Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju líður tíminn svona hratt?

Af hverju líður tíminn svona hratt?

Af hverju líður tíminn svona hratt?

TÍMINN. Það er erfitt að skilgreina orðið nákvæmlega. En eitt er víst: Það er eins og við höfum aldrei nægan tíma. Og við vitum að tíminn líður hratt og andvörpum stundum: „Tíminn flýgur áfram.“

Ljóst er þó að enska ljóðskáldið Austin Dobson komst nærri sannleikanum árið 1877 er hann sagði: „Þú segir að tíminn líði? Ónei, tíminn bíður en við líðum.“ Dobson lést árið 1921 og hefur verið liðinn í nærri 80 ár. Tíminn hefur hins vegar haldið áfram.

Kappnógur tími

Biblían segir um skapara mannsins: „Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.“ (Sálmur 90:2) Tíminn heldur því áfram eins lengi og Guð, það er að segja að eilífu.

Maðurinn er gerólíkur Guði sem hefur eilífðina til umráða: „Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp. Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ — Sálmur 90:9, 10.

Af hverju er lífið svona stutt fyrst Biblían kennir að Guð hafi skapað manninn til að lifa að eilífu? (1. Mósebók 1:27, 28; Sálmur 37:29) Af hverju lifir maðurinn ekki endalaust eins og Guð ætlaðist til heldur nær varla að lifa 30.000 daga þegar best lætur? Af hverju hafa mennirnir svona nauman tíma? Hverju eða hverjum er það að kenna að við búum við þetta sorglega ástand? Biblían gefur skýr og skilmerkileg svör. *

Sífellt knappari tími

Þeir sem komnir eru á efri ár geta borið vitni um að lífið gengur mun hraðar fyrir sig nú en áður. Blaðamaðurinn Sybille Fritsch bendir á að það hafi „ekki dregið úr kvörtunarsemi okkar“ þótt vinnuvikan hafi styst úr 80 klukkustundum í 38 á síðastliðnum 200 árum. „Enginn tími; tíminn er peningar; í tímaþröng eins og í andþröng; erill og asi,“ segir hún til skýringar.

Nýjar uppgötvanir hafa boðið upp á ný tækifæri sem fyrri kynslóðir gátu ekki látið sig dreyma um. En því meiri möguleika sem við höfum til alls konar iðkana, þeim mun gremjulegra þykir okkur að hafa of lítinn tíma til þeirra. Víða um heim stjórnast líf manna af endalausu kapphlaupi við klukkuna. Pabbi þarf að leggja af stað í vinnuna kl. 7:00, mamma þarf að senda börnin í skólann kl. 8:30, afi á viðtalstíma hjá lækni kl. 9:40 og allir þurfa að vera komnir á mikilvægan fund kl. 19:30. Í kapphlaupinu við eitt stefnumótið af öðru er varla nokkur tími til að slaka á. Og við kvörtum undan daglegu streði og lífsgæðakapphlaupi.

Við erum ekki ein um að hafa knappan tíma

Óvinur Guðs, Satan djöfullinn, er sjálfur orðinn fórnarlamb illsku sinnar, en það var ráðabruggi hans að kenna að mannsævin styttist svo mjög. (Samanber Galatabréfið 6:7, 8.) Opinberunarbókin 12:12 gefur okkur von er hún segir um fæðingu messíasarríkisins á himnum: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“

Samkvæmt áreiðanlegum tímareikningi Biblíunnar og uppfyllingu spádóma hennar lifum við núna við lok þessa ‚nauma tíma.‘ Það er mjög gleðilegt til að vita að tíminn, sem Satan fær að leika lausum hala, er alveg að renna út. Þegar honum hefur verið rutt úr vegi verður hlýðnum mönnum lyft upp til fullkomleika og þeir geta öðlast eilífa lífið sem Jehóva ætlaði þeim í upphafi. (Opinberunarbókin 21:1-4) Þá verður enginn tímaskortur.

Geturðu ímyndað þér hvað það þýðir að hafa eilíft líf til umráða — að lifa endalaust? Þú þarft aldrei framar að ergja þig yfir því sem þú hafðir ekki tíma til að gera. Ef þig vantar meiri tíma hefurðu morgundaginn, næstu viku eða næsta ár framundan — reyndar hefurðu eilífðina alla!

Notum viturlega þann tíma sem við höfum núna

Satan veit að hann á nauman tíma eftir til að hafa áhrif á mannkynið og reynir að halda fólki svo uppteknu að það hafi engan tíma til að hlusta á fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs. Það er því skynsamlegt af okkur að fara eftir ráðleggingu Guðs: „Hafið . . . nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ — Efesusbréfið 5:15-17.

Við þurfum að nota tímann viturlega til að sinna því sem mestu máli skiptir en ekki sólunda honum í tilgangslaust brölt sem er einskis virði til langs tíma litið. Við ættum því að tileinka okkur sama viðhorf og Móse þegar hann bað til Jehóva með þessum orðum: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ — Sálmur 90:12.

Allir eru önnum kafnir nú um stundir. Vottar Jehóva hvetja þig samt eindregið til að nota eitthvað af þínum dýrmæta tíma til að fræðast um kröfur Guðs fyrir eilífu lífi undir stjórn ríkis hans. Ef þú notar eina klukkustund í viku til að kynna þér Biblíuna á kerfisbundinn hátt og ‚skilja hver sé vilji Jehóva‘ má vera að þú kynnist af eigin raun sannleiksgildi orðanna: „Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:27, 29.

[Neðanmáls]

^ Sjá 6. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.