Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mundu eftir skapara þínum!

Mundu eftir skapara þínum!

Mundu eftir skapara þínum!

„Mundu eftir skapara þínum . . . áður en vondu dagarnir koma.“ — PRÉDIKARINN 12:1.

1. Hvernig ætti ungt fólk, sem er vígt Guði, að vilja nota æskuár sín og krafta?

JEHÓVA gefur þjónum sínum styrk til að gera vilja sinn. (Jesaja 40:28-31) Það gerir hann óháð aldri þeirra, en ungt fólk, sem er vígt Guði, ætti sérstaklega að vilja nota æskuárin og krafta sína viturlega. Það tekur því til sín ráðleggingar „prédikarans,“ Salómons konungs Ísraels til forna. Hann hvatti: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ‚Mér líka þau ekki.‘“— Prédikarinn 1:1; 12:1.

2. Hvað ættu börn vígðra kristinna manna að gera?

2 Hvatning Salómons um að muna eftir skaparanum á unglingsárunum var fyrst gefin ungum körlum og konum í Ísrael. Þau fæddust í þjóð sem var vígð Jehóva. Hvað um börn vígðra kristinna manna nú á tímum? Vissulega ættu þau að hafa skaparann í huga. Ef þau gera það munu þau heiðra hann og njóta sjálf góðs af. — Jesaja 48:17, 18.

Góðar fyrirmyndir úr fortíðinni

3. Hvaða gott fordæmi gáfu Jósef, Samúel og Davíð?

3 Margt ungt fólk á biblíutímanum gaf gott fordæmi með því að muna eftir skaparanum. Jósef, sonur Jakobs, mundi eftir skapara sínum allt frá unga aldri. Þegar kona Pótífars reyndi að freista hans til að eiga mök við sig hafnaði hann því einarðlega og sagði: „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ (1. Mósebók 39:9) Samúel levíti mundi eftir skapara sínum, ekki aðeins í æsku heldur alla ævi. (1. Samúelsbók 1:22-28; 2:18; 3:1-5) Hinn ungi Davíð frá Betlehem hafði skapara sinn svo sannarlega í huga. Traust hans á Guð sýndi sig berlega þegar hann stóð frammi fyrir Filistarisanum Golíat og sagði: „Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni [Jehóva] allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað. Í dag mun [Jehóva] gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið . . . svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael, og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að [Jehóva] veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er [Jehóva], og hann mun gefa yður í vorar hendur.“ Stuttu síðar var Golíat allur og Filistar lögðu á flótta. — 1. Samúelsbók 17:45-51.

4. (a) Hvað sýnir að hernumin ísraelsk stúlka í Sýrlandi og hinn ungi Jósía konungur mundu eftir skapara sínum? (b) Hvernig sýndi Jesús að hann mundi eftir skapara sínum þegar hann var 12 ára?

4 Annað ungmenni, sem mundi eftir skaparanum, var hernumin ísraelsk stúlka. Hún vitnaði svo fagurlega fyrir eiginkonu sýrlenska hershöfðingjans Naamans að hann fór til spámanns Guðs, læknaðist af líkþrá og tók að tilbiðja Guð. (2. Konungabók 5:1-19) Hinn ungi Jósía konungur efldi hugrakkur hreina tilbeiðslu á Jehóva. (2. Konungabók 22:1–23:25) En besta dæmið um ungmenni, sem mundi eftir skapara sínum, var Jesús frá Nasaret. Hugleiddu það sem gerðist þegar hann var 12 ára. Foreldrar hans tóku hann með sér til Jerúsalem til páskahátíðarinnar. Á leiðinni heim tóku þau eftir að hann var ekki með í hópnum svo að þau sneru við til að leita hans. Á þriðja degi fundu þau hann þar sem hann ræddi við fræðimennina í musterinu um spurningar er tengdust Ritningunni. Jesús svaraði fyrirspurn áhyggjufullrar móður sinnar með spurningu: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ (Lúkas 2:49) Það var Jesú hollt að afla sér andlegrar vitneskju í musterinu, ‚húsi föður síns.‘ Nú á tímum eru ríkissalir votta Jehóva fyrirtaksstaðir til að afla sér nákvæmrar þekkingar á skaparanum.

Mundu eftir Jehóva núna!

5. Lýstu með eigin orðum því sem segir í Prédikaranum 12:1.

5 Sá sem dýrkar Jehóva í einlægni þráir að hefja þjónustu við hann eins fljótt og unnt er og þjóna honum það sem eftir er. En hvernig eru horfurnar hjá þeim sem hefur látið æskuárin fara til spillis af því að hann mundi ekki eftir skaparanum? Prédikarinn segir undir innblæstri frá Guði: „Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ‚Mér líka þau ekki.‘“ — Prédikarinn 12:1.

6. Hvað gefur til kynna að hinn aldraði Símeon og Anna hafi munað eftir skapara sínum?

6 Enginn hefur yndi af ‚vondum dögum‘ ellinnar. En hinir eldri, sem hafa Guð í huga, eru glaðir. Þegar Jesús var ungbarn tók hinn aldraði Símeon hann í fangið í musterinu og sagði glaður: „Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.“ (Lúkas 2:25-32) Anna mundi einnig eftir skapara sínum, en hún var 84 ára. Hún var alltaf í musterinu og var viðstödd þegar komið var með Jesú þangað. „Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.“ — Lúkas 2:36-38.

7. Hvernig er ástatt hjá þeim sem hafa þjónað Guði lengi og eru orðnir aldraðir?

7 Vottar Jehóva nú á dögum, sem hafa þjónað honum lengi, þurfa að þola kvalir og hömlur ellinnar. En þeir eru samt glaðir og við kunnum vel að meta trúfasta þjónustu þeirra! Þeir búa yfir „gleði [Jehóva]“ þar sem þeir vita að hann hefur beint ósýnilegum krafti sínum að jörðinni og sett Jesú Krist í embætti sem máttugan konung á himni. (Nehemíabók 8:10) Nú er tími fyrir unga og aldna til að hlýða hvatningunni: „Bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar! Þau skulu lofa nafn [Jehóva], því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.“ — Sálmur 148:12, 13.

8, 9. (a) Hverjum veita „vondu dagarnir“ ekki umbun og hvers vegna? (b) Útskýrðu Prédikarann 12:2.

8 Hinir ‚vondu dagar‘ ellinnar veita ekki umbun þeim sem hugsa ekkert um skapara sinn og skilja ekki dýrlegan tilgang hans, heldur frekar þjáningar. Þá skortir andlegan skilning sem getur vegið upp á móti erfiðleikum ellinnar og ógæfunni sem hefur hrjáð mannkynið allt frá því er Satan var varpað niður af himnum. (Opinberunarbókin 12:7-12) Því hvetur prédikarinn okkur til að muna eftir skaparanum „áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið.“ (Prédikarinn 12:2) Hvað merkja þessi orð?

9 Salómon líkir æskunni við sumar í Palestínu þegar sólin, tunglið og stjörnurnar varpa ljósi af heiðskírum himni. Þá virðist allt vera bjart. Í ellinni eru dagar mannsins hins vegar eins og kuldalegur regntími vetrarins þar sem vandamálunum rignir yfir okkur. (Jobsbók 14:1) Það væri sorglegt að vita um skaparann en þjóna honum ekki á sumri lífsins! Á vetrardögum ellinnar tekur að dimma, sérstaklega hjá þeim sem hafa látið hégómleg markmið hindra sig í að nota tækifærið til að þjóna Jehóva á unglingsárunum. Við skulum óháð aldri ‚fylgja Jehóva trúlega,‘ eins og hinn trúfasti Kaleb, tryggur félagi spámannsins Móse. — Jósúabók 14:6-9.

Áhrif ellinnar

10. Hvað merkja (a) þeir „sem hússins geyma“? (b) „sterku mennirnir“?

10 Næst talar Salómon um það „þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana.“ (Prédikarinn 12:3) ‚Húsið‘ merkir mannslíkamann. (Matteus 12:43-45; 2. Korintubréf 5:1-8) Þeir sem það „geyma“ eru handleggirnir og hendurnar sem vernda líkamann og veita honum það sem hann þarf. Í ellinni skjálfa þær oft af þróttleysi, taugaóstyrk og lömun. „Sterku mennirnir“ — fæturnir — eru ekki lengur sterkbyggðar súlur heldur máttlausir og bognir þannig að þeir dragast bara með. En ertu ekki samt glaður yfir að sjá eldri trúbræður á samkomum?

11. Hverjar eru „kvarnarstúlkurnar“ og þær „sem líta út um gluggana“?

11 „Kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar“ — en hvernig? Tennurnar eru kannski orðnar skemmdar eða fáar eftir, ef nokkrar. Það er orðið erfitt að tyggja fasta fæðu eða með öllu ógerlegt. Það dimmir eða myrkvast alveg „hjá þeim, sem líta út um gluggana,“ það er að segja augunum ásamt sjónskynjun hugans.

12. (a) Hvernig hefur ‚dyrunum út að götunni verið lokað‘? (b) Hvað finnst þér um aldraða boðbera Guðsríkis?

12 Prédikarinn heldur áfram: „Og dyrunum út að götunni er lokað, og hávaðinn í kvörninni minnkar, og menn fara á fætur við fuglskvak, en allir söngvarnir verða lágværir.“ (Prédikarinn 12:4) Dyr munnsins — varirnar — opnast nú lítið eða ekki neitt til að tjá það sem er inni í ‚húsinu‘ eða líkama þeirra sem eldri eru og þjóna ekki Guði. Ekkert er látið ganga út á ‚götu‘ til almennings. En hvað um kostgæfna aldraða boðbera Guðsríkis? (Jobsbók 41:14) Þeir eru kannski hægfara þegar þeir ganga hús úr húsi og sumir eiga erfitt með að tala en þeir lofa Jah svo sannarlega! — Sálmur 113:1.

13. Hvernig lýsir prédikarinn öðrum vandamálum hinna eldri, en hver er raunin um kristna menn?

13 Hávaðinn í kvörninni minnkar þegar matur er tugginn án tanna. Gamall maður sefur ekki vært í rúmi sínu. Jafnvel fuglskvak truflar hann. Hann syngur veikum rómi það litla sem hann syngur. „Allir söngvarnir  verða lágværir.“ Hinn aldraði heyrir illa tónlist og söng annarra. En aldraðir smurðir menn og félagar þeirra, sem eru sumir hverjir engin unglömb, halda áfram að syngja Guði lof á samkomum. Okkur finnst mjög ánægjulegt að hafa þá okkur við hlið til að lofsyngja Jehóva í söfnuðinum. — Sálmur 149:1.

14. Hvað óttast aldraðir?

14 Hlutskipti aldraðra er sorglegt, sérstaklega þeirra sem hafa hunsað skaparann! Prédikarinn segir: „Þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, og þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss og grátendurnir ganga um strætið.“ (Prédikarinn 12:5) Margir aldraðir eru hræddir um að detta efst í stiga. Þá sundlar jafnvel við að horfa á eitthvað hátt. Þegar þeir þurfa að ganga fjölfarna götu eru þeir gripnir skelfingu af tilhugsuninni um að verða fyrir meiðslum eða árás þjófa.

15. Hvernig ‚stendur möndlutréð í blóma,‘ og hvernig „dragast“ engispretturnar áfram?

15 Hjá gömlum manni ‚stendur möndlutréð í blóma,‘ greinilega í þeim skilningi að hárið tekur að grána og verður síðan snjóhvítt. Gráu hárin falla eins og hvít blóm möndlutrésins. Hann líkist engisprettu þar sem hann ‚dregst áfram,‘ kannski boginn með hangandi handleggi eða með hendur á mjöðmum svo að olnbogarnir vísa upp á við. Ef einhverju okkar svipar lítillega til þessa, ættu menn að muna að við erum í öflugum og hraðskreiðum engisprettuher Jehóva! — Sjá Varðturninn, 1. júní 1998, bls.18-22.

16. (a) Hvað gefa orðin „kaper-ber hrífa ekki lengur“ til kynna? (b) Hvert er ‚eilífðarhús‘ mannsins og hvernig sést að dauðinn nálgast?

16 Matarlyst hins aldraða er orðin lítil, jafnvel þótt maturinn sé eins bragðgóður og kaper-ber. Þau hafa löngum verið notuð til að auka matarlystina. Að ‚kaper-berin hrífa ekki lengur‘ gefur til kynna að þessi lystauki geti ekki vakið matarlyst gamals manns þegar hún dvínar á annað borð. Það bendir til þess að hann nálgist ‚sitt eilífðarhús‘ sem er gröfin. Hún verður eilíft heimili hans ef hann hefur ekki haft skaparann í huga og hefur breytt það illa að Guð minnist hans ekki í upprisunni. Af dapurlegum tón og kvörtunarstunum, sem koma af munni gamlingjans, sést að dauðinn nálgast.

17. Hvernig slitnar „silfurþráðurinn“ og hvað kann „gullskálin“ að tákna?

17 Við erum hvött til að muna eftir skapara okkar „áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn.“ (Prédikarinn 12:6) „Silfurþráðurinn“ kann að vera mænan. Dauðinn er vís þegar þessi stórkostlega boðleið til heilans verður fyrir óbætanlegum skaða. „Gullskálin“ getur táknað heilann sem er inni í skállaga hauskúpunni og tengist mænunni. Heilinn er dýrmætur eins og gull og þegar hann hættir að virka leiðir það til dauða.

18. Hver er hin táknræna ‚skjóla við lindina‘ og hvað gerist þegar hún mölvast?

18 ‚Skjólan við lindina‘ er hjartað sem tekur við blóðstreyminu og sendir það aftur í hringrás út um líkamann. Við dauðann verður hjartað eins og mölvuð skjóla eða krukka, sem brotnar við lindina af því að það getur ekki lengur tekið við, rúmað og dælt blóðinu sem er nauðsynlegt til að næra líkamann og halda honum gangandi. ‚Brotna brunnhjólið‘ hættir að snúast og bindur þar með enda á hina lífsnauðsynlegu blóðrás. Jehóva sagði því Salómon frá hringrás blóðsins löngu áður en 17. aldar læknirinn William Harvey sýndi fram á hana.

19. Hvernig má heimfæra orðin í Prédikaranum 12:7 á dauðann?

19 Prédikarinn bætir við: „Og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.“ (Prédikarinn 12:7) Þar sem „hjólið“ er brotið hverfur mannslíkaminn aftur til moldarinnar sem hann var gerður úr í upphafi. (1. Mósebók 2:7; 3:19) Sálin deyr því að andinn eða lífskrafturinn, sem Guð gaf, snýr aftur til hans og er í hendi hans. — Esekíel 18:4, 20; Jakobsbréfið 2:26.

Hvaða framtíð bíður þeirra sem muna?

20. Hvað var Móse að biðja um þegar hann sagði orðin í Sálmi 90:10, 12?

20 Salómon sýndi á mjög áhrifaríkan hátt fram á hve mikilvægt það er að muna eftir skapara okkar. Jehóva ætlaði þeim sem gera vilja hans ekki að lifa aðeins stutta og órósama ævi. Hvort sem þeir eru ungir eða aldnir hafa þeir sama hugarfar og Móse sem bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Þessi auðmjúki spámaður þráði innilega að Guð kenndi honum og Ísraelsmönnum að sýna visku í að meta ‚ævidaga sína‘ og nota þá á Guði velþóknanlegan hátt. — Sálmur 90:10, 12.

21. Hvað þurfum við að gera til að telja daga okkar Jehóva til heiðurs?

21 Kristin ungmenni ættu sérstaklega að vera ákveðin í að hlusta á ráð prédikarans um að hafa skaparann í huga. Þau hafa stórkostleg tækifæri til að veita Guði heilaga þjónustu! En ef við lærum, óháð aldri, að telja daga okkar Jehóva til heiðurs nú við ‚endalokin,‘ getum við ef til vill haldið áfram að telja þá að eilífu. (Daníel 12:4; Jóhannes 17:3) Til að það verði unnt þurfum við að sjálfsögðu að muna eftir skapara okkar. Við þurfum einnig að rækja allar skyldur okkar við hann.

Hvernig svarar þú?

Af hverju er ungt fólk hvatt til að muna eftir skapara sínum?

Nefndu biblíudæmi um fólk sem mundi eftir skapara sínum?

Nefndu nokkra af fylgifiskum ellinnar sem Salómon minnist á.

Hvaða framtíð bíður þeirra sem hafa Jehóva í huga?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Davíð, hernumda ísraelska stúlkan, Anna og Símeon mundu eftir Jehóva.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Aldraðir vottar Jehóva þjóna skapara sínum glaðir í bragði.