Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vöxtur í Namíbíu

Vöxtur í Namíbíu

Vöxtur í Namíbíu

Fagnaðarerindið um ríki Guðs barst fyrst til Namibíu síðla á þriðja áratugnum. Síðan þá hafa hundruð hjartahreinna manna tekið við hjálpræðisboðskap Guðs. Eftirfarandi frásögur sýna hvernig Jehóva er að safna þessum gersemum til sín. — Haggaí 2:7.

◻ Paulus er sjálfsþurftarbóndi í norðaustanverðri Namibíu. Hann var staddur í höfuðborginni Windhoek þegar hann hitti votta Jehóva í fyrsta sinn. Hann sannfærðist fljótt um að hann hefði fundið sannleikann og sneri heim með bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. Næsti ríkissalur var í bænum Rúndú, og þar hitti hann vottana aftur og sárbændi þá um að heimsækja sig.

En vegalengdin var of löng til að vottarnir gætu heimsótt Paulus vikulega til biblíunáms svo að hann fór að kynna sér Biblíuna sjálfur, auk þess að prédika fyrir öðrum það sem hann var að læra. Með tímanum myndaðist þar biblíunámshópur. Þegar hópurinn heyrði í útvarpi að vottar Jehóva ætluðu að halda svæðismót í Rúndú skröpuðu þeir saman fyrir fari í bæinn.

Það var stórkostleg lífsreynsla fyrir þá að vera með vottum Jehóva í fyrsta sinn. Ráðstafanir voru gerðar til að heimsækja hópinn reglulega og núna eru sex boðberar í þorpinu þar sem Paulus býr.

◻ Jóhanna fékk áhuga á nafni Guðs þegar hún heyrði einhvern hallmæla vottum Jehóva. „Nafnið Jehóva festist í huga mér þegar ég heyrði það í fyrsta sinn og ég fór að velta fyrir mér hver hann væri,“ segir hún. „Við hjónin bjuggum við strönd Namibíu nálægt Walvis Bay. Einu sinni fórum við í bæinn og ég hitti votta sem voru að dreifa tímaritinu Varðturninn úti á götu. Ég fékk eintak hjá þeim og bað um biblíunámskeið af því að margar spurningar brunnu á vörum mér. Ég grét þegar þeir sögðust ekki geta komið af því að ökutækið þeirra væri bilað. Skömmu síðar dó maðurinn minn og ég fluttist til Keetmanshoop. Sérbrautryðjandi (boðberi í fullu starfi) hafði verið sendur þangað til starfa og ég fékk hjá honum bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Ég skynjaði hljóm sannleikans þegar í stað.

Seinna var mér boðið að taka þátt í boðunarstarfinu en ég var að farast úr ótta við menn. Þegar ég var að ganga milli húsa bað ég Jehóva að láta mig frekar deyja en prédika. Þegar ég fór fyrst í götustarf faldi ég mig í þröngu húsasundi og vonaði að enginn tæki eftir mér. Að lokum tók ég í mig nægan kjark til að sýna vegfaranda blað og það var fyrst þá sem mér tókst að koma upp orði. Með hjálp Jehóva tókst mér að segja tugum manna frá biblíulegri von minni þennan dag.

Nú eru liðin 12 ár og ég met enn mikils þau sérréttindi að vera brautryðjandi. Ég er fátæk af efnislegum auð en hef ómælda ánægju af því að segja öðrum frá sannleikanum um ríkið.“