Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers ætlast Jehóva til af okkur núna?

Hvers ætlast Jehóva til af okkur núna?

Hvers ætlast Jehóva til af okkur núna?

„Rödd úr skýinu sagði: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!‘“ — MATTEUS 17:5.

1. Hvenær uppfyllti lögmálið tilgang sinn?

 JEHÓVA gaf Ísraelsþjóðinni lögmálið með öllum ákvæðum þess. Páll postuli skrifaði um þau: „Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, . . . sem mönnum eru á herðar [lögð] allt til tíma viðreisnarinnar.“ (Hebreabréfið 9:10) Þegar lögmálið leiddi leifar Ísraelsmanna til að taka við Jesú sem Messíasi eða Kristi hafði það fullnað tilgang sinn. Páll lýsti því yfir: „Kristur er endalok lögmálsins.“ — Rómverjabréfið 10:4; Galatabréfið 3:19-25; 4:4, 5.

2. Hverjir voru undir lögmálinu og hvenær losnuðu þeir undan því?

2 Merkir þetta að lögmálið setji okkur engar skorður? Í rauninni var meirihluti mannkyns aldrei undir lögmálinu eins og sálmaritarinn útskýrði: „[Jehóva] kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði. Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín.“ (Sálmur 147:19, 20) Þegar Guð gerði nýja sáttmálann á grundvelli lausnarfórnar Jesú var jafnvel Ísraelsþjóðin ekki lengur skyldug til að hlýða lögmálinu. (Galatabréfið 3:13; Efesusbréfið 2:15; Kólossubréfið 2:13, 14, 16) Fyrst lögmálið er ekki lengur bindandi hvers ætlast Jehóva þá til af þeim sem vilja þjóna honum núna?

Það sem Jehóva ætlast til

3, 4. (a) Hvers krefst Jehóva í meginatriðum af okkur núna? (b) Af hverju ættum við að feta í fótspor Jesú?

3 Á síðasta þjónustuári Jesú fóru postularnir Pétur, Jakob og Jóhannes með honum upp á hátt fjall, hugsanlega á fjallshrygg Hermonfjalls. Þar sáu þeir spádómlega sýn af Jesú í mikilfenglegri dýrð og heyrðu Guð sjálfan lýsa yfir: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matteus 17:1-5) Þetta er í raun og veru það sem Jehóva krefst af okkur — að við hlustum á son hans og fylgjum fordæmi hans og kenningum. (Matteus 16:24) Pétur postuli skrifaði því: „Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ — 1. Pétursbréf 2:21.

4 Af hverju ættum við að feta í fótspor Krists? Af því að ef við líkjum eftir honum, líkjum við eftir Jehóva Guði. Jesús þekkti föður sinn náið. Hann hafði verið óteljandi ármilljarða með honum á himni áður en hann kom til jarðar. (Orðskviðirnir 8:22-31; Jóhannes 8:23; 17:5; Kólossubréfið 1:15-17) Þegar Jesús var á jörðinni var hann trúfastur fulltrúi föður síns. Hann sagði: „Ég [tala] það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ Reyndar líkti Jesús svo nákvæmlega eftir föður sínum að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ — Jóhannes 8:28; 14:9.

5. Undir hvaða lögmáli eru kristnir menn og hvenær tók það gildi?

5 Hvað felst í því að hlusta á Jesú og líkja eftir honum? Merkir það að vera undir lögmálinu? Páll skrifaði: „Ég sjálfur [er] ekki undir lögmálinu.“ Hann vísaði hér til ‚gamla sáttmálans,‘ lagasáttmálans sem gerður var við Ísrael. Páli var ljóst að hann var „bundinn lögmáli Krists.“ (1. Korintubréf 9:20, 21; 2. Korintubréf 3:14) Þegar gamli lagasáttmálinn leið undir lok tók „hinn nýi sáttmáli“ gildi ásamt ‚lögmáli Krists‘ sem öllum þjónum Jehóva nú á tímum ber skylda til að hlýða. — Lúkas 22:20; Galatabréfið 6:2; Hebreabréfið 8:7-13.

6. Hvernig mætti lýsa ‚lögmáli Krists‘ og hvernig hlýðum við því?

6 Jehóva lét „lögmál Krists“ ekki verða að lagasafni með því að raða því í ýmsa flokka eins og gert var í gamla lagasáttmálanum. Þessi nýju lög eru handa fylgjendum Krists og fela ekki í sér langan lista yfir það hvað má og hvað má ekki gera. Hins vegar varðveitti Jehóva í orði sínu fjórar ítarlegar frásögur af lífi og kenningum sonar síns. Auk þess innblés Guð nokkrum fyrstu fylgjendum Jesú að færa í letur leiðbeiningar um framkomu, safnaðarmál, hegðun í fjölskyldunni og önnur mál. (1. Korintubréf 6:18; 14:26-35; Efesusbréfið 5:21-33; Hebreabréfið 10:24, 25) Þegar við samræmum líf okkar fordæmi og kenningum Jesú Krists og tökum til okkar ráðleggingar innblásinna biblíuritara fyrstu aldar, þá hlýðum við ‚lögmáli Krists.‘ Þetta er það sem Jehóva ætlast til af þjónum sínum núna.

Mikilvægi kærleikans

7. Hvernig lagði Jesús áherslu á kjarnann í lögmáli sínu á síðustu páskahátíðinni með lærisveinunum?

7 Kærleikur var mikilvægur undir lögmálinu en undirstaðan eða kjarninn í lögmáli Krists. Jesús lagði áherslu á það þegar hann hélt páskahátíðina ásamt postulum sínum árið 33. Samkvæmt ágripi Jóhannesar af atburðum þessa kvölds nefndi Jesús kærleika 28 sinnum. Það brýndi fyrir postulum hans hver undirstaða eða andi laga hans væri. Jóhannes hóf því umfjöllun sína um atburði þessa örlagaríka kvölds með því að segja: „Jesús vissi, að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.“ — Jóhannes 13:1.

8. (a) Hvað gaf til kynna að postularnir væru enn að deila sín á milli? (b) Hvernig kenndi Jesús postulum sínum lexíu í auðmýkt?

8 Jesús elskaði postula sína jafnvel þótt hann hefði reynt án sýnilegs árangurs að hjálpa þeim að sigrast á óhóflegri löngun í völd og stöður. Nokkrum mánuðum áður en þeir komu til Jerúsalem ‚höfðu þeir verið að ræða sín á milli hver væri mestur.‘ Og rétt áður en þeir komu til borgarinnar til að halda páska kviknaði deilan um völd og stöður aftur. (Markús 9:33-37; 10:35-45) Það sem gerðist stuttu eftir að postularnir komu í loftstofuna til að halda síðustu páskahátíð sína saman sýnir að þetta var enn þá vandamál hjá þeim. Enginn þeirra nýtti sér tækifærið til að sýna þá almennu gestrisni að þvo fætur hinna. Jesús þvoði fætur þeirra til að kenna þeim lexíu í auðmýkt. — Jóhannes 13:2-15; 1. Tímóteusarbréf 5:9, 10.

9. Hvernig tók Jesús á aðstæðunum sem komu í kjölfar síðustu páskamáltíðarinnar?

9 Taktu eftir hvað gerðist aftur þrátt fyrir þessa lexíu, eftir að þeir höfðu lokið páskamáltíðinni og Jesús stofnsetti minningarhátíðina um komandi dauða sinn. Í frásögn Lúkasar segir: „Þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur.“ Í stað þess að reiðast postulunum og ávíta þá ráðlagði Jesús þeim vingjarnlega að vera ekki eins og valdaþyrstir leiðtogar heimsins. (Lúkas 22:24-27) Síðan lagði hann það sem mætti kalla hornsteininn í lögmáli hans og sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ — Jóhannes 13:34.

10. Hvaða boðorð gaf Jesús lærisveinum sínum og hvað fól það í sér?

10 Síðar sama kvöld benti Jesús á hve langt kærleikurinn átti að ná. Hann sagði: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:12, 13) Var Jesús að segja að fylgjendur sínir ættu að vera fúsir til að deyja fyrir trúbræður sína ef aðstæður útheimtu það? Jóhannes skildi þetta þannig, en hann var sjónarvottur að þessum atburði og skrifaði seinna: „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:16.

11. (a) Hvernig uppfyllum við lögmál Krists? (b) Hvaða fordæmi lét Jesús í té?

11 Þar af leiðandi uppfyllum við ekki aðeins lögmál Krists með því að fræða aðra um hann. Við þurfum líka að lifa og koma fram eins og Jesús. Jesús notaði vissulega falleg og vel valin orð í ræðum sínum en hann kenndi einnig með fordæmi sínu. Enda þótt hann hefði verið voldug andavera á himni notaði hann tækifærið til að þjóna hagsmunum föður síns á jörðinni og sýna hvernig við ættum að lifa. Hann var auðmjúkur, vingjarnlegur, nærgætinn og hjálpaði þeim sem báru þungar byrðar og áttu erfitt. (Matteus 11:28-30; 20:28; Filippíbréfið 2:5-8; 1. Jóhannesarbréf 3:8) Og Jesús brýndi fyrir fylgjendum sínum að elska hver annan rétt eins og hann elskaði þá.

12. Af hverju er hægt að segja að lögmál Krists dragi ekki úr nauðsyn þess að elska Jehóva?

12 Hvaða sæti skipar kærleikurinn til Jehóva — sem var æðsta boðorð lögmálsins — í lögmáli Krists? (Matteus 22:37, 38; Galatabréfið 6:2) Annað sætið? Nei, alls ekki! Kærleikurinn til Jehóva og kærleikurinn til trúbræðra okkar eru nátengdir. Það er ekki hægt að elska Jehóva í alvöru án þess að elska bróður sinn, því að Jóhannes postuli sagði: „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:20; samanber 1. Jóhannesarbréf 3:17, 18.

13. Hvaða árangur bar hlýðni lærisveina Jesú við nýja boðorðið?

13 Þegar Jesús gaf lærisveinunum nýja boðorðið um að elska hver annan eins og hann elskaði þá lýsti hann þeim áhrifum sem það hefði í för með sér. „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar,“ sagði hann, „ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Samkvæmt Tertúllíanusi, sem var uppi meira en hundrað árum eftir dauða Jesú, hafði bróðurkærleikur frumkristinna manna einmitt þessi áhrif. Tertúllíanus vitnaði í fólk, sem ekki var kristið, en sagði um fylgjendur Krists: ‚Sjáið hversu þeir elska hver annan og eru jafnvel fúsir til að deyja hver fyrir annan.‘ Við getum spurt okkur hvort kærleikurinn, sem við sýnum trúbræðrum okkar, sanni að við séum lærisveinar Jesú.

Þannig sönnum við kærleika okkar

14, 15. Hvað getur gert okkur erfitt um vik að hlýða lögmáli Krists en hvað getur hjálpað okkur til þess?

14 Það er nauðsynlegt að þjónar Jehóva sýni kærleika að hætti Krists. En finnst þér stundum erfitt að elska trúbræður sem sýnast eigingjarnir? Eins og við höfum séð deildu jafnvel postularnir sín á milli og reyndu að skara eld að sinni köku. (Matteus 20:20-24) Galatamenn rifust einnig innbyrðis. Eftir að Páll hafði bent þeim á að náungakærleikurinn uppfyllti lögmálið varaði hann þá við: „En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.“ Eftir að hafa borið verk holdsins saman við ávexti anda Guðs áminnti hann: „Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.“ Síðan hvatti hann: „Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ — Galatabréfið 5:14–6:2.

15 Heimtar Jehóva of mikið af okkur með því að krefjast að við hlýðum lögmáli Krists? Enda þótt það geti reynst erfitt að vera vingjarnlegur við þá sem hafa kannski hreytt í okkur ónotum eða sært tilfinningar okkar, þá ber okkur skylda til að ‚verða eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans og lifa í kærleika.‘ (Efesusbréfið 5:1, 2) Við þurfum að halda áfram að horfa á fordæmi Guðs sem „auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rómverjabréfið 5:8) Ef við eigum frumkvæðið að því að hjálpa öðrum, meðal annars þeim sem hafa farið illa með okkur, getum við notið þess að vita að við líkjum eftir Guði og hlýðum lögmáli Krists.

16. Hvernig sýnum við kærleika okkar til Guðs og Krists?

16 Við ættum að muna að við sýnum kærleika okkar ekki aðeins með orðum okkar heldur einnig verkum. Einu sinni fannst Jesú mjög erfitt að hlýða einu boði Guðs vegna alls þess sem það fól í sér. „Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér!“ bað hann. Hann bætti þó strax við: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ (Lúkas 22:42) Þrátt fyrir allt sem Jesús þurfti að líða gerði hann vilja Guðs. (Hebreabréfið 5:7, 8) Hlýðni ber vitni um kærleika okkar og sýnir að við teljum veg Guðs vera bestan. „Í þessu birtist elskan til Guðs,“ segir Biblían, „að vér höldum hans boðorð.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Og Jesús sagði postulum sínum: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“ — Jóhannes 14:15.

17. Hvaða sérstakt boðorð gaf Jesús fylgjendum sínum og hvernig vitum við að það á við okkur?

17 Hvaða sérstakt boðorð gaf Kristur fylgjendum sínum auk þess að fyrirskipa þeim að elska hver annan? Hann sagði þeim að prédika eins og hann hafði þjálfað þá til. Pétur sagði: „Hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna.“ (Postulasagan 10:42) Jesús hafði fyrirskipað þeim sérstaklega: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8) Jesús gerði það ljóst að þessi fyrirmæli ættu einnig við fylgjendur hans núna við ‚endalokin,‘ því að hann sagði: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Daníel 12:4; Matteus 24:14) Að sjálfsögðu er það vilji Guðs að við prédikum. En sumum finnst kannski að Guð heimti of mikið með því að krefjast þess. En er raunin sú?

Hvers vegna það getur virst erfitt

18. Eftir hverju ættum við að muna þegar við þjáumst fyrir að gera það sem Jehóva fer fram á?

18 Eins og við höfum séð hefur Jehóva farið fram á að fólk hlýði ýmsum kröfum í aldanna rás. Og rétt eins og kröfurnar hafa verið margvíslegar hefur fólkið orðið fyrir margvíslegum prófraunum. Ástkær sonur Guðs leið miklar þjáningar og var að lokum drepinn á grimmilegasta hátt af því að hann gerði það sem Guð fór fram á. En þegar við þjáumst vegna þess sem Jehóva ætlast til af okkur, ættum við að muna að prófraunir okkar eru ekki honum að kenna. (Jóhannes 15:18-20; Jakobsbréfið 1:13-15) Uppreisn Satans leiddi til syndar, þjáninga og dauða og hann hefur myndað þær aðstæður sem hafa oft gert þjónum Jehóva mjög erfitt um vik að uppfylla kröfur Jehóva. — Jobsbók 1:6-19; 2:1-8.

19. Af hverju eru það sérréttindi að gera það sem Guð krefst fyrir milligöngu sonar síns?

19 Fyrir milligöngu sonar síns hefur Jehóva fyrirskipað að þjónar sínir kunngeri um allan heim, nú á hinum síðustu tímum, að Guðsríki sé eina ráðið við öllum meinum manna. Þessi ríkisstjórn Guðs útrýmir öllum vandamálum á jörðinni — styrjöldum, glæpum, fátækt, elli, sjúkdómum og dauða. Guðsríki innleiðir einnig dýrlega jarðneska paradís þar sem jafnvel látnir fá upprisu. (Matteus 6:9, 10; Lúkas 23:43; Postulasagan 24:15; Opinberunarbókin 21:3, 4) Það eru mikil sérréttindi að kunngera slíkt fagnaðarerindi! Því er augljóst að það er ekkert óeðlilegt sem Jehóva ætlast til af okkur. Við mætum andstöðu en það er Satan djöfullinn og heimur hans sem standa að baki henni.

20. Hvernig getum við ráðið fram úr öllum þrautum sem djöfullinn leggur fyrir okkur?

20 Hvernig getum við ráðið fram úr þrautum sem Satan leggur fyrir okkur? Með því að hafa í huga þessi orð: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Jesús gaf Jehóva svar við ögrun Satans með því að yfirgefa öryggið á himnum til að gera vilja föður síns á jörðinni. (Jesaja 53:12; Hebreabréfið 10:7) Sem maður þoldi Jesús allar þær raunir sem lagðar voru á hann, jafnvel dauða á kvalastaur. Ef við höfum hann sem fyrirmynd getum við einnig þolað þjáningar og gert það sem Jehóva ætlast til af okkur. — Hebreabréfið 12:1-3.

21. Hvað finnst þér um kærleika Jehóva og sonar hans?

21 Guð og sonur hans hafa sýnt okkur mikinn kærleika! Vegna fórnar Jesú hafa hlýðnir menn von um að lifa að eilífu í paradís. Við skulum því ekki leyfa neinu að myrkva von okkar. Við skulum frekar taka til okkar persónulega það sem Jesús gerði mögulegt, eins og Páll gerði en hann sagði: „Guðs son . . . elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Galatabréfið 2:20) Og megum við sýna Jehóva Guði einlægt þakklæti en hann heimtar aldrei of mikið af okkur.

Hvernig svarar þú?

◻ Til hvers ætlast Jehóva af okkur núna?

◻ Hvernig lagði Jesús áherslu á kærleika síðasta kvöldið sem hann átti með postulum sínum?

◻ Hvernig getum við sýnt að við elskum Guð?

◻ Af hverju eru það sérréttindi að gera það sem Jehóva fer fram á?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Hvaða lexíu kenndi Jesús með því að þvo fætur postula sinna?

[Mynd á blaðsíðu 31]

Prédikun fagnaðarerindisins er ánægjuleg sérréttindi þótt móti blási.