Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum menn trúarinnar

Verum menn trúarinnar

Verum menn trúarinnar

„Vér erum . . . menn trúarinnar til sáluhjálpar.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:39, Biblían 1912.

1. Hvers vegna má segja að trú allra hollra þjóna Jehóva sé dýrmæt?

 NÆST þegar þú kemur í ríkissal, sem er fullur af dýrkendum Jehóva, skaltu doka við og líta í kringum þig. Veltu fyrir þér hvernig trú þeirra sýnir sig á marga ólíka vegu. Þú sérð aldraða sem hafa þjónað Jehóva um áratuga skeið, unglinga sem standast daglega hópþrýsting og foreldra sem leggja hart að sér við að ala börnin upp í guðsótta. Þarna eru öldungar og safnaðarþjónar sem gegna ýmiss konar ábyrgðarstörfum. Já, þú sérð andlega bræður og systur á öllum aldri sem yfirstíga alls konar hindranir til að þjóna Jehóva. Trú þeirra allra er dýrmæt. — 1. Pétursbréf 1:7.

2. Af hverju eru ráð Páls í 10. og 11. kafla Hebreabréfsins gagnleg fyrir okkur núna?

2 Fáir ófullkomnir menn, ef nokkur, hafa skilið gildi trúarinnar betur en Páll postuli. Hann benti á að sönn trú leiði til „sáluhjálpar.“ (Hebreabréfið 10:39, Biblían 1912) En hann vissi að trúin sætir árásum í þessum trúlausa heimi og reynt er að grafa undan henni. Hann hafði verulegar áhyggur af kristnum Hebreum í Jerúsalem og Júdeu sem þurftu að berjast fyrir trú sinni. Þegar við lítum á brot úr 10. og 11. kafla Hebreabréfsins skulum við taka eftir hvernig Páll fer að því að byggja upp trú þeirra. Jafnframt skulum við veita athygli hvernig við getum byggt upp sterkari trú hjá sjálfum okkur og þeim sem standa okkur nærri.

Sýnum að við treystum hver öðrum

3. Hvernig sýna orð Páls í Hebreabréfinu 10:39 að hann treysti bræðrum sínum og systrum í trúnni?

3 Það fyrsta, sem við tökum kannski eftir, er jákvæð afstaða Páls til lesenda sinna. Hann skrifar: „En vér erum ekki undanskotsmenn til glötunar, heldur menn trúarinnar til sáluhjálpar.“ (Hebreabréfið 10:39, Biblían 1912) Páll væntir hins besta af trúbræðrum sínum, ekki hins versta. Við tökum líka eftir að hann segir „vér.“ Hann var réttlátur maður. En hann talar ekki með yfirlæti til lesenda eins og hann sé miklu réttlátari en þeir. (Samanber Prédikarann 7:16.) Hann telur sjálfan sig með þeim. Hann lætur í ljós það traust að hann og trúfastir kristnir lesendur hans muni allir yfirstíga þær stóru hindranir sem við þeim blasa, að þeir verði hugrakkir og skjóti sér ekki undan til glötunar, og að þeir reynist menn trúarinnar.

4. Af hverju treysti Páll trúsystkinum sínum?

4 Hvernig gat Páll haft þetta traust? Var hann blindur á galla hinna kristnu Hebrea? Nei, hann gaf þeim markviss ráð til að auðvelda þeim að sigrast á andlegum göllum sínum. (Hebreabréfið 3:12; 5:12-14; 6:4-6; 10:26, 27; 12:5) Páll hafði að minnsta kosti tvær góðar ástæður til að treysta bræðrum sínum. (1) Hann líkti eftir Jehóva og leitaðist við að sjá fólk sömu augum og hann, það er að segja að horfa minna á gallana en meira á góðu eiginleikana og getu manna að gera rétt eftirleiðis. (Sálmur 130:3; Efesusbréfið 5:1) (2) Hann treysti skilyrðislaust á kraft heilags anda. Hann vissi að engir tálmar og enginn mannlegur veikleiki gæti komið í veg fyrir að Jehóva veitti „ofurmagn kraftarins“ hverjum kristnum manni sem leitaðist við að þjóna honum í trúfesti. (2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:13) Páll var því ekki að treysta bræðrum sínum og systrum óverðugum, af óraunsæi eða í blindri bjartsýni. Traust hans byggðist á sterkum og biblíulegum grunni.

5. Hvernig getum við líkt eftir trausti Páls og hver verður líklega árangurinn?

5 Traust Páls var tvímælalaust smitandi. Það hlýtur að hafa verið mjög mikils virði fyrir söfnuðina í Jerúsalem og Júdeu að hann skyldi vera svona uppörvandi við þá í bréfinu. Hvatning hans hjálpaði kristnum Hebreum að vera staðráðnir í hjarta sér að vera menn trúarinnar, þrátt fyrir nístandi fyrirlitningu og hrokafullt skeytingarleysi andstæðinganna af hópi Gyðinga. Getum við gert það sama hvert fyrir annað? Það er afskaplega auðvelt að sjá ekkert í fari bræðra okkar annað en ótal galla og duttlunga. (Matteus 7:1-5) En við hjálpum hvert öðru miklu meira með því að taka eftir einstakri trú hvers og eins og meta hana að verðleikum. Það eru meiri líkur á að trúin vaxi við slíka hvatningu. — Rómverjabréfið 1:11, 12.

Viðeigandi notkun á orði Guðs

6. Hvað var Páll að vitna í þegar hann skrifaði orðin í Hebreabréfinu 10:38?

6 Páll beitti Ritningunni líka fagmannlega til að byggja upp trú samþjóna sinna. Hann skrifaði til dæmis: „Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.“ (Hebreabréfið 10:38) Hann vitnar hér í Habakkuk spámann. * Lesendur bréfsins, kristnir Hebrear, voru gagnkunnugir spádómsbókunum, svo að þeir hafa að öllum líkindum kannast við þessi orð. Markmið Páls var að styrkja trú kristinna manna í Jerúsalem og nágrenni um árið 61 svo að það var vel til fundið að skírskota til Habakkuks. Af hverju?

7. Hvenær skrifaði Habakkuk spádóm sinn og hvernig var ástandið í Júda á þeim tíma?

7 Habakkuk skrifaði bók sína að öllum líkindum rétt ríflega tveim áratugum fyrir eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. Í sýn sá spámaðurinn „hina harðgjöru og ofsafullu“ Kaldea (Babýloníumenn) steypa sér yfir Júda, eyða Jerúsalem og gleypa þjóðir í leiðinni. (Habakkuk 1:5-11) En slík ógæfa hafði verið boðuð frá dögum Jesaja meira en öld áður. Á dögum Habakkuks lauk góðri stjórn Jósía konungs, Jójakím tók við konungdómi og illskan tók að blómstra í Júda á nýjan leik. Jójakím ofsótti og myrti jafnvel þá sem töluðu í nafni Jehóva. (2. Kroníkubók 36:5; Jeremía 22:17; 26:20-24) Er nokkur furða að Habakkuk skyldi hrópa í angist: „Hversu lengi . . . [Jehóva].“ — Habakkuk 1:2.

8. Hvers vegna var fordæmi Habakkuks gagnlegt fyrir kristna menn á fyrstu öld og fyrir okkur núna?

8 Habakkuk vissi ekki hve nærri eyðing Jerúsalem var. Kristnir menn á fyrstu öld vissu ekki heldur hvenær gyðingakerfið liði undir lok. Og við vitum ekki ‚daginn eða stundina‘ þegar dómi Jehóva verður fullnægt yfir þessu illa heimskerfi. (Matteus 24:36) Við skulum því taka eftir tvíþættu svari Jehóva til Habakkuks. Í fyrsta lagi fullvissar hann spámanninn um að endirinn komi á tilsettum tíma. Hann mun „ekki undan líða,“ sagði Guð, þótt hann gæti virst dragast frá mannlegum bæjardyrum séð. (Habakkuk 2:3) Í öðru lagi minnir Jehóva Habakkuk á að ‚hinn réttláti muni lifa fyrir trúfesti sína.‘ (Habakkuk 2:4) Þetta eru fögur og einföld sannindi. Meginmálið er ekki hvenær endirinn kemur heldur hvort við höldum áfram að lifa í trúnni.

9. Hvernig lifðu hlýðnir þjónar Jehóva vegna trúfesti sinnar (a) árið 607 f.o.t.? (b) árið 66 e.o.t.? (c) Af hverju er mikilvægt að styrkja trúna?

9 Jerúsalem var eytt árið 607 f.o.t. og Jeremía, Barúk ritari hans, Ebed-Melek og hinir dyggu Rekabítar sáu loforð Jehóva við Habakkuk rætast. Þeir ‚lifðu‘ þegar þeir komust undan hræðilegri tortímingu Jerúsalem. Hvers vegna? Jehóva umbunaði þeim trúfesti þeirra. (Jeremía 35:1-19; 39:15-18; 43:4-7; 45:1-5) Kristnir Hebrear á fyrstu öld hljóta einnig að hafa brugðist vel við ráðleggingum Páls því að þeir hlýddu trúfastlega viðvörun Jesú og flúðu eftir að rómverskar hersveitir réðust á Jerúsalem árið 66 en hörfuðu svo án sýnilegs tilefnis. (Lúkas 21:20, 21) Þeir lifðu vegna trúfesti sinnar. Við lifum líka áfram ef við reynumst trúföst þegar endirinn kemur. Það er þýðingarmikil ástæða til að styrkja trú okkar núna.

Ljóslifandi fordæmi um trú

10. Hvernig lýsir Páll trú Móse og hvernig getum við líkt eftir henni?

10 Páll benti líka á áhrifamikil dæmi til að byggja upp trú lesendanna. Þegar þú lest 11. kafla Hebreabréfsins skaltu taka eftir hvernig hann dregur fram ljóslifandi dæmi úr Biblíunni. Hann segir til dæmis að Móse hafi verið „öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Með öðrum orðum var Jehóva svo raunverulegur í huga Móse að það var eins og hann sæi hinn ósýnilega Guð. Er hægt að segja hið sama um okkur? Það er hægðarleikur að segjast eiga samband við Jehóva en það kostar vinnu að styrkja það og byggja upp. Og þá vinnu verðum við að leggja á okkur. Er Jehóva okkur svo raunverulegur að við höfum hann með í ráðum þegar við tökum ákvarðanir, þar á meðal þær sem virðast smávægilegar? Þess konar trú hjálpar okkur að standast hvaða andstöðu sem er.

11, 12. (a) Undir hvaða kringumstæðum kann trú Enoks að hafa verið reynd? (b) Hvaða hvetjandi umbun fékk Enok?

11 Og lítum á trú Enoks. Það er erfitt að gera sér í hugarlund þá andstöðu sem mætti honum. Hann þurfti að flytja harðan dómsboðskap gegn óguðlegum mönnum á þeim tíma. (Júdasarbréfið 14, 15) Ofsóknirnar, sem ógnuðu lífi þessa trúfasta manns, virðast hafa verið svo grimmilegar og ofsalegar að Jehóva „nam hann burt“ með því að svæfa hann dauðasvefni áður en óvinirnir gátu lagt hendur á hann. Enok sá því ekki uppfyllingu spádómsins sem hann bar fram. En honum var gefin gjöf sem var að sumu leyti betri. — Hebreabréfið 11:5; 1. Mósebók 5:22-24.

12 Páll segir: „Áður en [Enok] var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, ‚að hann hefði verið Guði þóknanlegur.‘“ (Hebreabréfið 11:5) Hvað þýðir þetta? Áður en Enok sofnaði dauðasvefni kann hann að hafa séð einhvers konar sýn, kannski um jarðneska paradís þar sem hann vaknar í náinni framtíð. Að minnsta kosti lét Jehóva hann vita að hann hefði velþóknun á trúfesti hans. Enok hafði glatt hjarta Jehóva. (Samanber Orðskviðina 27:11.) Finnst þér ekki hrífandi að hugsa um Enok? Langar þig til að lifa í trúnni eins og hann? Veltu þá fyrir þér raunsönnum dæmum um reynslu fólks. Vertu staðráðinn í að lifa í trú dag frá degi. Og mundu að menn trúarinnar þjóna ekki Jehóva með dagsetningu í huga eða ákveðinn eindaga þegar hann á að vera búinn að uppfylla öll fyrirheit sín fyrir. Við erum staðráðin í að þjóna Jehóva að eilífu! Það er allra besti lífsvegurinn í þessu heimskerfi og í því næsta.

Að verða sterkari í trúnni

13, 14. (a) Hvernig geta orð Páls í Hebreabréfinu 10:24, 25 stuðlað að ánægjulegum samkomum? (b) Til hvers eru kristnar samkomur fyrst og fremst haldnar?

13 Páll benti kristnum Hebreum á margar raunhæfar leiðir til að styrkja trúna. Lítum á tvær. Við þekkjum trúlega hvatningu hans í Hebreabréfinu 10:24, 25 um að sækja kristnar samkomur reglulega. En munum að innblásin orð Páls þarna gefa ekki í skyn að við eigum að vera óvirkir áhorfendur á þessum samkomum. Hann lýsir samkomunum sem tækifæri til að kynnast hvert öðru, hvetja hvert annað til að þjóna Guði enn betur og uppörva hvert annað. Við eigum að gefa, ekki aðeins þiggja. Það á drjúgan þátt í því að gera samkomurnar ánægjulegar. — Postulasagan 20:35.

14 En fyrst og fremst sækjum við kristnar samkomur til að tilbiðja Jehóva Guð. Við gerum það með því að sameinast í bæn og söng, með því að hlusta vel og með því að bera fram „ávöxt vara“ honum til lofs þegar við svörum á samkomunum og erum með verkefni á dagskránni. (Hebreabréfið 13:15) Ef við höfum þessi markmið í huga og vinnum að þeim á öllum samkomum, þá fer ekki hjá því að trúin byggist upp í hvert sinn.

15. Af hverju hvatti Páll kristna Hebrea til að halda fast við boðunarstarfið og af hverju á sama hvatning við núna?

15 Boðunarstarfið er önnur leið til að byggja upp trúna. Páll skrifaði: „Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.“ (Hebreabréfið 10:23) Maður hvetur aðra til að halda fast við eitthvað ef hætta virðist á að þeir séu að sleppa því. Satan reyndi vissulega að þvinga þessa kristnu Hebrea til að sleppa boðunarstarfinu, og hann reynir líka að þvinga fólk Guðs til þess núna. Hvað eigum við að gera andspænis þessum þvingunum? Athugum hvað Páll gerði.

16, 17. (a) Hvernig fékk Páll djörfung í boðunarstarfinu? (b) Hvaða ráðstafanir ættum við að gera ef einhver þáttur boðunarstarfsins vex okkur í augum?

16 Hann skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Yður er kunnugt, að vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.“ (1. Þessaloníkubréf 2:2) Hvernig var Páli og félögum hans „misþyrmt“ í Filippí? Sumir fræðimenn segja að gríska orðið, sem Páll notar hér, lýsi móðgandi, svívirðilegri og hryllilegri meðferð. Ráðamenn í Filippí höfðu húðstrýkt þá, varpað þeim í fangelsi og fellt stokk á fætur þeim. (Postulasagan 16:16-24) Hvaða áhrif hafði þessi illa meðferð á Pál? Var hann hræddur og hnípinn í Þessaloníku sem var næsta borg á trúboðsferð hans? Nei, hann sýndi „djörfung.“ Hann sigraðist á óttanum og hélt áfram að prédika djarflega.

17 Hvaðan kom Páli þessi djörfung? Kom hún innan frá? Nei, hann sagði að ‚Guð hefði gefið‘ sér djörfungina. Handbók fyrir biblíuþýðendur segir að það megi þýða þessi orð: „Guð tók óttann úr hjörtum okkar.“ Ef þú ert ekki sérlega djarfmannlegur í boðunarstarfinu eða ef einhver þáttur boðunarstarfsins vex þér sérstaklega í augum, gætirðu beðið Jehóva að gera það sama fyrir þig og hann gerði fyrir Pál. Biddu hann að taka óttann úr hjarta þér. Biddu hann að hjálpa þér að taka í þig kjark til starfsins. Og gerðu eitthvað fleira raunhæft í málinu. Til dæmis geturðu beðið um samstarf við einhvern sem er fær í þeirri grein boðunarstarfsins sem þér finnst erfið. Þetta getur verið boðunarstarf á viðskiptasvæðum, götum, í síma eða óformleg prédikun. Kannski er félagi þinn fús til að eiga frumkvæðið fyrst í stað. Fylgstu þá með og lærðu. En hertu svo upp hugann og reyndu.

18. Hvaða blessunar getum við notið ef við sýnum af okkur djörfung í boðunarstarfinu?

18 Ef þú sýnir af þér djörfung skaltu leiða hugann að árangrinum sem þú getur séð af því. Ef þú þraukar og missir ekki kjarkinn er líklegt að þú upplifir margt ánægjulegt í boðunarstarfinu sem þú færir ella á mis við. (Sjá rammagrein á bls. 31.) Þú veist að þú hefur glatt Jehóva með því að gera það sem þú átt erfitt með. Þú finnur fyrir blessun hans og hjálp til að sigrast á óttanum. Trúin styrkist. Í rauninni geturðu ekki byggt upp trú annarra án þess að styrkja þína eigin trú í leiðinni. — Júdasarbréfið 20, 21.

19. Hvaða dýrmæt laun eiga „menn trúarinnar“ í vændum?

19 Megir þú halda áfram að styrkja trú þína og þeirra sem þú umgengst. Þú getur uppbyggt sjálfan þig og aðra með því að nota orð Guðs fagmannlega, með því að kynna þér ljóslifandi trúarfordæmi í Biblíunni, með því að búa þig undir kristnar samkomur og taka þátt í þeim og með því að halda fast í hin dýrmætu sérréttindi að boða trúna meðal almennings. Ef þú gerir það máttu vera viss um að þú sért ‚maður trúarinnar.‘ Og mundu að þess konar menn eiga dýrmæt laun í vændum. Þeir eru „menn trúarinnar til sáluhjálpar.“ * Megi trú þín halda áfram að vaxa og megi Jehóva Guð varðveita líf þitt að eilífu!

[Neðanmáls]

^ Páll vitnar hér í Habakkuk 2:4 samkvæmt Sjötíumannaþýðingunni þar sem stendur: „Skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.“ Þessi orð standa ekki í neinum hebreskum handritum sem nú eru til. Sumir hafa viðrað þá hugmynd að Sjötíumannaþýðingin hafi verið byggð á eldri hebreskum handritum sem ekki séu til lengur. Hvað sem því líður vitnaði Páll í þessi orð undir leiðsögn heilags anda Guðs svo að þau eru viðurkennd af Guði.

^ Árstexti votta Jehóva árið 2000 verður: „Vér erum ekki undanskotsmenn . . . heldur menn trúarinnar.“ — Hebreabréfið 10:39, Biblían 1912.

Hvert er svarið?

◻ Hvernig lýsti Páll trausti sínu til kristinna Hebrea og hvað getum við lært af því?

◻ Hvers vegna var skírskotun Páls til spámannsins Habakkuks mjög viðeigandi?

◻ Hvaða ljóslifandi biblíudæmi um trú dró Páll fram?

◻ Hvaða raunhæf ráð gaf Páll til að byggja upp trúna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Páll fékk djörfung til að halda áfram að prédika eftir sársaukafulla reynslu sína í Filippí.

[Myndir á blaðsíðu 29]

Getur þú tekið í þig kjark til að reyna við mismunandi greinar boðunarstarfsins?