Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fögnum yfir Guði hjálpræðis okkar

Fögnum yfir Guði hjálpræðis okkar

Fögnum yfir Guði hjálpræðis okkar

„Ég [skal] gleðjast í [Jehóva], fagna yfir Guði hjálpræðis míns.“ — HABAKKUK 3:18.

1. Hvaða sýn sá Daníel fyrir fall Babýlonar árið 539 f.o.t.?

RÖSKLEGA áratug fyrir fall Babýlonar árið 539 f.o.t. sá hinn aldurhnigni Daníel hrífandi sýn um heimsviðburði allt fram til stríðsins mikla milli óvina Jehóva og hins skipaða konungs hans, Jesú Krists. Hvaða áhrif hafði þetta á hann? Hann segir: ‚Ég varð sjúkur og mjög undrandi yfir sýn þessari.‘ — Daníel 8:27.

2. Hvaða átök sá Daníel í sýn og hvernig líður þér að vita að þau eru yfirvofandi?

2 Hvað um okkur? Við erum komin miklu lengra í tímans rás. Hver eru viðbrögð okkar þegar okkur er ljóst að átökin, sem Daníel sá í sýn, stríð Guðs við Harmagedón, eru mjög nálæg, eða þegar við sjáum að illskan, sem afhjúpuð er í spádómi Habakkuks, er svo hömlulaus að það er óumflýjanlegt að óvinum Guðs sé tortímt? Trúlega er okkur svipað innanbrjósts og Habakkuk sjálfum eins og lýst er í þriðja kafla spádómsbókar hans.

Habakkuk biður um miskunn Guðs

3. Fyrir hönd hvers bað Habakkuk og hvernig snerta orð hans okkur?

3 Þriðji kafli Habakkuks er bæn, að því er fram kemur í 1. versi, og er bókstaflega sungin sem harm- eða sorgarljóð. Spámaðurinn flytur bænina eins og hún sé frá eigin brjósti en í raun er hann að tala fyrir munn útvalinnar þjóðar Guðs. Bæn hans hefur mikla þýðingu fyrir nútímafólk Guðs sem prédikar fagnaðarerindið um Guðsríki. Þegar við lesum kaflann með þetta í huga þykir okkur orðin eilítið ógnvekjandi en þau fylla okkur jafnframt fögnuði. Bæn eða harmljóð Habakkuks gefur okkur ríka ástæðu til að fagna í Jehóva, Guði hjálpræðis okkar.

4. Hvers vegna varð Habakkuk hræddur og hverju getum við treyst í sambandi við það að Guð noti mátt sinn?

4 Eins og bent var á í námsgreinunum tveim á undan var ástandið í Júda afar slæmt á dögum Habakkuks. En Guð vildi ekki að það yrði þannig áfram. Hann ætlaði að grípa til aðgerða eins og forðum daga. Það er engin furða að spámaðurinn skyldi kalla: „[Jehóva], ég hefi heyrt orðstír þinn, mér stafar ógn af afrekum þínum!“ Hvað átti hann við? ‚Orðstír Jehóva‘ tengdist hinni rituðu sögu af máttarverkum hans, svo sem við Rauðahafið, í eyðimörkinni og í Jeríkó. Habakkuk þekkti vel til þeirra og þau skelfdu hann af því að hann vissi að Jehóva myndi beita ógnarmætti sínum aftur gegn óvinum sínum. Þegar við sjáum illsku mannkyns nú á tímum gerum við okkur líka grein fyrir að Jehóva lætur til skarar skríða eins og forðum daga. Berum við kvíðboga fyrir því? Að sjálfsögðu! En við biðjum samt eins og Habakkuk: „Endurtaktu þau nú á þessum árum, já, opinberaðu þau á þessum árum. Minnstu miskunnar í reiði þinni.“ (Habakkuk 3:2, Biblíurit 1995) Megi Guð beita aftur undramætti sínum á tilsettum tíma, „nú á þessum árum.“ Og megi hann miskunna þeim er elska hann þegar sú stund rennur upp.

Jehóva gengur fram!

5. Hvernig ‚kom Guð frá Teman‘ og hvað gefur það til kynna um Harmagedónstríðið?

5 Hvað gerist þegar Jehóva heyrir bænir okkar um miskunn? Svarið finnum við í Habakkuk 3:3, 4. Fyrst segir spámaðurinn: „Guð kemur frá Teman og Hinn heilagi frá Paranfjöllum.“ Á dögum Móse lágu Teman og Paranfjöll á leið Ísraelsmanna um eyðimörkina til Kanaanlands. Meðan þessi fjölmenna þjóð gekk þar um var eins og Jehóva væri sjálfur á óstöðvandi ferð. Skömmu fyrir dauða sinn sagði Móse: „[Jehóva] kom frá Sínaí og rann upp fyrir þeim á Seír. Hann lét ljós sitt skína frá Paranfjöllum og kom frá hinum helgu tíu þúsundum [engla].“ (5. Mósebók 33:2) Þegar Jehóva leggur til atlögu gegn óvinum sínum í Harmagedónstríðinu sýnir hann ofurmátt sinn með sama hætti.

6. Hvað sjá skarpskyggnir kristnir menn meira en dýrð Guðs?

6 Habakkuk bætir við: „Tign [Jehóva] þekur himininn, og af dýrð hans er jörðin full. Ljómi [hans] birtist eins og sólarljós.“ Hvílík dýrðarsýn! Menn geta að vísu ekki horft á Jehóva Guð og haldið lífi. (2. Mósebók 33:20) En trúfastir þjónar hans fá næstum ofbirtu í augu hugans er þeir ígrunda mikilfengleik hans. (Efesusbréfið 1:18) Og skarpskyggnir kristnir menn sjá meira en dýrð Jehóva því að Habakkuk 3:4 bætir við: „Geislar stafa út frá hendi hans, og þar er hjúpurinn um mátt hans.“ Já, við sjáum að Jehóva er reiðubúinn að láta til sín taka og beita hægri hendi máttar síns og styrks.

7. Hvað merkir sigurganga Guðs fyrir þá sem gera uppreisn gegn honum?

7 Sigurganga Guðs boðar ógæfu fyrir uppreisnarmenn. Habakkuk 3:5 segir: „Drepsóttin fer á undan honum, og sýkin fetar í fótspor hans.“ Þegar Ísraelsmenn nálguðust landamæri fyrirheitna landsins árið 1473 f.o.t. gerðu margir þeirra uppreisn, drýgðu hór og féllu fram fyrir skurðgoðum með þeim afleiðingum að meira en 20.000 manns dóu í drepsótt frá Guði. (4. Mósebók 25:1-9) Þegar hann gengur fram til „stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ í náinni framtíð bíða sams konar örlög þeirra sem hafa risið upp gegn honum. Vera má að sumir farist jafnvel í bókstaflegum drepsóttum. — Opinberunarbókin 16:14-16.

8. Hvað bíður óvina Guðs samkvæmt Habakkuk 3:6?

8 Hlýðum nú á stórbrotna lýsingu spámannsins á Jehóva allsherjar að verki. Habakkuk 3:6 segir: „Hann [Jehóva Guð] gengur fram, og jörðin nötrar, hann lítur upp, og þjóðirnar hrökkva við. Þá molast hin öldnu fjöll sundur, þá sökkva hinar eilífu hæðir niður, hann gengur sama veginn og forðum daga.“ Jehóva ‚gengur fram‘ á orustuvöllinn og óvinir hans nötra af ótta. Þegar þeir sjá við hvern er að etja kemur fát á þá og þeir hrökkva við af geðshræringu. „Þá munu,“ segir Jesús „allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi.“ (Matteus 24:30) Það verður um seinan þegar rennur upp fyrir þeim að enginn getur staðið gegn Jehóva. Mannleg samtök og stofnanir — meira að segja þær sem virðast jafntraustar í sessi og „hin öldnu fjöll“ og „hinar eilífu hæðir“ — verða muldar mélinu smærra. Það fer „sama veginn og forðum daga,“ eins og þegar Guð lét til sín taka að fornu.

9, 10. Á hvað erum við minnt í Habakkuk 3:7-11?

9 ‚Bræði Jehóva‘ beinist að fjandmönnum hans. Hvaða vopnum beitir hann í stríðinu mikla? Hlýðum á lýsingu spámannsins: „Ber og nakinn er bogi þinn, þú fyllir örvamæli þinn skeytum, þú klýfur vatnsföll, svo að land kemur fram. Fjöllin sjá þig og skjálfa, steypiregn dynur yfir, hafdjúpið lætur raust sína drynja, réttir hendur sínar hátt upp. Sól og tungl bíða kyrr í híbýlum sínum, fyrir ljósi þinna þjótandi örva, fyrir ljóma þíns leiftrandi spjóts.“ — Habakkuk 3:7-11.

10 Á dögum Jósúa birti Jehóva undramátt sinn og lét sól og tungl standa kyrr. (Jósúabók 10:12-14) Spádómur Habakkuks minnir okkur á að Jehóva mun beita þessum sama mætti í Harmagedónstríðinu. Árið 1513 f.o.t. sýndi hann vald sitt yfir hafdjúpum jarðar og notaði Rauðahafið til að tortíma hersveitum faraós. Fjörutíu árum síðar gátu flóðvötn Jórdanar ekki hindrað sigurgöngu Ísraels inn í fyrirheitna landið. (Jósúabók 3:15-17) Á dögum Debóru spákonu skolaði úrhelli burt stríðsvögnum Sísera, óvinar Ísraels. (Dómarabókin 5:21) Jehóva hefur þessi sömu öfl — flóð, úrhelli og hafdjúp — til umráða í Harmagedón. Þrumur og eldingar eru í hendi hans, líkt og spjót eða örvamælir fullur af örvum.

11. Hvað gerist þegar Jehóva gefur ofurmætti sínum lausan tauminn?

11 Það verður sannarlega tilkomumikið þegar Jehóva gefur ofurmætti sínum lausan tauminn. Orð Habakkuks gefa til kynna að nótt breytist í dag og dagurinn verði bjartari en sólin getur nokkurn tíma gert hann. Hvort heldur þessi innblásna spámannslýsing á Harmagedón er bókstafleg eða táknræn, þá er eitt víst — Jehóva ber sigur úr býtum og lætur engan óvin undan komast.

Hjálpræði fólks Guðs tryggt!

12. Hvað gerir Guð við óvini sína en hverjum verður bjargað?

12 Spámaðurinn lýsir áfram hvernig Jehóva tortímir óvinum sínum. Við lesum í Habakkuk 3:12: „Í gremi fetar þú yfir jörðina, í reiði þreskir þú þjóðirnar.“ En eyðing Jehóva verður ekki handahófskennd. Sumum verður bjargað. Habakkuk 3:13 segir: „Þú fer að heiman til þess að frelsa þjóð þína, til þess að hjálpa þínum smurða.“ Já, Jehóva bjargar trúföstum smurðum þjónum sínum. Eyðing Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða, verður þá fullnuð. Núna reyna þjóðirnar hins vegar að afmá hreina tilbeiðslu. Brátt ráðast sveitir Gógs frá Magóg á þjóna Jehóva. (Esekíel 38:1–39:13; Opinberunarbókin 17:1-5, 16-18) Heppnast þessi djöfullega árás? Nei. Jehóva þreskir óvini sína reiðilega undir fótum sér eins og korn á þreskivelli en bjargar þeim sem tilbiðja hann í anda og sannleika. — Jóhannes 4:24.

13. Hvernig rætist Habakkuk 3:13?

13 Algerri eyðingu hinna óguðlegu er lýst með þessum orðum: „Þú [Jehóva] brýtur niður mæninn á húsi hins óguðlega, gjörir grundvöllinn beran niður á klöpp.“ (Habakkuk 3:13) ‚Húsið‘ er hið illa heimskerfi sem hefur orðið til fyrir atbeina Satans djöfulsins. Það verður gereyðilagt. ‚Mænirinn‘ verður brotinn niður, leiðtogarnir sem eru andsnúnir Guði. Öll byggingin verður rifin, allt niður á klöpp. Hún verður ekki lengur til. Það verður stórkostlegur léttir.

14-16. Hvað verður um fólk Jehóva og óvini þess samkvæmt Habakkuk 3:14, 15?

14 Í Harmagedón verður ringulreiðin alger meðal þeirra sem reyna að tortíma ‚smurðum‘ þjóni Jehóva. Spámaðurinn segir við Guð í Habakkuk 3:14, 15: „Þú rekur lensur gegnum höfuðið á herforingjum hans, er geysast fram til að tvístra mér. Fagnaðaróp þeirra glymja, eins og þeir ætluðu að uppeta hina hrjáðu í leyni. Þú fer yfir hafið með hesta þína, yfir svelg mikilla vatna.“

15 Þegar Habakkuk segir að ‚herforingjar geysist fram til að tvístra sér‘ er hann að tala fyrir munn smurðra þjóna Jehóva. Þjóðirnar stökkva fram til að tortíma tilbiðjendum Jehóva eins og stigamenn úr launsátri. Sigurvissir láta þessir óvinir Guðs og fólks hans ‚fagnaðarópin glymja.‘ Trúfastir kristnir menn virðast ‚hrjáðir‘ og veikburða. En þegar þessar óguðlegu sveitir ráðast til atlögu lætur Jehóva vopn þeirra snúast gegn þeim sjálfum. Þær beita vopnum sínum eða ‚lensum‘ gegn eigin hermönnum.

16 En fleira gerist. Jehóva beitir ofurmannlegum andasveitum til að ljúka tortímingu óvina sinna. Með ‚hestum‘ himneskra hersveita undir forystu Jesú Krists fer hann sigurför yfir „hafið“ og „svelg mikilla vatna,“ það er að segja ólgusjó óvinveitts mannkyns. (Opinberunarbókin 19:11-21) Þá verða hinir óguðlegu fjarlægðir af jörðinni. Það verður ógnþrungin sýning á réttvísi og mætti Guðs.

Dagur Jehóva er í nánd!

17. (a) Hvers vegna getum við treyst því að orð Habakkuks uppfyllist? (b) Hvernig getum við líkt eftir Habakkuk meðan við bíðum hins mikla dags Jehóva?

17 Við getum verið viss um að orð Habakkuks rætast bráðlega. Uppfyllingunni seinkar ekki. Hvernig bregst þú við þessari vitneskju um framvinduna? Mundu að Habakkuk skrifaði undir innblæstri frá Guði. Jehóva lætur til sín taka og þá verður mikill glundroði og eyðilegging á jörðinni. Það er engin furða að spámaðurinn skuli segja: „Þegar ég heyrði það, titraði hjarta mitt, varir mínar skulfu við fregnina. Hrollur kom í bein mín, og ég varð skjálfandi á fótum, að ég yrði að bíða hörmungadagsins, uns hann rennur upp þeirri þjóð, er á oss ræðst.“ (Habakkuk 3:16) Habakkuk skalf á beinunum og það er ekkert undarlegt. En bifaðist trú hans? Alls ekki. Hann var fús að bíða þolinmóður eftir hinum mikla degi Jehóva. (2. Pétursbréf 3:11, 12) Höfum við sama viðhorf? Það ættum við að sjálfsögðu að hafa! Við treystum því fullkomlega að spádómur Habakkuks rætist. En þangað til bíðum við þolinmóð.

18. Hvaða afstöðu hafði Habakkuk þótt hann byggist við erfiðleikum?

18 Hernaður hefur alltaf þrengingar í för með sér, jafnvel fyrir þá sem bera að lokum sigur úr býtum. Búast má við matarskorti, eignamissi og versnandi lífskjörum. Hvernig myndirðu bregðast við ef það henti þig? Afstaða Habakkuks var mjög til fyrirmyndar því að hann segir: „Þótt fíkjutréð blómgist ekki og víntrén beri engan ávöxt, þótt gróði olíutrésins bregðist og akurlöndin gefi enga fæðu, þótt sauðfé hverfi úr réttinni og engin naut verði eftir í nautahúsunum, þá skal ég þó gleðjast í [Jehóva], fagna yfir Guði hjálpræðis míns.“ (Habakkuk 3:17, 18) Habakkuk var raunsær og bjóst við þrengingum, ef til vill hungursneyð, en hann missti þó aldrei gleði sína í Jehóva, hjálpræðisuppsprettu sinni.

19. Hvaða erfiðleika þurfa margir kristnir menn að þola, en hverju getum við treyst ef við látum Jehóva ganga fyrir?

19 Margir þurfa að þola mikla erfiðleika nú á tímum, jafnvel áður en stríð Jehóva gegn hinum óguðlegu skellur á. Jesús spáði að stríð, hallæri, jarðskjálftar og drepsóttir yrðu hluti ‚táknsins‘ um konunglega nærveru sína. (Matteus 24:3-14; Lúkas 21:10, 11) Mörg trúsystkini okkar búa í löndum sem hafa orðið illa úti vegna uppfyllingar þessa spádóms og hafa þar af leiðandi þurft að þola miklar þrengingar. Aðrir kristnir menn gætu þurft að þola sams konar raunir í framtíðinni og enn aðrir gætu þurft að horfa upp á það að ‚fíkjutréð blómgaðist ekki‘ áður en endirinn kæmi. Við vitum hins vegar hvers vegna þessir hlutir eru að gerast og það veitir okkur styrk. Og við fáum líka stuðning. Jesús lofaði: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Þetta er ekki trygging fyrir þægilegu lífi en það veitir okkur vissu fyrir því að ef við látum Jehóva ganga fyrir, þá vakir hann yfir okkur. — Sálmur 37:25.

20. Hverju ættum við að vera staðráðin í þrátt fyrir tímabundna erfiðleika?

20 Óháð tímabundnum erfiðleikum skulum við ekki missa trúna á björgunarmátt Jehóva. Margir bræður okkar og systur í Afríku, Austur-Evrópu og víðar eiga við geysilega erfiðleika að glíma en halda þó áfram að ‚gleðjast í Jehóva.‘ Líkjum eftir þeim og höldum áfram að gleðjast í honum. Munum að alvaldur Drottinn Jehóva er ‚styrkur okkar.‘ (Habakkuk 3:19) Hann bregst okkur aldrei. Harmagedón kemur örugglega og nýr heimur Guðs í kjölfarið. (2. Pétursbréf 3:13) Þá verður „jörðin . . . full af þekking á dýrð [Jehóva], eins og djúp sjávarins vötnum hulið.“ (Habakkuk 2:14) Þangað til skulum við fylgja góðu fordæmi Habakkuks og hætta aldrei að ‚gleðjast í Jehóva og fagna yfir Guði hjálpræðis okkar.‘

Manstu?

• Hvernig snertir bæn Habakkuks okkur?

• Hvers vegna gengur Jehóva fram?

• Hvað segir spádómur Habakkuks um hjálpræði?

• Með hvaða hugarfari ættum við að bíða hins mikla dags Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Veistu hvaða öflum Guð beitir gegn óguðlegum í Harmagedónstríðinu?