Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heimtar Jehóva of mikið af okkur?

Heimtar Jehóva of mikið af okkur?

Heimtar Jehóva of mikið af okkur?

„Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — MÍKA 6:8.

1. Hver gæti verið ástæða þess að sumir þjóna ekki Jehóva?

 JEHÓVA gerir kröfur til fólks síns. En þú dregur kannski þá ályktun, eftir að hafa lesið orðin hér að ofan úr spádómi Míka, að kröfur Guðs séu sanngjarnar. Engu að síður eru margir sem þjóna ekki mikilfenglegum skapara sínum og sumir, sem þjónuðu honum einu sinni, hafa hætt því. Hvers vegna? Vegna þess að þeim finnst Guð heimta of mikið af þeim. Gerir hann það? Eða snýst málið um rétt viðhorf til þess sem Jehóva krefst? Forn frásaga veitir okkur innsýn í það.

2. Hver var Naaman og hvað sagði spámaður Jehóva honum að gera?

2 Sýrlenski hershöfðinginn Naaman var holdsveikur. Honum var sagt að í Ísrael væri spámaður Jehóva sem gæti læknað hann. Naaman hélt því áleiðis til Ísraels ásamt föruneyti sínu og kom að lokum til Elísa, spámanns Guðs. Í stað þess að fara út úr húsi til að taka á móti þessum háttvirta gesti sendi Elísa þjón sinn til Naamans með þessi boð: „Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!“ — 2. Konungabók 5:10.

3. Af hverju neitaði Naaman í fyrstu að gera það sem Jehóva krafðist?

3 Færi Naaman eftir því sem spámaður Guðs sagði honum myndi hann læknast af andstyggilegum sjúkdómi. Heimtaði Jehóva þá of mikið af honum? Í rauninni ekki. En Naaman ætlaði sér ekki að gera það sem Jehóva hafði farið fram á. Hann andmælti: „Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?“ Síðan hélt hann burt í reiði. — 2. Konungabók 5:12.

4, 5. (a) Hvaða umbun fékk Naaman fyrir hlýðni sína og hvernig brást hann við henni? (b) Hvað athugum við núna?

4 Hvert var eiginlega vandamál Naamans? Það var ekki erfitt að uppfylla kröfurnar. Þjónar Naamans sögðu háttvíslega: „Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ‚Lauga þig og munt þú hreinn verða‘?“ (2. Konungabók 5:13) Vandamálið var viðhorf Naamans. Honum fannst sér ekki hafa verið sýnd tilhlýðileg virðing og að sér hefði verið sagt að gera nokkuð sem hann taldi greinilega áhrifalaust og niðurlægjandi. En Naaman tók vel við háttvíslegum ráðum þjóna sinna og dýfði sér sjö sinnum í ána Jórdan. Ímyndaðu þér gleði hans þegar „hold hans [varð] aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn“! Hann var fullur þakklætis. Og það sem meira var, Naaman tilkynnti að þaðan í frá tilbæði hann engan annan guð en Jehóva. — 2. Konungabók 5:14-17.

5 Alla tíð mannsins hefur Jehóva farið fram á að fólk fylgi ýmiss konar reglum. Við skulum athuga nokkrar þeirra og um leið skaltu spyrja þig hvernig þú hefðir brugðist við ef Jehóva hefði ætlast til þess sama af þér. Seinna athugum við hvers Jehóva krefst af okkur núna.

Það sem Jehóva krafðist í fortíðinni

6. Til hvers var ætlast af fyrstu mannhjónunum og hvernig hefðir þú tekið slíkum leiðbeiningum?

6 Jehóva fyrirskipaði fyrstu mannhjónunum, Adam og Evu, að ala upp börn, drottna yfir jörðinni og ráða yfir dýraríkinu. Þeim var einnig gefinn rúmgóður lystigarður fyrir heimili. (1. Mósebók 1:27, 28; 2:9-15) En þeim voru settar skorður. Þau máttu ekki borða af ákveðnu tré, einu af mörgum ávaxtatrjám í Edengarðinum. (1. Mósebók 2:16, 17) Það var ekki til of mikils ætlast, var það? Hefðir þú ekki notið þess að inna af hendi slíkt verkefni með eilíft líf og fullkomna heilsu í vændum? Enda þótt freistari birtist í garðinum, hefðir þú þá ekki hafnað rökum hans? Og hefðir þú ekki verið sammála því að Jehóva hefði rétt til að setja þessa einu reglu? — 1. Mósebók 3:1-5.

7. (a) Hvaða verkefni fékk Nói og hvaða andstöðu mætti hann? (b) Hvað finnst þér um það sem Jehóva sagði Nóa að gera?

7 Seinna sagði Jehóva Nóa að smíða örk sem yrði fólki til björgunar í heimsflóði. Í ljósi þess hve örkin var stór var þetta ekki auðvelt verk og eflaust unnið andspænis miklu spotti og fjandskap. En þetta voru mikil sérréttindi fyrir Nóa að geta bjargað heimilisfólki sínu, og ekki má gleyma öllum dýrunum! (1. Mósebók 6:1-8, 14-16; Hebreabréfið 11:7; 2. Pétursbréf 2:5) Ef þú hefðir fengið þetta verkefni, hefðirðu þá ekki unnið hörðum höndum til að ljúka því? Eða hefðirðu ályktað sem svo að Jehóva væri að heimta of mikið af þér?

8. Hvers var krafist af Abraham og hvað var sýnt fram á með hlýðni hans?

8 Guð lagði erfitt verkefni á herðar Abrahams og sagði við hann: „Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn.“ (1. Mósebók 22:2) Þar sem Jehóva hafði lofað að Ísak, sem var þá barnlaus, myndi eignast afkvæmi reyndi þetta mikið á þá trú Abrahams að Guð gæti endurlífgað Ísak. Þegar Abraham ætlaði svo að fórna Ísak lét Guð unga manninn halda lífi. Þetta atvik sýndi að Guð myndi fórna eigin syni í þágu mannkyns og reisa hann aftur til lífs. — 1. Mósebók 17:19; 22:9-18; Jóhannes 3:16; Postulasagan 2:23, 24, 29-32; Hebreabréfið 11:17-19.

9. Hvers vegna heimtaði Jehóva ekki of mikið af Abraham?

9 Sumum kann að finnast að Jehóva Guð hafi heimtað of mikið af Abraham. En gerði hann það? Er það virkilega kærleikslaust af skapara okkar, sem getur vakið látna til lífs, að fara fram á að við hlýðum sér, jafnvel þótt það hafi í för með sér að við sofum tímabundið dauðasvefni? Jesús Kristur og fyrstu fylgjendur hans álitu það ekki. Þeir voru fúsir til að líða líkamlegar ofsóknir, jafnvel að deyja, til að gera vilja Guðs. (Jóhannes 10:11, 17, 18; Postulasagan 5:40-42; 21:13) Værir þú fús til að gera hið sama ef aðstæður útheimtu það? Íhugaðu nokkuð af því sem Jehóva krafðist af þeim sem féllust á að vera fólk hans.

Lögmál Jehóva til Ísraelsmanna

10. Hverjir lofuðu að gera allt sem Jehóva fór fram á og hvað lét hann þeim í té?

10 Ísraelsþjóðin kom af niðjum Abrahams, í ætt sonar hans Ísaks og sonarsonarins Jakobs eða Ísraels. Jehóva frelsaði Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi. (1. Mósebók 32:28; 46:1-3; 2. Samúelsbók 7:23, 24) Stuttu síðar lofuðu þeir að gera allt sem Guð ætlaðist til af þeim. Þeir sögðu: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ (2. Mósebók 19:8) Í samræmi við vilja Ísraelsmanna til að láta Jehóva stjórna sér gaf hann þeim meira en 600 lagaákvæði, þar á meðal boðorðin tíu. Er tímar liðu urðu þessi lög Guðs, sem þeir fengu fyrir milligöngu Móse, þekkt sem lögmálið. — Esrabók 7:6; Lúkas 10:25-27; Jóhannes 1:17.

11. Hver var einn tilgangurinn með lögmálinu og hvaða reglur áttu að ná honum fram?

11 Einn tilgangur með lögmálinu var að vernda Ísraelsmenn með því að setja þeim heilnæmar reglur um mál eins og siðferði, viðskipti og barnauppeldi. (2. Mósebók 20:14; 3. Mósebók 18:6-18, 22-24; 19:35, 36; 5. Mósebók 6:6-9) Settar voru reglur um hvernig koma ætti fram við aðra menn og hvernig ætti að fara með dýr. (3. Mósebók 19:18; 5. Mósebók 22:4, 10) Kröfur um árlegar hátíðir og tilbeiðslusamkomur veittu fólkinu andlega vernd. — 3. Mósebók 23:1-43; 5. Mósebók 31:10-13.

12. Hver var aðaltilgangurinn með lögmálinu?

12 Páll postuli benti á aðaltilganginn með lögmálinu er hann skrifaði: „Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið [Kristur] kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um.“ (Galatabréfið 3:19) Lögmálið minnti Ísraelsmenn á að þeir væru ófullkomnir. Þess vegna þurftu þeir á fullkominni fórn að halda sem gæti afmáð syndir þeirra algerlega. (Hebreabréfið 10:1-4) Lögmálinu var því ætlað að búa fólkið undir að taka á móti Jesú sem var Messías eða Kristur. Páll skrifaði: „Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.“ — Galatabréfið 3:24.

Var lögmál Jehóva íþyngjandi?

13. (a) Hvernig litu ófullkomnir menn á lögmálið og hvers vegna? (b) Var lögmálið í raun og veru íþyngjandi?

13 Enda þótt lögmálið hafi verið „heilagt, réttlátt og gott“ fannst mörgum það íþyngjandi. (Rómverjabréfið 7:12) Þar sem lögmálið var fullkomið stóðust Ísraelsmenn ekki hinar háu kröfur þess. (Sálmur 19:8) Þess vegna kallaði Pétur postuli það „ok . . . er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera.“ (Postulasagan 15:10) Að sjálfsögðu var lögmálið sjálft ekki byrði og fólkið naut góðs af að hlýða því.

14. Nefndu nokkur dæmi sem sýna fram á að lögmálið var gagnlegt fyrir Ísraelsmenn.

14 Undir lögmálinu var þjófi til að mynda ekki varpað í fangelsi heldur þurfti hann að vinna til að borga tvöfalt eða meira fyrir það sem hann hafði stolið. Þannig beið fórnarlambið ekki tjón og iðjusamt fólk þurfti ekki að kosta rekstur fangelsa. (2. Mósebók 22:1, 3, 4, 7) Hættuleg matvæli voru bönnuð. Ef svínakjöt er ekki soðið vel getur það borið með sér fleskormaveiki og kanínur geta borið hérasótt. (3. Mósebók 11:4-12) Lögmálið veitti einnig vernd með því að banna meðhöndlun á hræjum. Ef maður snerti lík var þess krafist að hann þvægi sér og föt sín. (3. Mósebók 11:31-36; 4. Mósebók 19:11-22) Saur átti að grafa til að vernda fólkið gegn útbreiðslu sýkla en vísindamenn uppgötvuðu ekki sýkla fyrr en á síðustu öld. — 5. Mósebók 23:13.

15. Hvað reyndist vera Ísraelsmönnum byrði?

15 Lögmálið heimtaði ekki of mikið af fólkinu. En sama er ekki hægt að segja um menn sem tóku að sér að túlka lögmálið. Bókin A Dictionary of the Bible í ritstjórn James Hastings segir um reglurnar sem þeir settu: „Hvert einasta boðorð Biblíunnar var umkringt aragrúa smásálarlegra reglna. . . . Þannig var reynt að færa allar hugsanlegar aðstæður undir ramma lögmálsins og reynt með vægðarlausum rökum að láta alla hegðun mannsins stjórnast af ströngum þumalputtareglum. . . . Rödd samviskunnar var bæld niður; hinn lifandi kraftur orðs Guðs var gerður óvirkur og kæfður undir ógrynni af utanaðkomandi reglum.“

16. Hvað sagði Jesús um þungbærar reglur og erfðavenjur trúarleiðtoganna?

16 Jesús Kristur fordæmdi trúarleiðtogana, sem settu fólkinu fjöldann allan af reglum, er hann sagði: „Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.“ (Matteus 23:2, 4) Hann benti á að þungar mannasetningar þeirra og erfðavenjur, þar á meðal ítarlegar reglur um þvotta, ‚ógiltu orð Guðs.‘ (Markús 7:1-13; Matteus 23:13, 24-26) En lærifeðurnir í Ísrael voru farnir að rangfæra kröfur Jehóva áður en Jesús kom til jarðar.

Það sem Jehóva fer í raun og veru fram á

17. Hvers vegna var Jehóva ekki ánægður með brennifórnir ótrúrra Ísraelsmanna?

17 Jehóva sagði fyrir milligöngu spámannsins Jesaja: „Ég er orðinn saddur á hrútabrennifórnum og alikálfafeiti, og í uxa-, lamba- og hafrablóð langar mig ekki.“ (Jesaja 1:10, 11) Af hverju hafði Guð vanþóknun á fórnum sem hann sjálfur hafði krafist í lögmálinu? (3. Mósebók 1:1–4:35) Af því að fólkið vanvirti hann. Þess vegna var það áminnt: „Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.“ (Jesaja 1:16, 17) Skerpir þetta ekki skilning okkar á því hvers Jehóva ætlast til af þjónum sínum?

18. Til hvers ætlaðist Jehóva raunverulega af Ísraelsmönnum?

18 Jesús benti á hvað Guð fer í raun og veru fram á þegar hann var spurður: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Hann svaraði: „‚Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘ Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matteus 22:36-40; 3. Mósebók 19:18; 5. Mósebók 6:4-6) Spámaðurinn Móse kom þessu einnig á framfæri þegar hann spurði: „Hvers krefst [Jehóva] Guð þinn af þér nema þess, að þú óttist [Jehóva] Guð þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir [Jehóva] Guði þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni með því að halda skipanir hans og lög?“ — 5. Mósebók 10:12, 13; 15:7, 8.

19. Hvernig reyndu Ísraelsmenn að sýnast heilagir en hvað sagði Jehóva við þá?

19 Þrátt fyrir syndir sínar vildu Ísraelsmenn sýnast heilagir. Lögmálið krafðist aðeins föstu á hinum árlega friðþægingardegi en þeir byrjuðu að fasta oftar. (3. Mósebók 16:30, 31) En Jehóva ávítaði þá og sagði: „Sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.“ — Jesaja 58:3-7.

20. Af hverju ávítaði Jesús trúhræsnarana?

20 Þessir sjálfumglöðu Ísraelsmenn höfðu svipað vandamál og trúhræsnararnir sem Jesús sagði við: „Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.“ (Matteus 23:23; 3. Mósebók 27:30) Leiða ekki orð Jesú okkur fyrir sjónir hvers Jehóva ætlast í raun og veru til af okkur?

21. Hvernig dró spámaðurinn Míka saman það sem Jehóva krefst og krefst ekki af okkur?

21 Til að útskýra hvers Jehóva krefst af okkur og hvers ekki spurði spámaður hans, Míka: „Með hvað á ég að koma fram fyrir [Jehóva], beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa? Hefir [Jehóva] þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar? — Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — Míka 6:6-8.

22. Hvers vænti Jehóva sérstaklega af þeim sem voru undir lögmálinu?

22 Hvers krafðist Jehóva þá sérstaklega af þeim sem voru undir lögmálinu? Að sjálfsögðu áttu þeir að elska Jehóva Guð. Páll postuli sagði enn fremur: „Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ (Galatabréfið 5:14) Og hann sagði kristnum mönnum í Róm nokkuð á sömu leið: „Sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið. . . . kærleikurinn [er] fylling lögmálsins.“ — Rómverjabréfið 13:8-10.

Það er ekki of mikið

23, 24. (a) Af hverju ætti okkur aldrei að þykja það einum of mikið að gera það sem Jehóva fer fram á? (b) Hvað skoðum við næst?

23 Þykir okkur ekki mikið til um hve Jehóva Guð er kærleiksríkur, umhugsunarsamur og miskunnsamur? Eingetinn sonur hans, Jesús Kristur, kom til jarðar til að mikla kærleika Guðs — til að láta fólk vita hve dýrmætt það er í augum Jehóva. Til að útskýra kærleika Guðs sagði Jesús að ekki ‚félli einn spörvi til jarðar án vitundar föður okkar.‘ Hann bætti við: „Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matteus 10:29-31) Vissulega ætti það aldrei að vera okkur um megn að gera það sem kærleiksríkur Guð fer fram á!

24 En til hvers ætlast Jehóva af okkur núna? Og hvers vegna virðast sumir telja að hann heimti of mikið? Með því að rannsaka þessar spurningar ættum við að geta séð af hverju það eru stórkostleg sérréttindi að gera hvað sem Jehóva vill.

Veistu svarið?

◻ Hvers vegna hætta sumir að þjóna Jehóva?

◻ Hvernig hafa kröfur Jehóva reynst breytilegar í aldanna rás?

◻ Hvaða tilgangi þjónaði lögmálið?

◻ Af hverju er það sem Jehóva heimtar af okkur ekki of mikið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Mannasetningar, eins og ítarlegar reglur um þvotta, hafa gert tilbeiðsluna íþyngjandi.