Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

2000 — sérstakt merkisár?

2000 — sérstakt merkisár?

2000 — sérstakt merkisár?

ER EITTHVAÐ sérstakt við árið 2000? Á Vesturlöndum er almennt litið svo á að þriðja árþúsundin hefjist með árinu 2000. Mikil og margvísleg hátíðahöld eru í undirbúningi. Risastórar rafeindaklukkur hafa verið settar upp til að telja sekúndurnar fram að nýrri árþúsund. Miklir viðhafnardansleikir eru áformaðir á gamlárskvöld. Í smáverslunum og stórverslunum fást stuttermabolir með slagorðum í tilefni árþúsundamótanna.

Kirkjur, bæði stórar og smáar, taka þátt í hátíðahöldum sem eiga að standa allt árið. Snemma á næsta ári er gert ráð fyrir að Jóhannes Páll páfi annar haldi til Ísraels til að opna „árþúsundahátíð rómversk-kaþólsku kirkjunnar“ sem svo er kölluð. Búist er við að einhvers staðar á bilinu tvær og hálf til sex milljónir ferðamanna heimsæki Ísrael á næsta ári, bæði heittrúaðir og forvitnir og allt þar á milli.

Hvers vegna ráðgera svona margir að sækja Ísrael heim? Roger Etchegaray kardínáli og embættismaður Páfagarðs segir fyrir hönd páfa: „Árið 2000 er hátíð Krists og þjónustu hans í þessu landi. Það er ekki nema eðlilegt að páfi komi hingað.“ Hvernig er árið 2000 tengt Jesú Kristi? Margir álíta að þá séu liðin nákvæmlega 2000 ár frá fæðingu hans. En er það svo? Skoðum málið.

Sumir trúflokkar leggja sérstaklega mikið upp úr árinu 2000 og flokksmenn trúa því statt og stöðugt að innan árs eða svo snúi Jesús aftur til Olíufjallsins og stríðið við Harmagedón, sem talað er um í Opinberunarbókinni, verði háð í Megiddódal. (Opinberunarbókin 16:14-16) Hundruð Bandaríkjamanna hafa selt hús sín og eigur að mestu og flust til Ísraels til að vera viðbúnir komu Krists. Þekktur bandarískur vakningarprédikari er sagður hafa lofað þeim sem ekki eiga heimangengt að sýna endurkomu Jesú í sjónvarpi — meira að segja í litum!

Á Vesturlöndum ætla menn að heilsa þriðju árþúsundinni með mikilli viðhöfn en víða annars staðar láta menn sér fátt um finnast. Þorri jarðarbúa trúir nefnilega ekki að Jesús frá Nasaret hafi verið Messías og margar þjóðir miða tímatal sitt alls ekki við fæðingu hans. * Í löndum Múslíma er víða notað almanak þar sem ártalið miðast við flótta Múhameðs frá Mekka til Medínu. Hjá þeim er næsta ár 1420 en ekki 2000. Þegar allt er talið nota jarðarbúar um 40 mismunandi almanök.

Ætti árið 2000 að hafa sérstaka þýðingu fyrir kristna menn? Er 1. janúar árið 2000 merkisdagur öðrum fremur? Þessum spurningum er svarað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ Skammstafanirnar „f.Kr.“ (fyrir Krist) og „e.Kr.“ (eftir Krist) á eftir ártali miðast við það ár sem Jesús var talinn hafa fæðst. Sumum fræðimönnum þykir réttara að nota „f.o.t.“ (fyrir okkar tímatal) og „e.o.t.“ (eftir okkar tímatali).