knattspyrnuvöllur og hæðin á við fimm hæða hús. (1. Mósebók 6:15) Smiðirnir yrðu fáir og óreyndir. Þeir höfðu ekki þau flóknu áhöld og vinnuvélar sem nú eru til. Og þar eð Nói gat ekki séð fram í tímann líkt og Jehóva vissi hann ekki hvaða aðstæður gætu skapast þegar árin liðu sem gætu annaðhvort auðveldað smíðina eða tálmað henni. Eflaust hafa margar spurningar leitað á Nóa. Hvernig yrði byggingarefninu safnað? Hvernig myndi hann safna dýrunum saman? Hvaða fóður þyrfti handa þeim og hve mikið? Hvenær myndi flóðið bresta á?

14 Svo var það þjóðfélagsástandið. Illskan var mikil. Hinir kraftmiklu risar — blendingsafkvæmi kvenna og illra engla — fylltu jörðina ofbeldi. (1. Mósebók 6:1-4, 13) Og ekki var hægt að smíða örkina með leynd. Fólk hlaut að velta fyrir sér hvað Nói væri að gera og hann hlaut að segja frá því. (2. Pétursbréf 2:5) Ætli menn yrðu sáttir við þetta? Það var ólíklegt. Einhvern tíma áður hafði hinn trúfasti Enok boðað eyðingu óguðlegra. Boðskapur hans var svo óvinsæll að Guð „nam hann burt“ með því að binda enda á líf hans, eflaust til að óvinir hans dræpu hann ekki. (1. Mósebók 5:24; Hebreabréfið 11:5; Júdasarbréfið 14, 15) Nú átti Nói ekki einasta að boða svipaðan og óvinsælan boðskap heldur einnig að smíða örk. Meðan örkin væri í smíðum yrði hún kröftug áminning um trúfesti Nóa andspænis óguðlegum samtíðarmönnum hans.

15. Hvers vegna treysti Nói því að hann réði við verkið?

15 Nói vissi að verkið naut stuðnings og blessunar hins alvalda Guðs. Hafði ekki Jehóva sjálfur falið honum verkið? Hann hafði fullvissað Nóa um að hann og fjölskylda hans myndu ganga inn í fullgerða örkina og komast lifandi gegnum heimsflóðið. Hann lagði jafnvel áherslu á að þetta væri öruggt með því að gera hátíðlegan sáttmála um það. (1. Mósebók 6:18, 19) Líklega hefur Nói gert sér ljóst að Jehóva hafði séð fyrir allt sem gera þyrfti áður en hann fól honum verkið. Og Nói vissi að Jehóva var nógu máttugur til að skerast í leikinn og hjálpa honum þegar með þyrfti. Trú hans knúði hann því til verka. Líkt og Abraham, afkomandi hans, var Nói „þess fullviss, að [Guð] er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.“ — Rómverjabréfið 4:21.

16. Hvernig styrktist trú Nóa þegar smíði arkarinnar miðaði áfram?

16 Trú Nóa styrktist þegar árin liðu og örkin tók á sig mynd. Hann og fjölskylda hans leystu smíða- og skipulagsvandamál og stóðust prófraunir. Engin andstaða gat stöðvað verkið og þau nutu stuðnings og verndar Jehóva. ‚Trúarstaðfesta Nóa vakti þolgæði‘ þegar hann hélt þjónustu sinni áfram. (Jakobsbréfið 1:2-4) Loks var örkin fullbúin og flóðið kom og Nói og fjölskylda hans björguðust. Nói sá fyrirheit Guðs uppfyllast eins og Jósúa síðar. Honum var umbunuð trúin.

Jehóva styður verkið

17. Hvernig eru okkar tímar líkir dögum Nóa?

17 Jesús sagði að okkar tímar yrðu hliðstæðir dögum Nóa. Guð hefur aftur ákveðið að eyða óguðlegum og tímasett það. (Matteus 24:36-39) Hann hefur líka gert ráðstafanir til að réttlátir komist lífs af. Nói þurfti á sínum tíma að smíða örk en þjónar Guðs nú á tímum eiga að boða tilgang hans, kenna orð hans og gera menn að lærisveinum. — Matteus 28:19.

18, 19. Hvernig vitum við að Jehóva styður prédikun fagnaðarerindisins?

18 Ef Jehóva hefði ekki verið með Nóa og stutt hann og styrkt hefði örkin aldrei verið smíðuð. (Samanber Sálm 127:1.) Án stuðnings Jehóva myndi sönn kristni tæplega fá staðist og þaðan af síður dafna. Gamalíel, sem uppi var á fyrstu öld, gerði sér grein fyrir því en hann var virtur farísei og lögmálskennari. Þegar æðstaráð Gyðinga vildi taka postulana af lífi varaði hann réttinn við: „Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu, en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá.“ — Postulasagan 5:38, 39.

19 Árangur prédikunarstarfsins, bæði núna og á fyrstu öld, hefur sýnt og sannað að þetta verk er ekki frá mönnum heldur Guði. Greinin á eftir fjallar um spennandi aðstæður og framvindu sem hefur gert þetta starf einstaklega árangursríkt í svona stórum mæli.

Gefstu aldrei upp!

20. Hverjir styðja okkur þegar við prédikum fagnaðarerindið?

20 Þótt við lifum „örðugar tíðir“ getum við verið viss um að Jehóva hefur bæði tögl og hagldir. Hann styður og styrkir fólk sitt í að ljúka prédikun fagnaðarerindisins áður en tíminn til að eyða þessu illa heimskerfi rennur upp. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Matteus 24:14) Jehóva býður okkur að vera „samverkamenn“ sínir. (1. Korintubréf 3:9) Við erum líka fullviss um að Kristur Jesús er með okkur í þessu verki og við getum reitt okkur á stuðning og handleiðslu engla. — Matteus 28:20; Opinberunarbókin 14:6.

21. Hvaða sannfæringu ættum við aldrei að sleppa?

21 Nói og fjölskylda hans komust lífs af í flóðinu af því að þau iðkuðu trú á fyrirheit Jehóva. Þeir sem iðka trú með sama hætti nú á tímum komast lifandi úr „þrengingunni miklu“ sem er framundan. (Opinberunarbókin 7:14) Við lifum á mjög spennandi tímum. Miklir atburðir eru framundan. Bráðlega lætur Guð til sín taka og kemur á dýrlegum nýjum himni og nýrri jörð þar sem réttlæti býr. (2. Pétursbréf 3:13) Slepptu aldrei þeirri sannfæringu að Guð geti efnt hvaðeina sem hann lofar. — Rómverjabréfið 4:21.

Til upprifjunar

◻ Hvers vegna stjórnar Jehóva ekki öllum athöfnum mannanna?

◻ Hvernig birtist hæfni Jehóva til að framkvæma tilgang sinn í samskiptum hans við Ísrael?

◻ Hvernig sýndi Jehóva hæfni sína til að sjá fram í tímann á dögum Nóa?

◻ Hverju getum við treyst í sambandi við fyrirheit Guðs?

[Spurningar]