Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Öllu er afmörkuð stund“

„Öllu er afmörkuð stund“

„Öllu er afmörkuð stund“

„Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ — PRÉDIKARINN 3:1.

1. Hvað eiga ófullkomnir menn erfitt með og hvaða afleiðingar hefur það haft í sumum tilfellum?

 „ÉG HEFÐI átt að gera þetta fyrr,“ segja menn oft. Eða fólk lítur um öxl og segir: „Ég hefði átt að bíða.“ Þessi viðbrögð lýsa í hnotskurn hve erfitt það er fyrir ófullkomna menn að ákveða hvenær sé rétti tíminn til að gera þetta eða hitt. Þessi takmörk hafa spillt sambandi manna á milli og leitt til vonbrigða og gremju. Hið versta er að þau hafa veikt trú sumra á Jehóva og skipulag hans.

2, 3. (a) Af hverju er viturlegt að viðurkenna tímaákvarðanir Jehóva? (b) Hvaða jafnvægi ættum við að varðveita í sambandi við uppfyllingu biblíuspádómanna?

2 Jehóva býr yfir þeirri visku og því innsæi sem menn skortir og hann er fær um að vita fyrirfram afleiðingar hvaða verks sem er, ef hann vill. Hann getur vitað „endalokin frá öndverðu.“ (Jesaja 46:10) Hann getur því alltaf valið besta tímann til að gera hvaðeina sem hann vill. Það er því viturlegt af okkur að viðurkenna tímaákvarðanir Jehóva í stað þess að treysta á ófullkomið tímaskyn sjálfra okkar.

3 Þroskaðir kristnir menn bíða til dæmis trúfastir eftir tíma Jehóva til að láta ákveðna biblíuspádóma uppfyllast. Þeir eru önnum kafnir í þjónustu hans og hafa ofarlega í huga meginregluna í Harmljóðunum 3:26: „Gott er að bíða hljóður eftir hjálp [Jehóva].“ (Samanber Habakkuk 3:16.) Jafnframt eru þeir sannfærðir um að Jehóva fullnægi dómi sínum ‚þótt það dragist því að það mun vissulega fram koma og ekki undan líða.‘ — Habakkuk 2:3.

4. Hvernig ættu Amos 3:7 og Matteus 24:45 að hjálpa okkur að bíða þolinmóð eftir Jehóva?

4 En höfum við ástæðu til að verða óþolinmóð ef við skiljum ekki fyllilega ákveðna biblíutexta eða skýringar sem gefnar eru í ritum Varðturnsfélagsins? Það er skynsamlegt að bíða þess að tími Jehóva komi til að skýra málið. „[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ (Amos 3:7) Þetta er stórkostlegt loforð! En við verðum að skilja að Jehóva opinberar leynda hluti á þeim tíma sem hann telur það ráðlegt. Hann hefur í þeim tilgangi falið ‚trúum og hyggnum þjóni‘ að sjá fólki sínu fyrir andlegum „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45) Við höfum því enga ástæðu til að gera okkur óhóflegar áhyggjur eða vera óróleg yfir því að ákveðin mál séu ekki skýrð að fullu. Við ættum heldur að treysta því að ef við bíðum þolinmóð eftir Jehóva láti hann hinn trúa þjón færa okkur „á réttum tíma“ það sem við þurfum.

5. Af hverju er gagnlegt að skoða Prédikarann 3:1-8?

5 Hinn vitri Salómon konungur talaði um 28 ólíka hluti sem hver um sig hefði sína ‚afmörkuðu stund.‘ (Prédikarinn 3:1-8) Að skilja merkingu þess sem Salómon sagði auðveldar okkur að ákveða hvað sé réttur tími í augum Guðs til ákveðinna hluta og hvað sé rangur tími. (Hebreabréfið 5:14) Við getum síðan hagað lífi okkar samkvæmt því.

„Að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma“

6, 7. (a) Hvað kemur fólki til að „gráta“ nú á dögum? (b) Hvernig reynir heimurinn að vinna gegn hinu alvarlega ásigkomulagi sínu?

6 Þótt það ‚hafi sinn tíma að gráta og sinn tíma að hlæja‘ vilja sjálfsagt flestir frekar hlæja. (Prédikarinn 3:4) En því miður lifum við í heimi sem gefur okkur fyrst og fremst tilefni til að gráta. Fréttir fjölmiðla eru að stórum hluta dapurlegar. Okkur hryllir við þegar sagt er frá því að börn og unglingar skjóti skólasystkini sín til bana, foreldrar misþyrmi börnum sínum, hryðjuverkamenn drepi eða limlesti saklaust fólk og svokallaðar náttúruhamfarir valdi stórfelldu mann- og eignatjóni. Flóttamenn og hungruð börn með sokkin augu keppa um athygli okkar á sjónvarpsskjánum. Áður ókunn hugtök eins og þjóðernishreinsanir, alnæmi, sýklahernaður og El Niño vekja með okkur óhug hvert á sinn hátt.

7 Heimurinn er fullur af hörmungum og hugarangri, á því leikur enginn vafi. En það er rétt eins og skemmtanaiðnaðurinn vilji gera sem minnst úr hinu alvarlega ástandi því að hann ber jafnt og þétt á borð yfirborðslegt, smekklaust og oft siðlaust og ofbeldisfullt skemmtiefni sem er til þess gert að svæfa okkur fyrir eymd og þjáningum annarra. Hið heimskulega spaug, kæruleysi og léttúðarhlátur, sem þetta skemmtiefni vekur, á hins vegar ekkert skylt við sanna gleði. Heimur Satans getur einfaldlega ekki veitt fólki þá gleði sem er ávöxtur anda Guðs. — Galatabréfið 5:22, 23; Efesusbréfið 5:3, 4.

8. Hvort ættu kristnir menn nú á tímum að leggja áherslu á grát eða hlátur? Skýrðu svarið.

8 Í ljósi þess hve ömurlegt ástandið er í heiminum er tæpast rétti tíminn núna til að leggja mjög mikla áherslu á hlátur. Nú er ekki rétti tíminn til að lifa fyrir afþreyingu og skemmtun eða vera svo upptekinn að „skemmta sér“ að andleg mál sitji á hakanum. (Samanber Prédikarinn 7:2-4.) „Þeir sem nota heiminn“ ættu að vera „eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt,“ að sögn Páls postula. Af hverju? Af því að „heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ (1. Korintubréf 7:31) Sannkristnir menn lifa dag hvern í þeirri vitneskju að við lifum háalvarlega tíma. — Filippíbréfið 4:8.

Hamingjusamir þótt þeir gráti

9. Hvernig var ástandið fyrir flóðið og hvað þýðir það fyrir okkur?

9 Skömmu fyrir heimsflóðið var fólk léttúðugt gagnvart lífinu. Það lifði sínu daglega lífi en grét ekki ‚illsku mannsins sem var mikil á jörðinni,‘ og það lét sér fátt um finnast að ‚jörðin skyldi fyllast glæpaverkum.‘ (1. Mósebók 6:5, 11) Jesús vísaði til þessa hörmungarástands og boðaði að viðhorf fólks á okkar dögum yrðu svipuð. Hann sagði í viðvörunartón: „Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“ — Matteus 24:38, 39.

10. Hvernig sýndu Ísraelsmenn á dögum Haggaí að þeir báru ekki skyn á tímasetningar Jehóva?

10 Um 1850 árum eftir flóðið sýndu margir Ísraelsmenn sams konar áhugaleysi gagnvart andlegum málum. Þeir voru önnum kafnir við eigin hugðarefni og skildu ekki að þeir áttu að láta hagsmuni Jehóva ganga fyrir. Við lesum: „Þessi lýður segir: ‚Enn er ekki tími kominn til að endurreisa hús [Jehóva].‘ Þá kom orð [Jehóva] fyrir munn Haggaí spámanns, svo hljóðandi: Er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús liggur í rústum? Og nú segir [Jehóva] allsherjar svo: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer!“ — Haggaí 1:1-5.

11. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur?

11 Það er líka rétt af okkur að hugleiða líferni okkar alvarlega því að við erum vottar Jehóva núna og höfum svipuð sérréttindi og berum svipaða ábyrgð frammi fyrir honum og Ísraelsmenn á dögum Haggaí. ‚Grátum‘ við yfir ástandinu í heiminum og þeirri smán sem það kallar yfir nafn Jehóva? Hryggir það okkur að sjá fólk afneita tilvist Guðs eða hunsa réttlátar meginreglur hans blygðunarlaust? Eru viðbrögð okkar þau sömu og þeirra manna sem Esekíel sá fá merki á enni sér í sýn fyrir 2500 árum? Við lesum um þá: „[Jehóva] sagði við [manninn með skriffærin]: ‚Gakk þú mitt í gegnum borgina, mitt í gegnum Jerúsalem, og set merki á enni þeirra manna, sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í henni.‘“ — Esekíel 9:4.

12. Hvaða þýðingu hefur Esekíel 9:5, 6 fyrir nútímafólk?

12 Þýðing þessarar frásagnar fyrir okkur núna er ljós af fyrirmælunum sem mennirnir sex með eyðingarverkfærin fengu: „Farið á eftir honum um borgina og höggvið niður, lítið engan vægðarauga og sýnið enga meðaumkun. Öldunga og æskumenn, meyjar og börn og konur skuluð þér brytja niður, en engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á. Og takið fyrst til hjá helgidómi mínum!“ (Esekíel 9:5, 6) Björgun okkar úr þrengingunni miklu, sem nálgast nú óðfluga, er undir því komin að við gerum okkur grein fyrir að nú er tími til að gráta.

13, 14. (a) Hvers konar fólk sagði Jesús vera hamingjusamt? (b) Hvers vegna finnst þér þessi lýsing eiga við votta Jehóva?

13 Sú staðreynd að þjónar Jehóva „gráta“ yfir siðspillingunni í heimsmálunum kemur ekki í veg fyrir að þeir séu hamingjusamir. Þeir eru nefnilega hamingjusömustu menn á jörðinni. Jesús sagði hver væri prófsteinninn á hamingjuna: „Sælir eru fátækir í anda [„þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína,“ NW] . . . sorgbitnir, . . . hógværir, . . . þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, . . . miskunnsamir, . . . hjartahreinir, . . . friðflytjendur, . . . þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir.“ (Matteus 5:3-10) Það er deginum ljósara að þessi lýsing á betur við votta Jehóva í heild en nokkurt annað trúarsamfélag.

14 Þjónar Jehóva hafa sérstaklega haft ástæðu til að „hlæja“ síðan sönn tilbeiðsla var endurreist árið 1919. Andlega hafa þeir orðið sams konar gleði aðnjótandi og fólkið sem sneri heim frá Babýlon á sjöttu öld f.o.t.: „Þegar [Jehóva] sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi. Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. . . . [Jehóva] hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.“ (Sálmur 126:1-3) En jafnvel þótt vottum Jehóva sé hlátur í hug andlega er viturlegt af þeim að hafa í huga hve alvarlega tíma þeir lifa. Þegar nýi heimurinn er genginn í garð og jarðarbúar hafa „höndlað hið sanna líf,“ þá er kominn tími til að grátur víki fyrir hlátri um alla eilífð. — 1. Tímóteusarbréf 6:19; Opinberunarbókin 21:3, 4.

„Að faðmast hefir sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefir sinn tíma“

15. Af hverju vanda kristnir menn val vina sinna?

15 Kristnir menn vanda val vina sinna. Þeir hafa viðvörun Páls í huga sem sagði: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Og hinn vitri konungur Salómon hvatti: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ — Orðskviðirnir 13:20.

16, 17. Hvernig líta vottar Jehóva á vináttu, það „að vera saman“ og hjónaband, og af hverju?

16 Þjónar Jehóva velja sér að vinum þá sem elska hann og réttlæti hans eins og þeir gera sjálfir. Þótt þeir njóti þess að eiga félagsskap við vini sína forðast þeir þá léttúð gagnvart sambandi kynjanna sem er algeng víða um heim nú á dögum. Í stað þess að telja það skaðlausa skemmtun að fólk „sé saman“ eða „fari út saman“ taka þeir það alvarlega sem aðdraganda hjónabands, sem eigi aðeins að eiga sér stað sé fólk líkamlega, hugarfarslega og andlega undir það búið að ganga í varanlegt hjónaband — og frjálst til þess samkvæmt Biblíunni. — 1. Korintubréf 7:36.

17 Sumum þykir þessi afstaða til tilhugalífs og hjónabands kannski gamaldags. En vottar Jehóva láta ekki hópþrýsting hafa áhrif á vinaval sitt eða ákvarðanir um tilhugalíf og hjónaband. Þeir vita að „spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Jehóva veit hvað er manninum fyrir bestu svo að þeir taka alvarlega ráð hans um að giftast ‚aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39; 2. Korintubréf 6:14) Þeir flana ekki út í hjónaband með þá röngu hugmynd að leiðarljósi að það sé alltaf hægt að skilja ef hjónabandið gengur ekki sem skyldi. Þeir taka sér tíma til að finna sér maka við sitt hæfi og hafa hugfast að eftir að stofnað hefur verið til hjónabands gildir lagaákvæði Jehóva: „Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matteus 19:6; Markús 10:9.

18. Hvað getur verið gott upphaf að hamingjusömu hjónabandi?

18 Hjónaband er ævilöng skuldbinding sem verðskuldar góðan undirbúning. Karlmaður ætti að spyrja sjálfan sig hvort þetta sé rétta konan fyrir hann. En hann ætti ekki síður að spyrja sig hvort hann sé rétti maðurinn fyrir hana, og hvort hann sé þroskaður kristinn maður sem sé fær um að fullnægja andlegum þörfum hennar. Bæði hjónaleysin hafa þá skyldu frammi fyrir Jehóva að vera andlega sterk og fær um að stofna sterkt hjónaband sem nýtur velþóknunar hans. Þúsundir kristinna hjóna geta borið vitni um að þjónusta í fullu starfi sé frábær leið til að hefja hjónaband, af því að slík þjónusta leggur áherslu á að gefa en ekki þiggja.

19. Af hverju velja sumir kristnir menn að vera einhleypir?

19 Sumir kristnir menn „halda sér frá faðmlögum“ og velja að vera einhleypir vegna fagnaðarerindisins. (Prédikarinn 3:5) Sumir fresta því að ganga í hjónaband uns þeim finnst þeir andlega hæfir til að vekja áhuga einstaklings við sitt hæfi. En gleymum ekki heldur þeim sem eru einhleypir og þrá að ganga í hjónaband en tekst ekki að finna sér maka. Við getum verið viss um að Jehóva gleðst yfir því að þeir skuli ekki víkja frá meginreglum hans í leit sinni að maka. Við ættum líka að meta hollustu þeirra og veita þeim verðskuldaða uppörvun.

20. Hvers vegna halda hjón sér stundum „frá faðmlögum“?

20 Ættu hjón stundum að „halda sér frá faðmlögum“? Svo virðist vera að vissu marki því að Páll sagði: „En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki.“ (1. Korintubréf 7:29) Gleði og blessun hjónabandsins þarf stundum að vera í öðru sæti á eftir hinum guðræðislegu skyldum. Jafnvægi á þessu sviði veikir ekki hjónabandið heldur styrkir það af því að það minnir bæði hjónin á að Jehóva þarf alltaf að gegna aðalhlutverki í hjónabandinu. — Prédikarinn 4:12.

21. Af hverju ættum við ekki að gagnrýna hjón fyrir ákvarðanir sínar í sambandi við barneignir?

21 Sum hjón hafa neitað sér um að eignast börn til að vera frjálsari til að þjóna Guði. Það kostar fórnfýsi og Jehóva mun umbuna þeim samkvæmt því. Reyndar minnist Biblían hvergi beinlínis á það að vera barnlaus í þágu fagnaðarerindisins þótt hún hvetji til einhleypis í þeim tilgangi. (Matteus 19:10-12; 1. Korintubréf 7:38; samanber Matteus 24:19 og Lúkas 23:28-30.) Hjón verða því að taka sína eigin ákvörðun miðað við aðstæður sínar, samvisku og tilfinningar. Hver svo sem ákvörðunin kann að vera ætti ekki að gagnrýna þau fyrir hana.

22. Hvað er mikilvægt fyrir okkur að ákvarða?

22 Já, „öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ Meira að segja hefur „ófriður . . . sinn tíma, og friður . . . sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1, 8) Næsta grein sýnir fram á hvers vegna það sé mikilvægt fyrir okkur að ákvarða hvort eigi við núna.

Geturðu svarað?

◻ Af hverju er mikilvægt fyrir okkur að vita að „öllu er afmörkuð stund“?

◻ Hvers vegna er aðallega ‚tími til að gráta‘ nú á dögum?

◻ Af hverju eru kristnir menn hamingjusamir þótt þeir ‚gráti‘?

◻ Hvernig sýna sumir kristnir menn að þeir telja rétt að „halda sér frá faðmlögum“ núna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 6, 7]

Þótt kristnir menn ‚gráti‘ yfir ástandinu í heiminum . . .

. . . eru þeir manna hamingjusamastir.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Þjónusta í fullu starfi er góður grundvöllur að hamingjusömu hjónabandi.