Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rækir þú allar skyldur þínar við Guð?

Rækir þú allar skyldur þínar við Guð?

Rækir þú allar skyldur þínar við Guð?

„Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ —PRÉDIKARINN 12:14.

1. Hvaða ráðstafanir hefur Jehóva gert fyrir fólk sitt?

JEHÓVA styður þá sem muna eftir honum sem skapara sínum. Innblásið orð hans veitir þeim nægilega þekkingu til að þóknast honum að fullu. Heilagur andi hans leiðbeinir þeim í að gera vilja hans og ‚bera ávöxt í öllu góðu verki.‘ (Kólossubréfið 1:9, 10) Jehóva veitir enn fremur andlega fæðu og guðræðislega leiðsögn fyrir atbeina ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Fólk Guðs nýtur því blessunar hans á ýmsan hátt þegar það þjónar honum og innir af hendi hina nauðsynlegu prédikun fagnaðarerindisins um ríkið. — Markús 13:10.

2. Hvaða spurningar kunna að vakna um þjónustuna við Jehóva?

2 Sannkristnum mönnum er það ánægja að vera uppteknir af heilagri þjónustu við Jehóva. Sumir gætu þó misst kjarkinn og fundist erfiði sitt vera tilgangslaust. Til dæmis gætu vígðir kristnir menn stundum velt því fyrir sér hvort samviskusamleg viðleitni þeirra sé í raun og veru erfiðisins virði. Þegar fjölskyldufaðir leiðir hugann að fjölskyldunámi og annarri starfsemi má vera að spurningar eins og þessar vakni í huga hans: ‚Er Jehóva virkilega ánægður með það sem við gerum? Rækjum við allar skyldur okkar við Guð?‘ Viskuorð prédikarans geta hjálpað okkur að svara slíkum spurningum.

Er allt hégómi?

3. Hvert er hámark hégómans samkvæmt Prédikaranum 12:8?

3 Sumum kann að finnast að orð spekingsins séu engum til uppörvunar — hvorki ungum né öldnum. „Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi!“ (Prédikarinn 12:8) Reyndar er það hámark hégómans að hunsa skaparann í æsku, að eldast án þess að þjóna honum og hafa ekkert afrekað annað en að verða gamall. Fyrir þann mann hefur allt verið hégómi eða tómleiki, jafnvel þótt hann deyi ríkur og frægur í þessum heimi sem er á valdi hins vonda, Satans djöfulsins. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

4. Hvers vegna má segja að ekki sé allt hégómi?

4 Ekki er allt hégómi fyrir trúfasta þjóna Jehóva sem safna sér fjársjóðum á himni. (Matteus 6:19, 20) Þeir eru síauðugir í umbunarríku verki Drottins og slíkt erfiði er svo sannarlega ekki árangurslaust. (1. Korintubréf 15:58) En erum við, vígðir kristnir menn, uppteknir af því verki sem Guð hefur falið okkur núna á síðustu dögum? (2. Tímóteusarbréf 3:1) Eða höfum við tileinkað okkur lífsmáta sem er ósköp líkur lífsmáta náungans almennt? Þetta fólk tilheyrir einhverju trúfélagi, er ef til vill nokkuð einlægt og sækir tilbeiðslustaði sína reglulega og reynir að gera það sem trú þess krefst af því. En þetta fólk er auðvitað ekki boðberar Guðsríkis. Það hefur ekki nákvæma þekkingu og veit ekki að þetta eru tímar ‚endalokanna‘ og því finnst ekki mikið liggja á nú á tímum. — Daníel 12:4.

5. Hvað ættum við að gera ef líf okkar snýst aðallega um hið daglega amstur?

5 Jesús Kristur sagði um okkar örðugu tíma: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“ (Matteus 24:37-39) Það er ekkert rangt við að borða og drekka í hófi og hjónaband er fyrirkomulag frá Guði sjálfum. (1. Mósebók 2:20-24) En ef við verðum þess vör að líf okkar snýst aðallega um hið venjulega amstur ættum við að gera það að bænarefni okkar. Jehóva getur hjálpað okkur að láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir, gera rétt og rækja skyldur okkar við sig. — Matteus 6:33; Rómverjabréfið 12:12; 2. Korintubréf 13:7.

Vígsla og skyldur okkar við Guð

6. Á hvaða mikilvægan hátt uppfylla sumir skírðir einstaklingar ekki skyldur sínar við Guð?

6 Sumir skírðir kristnir menn lifa ekki í samræmi við þær þjónustuskyldur sem þeir tóku á sig þegar þeir vígðu sig Guði, svo að þeir þurfa að biðja Guð einlæglega um hjálp. Í nokkur ár hafa meir en 300.000 látið skírast árlega en virkum vottum Jehóva hefur ekki fjölgað að sama skapi. Sumir sem gerðust boðberar Guðsríkis hafa hætt að boða fagnaðarerindið. Menn þurfa þó að eiga virkan þátt í þjónustunni áður en þeir láta skírast. Þeim er því fyllilega ljóst hvað Jesús fyrirskipaði öllum lærisveinum sínum: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Að öllu jöfnu eru menn ekki að uppfylla allar skyldur sínar við skaparann ef þeir eru skírðir en ekki lengur virkir vottar um hann og Krist, nema því aðeins að heilsa eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður setji þeim óvenjulegar skorður. — Jesaja 43:10-12.

7. Af hverju ættum við að hittast að staðaldri til tilbeiðslu?

7 Ísraelsmenn til forna voru vígðir Guði og undir lagasáttmálanum áttu þeir skyldum að gegna við hann. Til dæmis áttu allir karlmenn að safnast saman til að halda þrjár árlegar hátíðir og sá sem hélt ekki páska af ásettu ráði var „upprættur“ eða líflátinn. (4. Mósebók 9:13; 3. Mósebók 23:1-43; 5. Mósebók 16:16) Til að uppfylla skyldur sínar við Guð sem vígð þjóð hans þurftu Ísraelsmenn að safnast saman til tilbeiðslu. (5. Mósebók 31:10-13) Það stóð hvergi í lögmálinu: ‚Gerðu þetta ef þú kemur því við.‘ Fyrir þá sem eru vígðir Jehóva núna gefur þetta orðum Páls aukinn áhersluþunga: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Já, það er ein af skyldum vígðra kristinna manna við Guð að safnast reglulega saman með trúbræðrum.

Vegðu ákvarðanir þínar vandlega!

8. Hvers vegna ættu vígð ungmenni að hugleiða heilaga þjónustu sína í bænarhug?

8 Ef til vill ertu ungur og vígður Jehóva. Þú uppskerð ríkulega blessun ef þú lætur hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir í lífinu. (Orðskviðirnir 10:22) Með bæn og góðri skipulagningu geturðu eflaust varið æskuárunum í einhverri þjónustugrein í fullu starfi. Það er góð leið til að sýna að þú munir eftir skapara þínum. Annars gæti hið efnislega farið að taka mestallan tíma þinn og athygli. Kannski giftistu snemma eins og algengt er og sekkur þér í skuldir til að afla þér efnislegra hluta. Vellaunað starf gæti gleypt mikið af tíma þínum og orku. Ef þú átt börn þarftu að axla fjölskylduábyrgð í áratugi. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Þú hefur kannski ekki gleymt skapara þínum en það er viturlegt að muna að sú braut sem þú velur þér meðan þú ert ungur hefur mikil áhrif á fullorðinsárin. Á efri árum ævinnar horfirðu kannski til baka og óskar þess að þú hefðir notað unglingsárin betur í heilagri þjónustu skaparans. Er ekki ráð að hugleiða málin í bænarhug einmitt núna svo að þú njótir heilagrar þjónustu þinnar við Jehóva á yngri árum?

9. Hvað er mögulegt fyrir þann sem axlaði einu sinni mikla ábyrgð í söfnuðinum?

9 Veltu fyrir þér öðrum aðstæðum. Segjum að maður hafi einu sinni verið hirðir ‚hjarðar Guðs.‘ (1. Pétursbréf 5:2, 3) Einhverra hluta vegna afsalaði hann sér þeim sérréttindum sjálfviljugur. Nú er hann farinn að reskjast og það kann að vera erfiðara fyrir hann að sinna þjónustu sinni við Guð. En ætti hann að sækjast aftur eftir guðræðislegum sérréttindum? Slíkur maður gæti orðið öðrum mikil blessun ef hann er fær um að axla meiri ábyrgð í söfnuðinum! Og þar sem enginn lifir aðeins fyrir sjálfan sig fagna vinir og ættingjar því ef hann getur aukið við þjónustu sína, Guði til dýrðar. (Rómverjabréfið 14:7, 8) Það sem mestu máli skiptir er að Jehóva gleymir ekki því sem við öll gerum í þjónustu hans. (Hebreabréfið 6:10-12) Hvað getur þá hjálpað okkur að muna eftir skapara okkar?

Það sem hjálpar okkur að muna eftir skaparanum

10. Af hverju var prédikarinn í góðri stöðu til að gefa leiðbeiningar um það að muna eftir skapara okkar?

10 Prédikarinn var í góðri aðstöðu til að gefa leiðbeiningar um hvernig við getum munað eftir skapara okkar. Jehóva hafði svarað einlægri bæn hans með því að gefa honum óvenjulega visku. (1. Konungabók 3:6-12) Salómon gerði ítarlega rannsókn á öllum sviðum mannlífsins. Þar að auki innblés Guð honum að skrá niður uppgötvanir sínar svo að þær kæmu öðrum að gagni. Hann skrifaði: „En auk þess sem prédikarinn var spekingur, miðlaði hann og mönnum þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli. Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð, og það sem hann hefir skrifað í einlægni, eru sannleiksorð.“ — Prédikarinn 12:9, 10.

11. Hvers vegna ættum við að þiggja viturleg ráð Salómons?

11 Í grísku Sjötíumannaþýðingunni eru þessi orð þýdd þannig: „Og enn fremur, þar sem prédikarinn var vitur, þar sem hann kenndi mönnum visku, að eyrað mætti nema það sem er fagurt af dæmisögum, leitaði prédikarinn rækilega til að finna geðfelld orð og rita réttlætisorð — sannleiksorð.“ (The Septuagint Bible, ensk þýðing Charles Thomsons) Salómon kappkostaði að ná til hjarta lesenda sinna með geðfelldum orðum og áhugaverðu og gagnlegu efni. Þar sem orð hans í Ritningunni eru innblásin af heilögum anda getum við skilyrðislaust fallist á niðurstöður hans og viturleg ráð. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

12. Hvernig myndirðu lýsa með eigin orðum því sem Salómon sagði í Prédikaranum 12:11, 12?

12 Nóg var til af bókum á dögum Salómons þótt prenttækni nútímans væri ekki fyrir hendi. Hvernig bar að líta á slíkt lesefni? Hann sagði: „Orð spekinganna eru eins og broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar — þau eru gefin af einum hirði. Og enn fremur, sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.“ — Prédikarinn 12:11, 12.

13. Hvernig geta orð þeirra sem búa yfir visku Guðs reynst vera eins og broddar og hverjir eru eins og „fastreknir naglar“?

13 Orð þeirra sem búa yfir guðlegri visku eru eins og broddar. Hvernig þá? Þau ýta við lesendum eða áheyrendum til að taka framförum í samræmi við hin viturlegu orð sem þeir lesa eða heyra. Þeir sem halda sig við „kjarnyrðin,“ það er að segja viturleg og verðug orð, eru traustir og áreiðanlegir eins og „fastreknir naglar.“ Það kann að vera vegna þess að hin góðu orð slíkra manna endurspegla visku Jehóva og geta því gert lesendur eða áheyrendur styrka og stefnufasta. Ef þú ert guðrækið foreldri, ættirðu þá ekki að leggja þig allan fram við að innræta barni þínu slíka visku? — 5. Mósebók 6:4-9.

14. (a) Hvers konar „bókiðn“ er ekki gagnleg? (b) Að hvers konar lesefni ættum við fyrst og fremst að gefa okkur og af hverju?

14 En hvers vegna sagði Salómon þetta um bækur? Nú, í samanburði við orð Jehóva innihalda hinar óteljandi bækur þessa heims aðeins röksemdir manna. Mikið af þeim endurspegla huga Satans djöfulsins. (2. Korintubréf 4:4) Því hefur „mikil bókiðn“ ekki varanlegt gildi ef hún beinist að veraldlegum upplýsingum. Reyndar getur stór hluti þeirra verið andlega skaðlegur. Við skulum hugleiða það sem orð Guðs segir um lífið eins og Salómon gerði. Það styrkir trú okkar og nálægir okkur Jehóva. Að gefa öðrum bókum eða fræðsluritum of mikinn gaum getur gert okkur úrvinda. Slík rit eru óheilnæm og spilla trú á Guð og tilgang hans, einkum og sér í lagi þegar þau eru afrakstur veraldlegra röksemda sem stangast á við visku Guðs. Við skulum því muna að gagnlegustu ritin á dögum Salómons og okkar eru þau sem endurspegla visku hins ‚eina hirðis,‘ Jehóva Guðs. Hann hefur látið í té 66 bækur Heilagrar ritningar og við ættum fyrst og fremst að veita þeim athygli okkar. Biblían og gagnleg rit ‚trúa þjónsins‘ gera okkur kleift að öðlast „þekking á Guði.“ — Orðskviðirnir 2:1-6.

Allar skyldur okkar við Guð

15. (a) Hvað segir Salómon að ‚hver maður eigi að gera‘?(b) Hvað þurfum við að gera til að uppfylla skyldur okkar við Guð?

15 Prédikarinn Salómon dregur niðurstöður sínar saman og segir: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ (Prédikarinn 12:13, 14) Heilnæmur ótti eða auðmjúk virðing fyrir skaparanum forðar okkur og vonandi fjölskyldum okkar frá fífldjörfu líferni sem gæti steypt okkur og þeim út í gífurleg vandræði og sorg. Heilnæmur ótti við Guð er hreinn og er upphaf visku og þekkingar. (Sálmur 19:10; Orðskviðirnir 1:7) Ef við búum yfir visku byggðri á innblásnu orði Guðs og förum eftir ráðum þess í öllu uppfyllum við skyldur okkar við Guð í einu og öllu. Málið snýst ekki um að gera lista yfir skyldurnar heldur að leita leiðsagnar Ritningarinnar til að leysa vandamál lífsins og gera allt eins og Guð vill.

16. Hvað mun Jehóva gera varðandi dóm?

16 Við ættum einnig að gera okkur ljóst að ekkert fer fram hjá hinum mikla skapara. (Orðskviðirnir 15:3) Hann „mun leiða sérhvert verk fyrir dóm.“ Já, hinn hæsti mun dæma allt, þar á meðal það sem mannsaugað sér ekki. Vitundin um það hvetur okkur til að halda boðorð Guðs. En sterkasta hvatningin ætti að vera kærleikur til himnesks föður okkar því að Jóhannes postuli skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Og þar sem boðorð Guðs eru gerð til að stuðla að varanlegri velferð okkar er það ekki aðeins viðeigandi heldur einnig viturlegt að halda þau. Það er engin byrði fyrir þá sem elska hinn mikla skapara. Þeir vilja uppfylla skyldur sínar við hann.

Ræktu allar skyldur þínar

17. Hvað munum við gera ef við viljum í einlægni rækja allar skyldur okkar við Guð?

17 Ef við erum vitur og þráum að rækja allar skyldur okkar við Guð, auk þess að halda boðorð hans, munum við hafa heilnæman ótta við að vanþóknast honum. „Upphaf speki er ótti [Jehóva],“ og þeir sem halda boðorð hans eiga „fögur hyggindi.“ (Sálmur 111:10; Orðskviðirnir 1:7) Við skulum því breyta viturlega og hlýða Jehóva í einu og öllu. Það er sérstaklega mikilvægt núna þar sem konungurinn Jesús Kristur er nærverandi og dagur hans til að fullnægja dómi Guðs er í nánd. — Matteus 24:3; 25:31, 32.

18. Hvernig farnast okkur ef við rækjum allar skyldur okkar við Jehóva Guð?

18 Guð fylgist nákvæmlega með okkur öllum. Erum við andlega sinnuð eða höfum við leyft veraldlegum áhrifum að veikja samband okkar við Guð? (1. Korintubréf 2:10-16; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Hvort sem við erum ung eða gömul skulum við gera allt sem við getum til að þóknast skapara okkar. Ef við hlýðum Jehóva og höldum boðorð hans höfnum við hégóma þessa gamla heims sem er á fallanda fæti. Þá varðveitum við vonina um eilíft líf í fyrirheitnum nýjum heimi hans. (2. Pétursbréf 3:13) Þetta eru dásamlegar horfur fyrir alla sem rækja allar skyldur sínar við Guð!

Hvernig svarar þú?

Hvers vegna geturðu sagt að ekki sé allt hégómi?

Hvers vegna ættu kristnir táningar að hugleiða heilaga þjónustu sína í bænarhug?

Hvers konar „bókiðn“ er ekki gagnleg?

Hvað „á hver maður að gjöra“?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Ekki er allt hégómi fyrir þá sem þjóna Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Ólíkt mörgum bókum er orð Guðs endurnærandi og gagnlegt.