„Gersemar“ fylla hús Jehóva
„Gersemar“ fylla hús Jehóva
„Ég [Jehóva] mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð.“ — HAGGAÍ 2:7.
1. Hvers vegna hugsum við fyrst til fjölskyldunnar á hættustund?
HVERS konar gersemar fylla hús þitt? Eru það glæsileg húsgögn, nýjasta tölvan og nýr bíll í bílskúrnum? Þótt þú eigir allt þetta, ertu þá ekki sammála því að fólkið, fjölskylda þín, sé það verðmætasta á heimilinu? Ímyndaðu þér að þú vaknir eina nóttina við brunalykt. Það hefur kviknað í húsinu og þú hefur ekki nema örfáar mínútur til að komast út! Um hvað hugsarðu fyrst? Húsgögnin, tölvuna eða bílinn? Myndirðu ekki frekar hugsa um þína nánustu? Að sjálfsögðu, því að fólk er mun verðmætara en hlutir.
2. Hversu umfangsmikil er sköpun Jehóva og af hverju var Jesús hrifnastur?
2 Leiddu nú hugann að Jehóva Guði og syni hans, Jesú Kristi. Jehóva ‚gerði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.‘ (Postulasagan 4:24) Hann myndaði alla hluti fyrir milligöngu ‚verkstjórans,‘ sonar síns. (Orðskviðirnir 8:30, 31; Jóhannes 1:3; Kólossubréfið 1:15-17) Jehóva og Jesús hafa svo sannarlega miklar mætur á sköpunarverkinu. (Samanber 1. Mósebók 1:31.) En hvort heldurðu að þeir meti meira fólk eða hluti? Sem persónugervingur viskunnar sagðist Jesús hafa haft: „yndi . . . af mannanna börnum,“ eða eins og biblíuþýðing Williams F. Beck’s orðar það: „Jesús var mjög ánægður með mennina.“
3. Hvaða spádóm bar Jehóva fram fyrir munn Haggaí?
3 Það leikur enginn vafi á því að Jehóva hefur miklar mætur á fólki. Það má finna vísbendingu um það í spádómsorðum þeim sem hann mælti fyrir munn spámannsins Haggaí árið 520 f.o.t. Jehóva kunngerði: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð. . . . Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var.“ — Haggaí 2:7, 9.
4, 5. (a) Hvers vegna er ekki rökrétt að ætla að orðið „gersemar“ eigi við efnislegan íburð? (b) Hvernig myndir þú skilgreina „gersemar“ og hvers vegna?
4 Hvers konar „gersemar“ áttu að fylla hús Jehóva og færa því óviðjafnanlega dýrð? Voru það dýrindis húsgögn og íburðarmiklar skreytingar eða gull, silfur og gimsteinar? Það er varla rökrétt. Mundu að fyrra musterið, sem var vígt fimm öldum áður, hafði kostað milljarða króna í byggingu. * Vissulega myndi Jehóva ekki fara fram á að þessi hlutfallslega fámenni hópur heimkominna Gyðinga færi að reisa glæsilegra musteri en Salómonsmusterið hafði verið.
5 Hvers konar „gersemar“ áttu að fylla hús Jehóva? Hér er greinilega átt við fólk vegna þess að Orðskviðirnir 27:11; 1. Korintubréf 10:26) Já, Jehóva metur mikils þá menn, konur og börn sem tilbiðja hann á réttan hátt. (Jóhannes 4:23, 24) Þessar „gersemar“ eru mun verðmætari í augum hans en allt skrautið sem prýddi musteri Salómons.
hvorki silfur né gull gleður hjarta Jehóva, heldur fólk sem þjónar honum af kærleika. (6. Hvaða tilgangi þjónaði musteri Guðs til forna?
6 Þrátt fyrir vægðarlausa andstöðu lauk musterisbyggingunni árið 515 f.o.t. Musterið var miðstöð sannrar tilbeiðslu fjölmargra ‚gersema‘ eða Gyðinga að holdinu til og trúskiptinga allt fram að fórn Jesú. En það sem musterið fyrirmyndaði var mun mikilfenglegra eins og við munum komast að raun um.
Uppfylling á fyrstu öld
7. (a) Hvað fyrirmyndaði hið forna musteri Guðs í Jerúsalem? (b) Lýstu störfum æðstaprestsins á friðþægingardeginum.
7 Musterið í Jerúsalem fyrirmyndaði stærra tilbeiðslufyrirkomulag. Það táknaði andlegt musteri Jehóva sem hann grundvallaði árið 29, en Jesús var æðstiprestur þess. (Hebreabréfið 5:4-10; 9:11, 12) Berum saman skyldustörf æðstaprestsins í Ísrael og það sem Jesús gerði. Á hinum árlega friðþægingardegi kom æðstipresturinn fram fyrir altarið í forgarði musterisins og fórnaði nauti til friðþægingar fyrir prestana. Síðar fór hann með blóð þess inn í musterið, hann gekk inn um dyrnar sem aðskildu forgarðinn frá hinu heilaga og síðan inn fyrir tjaldið sem aðgreindi hið heilaga frá hinu allra helgasta. Þegar æðstipresturinn var kominn inn í hið allra helgasta stökkti hann blóði á sáttmálsörkina. Hann fór síðan eins að og fórnaði geithafri til friðþægingar fyrir þær 12 ættkvíslir Ísraels sem ekki gegndu prestþjónustu. (3. Mósebók 16:5-15) Hvernig snertir þessi helgiathöfn andlegt musteri Guðs?
8. (a) Í hvaða skilningi var Jesú ‚fórnað‘ frá og með árinu 29? (b) Hvaða einstakt samband átti Jesús við Jehóva á þjónustuferli sínum hér á jörð?
8 Jesú var fórnað á altrari vilja Guðs þegar hann var skírður og smurður heilögum anda Guðs árið 29. (Lúkas 3:21, 22) Sá atburður markaði upphaf þriggja og hálfs árs fórnarstefnu Jesú. (Hebreabréfið 10:5-10) Á þessu tímabili átti hann samband við Guð sem andagetinn sonur hans. Aðrir menn skildu ekki fyllilega hina einstöku stöðu Jesú frammi fyrir himneskum föður sínum. Það var eins og hula væri fyrir skilningsaugum þeirra, á sama hátt og bókstaflegt tjald huldi hið heilaga sjónum þeirra sem voru í forgarði musterisins. — 2. Mósebók 40:28.
9. Hvers vegna gat Jesús ekki farið sem maður til himna og hvernig var málið leyst?
9 Maðurinn Jesús gat ekki öðlast líf á himnum þótt hann væri andagetinn sonur Guðs vegna þess að hold og blóð getur ekki erft Guðsríki. (1. Korintubréf 15:44, 50) Jarðneskur líkami Jesú kom í veg fyrir það svo að tjaldið milli hins heilaga og hins allra helgasta í musteri Guðs til forna var góð táknmynd hans. (Hebreabréfið 10:20) En þremur dögum eftir dauða Jesú reisti Guð hann upp sem andaveru. (1. Pétursbréf 3:18) Þá gat hann farið inn í hið allra helgasta í andlegu musteri Guðs, sjálfan himininn, sem hann og gerði. Páll skrifar: „Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.“ — Hebreabréfið 9:24.
10. Hvað gerði Jesús þegar hann sneri til himna?
10 Jesús ‚stökkti blóði‘ fórnar sinnar á himnum með því að færa Jehóva lausnargildi lífsblóðs síns. En hann gerði meira en það. Stuttu fyrir dauða sinn hafði hann sagt fylgjendum sínum: ‚Ég fer að búa yður stað. Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.‘ (Jóhannes 14:2, 3) Með því að fá inngöngu inn í hið allra helgasta eða himininn opnaði Jesús leiðina fyrir aðra. (Hebreabréfið 6:19, 20) Þeir myndu verða 144.000 talsins og þjóna sem undirprestar í andlegu musterisfyrirkomulagi Guðs. (Opinberunarbókin 7:4; 14:1; 20:6) Á sama hátt og æðstipresturinn í Ísrael fór fyrst með blóð nautsins inn í hið allra helgasta til að friðþægja fyrir syndir prestanna, þá náði úthellt blóð Jesú fyrst til þessara 144.000 undirpresta. *
„Gersemar“ nútímans
11. Fyrir hverja fórnaði æðstipresturinn í Ísrael geithafri og hvað fyrirmyndaði það?
11 Svo virðist sem almennri söfnun hinna smurðu hafi lokið árið 1935. * En Jehóva hafði ekki vegsamað hús sitt endanlega, því að enn áttu „gersemar“ eftir að safnast þangað. Hafðu í huga að æðstipresturinn í Ísrael fórnaði tveimur dýrum, nauti fyrir syndir prestanna og geithafri fyrir syndir hinna ættkvíslanna. Prestarnir fyrirmynduðu hina smurðu sem áttu að vera með Jesú í himnesku ríki hans. Hverja fyrirmynduðu þá hinar ættkvíslirnar sem ekki gegndu prestþjónustu? Svarið er að finna í orðum Jesú í Jóhannesi 10:16: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ Úthellt blóð Jesú kemur báðum hópunum að notum, fyrst þeim sem hafa von um að ríkja með honum á himnum og síðan hinum sem hlakka til að lifa eilíflega í paradís á jörð. „Gersemarnar“ í spádómi Haggaí tákna augljóslega seinni hópinn. — Míka 4:1, 2; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.
12. Hvernig streyma „gersemar“ í hús Jehóva nú á tímum?
12 „Gersemarnar“ streyma enn til húss Jehóva. Á undanförnum árum hefur höftum verið aflétt í Austur-Evrópu, víða í Afríku og í ýmsum öðrum löndum, þannig að fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs fær nú að hljóma á svæðum sem það hefur ekki náð til áður. Þegar gersemarnar koma inn í musterisfyrirkomulag Guðs leitast þær líka við að gera enn fleiri að lærisveinum í hlýðni við boð Jesú. (Matteus 28:19, 20) Og þær hitta marga í starfi sínu, jafnt unga sem aldna er geta líka orðið „gersemar“ og vegsamað hús Jehóva. Lítum á fáein dæmi um það sem er að gerast.
13. Hvernig sýndi lítil telpa í Bólivíu að hún hafði áhuga á að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs?
13 Fimm ára gömul telpa í Bólivíu, en foreldrar hennar eru vottar, bað kennarann sinn um að gefa sér frí úr skólanum meðan á farandhirðisheimsókn stæði. Hvers vegna gerði hún það? Hún vildi taka þátt í starfinu alla þessa sérstöku starfsviku. Þetta kom foreldrum hennar á óvart en þau glöddust yfir góðum viðhorfum hennar. Þessi litla telpa sér um fimm biblíunámskeið núna og sumir nemendanna sækja samkomur. Kennarinn hennar hefur meira að segja komið með henni í ríkissalinn. Ef til vill munu sumir biblíunemendanna reynast „gersemar“ með tímanum sem vegsama hús Jehóva.
14. Hvaða árangur bar þrautseigja systur í Kóreu þegar hún gaf sig á tal við námsmann sem virtist áhugalaus?
14 Kristin kona í Kóreu, sem var að bíða eftir járnbrautarlest, tók námsmann tali sem var að hlusta á tónlist í vasaútvarpi. „Tilheyrir þú einhverju trúfélagi?“ spurði hún. „Ég hef engan áhuga á trúarbrögðum,“ svaraði hann. Systirin lét ekki setja sig út af laginu heldur hélt áfram og sagði: „Flestir finna hjá sér þörf fyrir einhverja trú þegar þeir eldast. En þeir sem vita ekkert um trúarbrögð eiga á hættu að taka ranga ákvörðun.“ Svipurinn breyttist á námsmanninum og hann fór að hlusta af áhuga á systurina. Hún bauð honum bókina Is There a Creator Who Cares About You? og sagði að hún myndi koma honum að góðum notum þegar að því kæmi að hann veldi sér trúarbrögð. Hann þáði bókina með þökkum. Viku seinna fór hann að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva og sækir nú allar safnaðarsamkomurnar.
15. Hvernig fer ung japönsk stúlka að því að fá aðra til að kynna sér Biblíuna og með hvaða árangri?
15 Tólf ára gömul japönsk stúlka, sem heitir Megumi, lítur á skólann sem gjöfulan akur til prédikunar og kennslu. Hún hefur meira að segja hjálpað mörgum að kynna sér Biblíuna. Hvernig fer hún að því? Bekkjarsystkini hennar spyrja hana oft hvað hún sé að gera þegar hún er að lesa í Biblíunni eða undirbúa sig fyrir samkomur í matarhléinu. Hún er líka spurð að því hvers vegna hún taki ekki þátt í vissu skólastarfi. Megumi svarar spurningunum og bætir svo við að Guð hafi nafn. Það vekur oft áhuga viðmælenda hennar. Síðan býður hún þeim biblíunámskeið. Hún er nú með 20 biblíunámskeið í gangi — þar af 18 með bekkjarfélögum sínum.
16. Hvernig fór bróðir í Kamerún að því að hjálpa mönnum, sem höfðu reynt að gera lítið úr honum, að kynna sér Biblíuna?
16 Bróðir í Kamerún var að bjóða vegfarendum biblíuleg rit þegar átta verkamenn, sem voru að störfum þar hjá, kölluðu til hans. Þeir ætluðu að gera grín að honum og spurðu hvers vegna hann tryði ekki kenningunum um þrenningu, helvíti og ódauðleika sálarinnar. Bróðir okkar lagði Biblíuna til grundvallar svörum sínum. Árangurinn varð sá að þrír mannanna þáðu biblíunámskeið. Einn þeirra, Daníel, fór að sækja samkomur og fargaði öllu í fórum sínum sem tengdist andatrú. (Opinberunarbókin 21:8) Hann lét svo skírast innan árs.
17. Hvers konar hugvitssemi sýndu tveir bræður í El Salvador þegar þeir prédikuðu fyrir manni sem vildi í fyrstu ekki heyra fagnaðarerindið?
17 Maður nokkur í El Salvador batt grimman hund fyrir framan dyrnar hjá sér hvenær sem hann sá votta Jehóva í nágrenninu. Hann beið eftir að vottarnir héldu ferð sinni áfram og tók þá hundinn aftur inn. Bræðurnir gátu aldrei talað við manninn. Því ákváðu þeir dag nokkurn að reyna nýja aðferð. Þar sem þeir vissu að hann myndi heyra til þeirra ákváðu þeir að prédika fyrir hundinum. Þeir gengu að húsinu, heilsuðu hundinum og sögðu að það væri þeim ánægja að fá tækifæri til að ræða við hann. Síðan töluðu þeir um þann tíma þegar jörðin
verður paradís og enginn verður reiður — já, meira að segja dýrin verða friðsöm. Síðan kvöddu þeir hundinn kurteislega og röltu niður gangstíginn. Þeim til undrunar kom húsráðandinn út og baðst afsökunar á að hafa aldrei gefið vottunum færi á að tala við sig. Hann þáði blöðin og biblíunámskeið. Þessi maður er nú bróðir okkar — einn „gersemanna!“„Óttist ekki“
18. Hvaða vandamál þurfa margir kristnir menn að glíma við og hvernig lítur Jehóva á tilbiðjendur sína?
18 Tekur þú þátt í að kunngera þennan mikilvæga fagnaðarboðskap og að gera menn að lærisveinum? Þetta eru mikil sérréttindi. Það er einmitt þetta starf sem dregur ‚gersemarnar‘ í hús Jehóva. (Jóhannes 6:44) Það getur komið fyrir hvern sem er að verða þreyttur eða kjarklítill eða finnast hann einskis virði. Slíkt getur jafnvel hent trúfasta þjóna Jehóva. Hertu upp hugann! Í augum Jehóva er sérhver þjónn hans gersemi og hann hefur einlægan áhuga á hjálpræði þínu. — 2. Pétursbréf 3:9.
19. Hvaða hvatningu gaf Jehóva fyrir munn Haggaí og hvernig getur það veitt okkur styrk?
19 Þegar við erum kjarklítil, hvort sem það stafar af andstöðu eða öðrum erfiðleikum, geta orð Jehóva til hinna heimkomnu Gyðinga veitt okkur styrk. Við lesum í Haggaí 2:4-6: „En ver samt hughraustur, Serúbabel — segir [Jehóva] — og ver hughraustur, Jósúa Jósadaksson æðsti prestur „og ver hughraustur, allur landslýður — segir [Jehóva] — og haldið áfram verkinu, því að ég er með yður — segir [Jehóva] allsherjar — samkvæmt heiti því, er ég gjörði við yður, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og andi minn dvelur meðal yðar. Óttist ekki. Því að svo segir [Jehóva] allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra himin og jörð, haf og þurrlendi.“ Taktu eftir því að Jehóva bæði hvetur okkur til að vera sterk og sér líka til þess að við getum öðlast styrk. Hvernig þá? Taktu eftir þessum traustvekjandi orðum: „Ég er með yður.“ Það er trústyrkjandi að átta sig á því að Jehóva er með okkur, hvað sem á dynur! — Rómverjabréfið 8:31.
20. Að hvaða leyti fyllist hús Jehóva óviðjafnanlegri dýrð núna?
20 Jehóva hefur vissulega sýnt að hann er með fólki sínu. Eins og hann sagði fyrir milligöngu spámannsins Haggaí: „Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var . . . og ég mun veita heill á þessum stað.“ (Haggaí 2:9) Hvergi er meiri dýrð að finna nú á dögum en í andlegu musteri Jehóva. Árlega flykkjast hundruð þúsunda manna til sannrar tilbeiðslu og fá góða andlega fæðu. Og þeir njóta nú þegar í þessum stormasama heimi friðar sem ekkert jafnast á við nema friðurinn í nýjum heimi Guðs. — Jesaja 9:6, 7; Lúkas 12:42.
21. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
21 Jehóva mun von bráðar hræra þjóðirnar í Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Notum því tímann sem eftir er til að bjarga fleiri mannslífum. Verum sterk og treystum Jehóva fullkomlega. Verum staðráðin í að halda áfram að tilbiðja í hinu mikla andlega musteri hans og fyllum það enn fleiri ‚gersemum‘ þangað til Jehóva segir að verkinu sé lokið.
[Neðanmáls]
^ gr. 4 Framlögin, sem voru gefin til byggingar Salómonsmusterisins, samsvara um 2800 milljörðum króna á núvirði. Og það sem ekki var notað til byggingarinnar var lagt í féhirslur musterisins. — 1. Konungabók 7:51.
^ gr. 10 Jesús þurfti ekki að friðþægja fyrir eigin syndir eins og æðsti presturinn í Ísrael. Hins vegar voru meðprestar hans syndugir því að þeir voru úr hópi hins synduga mannkyns. — Opinberunarbókin 5:9, 10.
^ gr. 11 Sjá Varðturninn, 1. mars 1998, bls. 12-16.
Manstu?
• Hvað er Jehóva meira virði en efnislegir hlutir?
• Hvaða tveir hópar fólks njóta góðs af úthelltu blóði Jesú?
• Hverja tákna ‚gersemarnar‘ sem áttu að fylla hús Jehóva dýrð?
• Hvað staðfestir að spádómur Haggaí sé að rætast?
[Spurningar]
[Skýringarmynd á blaðsíðu 30]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
Veist þú hvaða táknræna merkingu musteri Jehóva til forna hafði?
Fortjald
Hið heilaga
Altari
Hið allra helgasta
Forsalur
Forgarður
[Mynd á blaðsíðu 31]
Æðstipresturinn fórnaði nauti fyrir syndir Levítanna og geithafri fyrir syndir þeirra Ísraelsmanna sem ekki voru prestsættar.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Prédikun Guðsríkis um heim allan hefur laðað mikinn mannfjölda að húsi Jehóva.