Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum aldrei undanskotsmenn til glötunar

Verum aldrei undanskotsmenn til glötunar

Verum aldrei undanskotsmenn til glötunar

„Vér erum ekki undanskotsmenn til glötunar.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:39, Biblían 1912.

1. Við hvaða kringumstæður lét Pétur postuli ótta ná tökum á sér?

 POSTULUNUM hlýtur að hafa verið brugðið þegar elskaður meistari þeirra, Jesús, sagði að þeir myndu allir tvístrast og yfirgefa hann. Hvernig gat það gerst þegar hann þurfti mest á þeim að halda? Pétur var einbeittur: „Þótt allir hneykslist, geri ég það aldrei.“ Pétur var djarfhuga maður. En þegar Jesús var svikinn og handtekinn tvístruðust postularnir, þeirra á meðal Pétur. Þegar Jesús var yfirheyrður síðar í húsi Kaífasar æðstaprests dokaði Pétur við í forgarðinum. En kvíðinn var hann. Er leið á nóttina hefur hann sennilega farið að óttast að Jesús og allir sem með honum voru yrðu líflátnir. Þegar einhverjir nærstaddir báru kennsl á hann og sögðu að hann hefði verið með Jesú varð hann skelfingu lostinn og afneitaði því þrívegis að hafa haft nokkur tengsl við hann. Hann þóttist ekki einu sinni þekkja hann! — Markús 14:27-31, 66-72.

2. (a) Af hverju var Pétur ekki ‚undanskotsmaður‘ þótt hann hafi orðið óttasleginn nóttina sem Jesús var handtekinn? (b) Hverju ættum við að vera staðráðin í?

2 Þetta var dapurleg stund í lífi Péturs sem hann iðraðist eflaust það sem eftir var ævinnar. En var hann hugleysingi fyrst honum varð þetta á þarna um nóttina? Var hann þess konar maður sem Páll postuli hafði í huga síðar er hann skrifaði: „Vér erum ekki undanskotsmenn til glötunar“? (Hebreabréfið 10:39, Biblían 1912) Flestir eru sennilega á því að Pétur hafi ekki verið þess konar maður sem Páll var að tala um. Hvers vegna? Vegna þess að Pétur varð aðeins óttasleginn um stundar sakir. Þetta var einungis skammvinn hrösun manns sem var að öllu jöfnu afburðamaður að hugrekki og trú. Mörg okkar hafa eflaust átt stundir sem við minnumst með nokkurri skömm, þegar óttinn kom aftan að okkur og varð þess valdandi að við vorum ekki eins djarfir málsvarar sannleikans og við hefðum viljað. (Samanber Rómverjabréfið 7:21-23.) Við megum vera viss um að slíkur augnabliksveikleiki gerir okkur ekki að undanskotsmönnum til glötunar. Við þurfum samt að vera staðráðin í að verða aldrei þess konar menn. Hvers vegna? Og hvernig getum við forðast það?

Hvað er það að vera undanskotsmaður til glötunar?

3. Hvernig létu spámennirnir Elía og Jónas óttann ná tökum á sér?

3 Þegar Páll postuli skrifaði um ‚undanskotsmenn‘ var hann ekki að tala um þá sem brestur hugrekki um skamma hríð. Hann þekkti eflaust til reynslu Péturs og annarra áþekkra dæma. Elía var djarfur og berorður spámaður, en þegar hin illa Jesebel drottning ógnaði lífi hans lét hann óttann ná tökum á sér og flúði sem fætur toguðu. (1. Konungabók 19:1-4) Spámaðurinn Jónas fékk alvarlegra hræðslukast. Jehóva fól honum það verkefni að fara til borgarinnar Níníve sem var alræmd fyrir ofbeldi og illsku. Jónas tók í flýti skip sem var á leið í öfuga átt til Tarsis — 3500 kílómetra í burtu! (Jónas 1:1-3) En hvorki þessir trúföstu spámenn né Pétur postuli verða réttilega kallaðir undanskotsmenn. Hvers vegna?

4, 5. (a) Hvernig getum við ráðið af samhenginu hvað Páll átti við með ‚glötun‘ í Hebreabréfinu 10:39? (b) Hvað átti Páll við með orðunum: „Vér erum ekki undanskotsmenn til glötunar“?

4 Lítum á orð Páls í heild: „En vér erum ekki undanskotsmenn til glötunar.“ Hvað átti hann við með ‚glötun‘? Gríska orðið er stundum notað um eilífa tortímingu og sú skilgreining hæfir samhenginu. Páll var nýbúinn að segja í viðvörunarskyni: „Ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs.“ — Hebreabréfið 10:26, 27.

5 Þegar Páll sagði trúbræðrum sínum: „Vér erum ekki undanskotsmenn til glötunar“ átti hann við að hann og trúfastir kristnir lesendur bréfsins væru staðráðnir í að snúa aldrei baki við Jehóva og hætta aldrei að þjóna honum. Það væri ekkert annað en ávísun á eilífa tortímingu. Júdas Ískaríot var undanskotsmaður til glötunar og sama er að segja um aðra óvini sannleikans sem unnu af ásettu ráði gegn anda Jehóva. (Jóhannes 17:12; 2. Þessaloníkubréf 2:3) Slíkir menn eru í hópi ‚hugdeigra‘ sem tortímast eilíflega í hinu táknræna eldsdíki. (Opinberunarbókin 21:8) Við viljum aldrei vera þess konar menn.

6. Hvað vill Satan djöfullinn að við gerum?

6 Satan djöfullinn vill að við skjótum okkur undan til glötunar. Hann er meistari í alls konar ‚vélabrögðum‘ og veit að fyrstu skrefin í glötunarátt eru oft smá. (Efesusbréfið 6:11) Ef hann nær ekki markmiði sínu með beinum ofsóknum beitir hann lúmskari aðferðum til að reyna að grafa undan trú sannkristinna manna. Hann vill þagga niður í djörfum og kappsömum vottum Jehóva. Könnum nánar hvaða aðferðir hann notaði gegn kristnum Hebreum sem Páll skrifaði bréf sitt.

Hvernig var reynt að þvinga kristna menn til að skjóta sér undan?

7. (a) Hvernig var saga kristna safnaðarins í Jerúsalem? (b) Hvernig voru sumir lesendur Hebreabréfsins á vegi staddir andlega?

7 Páll mun hafa skrifað bréf sitt til Hebrea um árið 61. Saga safnaðarins í Jerúsalem var átakasaga. Eftir dauða Jesú skall á grimmileg ofsóknaralda og margir kristnir menn neyddust til að yfirgefa borgina og dreifa sér. En friður komst á eftir það svo að það fjölgaði í söfnuðinum. (Postulasagan 8:4; 9:31) Árin liðu og ofsóknar- og þrengingatímar komu og fóru. Þegar Páll skrifaði Hebreabréfið virðist hafa verið þokkalega friðsamlegt hjá söfnuðinum. Þó var þrýst á úr ýmsum áttum. Nærri þrír áratugir voru liðnir síðan Jesús boðaði eyðingu Jerúsalem. Sumum hefur trúlega þótt sem endirinn hafi dregist úr hömlu og kæmi sennilega ekki meðan þeir lifðu. Aðrir, einkum nýir í trúnni, höfðu enn ekki reynt harðar ofsóknir og vissu lítið um þörfina á þolgæði í prófraunum. (Hebreabréfið 12:4) Satan reyndi eflaust að notfæra sér aðstæðurnar. Hvaða ‚vélabrögðum‘ beitti hann?

8. Hvernig litu Gyðingar gjarnan á hinn nýstofnaða kristna söfnuð?

8 Samfélag Gyðinga í Jerúsalem og Júdeu fyrirleit hinn nýstofnaða kristna söfnuð. Af bréfi Páls má fá nokkra hugmynd um háðsglósurnar sem hrokafullir trúarleiðtogar Gyðinga og fylgismenn þeirra sendu kristnum mönnum. Efnislega sögðu þeir kannski: ‚Við eigum stórfenglegt, aldagamalt musteri í Jerúsalem! Við eigum göfugan æðstaprest sem gegnir þar embætti ásamt undirprestum. Við færum fórnir daglega. Við höfum lögmálið sem Móse fékk fyrir milligöngu engla og var staðfest með miklum táknum á Sínaífjalli. Þessi montni sértrúarflokkur, þessir kristnu menn eru fráhvarfsmenn frá gyðingdómnum og eiga ekkert af þessu!‘ Hafði þessi fyrirlitning tilætluð áhrif? Það er greinilegt að sumir kristnir Hebrear létu þessar árásir angra sig. Bréf Páls kom þeim til hjálpar á réttum tíma.

Þeir skyldu aldrei verða undanskotsmenn til glötunar

9. (a) Hvað gengur eins og rauður þráður gegnum Hebreabréfið? (b) Í hvaða skilningi þjónuðu kristnir menn í betra musteri en því sem var í Jerúsalem?

9 Lítum á tvær ástæður sem Páll gaf bræðrum sínum og systrum í Júdeu fyrir því að vera ekki undanskotsmenn til glötunar. Fyrri ástæðan er yfirburðir hins kristna tilbeiðslufyrirkomulags sem gengur eins og rauður þráður gegnum Hebreabréfið. Musterið í Jerúsalem var einungis eftirmynd einhvers miklu meira — hins andlega musteris Jehóva sem ‚ekki var með höndum gert.‘ (Hebreabréfið 9:11) Kristnir menn nutu þeirra sérréttinda að þjóna í þessu andlega tilbeiðslufyrirkomulagi. Þeir þjónuðu betri sáttmála, hinum löngu fyrirheitna nýja sáttmála sem átti sér meðalgangara meiri en Móse, það er að segja Jesú Krist. — Jeremía 31:31-34.

10, 11. (a) Hvers vegna var Jesús ekki óhæfur til að þjóna sem æðstiprestur í hinu andlega musteri sökum ætternis? (b) Á hvaða hátt var Jesús betri æðstiprestur en sá sem þjónaði í musterinu í Jerúsalem?

10 Kristnir menn áttu sér miklu betri æðstaprest, Jesú Krist. Hann var ekki afkomandi Arons heldur æðstiprestur „að hætti Melkísedeks.“ (Sálmur 110:4) Melkísedek var konungur og æðstiprestur í Salem fortíðar en ætterni hans er á huldu. Hann var því viðeigandi spádómleg táknmynd um Jesú, enda var prestdómur Jesú ekki háður ófullkomnu, mennsku ætterni heldur byggður á miklu æðri forsendum — eiði Jehóva Guðs. Líkt og Melkísedek þjónar Jesús ekki aðeins sem æðstiprestur heldur einnig sem konungur, og hann deyr aldrei. — Hebreabréfið 7:11-21.

11 Ólíkt æðstaprestinum í musterinu í Jerúsalem þurfti Jesús ekki að færa fórnir ár eftir ár. Hann fórnaði fullkomnu lífi sínu í eitt skipti fyrir öll. (Hebreabréfið 7:27) Allar fórnirnar, sem færðar voru í musterinu, voru aðeins skuggi eða tákn þeirrar sem Jesús færði. Fullkomin fórn hans veitti raunverulega syndafyrirgefningu öllum sem iðkuðu trú. Páll segir að þessi æðstiprestur sé hinn sami, óbreytanlegi Jesús og kristnir menn í Jerúsalem höfðu þekkt — auðmjúkur, góður og getur „séð aumur á veikleika vorum“ — og það var líka uppörvandi. (Hebreabréfið 4:15; 13:8) Þessir smurðu kristnu menn áttu í vændum að þjóna sem undirprestar Krists. Hvernig gat þá hvarflað að þeim að snúa aftur til ‚hins veika, fátæklega‘ og spillta gyðingdóms? — Galatabréfið 4:9.

12, 13. (a) Hvaða önnur ástæða var fyrir því að skjóta sér ekki undan, að sögn Páls? (b) Hvernig var þolgæði kristinna Hebrea þeim hvatning til að vera ekki undanskotsmenn til glötunar?

12 Rétt eins og þessi rök nægðu ekki bendir Páll Hebreunum á aðra ástæðu fyrir því að skjóta sér aldrei undan til glötunar, en það var þolgæðið sem þeir sjálfir höfðu sýnt. Hann skrifaði: „Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga.“ Hann minnir þá á að þeir hafi verið „hafðir að augnagamni,“ smánaðir og aðþrengdir. Sumir höfðu setið í fangelsi en aðrir þjáðst með bandingjunum og stutt þá. Já, þeir höfðu sýnt aðdáunarverða trú og þolgæði. (Hebreabréfið 10:32-34) En af hverju bað Páll þá að ‚minnast‘ þessara þjáninga? Var það ekki frekar letjandi en hitt?

13 Það var öðru nær. Að ‚minnast fyrri daga‘ minnti Hebreana á hvernig Jehóva hafði haldið þeim uppi í prófraunum. Með hjálp hans höfðu þeir staðist margar af árásum Satans. Páll skrifaði: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ (Hebreabréfið 6:10) Já, Jehóva mundi eftir öllum trúarverkum þeirra og geymdi þau í takmarkalausu minni sínu. Við erum minnt á hvatningu Jesú um að safna fjársjóðum á himni sem þjófar geta ekki stolið og mölur og ryð fá ekki eytt. (Matteus 6:19-21) Það eina sem getur eytt þessum fjársjóðum er að við skjótum okkur undan til glötunar. Þá væri þeim fjársjóðum kastað á glæ sem við höfum safnað á himni. Það var sannarlega ærin ástæða fyrir kristna Hebrea til að fara aldrei út á þá braut. Hvers vegna að sóa áralangri trúfastri þjónustu? Það var bæði rétt og miklu betra að halda þolgóður áfram.

Við ættum aldrei að vera undanskotsmenn til glötunar

14. Hvaða þrautir blasa við okkur líkt og kristnum mönnum á fyrstu öld?

14 Sannkristnir menn nú á tímum hafa jafnríka ástæðu til að vera ekki undanskotsmenn. Við skulum fyrst hafa hugfast hvílík blessun hreina tilbeiðslan er sem Jehóva hefur gefið okkur. Líkt og kristnir menn á fyrstu öld megum við þola það að áhangendur hinna vinsælli trúarbragða gera gys að okkur og benda hróðugir á trúarlegar glæsibyggingar og ævafornar hefðir. En Jehóva fullvissar okkur um að hann hafi velþóknun á tilbeiðslu okkar. Raunar njótum við blessunar núna sem frumkristnir menn nutu ekki. ‚Hvernig getur það verið?‘ spyrðu kannski. Þegar allt kemur til alls varð hið andlega musteri til á þeirra tímum. Kristur varð æðstiprestur þess við skírn sína árið 29. Sumir þeirra höfðu séð son Guðs og kraftaverkin sem hann gerði. Jafnvel eftir dauða hans voru unnin kraftaverk. En eins og spáð var liðu þessar gáfur undir lok um síðir. — 1. Korintubréf 13:8.

15. Hvaða spádóm sjá sannkristnir menn uppfyllast núna og hvað þýðir það fyrir okkur?

15 Við lifum aftur á móti þýðingarmikla uppfyllingu hins víðtæka musterisspádóms í 40.-48. kafla Esekíelsbókar. * Við höfum því séð hið hreina tilbeiðslufyrirkomulag Guðs endurreist. Þetta andlega musteri hefur verið hreinsað af allri trúarlegri mengun og skurðgoðadýrkun. (Esekíel 43:9; Malakí 3:1-5) Hugsaðu þér hvílíka yfirburði þessi hreinsun hefur gefið okkur.

16. Hvaða dapurlega framvindu horfðu kristnir menn á fyrstu öld upp á?

16 Kristni söfnuðurinn virtist ekki eiga bjarta framtíð fyrir sér á fyrstu öldinni. Jesús sagði að hann væri eins og nýsáður hveitiakur sem illgresi væri sáð í svo að hveitið yrði næstum óþekkjanlegt frá illgresinu. (Matteus 13:24-30) Og svo fór. Fráhvarfið var byrjað að dafna undir lok fyrstu aldar og hinn aldurhnigni Jóhannes postuli var sá síðasti sem hélt aftur af spillingunni. (2. Þessaloníkubréf 2:6; 1. Jóhannesarbréf 2:18) Skömmu eftir dauða postulanna kom fram aðgreind klerkastétt sem gekk í einkennisklæðum og kúgaði hjörðina. Fráhvarfið breiddist út eins og drep í holdi. Þetta var dapurlegt fyrir trúfasta kristna menn. Þeir sáu spillta guðsdýrkun yfirbuga hið hreina tilbeiðslufyrirkomulag — innan við öld eftir að Kristur stofnaði söfnuðinn.

17. Í hvaða skilningi hefur kristni söfnuðurinn staðið lengur nú á dögum en á fyrstu öldinni?

17 Líttu nú á andstæðu. Hrein tilbeiðsla hefur staðið lengur núna en tímann fram að dauða postulanna. Frá því að fyrsta tölublað þessa tímarits kom út árið 1879 hefur Jehóva hreinsað tilbeiðsluna jafnt og þétt og það hefur reynst mikil blessun. Jehóva og Kristur Jesús gengu í hið andlega musteri árið 1918 til að hreinsa það. (Malakí 3:1-5) Frá árinu 1919 hefur tilbeiðslufyrirkomulag Jehóva Guðs verið fágað stig af stigi. Skilningur okkar á spádómum og meginreglum Biblíunnar er orðinn skýrari. (Orðskviðirnir 4:18) Hverjum er það að þakka? Ekki ófullkomnum mönnum. Enginn nema Jehóva og sonur hans, sem er höfuð safnaðarins, hafa getað verndað fólk sitt gegn spillingu á þessum spillingartímum. Við skulum því aldrei láta undir höfuð leggjast að þakka Jehóva fyrir að leyfa okkur að eiga þátt í hreinni tilbeiðslu nú á tímum. Og verum staðráðin í að vera aldrei undanskotsmenn til glötunar.

18. Hvaða ástæðu höfum við til að vera aldrei undanskotsmenn til glötunar?

18 Við höfum aðra ástæðu til að hafna hugleysi og undanskoti líkt og þessir kristnu Hebrear, en það er þolgæðið sem við höfum sjálf sýnt. Hvort sem við erum nýlega byrjuð að þjóna Jehóva eða höfum þjónað honum trúföst um áratuga skeið höfum við borið sjálfum okkur vitni með kristilegum verkum. Margir hafa sætt ofsóknum sem birst hafa í fangavist, bönnum, grimmdarverkum eða eignamissi. Mörg okkar hafa mátt þola andstöðu frá fjölskyldunni, fyrirlitningu, háð og skeytingarleysi. Öll höfum við verið þolgóð og haldið áfram að þjóna Jehóva í trúfesti, þrátt fyrir þrautir og prófraunir lífsins. Með þrautseigju okkar höfum við safnað okkur fjársjóði á himni. Jehóva gleymir því ekki. Þetta er ekki rétti tíminn til að skjóta sér undan og snúa aftur til hins spillta heimskerfis sem við kvöddum. Af hverju að láta allt erfiði okkar verða til einskis núna þegar ‚harla skammur tími‘ er til endalokanna? — Hebreabréfið 10:37.

19. Hvað er fjallað um í greininni á eftir?

19 Já, verum staðráðin í að vera „ekki undanskotsmenn til glötunar, heldur menn trúarinnar til sáluhjálpar.“ (Hebreabréfið 10:39, Biblían 1912) Hvernig getum við tryggt að við séum þess konar menn og hvernig getum við hjálpað trúsystkinum okkar að vera það líka? Um það er fjallað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

Manstu?

◻ Hvað merkir það að vera undanskotsmaður til glötunar?

◻ Hvað mæddi á kristnum Hebreum sem Páll skrifaði?

◻ Hvers vegna áttu kristnir Hebrear ekki að vera undanskotsmenn til glötunar, að sögn Páls?

◻ Hvers vegna erum við staðráðin í að vera ekki undanskotsmenn til glötunar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 23]

Pétur var ekki ‚undanskotsmaður til glötunar‘ þótt hann hafi orðið óttasleginn um stund.