Stendur öllum á sama
Stendur öllum á sama?
„Tár hinna undirokuðu“ eru eins og stórfljót frá augum óteljandi fórnarlamba endalausrar ‚kúgunar‘ alls staðar í heiminum. Hinum undirokuðu finnst oft sem ‚enginn huggi þá‘ — að engum sé raunverulega annt um þá. — Prédikarinn 4:1.
ÞRÁTT fyrir táraflauminn eru sumir ósnortnir af þjáningum meðbræðra sinna. Þeir loka augunum fyrir þjáningum annarra eins og presturinn og levítinn í dæmisögu Jesú um mann sem ráðist var á, rændur og skilinn eftir hálfdauður við vegarbrúnina. (Lúkas 10:30-32) Ef allt gengur í haginn hjá þeim sjálfum og fjölskyldum þeirra er þeim sama um aðra. Þeir segja í rauninni: „Sama er mér.“
Við ættum ekki að furða okkur á þessu. Páll postuli sagði fyrir að margir yrðu „kærleikslausir“ á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3) Maður nokkur kvaðst harma skeytingarleysi annarra gagnvart náunganum og sagði: „Hin gamla írska lífsspeki að láta sér annt um náungann er vikin fyrir þeirri lífsreglu að hver sé sjálfum sér næstur.“ Alls staðar í heiminum hugsar fólk fyrst og fremst um sjálft sig og stendur næstum algerlega á sama um neyð annarra.
Umhyggja er nauðsyn
Umhyggja er greinilega mjög mikils virði. Hugsaðu þér einmana mann í Þýskalandi sem „fannst sitjandi fyrir framan sjónvarpstækið — fimm árum eftir jólin þegar hann dó.“ Þessi „fráskildi og fatlaði einfari“ var bitur vegna áfalla sem hann hafði orðið fyrir í lífinu, og enginn saknaði hans fyrr en bankareikningurinn, þaðan sem húsaleigan var greidd, tæmdist. Öllum stóð á sama um hann.
Og hugsaðu þér hjálparvana fórnarlömb ágjarnra lénsherra. Á einu svæði dóu um 200.000 manns (fjórðungur íbúanna) „vegna kúgunar og hungurs“ eftir að landið var tekið af þeim með valdi. Eða hugsaðu þér börnin sem máttu horfa upp á nánast ólýsanleg grimmdarverk. Dagblað sagði: „Ótrúlegur fjöldi barna í [einu landi] horfði upp á margendurtekin grimmdarverk — morð, misþyrmingar og nauðganir, stundum framin af öðrum unglingum.“ Þú getur rétt ímyndað þér hvers vegna fórnarlömb slíkra ranglætisverka spyrja með tárvotum augum: „Er öllum sama um mig?“
Samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum þurfa um 1,3 milljarðar manna í þróunarlöndunum að draga fram lífið á innan við 70 krónum á dag. Þeim hlýtur að vera spurn hvort öllum standi á sama um þá. Og þúsundir flóttamanna hljóta að spyrja hins sama, en að sögn dagblaðsins The Irish Times „standa þeir frammi fyrir þeim afarkostum að dvelja áfram í ömurlegum flóttamannabúðum eða ógestrisnu landi, eða að freista þess að snúa heim í þjóðernissundrung eða stríð.“ Í sömu frétt er þessi hrollvekjandi uppástunga: „Lokaðu augunum og teldu upp að þrem. Á meðan deyr eitt barn af þeim 35.000 sem deyja daglega vegna vannæringar eða sjúkdóma sem hægt væri að afstýra.“ Það er engin furða að margir skuli hrópa af beiskju og örvæntingu. — Samanber Jobsbók 7:11.
Á þetta bara að vera svona? Er raunhæft að ætla að einhverjum sé annt um allt þetta fólk og einhver sé jafnframt þess megnugur að stöðva þjáningar þess og lina kvöl þess?
[Rétthafi myndar 3]
A. Boulat/Sipa Press