Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve miklu lengur fá óguðlegir að vera til?

Hve miklu lengur fá óguðlegir að vera til?

Hve miklu lengur fá óguðlegir að vera til?

„Hví þegir þú [Jehóva], þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann, sem honum er réttlátari? — HABAKKUK 1:13.

1. Hvenær verður jörðin full af þekkingu á dýrð Jehóva?

MUN Guð nokkurn tíma eyða óguðlegum? Sé svo, hve miklu lengur þarf þá að bíða? Um heim allan spyr fólk slíkra spurninga. En hvar er svörin að finna? Í innblásnum spádómsorðum um hinn ákveðna tíma Jehóva Guðs. Þau fullvissa okkur um að hann fullnægi brátt dómi yfir öllum óguðlegum. Þá fyrst verður jörðin „full af þekking á dýrð [Jehóva], eins og djúp sjávarins vötnum hulið.“ Þetta er hið spádómlega fyrirheit í heilögu orði Guðs í Habakkuk 2:14.

2. Hvaða þrjá dóma Guðs hefur bók Habakkuks að geyma?

2 Bók Habakkuks var skrifuð um 628 f.o.t. og hefur að geyma þrjár dómsyfirlýsingar Jehóva Guðs. Tveim þessara dóma hefur þegar verið fullnægt. Sá fyrri var dómur Jehóva yfir hinni afvegaleiddu Júdaþjóð til forna. Sá síðari var dómur hans yfir hinni ofríkisfullu Babýlon. Við höfum því fulla ástæðu til að treysta því að þriðji dómur Guðs nái fram að ganga. Við getum reyndar vænst þess að honum verði fullnægt mjög bráðlega. Guð ætlar að tortíma öllum óguðlegum mönnum sakir hinna ráðvöndu núna á síðustu dögum. Sá síðasti dregur hinsta andardráttinn í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ er nálgast óðfluga. — Opinberunarbókin 16:14, 16.

3. Hvert verður hlutskipti hinna óguðlegu á okkar tímum?

3 Stríðið á hinum mikla degi Guðs færist sífellt nær. Og dóminum yfir óguðlegum mönnum nútímans verður fullnægt jafnörugglega og dómum Jehóva yfir Júda og Babýlon. En reynum að ímynda okkur að við séum stödd í Júda á dögum Habakkuks. Hvað er á seyði í landinu?

Land í uppnámi

4. Hvaða skelfileg ótíðindi berast Habakkuk?

4 Reyndu að sjá Habakkuk spámann fyrir þér sitjandi á flötu húsþaki sínu í kvöldsvalanum með strengjahljóðfæri sér við hlið. (Habakkuk 1:1; 3:19) Honum berast skelfileg ótíðindi. Jójakím Júdakonungur hefur látið myrða Úría spámann og varpa líki hans í almenningsgröf. (Jeremía 26:23) Úría varðveitti reyndar ekki traust sitt á Jehóva heldur varð óttasleginn og flýði til Egyptalands. En Habakkuk veit samt að ofbeldisverk Jójakíms stafar ekki af löngun til að halda uppi heiðri Jehóva. Það sést glöggt á því hvernig konungur hunsar lög Guðs og hatar spámanninn Jeremía og aðra sem þjóna Guði.

5. Hvernig er andlegt ástand Júda og hvernig bregst Habakkuk við?

5 Habakkuk sér reykelsismökk stíga frá þökum nærliggjandi húsa. Fólkið er ekki að tilbiðja Jehóva með reykelsisbrennslunni heldur að dýrka falsguði að undirlagi hins illa Jójakíms Júdakonungs. Hvílík skömm! Augu Habakkuks fyllast tárum og hann sárbænir Guð: „Hversu lengi hefi ég kallað, [Jehóva], og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: ‚Ofríki!‘ og þú hjálpar ekki! Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp. Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram. Hinir óguðlegu umkringja hina réttlátu, fyrir því kemur rétturinn fram rangsnúinn.“ — Habakkuk 1:2-4.

6. Hvað er orðið um lög og réttlæti í Júda?

6 Já, eyðing og ofríki er í algleymingi. Hvert sem Habakkuk lítur blasir við rangsleitni, þrætur og deilur. ‚Lögmálið er orðið magnlaust‘ eða máttvana. Og réttlætið? Það ‚kemur aldrei fram.‘ Það fer aldrei með sigur af hólmi. Þess í stað ‚umkringja hinir óguðlegu réttláta‘ og sniðganga lögin sem ætlað er að vernda hina saklausu. Já, ‚rétturinn kemur fram rangsnúinn.‘ Réttlætinu er spillt. Ástandið er hörmulegt.

7. Hvað er Habakkuk staðráðinn í að gera?

7 Habakkuk staldrar við og hugleiðir stöðuna. Ætlar hann að leggja árar í bát? Alls ekki! Þegar hann hefur rifjað upp allar ofsóknirnar gegn trúföstum þjónum Jehóva endurnýjar hann ásetning sinn að vera staðfastur og dyggur spámaður hans. Hann ætlar að halda áfram að kunngera boðskap Guðs, jafnvel þótt það kosti hann lífið.

Jehóva framkvæmir ótrúlegt „verk“

8, 9. Hvaða ótrúlegt „verk“ framkvæmir Jehóva?

8 Habakkuk sér nú í sýn falstrúarmenn sem vanheiðra Guð. Hlýðum á skilaboð Jehóva til þeirra: „Lítið upp, þér hinir sviksömu, og litist um! Fallið í stafi!“ Habakkuk veltir trúlega fyrir sér hvers vegna Guð ávarpar óguðlega á þennan hátt. Þessu næst heyrir hann Jehóva segja þeim: „Undrist! Því að ég framkvæmi verk á yðar dögum — þér munduð ekki trúa því, ef sagt væri frá því.“ (Habakkuk 1:5) Hvaða verk er það?

9 Habakkuk hlýðir með athygli á það sem Guð segir honum næst í Habakkuk 1:6-11. Þetta eru skilaboð Jehóva — og enginn falsguð eða lífvana skurðgoð getur komið í veg fyrir að þau rætist: „Sjá, ég reisi upp Kaldea, hina harðgjöru og ofsafullu þjóð, sem fer um víða veröld til þess að leggja undir sig bústaði, sem hún á ekki. Ægileg og hræðileg er hún, frá henni sjálfri út gengur réttur hennar og tign. Hestar hennar eru frárri en pardusdýr og skjótari en úlfar að kveldi dags. Riddarar hennar þeysa áfram, riddarar hennar koma langt að. Þeir fljúga áfram eins og örn, sem hraðar sér að æti. Allir koma þeir til þess að fremja ofbeldisverk, brjótast beint áfram og raka saman herteknum mönnum eins og sandi. Þeir gjöra gys að konungum, og höfðingjar eru þeim að hlátri. Þeir hlæja að öllum virkjum, hrúga upp mold og vinna þau. Þeir fá nýjan kraft og brjótast áfram og gjörast brotlegir, — þeir sem trúa á mátt sinn og megin.“

10. Hverja reisir Jehóva upp?

10 Þetta er spádómleg viðvörun frá hinum Hæsta. Hann reisir upp Kaldea, hina grimmu Babýloníumenn. Á för sinni um „víða veröld“ munu þeir leggja undir sig fjölmarga bústaði. Þetta er ógnvekjandi. Sveit Kaldea er „ægileg og hræðileg,“ grimmileg og óttaleg. Hún setur sín eigin ósveigjanlegu lög og „frá henni sjálfri út gengur réttur hennar.“

11. Lýstu þeysireið hersveita Babýlonar til Júda.

11 Hestar Babýlonar eru frárri en hraðfara pardusdýr og skjótari en hungraðir úlfar á næturveiðum. Riddararnir „þeysa“ óþreyjufullir áfram. Þeir streyma til Júda frá hinni fjarlægu Babýlon. Brátt steypa Kaldear sér á bráð sína líkt og örn á æti. Verður þetta aðeins ránsferð fáeinna hermanna? Alls ekki! „Allir koma þeir til þess að fremja ofbeldisverk,“ eins og fjölmennur skari hópast saman til að valda usla og eyðingu. Andlitin ljóma af ákefð er þeir æða í vesturátt til Júda og Jerúsalem eins og hvass austanvindurinn. Hersveitir Babýlonar taka marga fanga því að þær „raka saman herteknum mönnum eins og sandi.“

12. Hvernig koma Babýloníumenn fram og á hvern hátt gerast þessir óárennilegu fjandmenn „brotlegir“?

12 Kaldeuher gerir gys að konungum og skopast að höfðingjum sem megna ekki að stöðva vægðarlausa framsókn hans. Babýloníumenn „hlæja að öllum virkjum“ því að þau falla þegar þeir „hrúga upp mold“ til að gera áhlaup á þau. Á ákveðnum tíma Jehóva mun hinn óárennilegi fjandmaður „brjótast áfram.“ Þegar hann ræðst á Júda og Jerúsalem ‚gerist hann brotlegur‘ af því að hann skaðar fólk Guðs. Eftir skjótan sigur stærir foringi Kaldea sig af ‚mætti sínum og megni.‘ En þar skjátlast honum!

Traust von

13. Hvers vegna fyllist Habakkuk von og trúartrausti?

13 Vonin glæðist í brjósti Habakkuks þegar hann fær meiri skilning á fyrirætlun Jehóva. Fullur trúartrausts lýkur spámaðurinn lofsorði á hann og segir í Habakkuk 1:12: „Ert þú, [Jehóva], ekki Guð minn frá öndverðu, minn Heilagi, sem aldrei deyr?“ Já, Jehóva er Guð „frá eilífð til eilífðar.“ — Sálmur 90:1, 2.

14. Hvaða stefnu fylgja fráhvarfsmenn Júda?

14 Spámaðurinn hugleiðir sýnina frá Guði og gleðst yfir því innsæi sem hún veitir honum. Síðan segir hann: „[Jehóva], þú hefir falið þeim að framkvæma dóm. Bjargið mitt, þú hefir sett þá til að refsa.“ Fráhvarfsmenn Júda hafa hlotið óhagstæðan dóm frá Guði og þeirra bíður ærleg ráðning og refsing. Þeir hefðu átt að gera hann að bjargi sínu, að eina raunverulega vígi sínu og hjálpræði. (Sálmur 62:7; 94:22; 95:1) En fráhvarfshöfðingjar Júda nálægja sig ekki Guði og halda áfram að kúga meinlausa tilbiðjendur hans.

15. Í hvaða skilningi eru augu Jehóva „of hrein til þess að líta hið illa“?

15 Þetta veldur spámanni Jehóva miklum áhyggjum. Hann segir því: „Augu þín eru of hrein til þess að líta hið illa, og þú getur ekki horft upp á rangsleitni.“ (Habakkuk 1:13) Já, augu Jehóva „eru of hrein til þess að líta hið illa,“ það er að segja að umbera ranga breytni.

16. Lýstu í stuttu máli því sem fram kemur í Habakkuk 1:13-17.

16 Ýmsar áleitnar spurningar brenna nú á vörum Habakkuks. Hann spyr: „Hví horfir þú á svikarana, hví þegir þú, þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann, sem honum er réttlátari? Og þannig hefir þú látið mennina verða eins og fiska sjávarins, eins og skriðkvikindin, sem engan drottnara hafa. Þeir draga þá alla upp á öngli sínum, hrífa þá í net sitt og safna þeim í vörpu sína. Fyrir því gleðjast þeir og fagna, fyrir því færa þeir neti sínu sláturfórn og vörpu sinni reykelsisfórn. Því að þau afla þeim ríkulegs hlutskiptis og ríflegs matar. Fyrir því bregða þeir sverði sínu án afláts til þess að drepa þjóðir vægðarlaust.“ — Habakkuk 1:13-17.

17. (a) Hvernig þjóna Babýloníumenn tilgangi Guðs með árásinni á Júda og Jerúsalem? (b) Hvað mun Jehóva opinbera Habakkuk?

17 Þegar Babýloníumenn ráðast á Júda og höfuðborgina Jerúsalem láta þeir stjórnast af eigin girndum. Þeir vita ekki að Guð notar þá til að fullnægja réttlátum dómi sínum yfir ótrúrri þjóð. Það er ekki vandséð hvers vegna Habakkuk á bágt með að skilja að Guð ætli að nota hina óguðlegu Babýloníumenn til að fullnægja dómi. Þessir miskunnarlausu Kaldear tilbiðja ekki Jehóva. Í augum þeirra eru menn ‚eins og fiskar og skriðkvikindi‘ sem ber að fanga og kúga. En óvissa Habakkuks varir ekki lengi. Brátt opinberar Jehóva spámanni sínum að Babýloníumenn fái ekki að sleppa óhegndir fyrir ránsfýsn sína og gegndarlausa blóðsekt. — Habakkuk 2:8.

Viðbúinn frekari boðum frá Jehóva

18. Hvaða lærdóm getum við dregið af viðhorfi spámannsins í Habakkuk 2:1?

18 En núna bíður Habakkuk spámaður frekari boða frá Jehóva og segir einbeittur: „Ég ætla að nema staðar á varðbergi mínu og ganga út á virkisvegginn og skyggnast um til þess að sjá, hvað hann talar við mig og hverju hann svarar umkvartan minni.“ (Habakkuk 2:1) Habakkuk hefur mikinn áhuga á því sem Guð á eftir að segja fyrir munn hans. Hann trúir því að Jehóva sé Guð sem umberi ekki illsku og veltir þess vegna fyrir sér hvers vegna illskan fái að vaða uppi, en hann er fús að leiðrétta hugsun sína. Hvað um okkur? Þegar við veltum fyrir okkur hvers vegna ákveðin illskuverk séu umborin ætti traust á réttlæti Jehóva Guðs að fá okkur til að halda jafnvægi og sýna biðlund. — Sálmur 45:6, 12.

19. Hvað varð um hina spilltu Gyðinga eins og Guð hafði sagt Habakkuk?

19 Trúr orðum sínum við Habakkuk fullnægir Guð dómi yfir hinni spilltu Gyðingaþjóð með því að leyfa Babýloníumönnum að ráðast inn í Júda. Árið 607 f.o.t. eyða þeir Jerúsalem ásamt musterinu, drepa unga sem aldna og taka fjölmarga til fanga. (2. Kroníkubók 36:17-20) Eftir langa útlegð í Babýlon snúa trúfastar leifar Gyðinga aftur heim í land sitt og endurreisa musterið um síðir. En síðar meir reynast Gyðingarnir Jehóva ótrúir á ný — einkum er þeir hafna Jesú sem Messíasi.

20. Hvernig heimfærir Páll orðin í Habakkuk 1:5 á það er Gyðingar höfnuðu Jesú?

20 Postulasagan 13:38-41 segir að Páll postuli hafi bent Gyðingum í Antíokkíu á afleiðingar þess að hafna Jesú og þar með lausnarfórninni. Hann vitnar í Habakkuk 1:5 samkvæmt grísku Sjötíumannaþýðingunni og segir í viðvörunartón: „Gætið nú þess, að eigi komi það yfir yður, sem sagt er hjá spámönnunum: Sjáið, þér spottarar, undrist, og verðið að engu, því að verk vinn ég á dögum yðar, verk, sem þér alls ekki munduð trúa, þótt einhver segði yður frá því.“ Í samræmi við orð Páls uppfylltist Habakkuk 1:5 öðru sinni þegar rómverskar hersveitir eyddu Jerúsalem og musteri hennar árið 70.

21. Hvernig litu Gyðingar á dögum Habakkuks á það „verk“ Guðs að láta Babýloníumenn eyða Jerúsalem?

21 Gyðingar á dögum Habakkuks töldu óhugsandi það „verk“ Jehóva að láta Babýloníumenn eyða Jerúsalem, af því að borgin var miðstöð tilbeiðslunnar á honum og þar var smurður konungur hans settur í hásæti. (Sálmur 132:11-18) Jerúsalem hafði aldrei verið eytt, musteri hennar aldrei brennt og konungsætt Davíðs aldrei steypt af stóli. Það var ótrúlegt að Jehóva leyfði slíkt. En hann varaði tímanlega við því fyrir munn Habakkuks að þessir átakanlegu atburðir myndu eiga sér stað. Og sú spá rættist eins og sagan sannar.

Ótrúlegt „verk“ Guðs á okkar dögum

22. Hvaða ótrúlegt „verk“ ætlar Jehóva að framkvæma á okkar tímum?

22 Mun Jehóva framkvæma ótrúlegt „verk“ á okkar dögum? Þú getur verið fullviss um það, jafnvel þótt efasemdamönnum þyki það ótrúlegt. Að þessu sinni verður hið ótrúlega verk hans það að eyða kristna heiminum. Líkt og Júda til forna staðhæfir kristni heimurinn að hann tilbiðji Guð, en hann er orðinn gerspilltur. Jehóva sér brátt til þess að allar menjar trúarkerfis kristna heimsins verði afmáðar og einnig öll „Babýlon hin mikla,“ heimsveldi falskra trúarbragða. — Opinberunarbókin 18:1-24.

23. Hvað knúði andi Guðs Habakkuk til að gera næst?

23 Jehóva hafði meira verk fyrir Habakkuk að vinna áður en Jerúsalem yrði eytt árið 607 f.o.t. Það sem Guð átti eftir að segja spámanninum myndi fá hann til að taka upp strengjahljóðfæri og lofsyngja hann í bæn. En fyrst myndi andi Guðs knýja hann til að boða kröftug vei. Okkur langar örugglega til að skilja djúpstæða merkingu þessara spádómsorða á hinum ákveðna tíma Guðs. Við skulum því halda áfram að rýna í spádóm Habakkuks.

Manstu?

• Hvernig var ástatt í Júda á dögum Habakkuks?

• Hvaða ótrúlegt „verk“ vann Jehóva á tímum Habakkuks?

• Hvaða örugga von hafði Habakkuk?

• Hvaða ótrúlegt „verk“ ætlar Guð að framkvæma á okkar dögum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Habakkuk velti fyrir sér hvers vegna Guð leyfði illskunni að vaða uppi. Gerir þú það?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Habakkuk boðaði Júda ógæfu af hendi Babýloníumanna.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Fornar borgarrústir í Jerúsalem sem var tortímt árið 607 f.o.t.