Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Búðu þig undir árþúsundina sem máli skiptir

Búðu þig undir árþúsundina sem máli skiptir

Búðu þig undir árþúsundina sem máli skiptir

ÞÚSUNDÁRARÍKI Krists hefur ómælda blessun í för með sér fyrir mannkynið. Undir kærleiksstjórn hans verður mannkynið fullkomnað og allar hörmungar nútímans þurrkaðar út. Hugsaðu þér hvað það getur þýtt fyrir þig —  heilsu! Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig það verður að vakna á hverjum morgni hressari en daginn áður. Milljónir karla, kvenna og barna hlakka til að lifa þann hamingjutíma. Þau treysta á þessa von og biðja að hún rætist. Biblíunám þeirra hefur sannfært þau um að þau geti hlotið þessa blessun.

En áður en þúsundáraríkið gengur í garð þarf Jesús Kristur að losa jörðina við alla andstæðinga stjórnar sinnar. Það gerir hann í stríði sem Biblían kallar Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:16) Þetta er stríð Guðs og sannkristnir menn taka engan þátt í því. Og það verður ekki háð á neinum einum stað á jörðinni heldur segir Biblían að það nái til ystu endimarka jarðar. Óvinum stjórnar Krists verður tortímt og enginn þeirra kemst undan. — Jeremía 25:33.

Síðan snýr Jesús sér að Satan djöflinum og illum öndum hans. Reyndu að sjá fyrir þér það sem ritari Opinberunarbókarinnar lýsir: „Nú sá ég engil [Jesú Krist] stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.“ (Opinberunarbókin 20:1, 2) Síðar er Satan og illum öndum hans tortímt endanlega. — Matteus 25:41.

„Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið,“ kemst lifandi gegnum Harmagedónstríðið. (Opinberunarbókin 7:9) Kristur leiðbeinir þessu fólki svo að það hefur fullt gagn af ‚vatnslindum lífsins,‘ ekki ósvipað og fjárhirðir leiðir sauði sína til vatns svo að þeir lifi. (Opinberunarbókin 7:17) Satan og illir andar hans standa ekki í vegi fyrir andlegum framförum þessa fólks og því er hjálpað smám saman til að sigrast á syndsamlegum tilhneigingum sínum uns það nær að lokum fullkomleika.

Lífsskilyrði manna verða bætt jafnt og þétt undir kærleiksstjórn Krists. Jehóva Guð notar hann til að útrýma öllu sem veldur sorg og sársauka. Hann mun „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:4) Spámaðurinn Jesaja fullkomnar myndina. „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu,“ segir hann. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ (Jesaja 35:5, 6) Og hinir dánu, ‚stórir og smáir,‘ lifna á ný og eiga í vændum að deyja aldrei framar. — Opinberunarbókin 20:12.

Nú þegar er verið að safna saman ‚miklum múgi‘ manna sem eiga að lifa af Harmagedónstríðið. Þeir eru að búa sig undir þúsundáraríki Krists. Þeir eru fullvissir um að það komi þótt þeir viti ekki hvenær það tekur völd. Þú getur tilheyrt þessum múgi en þú þarft líka að vera viðbúinn — ekki með því að selja eigur þínar og fara á einhvern vissan stað heldur með biblíunámi þar sem þú fræðist um Jehóva Guð og tilgang hans. Vottar Jehóva sýna þér fúslega hvernig þú getur kynnt þér Biblíuna til gagns fyrir sjálfan þig og fjölskyldu þína. Það kostar ekkert og því fylgja engar kvaðir. Útgefendur þessa tímarits eru meira en fúsir til að veita þér nánari upplýsingar.

[Rammagrein á blaðsíðu 7]

Þúsund árin — bókstafleg eða táknræn?

Opinberunarbókin í Biblíunni er að mestu leyti skrifuð á táknmáli. Það vekur þá spurningu hvort þúsund ára stjórn Krists, sem talað er um þar, sé bókstaflega þúsund ára löng eða hvort átt sé við táknrænt tímabil.

Allt bendir til að um sé að ræða bókstafleg þúsund ár. Páll postuli talar um þúsund ára stjórn Krists sem dag, þegar mannkynið er dæmt. (Postulasagan 17:31; Opinberunarbókin 20:4) Pétur postuli skrifar að einn dagur (sólarhringur) sé í augum Jehóva sem þúsund ár. (2. Pétursbréf 3:8) Af því má álykta að þessi ‚dagur‘ dómsins sé bókstaflega þúsund ára langur. Auk þess er talað þrívegis í Opinberunarbókinni 20:3, 5-7 um „þúsund árin“ með ákveðnum greini. Það bendir til þess að átt sé við tímabil af fastákveðinni lengd.