Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Er ‚merkingin‘ í 2. Þessaloníkubréfi 3:14 formleg aðgerð af hálfu safnaðarins eða er hún á hendi einstakra safnaðarmanna sem vilja forðast óstýriláta einstaklinga?

Orð Páls postula til Þessaloníkumanna gefa til kynna að safnaðaröldungarnir gegni ákveðnu hlutverki í slíkri ‚merkingu.‘ En safnaðarmenn þurfa síðan hver og einn að fylgja henni eftir með andleg markmið í huga. Við sjáum það best ef við skoðum leiðbeiningar Páls í upprunalegu samhengi.

Páll átti þátt í að stofna söfnuð í Þessaloníku og hjálpaði bæði körlum og konum til trúar. (Postulasagan 17:1-4) Hann skrifaði þeim síðar bréf frá Korintu til að hrósa þeim og hvetja. Hann gaf þeim líka þarfar leiðbeiningar. Hann hvatti þau til að ‚lifa kyrrlátu lífi, stunda hver sitt starf og vinna með höndum sínum.‘ Sumir gerðu það ekki svo að Páll bætti við: „Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru.“ Ljóst er að meðal þeirra voru einhverjir „óreglusamir“ * sem þörfnuðust leiðréttingar. — 1. Þessaloníkubréf 1:2-10; 4:11; 5:14.

Nokkrum mánuðum síðar skrifaði Páll Þessaloníkumönnum síðara bréfið og fjallaði nánar um framtíðarnærveru Jesú. Hann gaf nánari leiðbeiningar um það hvernig fara ætti með óreglusama safnaðarmenn sem ‚unnu ekkert heldur gáfu sig að því sem þeim kom ekki við.‘ Hátterni þeirra gekk í berhögg við fordæmi Páls, sem var harðduglegur sjálfur, og skýr fyrirmæli hans um það að menn ættu að vinna fyrir sér. (2. Þessaloníkubréf 3:7-12) Páll útlistaði ákveðnar ráðstafanir sem grípa átti til eftir að öldungarnir hefðu áminnt hina óreglusömu eða leiðbeint þeim. Páll skrifaði:

„Vér bjóðum yður, bræður, . . . að þér sneiðið hjá hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega og ekki eftir þeirri kenningu, sem þeir hafa numið af oss. En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra. En ef einhver hlýðir ekki orðum vorum í bréfi þessu, þá merkið yður þann mann. Hafið ekkert samfélag við hann, til þess að hann blygðist sín. En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður.“ — 2. Þessaloníkubréf 3:6, 13-15.

Þessar viðbótarráðstafanir voru fólgnar í því að sniðganga þá sem lifðu óreglulega, merkja þá og eiga ekki félagsskap við þá, en áminna þá samt sem bræður. Af hvaða tilefni áttu safnaðarmenn að gera það? Okkur til glöggvunar skulum við líta á þrenns konar aðstæður sem Páll var ekki að tala um hér.

1. Við vitum að kristnir menn eru ófullkomnir og gera mistök. En kærleikur er einkenni sannrar kristni þannig að við þurfum að vera skilningsrík og fyrirgefa öðrum mistök þeirra. Til dæmis gæti komið fyrir að safnaðarmaður fengi reiðikast eins og átti sér stað þegar Barnabasi og Páli varð sundurorða. (Postulasagan 15:36-40) Kannski er hann einhvern tíma hranalegur og særandi þegar hann er þreyttur. En við getum breitt yfir slíka ávirðingu með því að sýna kærleika og fara eftir ráðum Biblíunnar. Við höldum áfram að umgangast hann og starfa með honum. (Matteus 5:23-25; 6:14; 7:1-5; 1. Pétursbréf 4:8) Það voru greinilega ekki þess konar ávirðingar sem Páll fjallaði um í 2. Þessaloníkubréfi.

2. Páll var ekki að tala um það þegar einstakur safnaðarmaður ákveður að takmarka samneyti sitt við einhvern annan sökum óæskilegra viðhorfa hans, til dæmis ef hann virðist einum of upptekinn af skemmtunum eða efnislegum hlutum. Foreldrar geta takmarkað samneyti barna sinna við börn sem virða ekki foreldravald, eru harkaleg eða hættuleg í leik eða taka kristna trú ekki alvarlega. Þetta eru einfaldlega persónulegar ákvarðanir í samræmi við Orðskviðina 13:20: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ — Samanber 1. Korintubréf 15:33.

3. Páll var að tala um miklu alvarlegra mál þegar hann skrifaði Korintumönnum um þá sem iðkuðu grófar syndir en iðruðust ekki. Það átti að víkja „hinum vonda“ úr söfnuðinum og selja þann mann Satan á vald, ef svo má segja. Dyggir safnaðarmenn áttu ekki að blanda geði við slíka menn eftir það og Jóhannes postuli hvatti þá jafnvel til að heilsa þeim ekki. (1. Korintubréf 5:1-13; 2. Jóhannesarbréf 9-11) En ráðleggingarnar í 2. Þessaloníkubréfi 3:14 eiga ekki við þetta.

Hinir ‚óreglusömu‘ í 2. Þessaloníkubréfi falla ekki í neinn þessara þriggja flokka sem hér hafa verið nefndir. Páll sagði að þeir væru eftir sem áður ‚bræður‘ og það bæri að koma fram við þá og áminna sem slíka. Líferni hinna ‚óreglusömu‘ bræðra var alvarlegra en svo að það væri einkamál hvers og eins hvort þeir umgengjust þá, en ekki svo alvarlegt að öldungar safnaðarins yrðu að að víkja þeim úr söfnuðinum eins og Páll ráðlagði í sambandi við siðleysið í Korintu. Hinir ‚óreglusömu‘ voru ekki sekir um alvarlega synd á borð við synd mannsins sem vikið var úr Korintusöfnuðinum.

Hinir ‚óreglusömu‘ í Þessaloníku höfðu samt vikið verulega frá kristninni. Þeir vildu ekki vinna, hvort sem það stafaði af leti eða af því að þeir héldu að endurkoma Krists væri á næsta leiti. Og þeir ollu töluverðri truflun með því að ‚gefa sig að því sem þeim kom ekki við.‘ Líklegt er að öldungar safnaðarins hafi áminnt þá margsinnis í samræmi við leiðbeiningar Páls í fyrra bréfinu og aðrar ráðleggingar frá Guði. (Orðskviðirnir 6:6-11; 10:4, 5; 12:11, 24; 24:30-34) Þeir héldu samt áfram að koma óorði á söfnuðinn með líferni sínu og það gat breiðst út til annarra safnaðarmanna. Kristni öldungurinn Páll vakti því opinberlega athygli á óreglu þeirra; hann benti á ranga stefnu þeirra án þess að nafngreina nokkurn.

Hann gerði safnaðarmönnum jafnframt viðvart um að það væri viðeigandi fyrir einstaklinga að „merkja“ þessa óreglusömu bræður. Þeir áttu með öðrum orðum að vera á varðbergi gagnvart þeim sem hegðuðu sér á þann hátt sem verið var að vara söfnuðinn opinberlega við. Páll ráðlagði safnaðarmönnum að ‚sneiða hjá hverjum þeim bróður sem lifði óreglulega.‘ Það getur ekki merkt að þeir hafi átt að sniðganga hann algerlega því að þeir áttu að ‚áminna hann sem bróður.‘ Þeir áttu að eiga samband við bróður sinn á kristilegum nótum á samkomum og ef til vill í boðunarstarfinu, í von um að hann tæki áminninguna til sín og léti af truflandi breytni sinni.

Í hvaða skilningi áttu þeir að ‚sneiða hjá‘ honum? Ljóst er að hér er átt við félagslegt samneyti. (Samanber Galatabréfið 2:12.) Ef þeir hefðu ekki félagskap við hann í tómstundum gæti hann áttað sig á því að réttsýnu fólki geðjaðist ekki að hátterni hans. Og þótt hann hvorki skammaðist sín né söðlaði um væru að minnsta kosti minni líkur á að aðrir líktu eftir honum. Safnaðarmenn gætu jafnframt einbeitt sér að því jákvæða. Páll ráðlagði þeim: „En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra.“ — 2. Þessaloníkubréf 3:13.

Ljóst er að ráðleggingar postulans eru ekki tilefni til að líta niður á eða dæma bræður okkar sem verður eitthvað lítilræði á, heldur er markmið þeirra að hjálpa þeim sem fer út á óheillabraut sem stangast verulega á við kristið líferni.

Páll reyndi ekki að búa til flókið ferli með því að setja ítarlegar reglur. Ljóst er þó að öldungarnir eiga fyrst að leiðbeina hinum óreglusama og reyna að hjálpa honum. Ef það tekst ekki og maðurinn heldur áfram truflandi hegðun sinni og hætta er á að aðrir líki eftir honum, þá komast þeir kannski að þeirri niðurstöðu að gera þurfi söfnuðinum viðvart. Þeir geta þá flutt ræðu um það hvers vegna forðast beri slíka óreglu. Þó að engin nöfn séu nefnd er ræðan söfnuðinum til viðvörunar og verndar af því að þeir sem eru móttækilegir gæta þess þá vandlega að takmarka félagslegt samneyti sitt við hvern þann sem sýnir af sér slíka óreglu.

Vonandi kemur að því að hinn óreglusami skammast sín fyrir hátterni sitt og sér að sér. Þegar öldungar og aðrir sjá breytinguna getur hver og einn ákveðið að taka aftur upp félagslegt samneyti við hann.

Í stuttu máli eiga öldungarnir frumkvæðið að því að hjálpa og leiðbeina þeim sem lifir óreglulega. Ef hann hverfur ekki frá villu síns vegar og heldur áfram að hafa óheilnæm áhrif geta öldungarnir varað söfnuðinn við í ræðu þar sem hið biblíulega sjónarmið kemur fram, hvort sem hið ‚óreglusama‘ líferni er fólgið í því að stofna til kunningsskapar við einhvern vantrúaðan af hinu kyninu eða í einhverju öðru. (1. Korintubréf 7:39; 2. Korintubréf 6:14) Þannig er safnaðarmönnum gert viðvart svo að þeir geti hver um sig ákveðið að takmarka samneyti sitt við hverja þá sem eru á óheppilegri braut en eru samt sem áður bræður.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Gríska orðið var notað um hermenn sem héldu sig ekki í fylkingu eða voru óagaðir, og einnig um skólanema sem skrópuðu.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Kristnir öldungar geta áminnt þá sem lifa óreglulega en litið áfram á þá sem bræður.