Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar — standið gegn anda heimsins

Unglingar — standið gegn anda heimsins

Unglingar — standið gegn anda heimsins

„Vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði.“ — 1. KORINTUBRÉF 2:12.

1, 2. (a) Hvaða munur er á ungu fólki í heiminum og í söfnuðum votta Jehóva? (b) Fyrir hvað eiga flestir ungir vottar hrós skilið?

 „UNGA kynslóðin er niðurdregin, utanveltu og uppreisnargjörn,“ stóð í ástralska dagblaðinu The Sun-Herald. „Réttarskrár sýna að unglingum, sem koma fyrir rétt ákærðir um alvarlegar líkamsárásir, hefur fjölgað um 22 prósent [frá árinu áður] . . . Þrefalt fleiri krakkar fyrirfara sér en á miðjum sjöunda áratugnum . . . Og kynslóðabilið er orðið heilt hyldýpi og æ fleiri ungmenni sökkva ofan í það í fíkniefna-, áfengis- og sjálfseyðingaralgleymi.“ En þetta ástand er ekki bundið við eitt einstakt land heldur er staða unga fólksins áhyggjuefni foreldra, kennara og geðlækna um heim allan.

2 Það er gríðarlegur munur á ungmennum umheimsins upp til hópa og því heilbrigða unga fólki sem er að finna í söfnuðum votta Jehóva! Ekki svo að skilja að ungir vottar Jehóva séu fullkomnir. Þeir eiga líka í baráttu við „æskunnar girndir.“ (2. Tímóteusarbréf 2:22) En á heildina litið hefur þetta unga fólk sýnt það hugrekki að taka afstöðu með því sem er rétt og neitað að láta undan þrýstingi heimsins. Við hrósum ykkur öllum sem eruð að sigra í stríðinu við „vélabrögð“ Satans. (Efesusbréfið 6:11) Við tökum undir með Jóhannesi postula sem sagði: „Ég hef ritað yður, ungu menn [og konur], af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:14.

3. Hvað getur orðið „andi“ merkt?

3 En til að halda velli í baráttunni gegn hinum vonda þurfið þið að standa hraustlega á móti því sem Biblían kallar „anda heimsins.“ (1. Korintubréf 2:12) Samkvæmt heimildarriti í grísku getur orðið „andi“ merkt „það eðlisfar eða áhrif sem fyllir sál hvers manns og stjórnar henni.“dl. 1 mgr. „Andi“ þinn, eðlisfar eða hugarhneigð hefur áhrif á ákvarðanir þínar, orð og verk. Það er athyglisvert að bæði einstaklingar og hópar geta sýnt vissan „anda.“ Páll postuli skrifaði hópi kristinna manna: „Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með anda yðar.“ (Fílemonsbréfið 25) Hvaða anda sýnir þá heimurinn? Þar eð „allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins, getur þessi andi varla verið heilnæmur, eða hvað? — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

Að þekkja anda heimsins

4, 5. (a) Hvaða andi hafði haft áhrif á Efesusmenn áður en þeir gerðust kristnir? (b) Hver er ‚valdhafinn í loftinu‘ og hvað er ‚loftið‘?

4 Páll skrifaði: „Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda, sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa. Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.“ — Efesusbréfið 2:1-3.

5 Áður en kristnir menn í Efesus kynntust kristninni höfðu þeir óafvitandi fylgt ‚valdhafanum í loftinu,‘ Satan djöflinum. ‚Loftið‘ er ekki bókstaflegur staður þar sem Satan og illir andar hans búa. Þegar Páll skrifaði þetta höfðu Satan og illir andar hans enn þá aðgang að himnum. (Samanber Jobsbók 1:6; Opinberunarbókina 12:7-12.) Orðið ‚loft‘ merkir þann anda eða viðhorf sem einkennir heim Satans. (Samanber Opinberunarbókina 16:17-21.) Þessi andi er alls staðar eins og loftið í kringum okkur.

6. Hvað er ‚vilji valdhafans í loftinu‘ og hvaða áhrif hefur hann á fjölda ungmenna?

6 En við hvað er átt með „vilja valdhafans í loftinu“? Hér er sennilega átt við þau djúpstæðu áhrif sem þetta ‚loft‘ hefur á fólk. Páll segir að þessi andi ‚starfi í þeim sem ekki trúa.‘ Andi heimsins elur því af sér óhlýðni og uppreisnaranda og vald hans birtist meðal annars í hópþrýstingi. „Í skólanum eru allir að hvetja mann til að vera svolítið uppreisnargjarn,“ segir vottastúlka. „Krakkarnir bera meiri virðingu fyrir manni ef maður gerir eitthvað sem er á mörkunum.“

Þannig birtist andi heimsins

7-9. (a) Nefndu dæmi um hvernig andi heimsins birtist meðal ungs fólks. (b) Hefurðu séð eitthvað af þessu sjálfur?

7 Hvernig birtist andi heimsins meðal ungs fólks nú á tímum? Til dæmis í óheiðarleika og uppreisn. Tímarit segir að meira en 70 af hundraði háskólanema segist hafa svindlað á prófum í framhaldsskóla. Ósvífni, kaldhæðni og soralegur talsmáti er líka algengur. Sumir myndu kannski segja að bæði Job og Páll postuli hafi stundum verið kaldhæðnir þegar þeir létu í ljós réttláta reiði. (Jobsbók 12:2; 2. Korintubréf 12:13) En sú grimmilega kaldhæðni, sem kemur af vörum unga fólksins nú á tímum, er oft ekkert annað en hreinar svívirðingar.

8 Taumlaus afþreying er einnig merki um anda heimsins. Unglinganæturklúbbar, reif-tónleikar * og ýmiss konar sukk er vinsælt meðal ungs fólks. Öfgar í klæðaburði og hárgreiðslu eru líka algengar. Unglingar láta í ljós uppreisnaranda heimsins með ýmsum hætti, allt frá því að klæðast skopparafötum í yfirstærð upp í það að láta gera göt á líkama sinn á óvenjulegum stöðum. (Samanber Rómverjabréfið 6:16.) Uppreisnarhugurinn birtist einnig í því að vera upptekinn af efnislegum hlutum. Í tímariti um menntamál segir að „seljendur herji stanslaust á krakka með gífurlegri auglýsingatækni og miklu vöruúrvali.“ Bandarískur unglingur, sem er að útskrifast úr almennum framhaldsskóla, hefur séð 360.000 sjónvarpsauglýsingar. Kunningjarnir geta líka ýtt á þig að kaupa þetta eða hitt. Fjórtán ára stúlka segir: „Allir eru alltaf að spyrja hvernig peysu, jakka eða gallabuxum maður sé í.“

9 Allt frá biblíutímanum hefur Satan notað óheilnæma tónlist til að hvetja til óhreinnar hegðunar. (Samanber 2. Mósebók 32:17-19; Sálm 69:13; Jesaja 23:16.) Það kemur því ekki á óvart að kynæsandi tónlist með berorðum eða jafnvel grófum textum og æsandi takti skuli vera vinsæl. Siðleysi er enn eitt merki hins óhreina anda þessa heims. (1. Korintubréf 6:9-11) Dagblaðið The New York Times segir: „Kynlíf er nánast orðið viðurkenningarkrafa meðal kunningjanna . . . Rösklega tveir af hverjum þrem framhaldsskólanemum á síðasta námsári hafa haft kynmök.“ Tímaritið The Wall Street Journal vitnar í dæmi um að börn á aldrinum 8 til 12 ára „stundi kynlíf.“ Haft er eftir skólaráðgjafa, sem er nýlega kominn á eftirlaun, að ‚dæmi séu um ófrískar stúlkur í sjötta bekk.‘ *

Að hafna anda heimsins

10. Hvernig hafa einstaka unglingar í kristnum fjölskyldum orðið anda heimsins að bráð?

10 Það kemur því miður fyrir að kristnir unglingar verði anda heimsins að bráð. „Ég hegðaði mér vel þegar foreldrar mínir og aðrir vottar sáu til,“ viðurkennir japönsk stúlka. „En ég lifði tvöföldu lífi.“ Unglingsstúlka frá Keníu segir: „Um tíma lifði ég tvöföldu lífi, stundaði partí, hlustaði á rokk og átti ranga vini. Ég vissi að þetta var rangt en ég reyndi að láta sem ekkert væri í von um að þetta hætti bara einhvern tíma. En það gerði það ekki heldur versnaði.“ Þýsk stúlka segir: „Þetta byrjaði allt með því að ég eignaðist óheppilega vini. Svo fór ég að reykja. Ég ætlaði að særa foreldra mína en særði bara sjálfa mig.“

11. Hvernig gat Kaleb staðið gegn fjöldanum þegar tíu njósnarar fluttu slæmar fréttir?

11 En það er hægt að standa gegn anda heimsins og meira að segja hafna honum. Kaleb er gott dæmi um það. Þegar tíu huglausir njósnarar komu með slæmar fregnir af fyrirheitna landinu neituðu hann og Jósúa að láta skelfa sig eins og fjöldinn gerði. Þeir sögðu hugrakkir: „Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland. Ef [Jehóva] hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi.“ (4. Mósebók 14:7, 8) Hvernig gat Kaleb staðist allan þennan þrýsting? Jehóva sagði að ‚annar andi væri yfir þjóni sínum Kaleb.‘ — 4. Mósebók 14:24.

Að sýna ‚annan anda‘

12. Af hverju er mikilvægt að sýna ‚annan anda‘ í tali sínu?

12 Það þarf líka hugrekki og styrk nú á dögum til að sýna ‚annan anda‘ eða hugarfar en heimurinn, meðal annars með því að forðast kaldhæðni og virðingarleysi í tali. Kaldhæðni og nöpur „fyndni“ getur rænt aðra reisn sinni líkt og hundur rífur kjöt af beini. (Samanber Galatabréfið 5:15.) En Kólossubréfið 3:8 hvetur þig til að „segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ Og Orðskviðirnir 10:19 segja: „Málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.“ Ef einhver móðgar þig skaltu sýna þá sjálfstjórn að ‚bjóða honum hina kinnina,‘ kannski með því að tala rólega og friðsamlega við hann í einrúmi. — Matteus 5:39; Orðskviðirnir 15:1.

13. Hvernig getur ungt fólk sýnt jafnvægi gagnvart efnislegum hlutum?

13 Önnur leið til að sýna ‚annan anda‘ er að hafa jafnvægi gagnvart efnislegum hlutum. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að vilja eiga góða og vandaða hluti. Jesús Kristur átti að minnsta kosti eina vandaða flík. (Jóhannes 19:23, 24) En þegar löngunin að eiga eitthvað verður að þráhyggju og þú ert sýknt og heilagt að nauða í foreldrum þínum að kaupa eitthvað sem þau hafa eiginlega ekki efni á, eða þegar þig langar bara til að líkja eftir öðrum unglingum, þá getur verið að andi heimsins hafi sterkari tök á þér en þú gerir þér grein fyrir. Biblían segir: „Allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ Já, láttu ekki undan áhrifum efnishyggju þessa heims. Lærðu að gera þig ánægðan með það sem þú hefur. — 1. Jóhannesarbréf 2:16; 1. Tímóteusarbréf 6:8-10.

14. (a) Hvernig sýndi fólk Guðs á dögum Jesaja öfgar í skemmtanalífi sínu? (b) Í hvaða hættum hafa einstaka kristnir unglingar lent í næturklúbbum og taumlausum partíum?

14 Það er einnig mikilvægt að halda skemmtun og afþreyingu í hófi. Spámaðurinn Jesaja sagði: „Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni. Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum [Jehóva] gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki.“ (Jesaja 5:11, 12) Því miður hefur komið fyrir að kristin ungmenni hafa tekið þátt í taumlausum partíum af þessu tagi. Þegar hópur kristinna unglinga var beðinn að lýsa því sem fram fer í unglinganæturklúbbum sagði ung systir: „Það eru sífelld slagsmál. Ég hef lent í miðjum átökunum.“ Ungur bróðir bætir við: „Drykkja, reykingar og svoleiðis.“ Annar ungur bróðir segir: „Fólk verður drukkið og hegðar sér eins og asnar! Og svo eru notuð fíkniefni. Það gerist margt slæmt þarna. Það er rugl að halda að maður geti farið þangað án þess að verða fyrir áhrifum af því.“ Það er af ærnu tilefni sem Biblían talar um svall eða „taumlaus teiti“ sem eitt af ‚verkum holdsins.‘ — Galatabréfið 5:19-21, Byington; Rómverjabréfið 13:13.

15. Hvaða öfgalausa afstöðu tekur Biblían til skemmtana og afþreyingar?

15 En þú ert ekki dæmdur til gleðisnauðrar tilveru þótt þú forðist skaðlega skemmtun. Við tilbiðjum hamingjusaman Guð sem vill að þú njótir æskunnar. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Prédikarinn 11:9) En Biblían varar við að ‚sá sem sólginn er í skemmtanir verði öreigi.‘ (Orðskviðirnir 21:17) Það er hætta á að sá sem gerir skemmtanir og afþreyingu að þungamiðju lífsins verði andlegur öreigi. Fylgdu því meginreglum Biblíunnar þegar þú velur hvað þú gerir þér til skemmtunar. Það er hægt að skemmta sér á marga vegu sem byggja upp en brjóta ekki niður. * — Prédikarinn 11:10.

16. Hvernig geta kristnir unglingar sýnt að þeir séu frábrugðnir fjöldanum?

16 Þú gerir þig ólíkan heiminum með því að elta ekki tískufyrirbrigði hans heldur vera háttvís í klæðaburði og hárgreiðslu. (Rómverjabréfið 12:2; 1. Tímóteusarbréf 2:9) Sama gildir um vandfýsni á tónlist. (Filippíbréfið 4:8, 9) „Ég á tónlist sem ég veit að ég á að henda,“ viðurkennir kristinn unglingur, „en hún hljómar svo vel!“ Annar unglingur viðurkennir: „Tónlist er tálgryfja fyrir mig af því að ég hef svo mikla unun af henni. Ef ég kemst að raun um að það er eitthvað rangt við hana, eða ef foreldrar mínir benda mér á það, þá verð ég virkilega að neyða hugann til að skipa hjartanu fyrir af því að ég hef yndi af þessari tónlist í hjarta mér.“ Unglingar, ykkur má ekki vera „ókunnugt um vélráð“ Satans. (2. Korintubréf 2:11) Hann notar tónlist til að reyna að snúa kristnum ungmennum frá Jehóva! Varðturnsfélagið hefur fjallað um rapp, þungarokk og aðrar tegundir rokktónlistar í ritum sínum. * En rit Félagsins geta auðvitað ekki fjallað um öll ný tónlistarform sem fram kunna að koma. Þess vegna þarftu að sýna „aðgætni“ og ‚hyggindi‘ þegar þú velur þér tónlist. — Orðskviðirnir 2:11.

17. (a) Hvað er porneiʹa og hvers konar athafnir felur hún í sér? (b) Hver er vilji Guðs í siðferðismálum?

17 Að síðustu þarftu að halda þér siðferðilega hreinum. „Flýið saurlifnaðinn!“ hvetur Biblían. (1. Korintubréf 6:18) Frumgríska orðið porneiʹa, sem þýtt er saurlifnaður, merkir allar óleyfilegar kynferðisathafnir utan vébanda hjónabands, þar á meðal munnmök og vísvitandi gælur við kynfæri. Kristnir unglingar hafa stundum tekið þátt í einhverju slíku og ímyndað sér að þeir væru ekki sekir um saurlifnað. En orð Guðs segir skýrt og greinilega: „Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi [það er að segja saurlifnaði], að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:3, 4.

18. (a) Hvernig geta unglingar forðast að smitast af anda heimsins? (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?

18 Já, með hjálp Jehóva geturðu forðast að andi heimsins smiti þig! (1. Pétursbréf 5:10) En oft felur Satan banvænar gildrur sínar og það getur þurft skarpa dómgreind til að bera skyn á hættuna. Í næstu grein er leitast við að hjálpa unglingum að þroska skilningarvit sín.

[Neðanmáls]

^ Danssamkomur sem standa venjulega alla nóttina. Nánari upplýsingar er að finna í greininni: „Young People Ask . . . Are Raves Harmless Fun?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. desember 1997.

^ Um 11 ára gamlar.

^ Nokkrar tillögur er að finna á bls. 296-303 í bókinni Spurningar unga fólksins — svör sem duga.

^ Sjá Varðturninn 1. september 1993.

Spurningar til upprifjunar

◻ Hvað er ‚andi heimsins‘ og hvernig stjórnar hann fólki?

◻ Nefndu dæmi um hvernig andi heimsins birtist meðal ungs fólks.

◻ Hvernig geta kristnir unglingar sýnt ‚annan anda‘ í tali og skemmtun og afþreyingu?

◻ Hvernig geta kristnir unglingar sýnt ‚annan anda‘ í siðferði og tónlistarvali?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Margir unglingar sýna með hegðun sinni að þeir eru undir stjórn „valdhafans“ sem stjórnar anda heimsins.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Vertu vandfýsinn á tónlist.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Það þarf hugrekki til að standa gegn anda heimsins.