Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sumum stendur ekki á sama

Sumum stendur ekki á sama

Sumum stendur ekki á sama

ÞÚSUNDIR manna sýna að þeim stendur ekki á sama um aðra. Þeir eru ekki svo harðbrjósta og eigingjarnir að hugsa með sér að vandamál annarra komi sér ekki við heldur gera allt sem þeir geta til að lina þjáningar þeirra — og hætta stundum lífinu til þess. Þetta er gríðarlegt verk og sérstaklega erfitt fyrir þá sök að þeir eiga í höggi við öfl sem þeir ráða ekki við.

Ágirnd, pólitískt leynimakk, stríð og náttúruhamfarir geta ónýtt „markvissustu og ákveðnustu viðleitni til að útrýma hungri,“ að sögn starfsmanns hjálparstofnunar. Hungur er aðeins eitt þeirra mörgu vandamála sem umhyggjusamt fólk stendur frammi fyrir. Það berst líka gegn sjúkdómum, fátækt, ranglæti og þeim gífurlegu þjáningum sem styrjaldir valda. En er það að vinna þetta stríð?

Aðalframkvæmdastjóri hjálparstofnunar líkir þeim sem leggja sig ‚markvisst og ákveðið‘ fram um að draga úr hungri og sársauka við miskunnsama Samverjann í dæmisögu Jesú Krists. (Lúkas 10:29-37) En það er sama hvað þeir gera, segir hann, fórnarlömbunum fjölgar bara. Hann spyr því: „Hvað ætti miskunnsami Samverjinn að gera ef hann færi sömu leið daglega í nokkur ár og fyndi alltaf nýtt fórnarlamb ræningjanna við vegarbrúnina í hverri viku?“

Ekkert væri auðveldara en að gefast vonsvikinn upp, sleginn ‚banvænni hjálparstarfsþreytu‘ sem svo er kölluð. En það má segja þeim til hróss sem láta sér í alvöru annt um aðra að þeir gefast ekki upp. (Galatabréfið 6:9, 10) Til dæmis birtist lesandabréf í breska dagblaðinu Jewish Telegraph þar sem vottum Jehóva var hrósað, en á nasistatímanum í Þýskalandi höfðu þeir „hjálpað þúsundum Gyðinga að lifa af hina ömurlegu vist í Auschwitz.“ Bréfritari sagði: „Þegar matur var af skornum skammti gáfu þeir bræðrum okkar og systrum [Gyðingum] af brauði sínu.“ Vottarnir notuðu það sem þeir höfðu og gerðu það sem þeir gátu.

En veruleikinn er sá að það er enginn endir á þjáningunum þótt brauði sé deilt endalaust. Og þá er ekki verið að gera lítið úr öllu því sem umhyggjusamt fólk hefur gert fyrir meðbræður sína. Hvaðeina, sem dregur úr þjáningum, er ómaksins vert. Þessir vottar linuðu þjáningar meðfanga sinna eitthvað og nasisminn tortímdist um síðir. En heimskerfið, sem er orsök svona kúgunar, stendur enn og enn þá er fullt af fólki sem stendur á sama um náungann. Til er það „kyn, sem hefir sverð að tönnum og hnífa að jöxlum til þess að uppeta hina voluðu úr landinu og hina fátæku burt frá mönnunum.“ (Orðskviðirnir 30:14) Þér er líklega spurn hver sé ástæðan.

Hvers vegna fátækt og kúgun?

Jesús Kristur sagði einu sinni: „Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið.“ (Markús 14:7) Var hann að segja að fátækt og kúgun tæki aldrei enda? Trúði hann, eins og sumir, að slíkar þjáningur væru þáttur í einhverri áætlun Guðs um að gefa umhyggjusömu fólki tækifæri til að sýna hve djúpt umhyggjan risti? Nei, Jesús var ekki þeirrar skoðunar. Hann var einfaldlega að benda á að fátækt yrði hluti af tilverunni meðan þetta heimskerfi stæði. En hann vissi líka að í upphafi var það ekki vilji föðurins á himnum að ástandið á jörðinni yrði svona.

Jehóva Guð skapaði jörðina til að vera paradís en ekki gróðrarstía fátæktar, ranglætis og kúgunar. Hann sýndi hve annt hann lét sér um mannkynið með því að gera ráðstafanir til að menn gætu notið lífsins betur. Hugsaðu til dæmis um nafnið á garðinum sem fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, bjuggu í. Hann var nefndur Eden sem merkir „unaður.“ (1. Mósebók 2:8, 9) Jehóva ætlaði manninum ekki að búa aðeins við brýnustu lífsnauðsynjar í drungalegu og þjakandi umhverfi. Þegar Jehóva hafði lokið sköpunarstarfi sínu leit hann yfir allt sem hann hafði gert og lýsti það „harla gott.“ — 1. Mósebók 1:31.

Hvers vegna er þá svona mikil fátækt, kúgun og annað böl á jörðinni núna? Umheimurinn er jafnslæmur og raun ber vitni af því að fyrstu foreldrar okkar kusu að gera uppreisn gegn Guði. (1. Mósebók 3:1-5) Það vakti þá spurningu hvort það væri rétt af Guði að krefjast hlýðni af sköpunarverum sínum. Jehóva hefur því leyft afkomendum Adams að ráða sér sjálfir um takmarkaðan tíma. En honum var eftir sem áður annt um mannkynið og hann gerði ráðstafanir til að bæta allt það tjón sem uppreisnin átti eftir að valda. Og í náinni framtíð bindur hann enda á fátækt og kúgun — já, allar þjáningar. — Efesusbréfið 1:8-10.

Vandamál sem menn ráða ekki við

Mannkynið hefur fjarlægst mælikvarða Jehóva þær aldir sem liðnar eru frá sköpun mannsins. (5. Mósebók 32:4, 5) Menn hafa haldið áfram að hafna lögum Guðs og meginreglum, barist innbyrðis og ‚einn maðurinn drottnað yfir öðrum honum til ógæfu.‘ (Prédikarinn 8:9) Eigingirni þeirra sem vilja gera hlutina eftir eigin höfði í stað þess að lúta drottinvaldi Guðs hefur alla tíð komið í veg fyrir að menn gætu komið á réttlátu þjóðfélagi sem væri laust við það böl sem þjakar fjöldann.

Það er við annan vanda að glíma, vanda sem margir telja hjátrúarrugl. Sá sem hvatti til uppreisnarinnar gegn Guði er enn að hvetja fólk til illsku og eigingirni. Þetta er Satan djöfullinn sem Jesús Kristur kallaði „höfðingja þessa heims.“ (Jóhannes 12:31; 14:30; 2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Í opinberuninni, sem Jóhannesi postula var gefin, kemur fram að Satan er mesta böl mannkyns, og hann er öðrum fremur sekur um að ‚afvegaleiða alla heimsbyggðina.‘ — Opinberunarbókin 12:9-12.

Hversu annt sem menn láta sér um náungann geta þeir aldrei rutt Satan djöflinum úr vegi eða breytt því kerfi sem krefst sífellt fleiri fórnarlamba. Hvað þarf þá til að leysa vandamál mannkynsins? Lausnin er ekki aðeins fólgin í því að einhver láti sér annt um náungann heldur þarf að koma til sögunnar einhver sem bæði vill og getur rutt Satan úr vegi og losað okkur við allt hið rangláta kerfi sem hann hefur komið upp.

„Verði þinn vilji . . . á jörðu“

Guð lofar að eyða þessu illa heimskerfi, og hann er bæði fús til þess og fær um það. (Sálmur 147:5, 6; Jesaja 40:25-31) Í spádómsbók Daníels er boðað: „Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Jesús Kristur hafði þessa varanlegu og góðviljuðu stjórn í huga þegar hann kenndi lærisveinunum að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9, 10.

Jehóva svarar slíkum bænum af því að honum er mjög annt um mannkynið. Samkvæmt spádómsorðunum í Sálmi 72 fær hann syni sínum, Jesú Kristi, umboð til að bæta varanlega kjör fátækra, þjáðra og kúgaðra sem styðja stjórn hans. Hinn innblásni sálmaritari söng: „Hann [messíasarkonungur Guðs] láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann. Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“ — Sálmur 72:4, 12-14.

Í sýn um okkar daga sá Jóhannes postuli „nýjan himin og nýja jörð,“ það er að segja algerlega nýtt heimskerfi sem Guð kemur á. Það verður mikil blessun fyrir þjáð mannkyn! Jóhannes lýsir því sem Jehóva ætlar að gera: „Ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ‚Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘ Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — Opinberunarbókin 21:1-5.

Við getum treyst þessum orðum af því að þau eru trú og sönn. Jehóva lætur bráðum til skarar skríða til að losa jörðina við fátækt, hungur, kúgun, sjúkdóma og allt ranglæti. Eins og þetta tímarit hefur margsinnis bent á með tilvísun í Ritninguna liggja fyrir ríkulegar sannanir um að við lifum á þeim tíma þegar þessi fyrirheit rætast. Hinn fyrirheitni nýi heimur Guðs er í nánd! (2. Pétursbréf 3:13) Bráðlega mun Jehóva „afmá dauðann að eilífu“ og „þerra tárin af hverri ásjónu.“ — Jesaja 25:8.

Þangað til getum við glaðst yfir því að til er fólk sem lætur sér annt um náungann. En það er enn gleðilegra til að vita að Jehóva Guð skuli láta sér annt um okkur, og bráðlega upprætir hann alla kúgun og þjáningar.

Þú getur treyst loforðum Jehóva algerlega. Jósúa þjónn hans gerði það og sagði þjóð hans til forna án þess að hika: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er [Jehóva] Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ (Jósúabók 23:14) Láttu ekki þrengingar þessa heimskerfis buga þig. Varpaðu öllum áhyggjum þínum á Jehóva því að hann ber vissulega umhyggju fyrir þér. — 1. Pétursbréf 5:7.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Í nýjum heimi Guðs verður jörðin laus við fátækt, kúgun, sjúkdóma og ranglæti.