Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Taktu mark á viðvöruninni!

Taktu mark á viðvöruninni!

Taktu mark á viðvöruninni!

Eldfjallið Fúgen í Japan tók að gjósa með miklum gný hinn 3. júní árið 1991. Ofurheit gjóska kom æðandi niður fjallshlíðarnar. Fjörutíu og þrír létust af völdum gossins. Margir björguðust naumlega en brenndust illa. Sumir hrópuðu: „Vatn, gefið mér vatn.“ Slökkviliðs- og lögreglumenn flýttu sér sem mest þeir máttu að hjálpa hinum slösuðu.

HRAUNBUNGA hafði sést á tindi Fúgenfjalls um tveim vikum áður svo að yfirvöld og nábúar fjallsins höfðu verið á varðbergi. Rúmlega viku fyrir gosið hafði fólki verið ráðlagt að yfirgefa svæðið. Daginn fyrir gosið hafði lögregla beðið fréttamenn að fara ekki inn á hættusvæðið. En á þessu örlagaríka síðdegi voru 43 inni á svæðinu.

Af hverju fóru svona margir inn á hættusvæðið eða yfirgáfu það ekki? Bændur, sem höfðu yfirgefið heimili sín, vildu sumir líta eftir eigum sínum og ökrum. Þrír eldfjallafræðingar vildu komast sem næst fjallinu til að svala fræðilegri forvitni sinni. Fjöldi fréttamanna og myndatökumanna fór inn á bannsvæðið til að geta flutt sem áhrifaríkastar fréttir af gosinu. Þrír leigubílstjórar höfðu ekið fréttamönnum inn á svæðið og biðu þar. Lögreglumenn og slökkviliðsmenn úr sjálfboðasveitum voru á vakt. Hver og einn hafði sínar ástæður fyrir því að fara inn á hættusvæði — en týndi lífi fyrir vikið.

Ert þú á hættusvæði?

Ekki búa allir í grennd við virkt eldfjall. En getur verið að miklar hamfarir blasi við öllum heiminum þannig að við séum öll á hættusvæði? Í áreiðanlegri spádómsbók er varað við yfirvofandi heimshamförum og þar segir: „Sólin [mun] sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. . . . Allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi.“ (Matteus 24:29, 30) Þarna er talað um stórkostleg fyrirbæri á himni sem hafa áhrif á „allar kynkvíslir jarðarinnar.“ Spádómurinn fjallar með öðrum orðum um hamfarir sem ekkert okkar fær umflúið.

Þessi áreiðanlega spádómsbók er Biblían. Það er athyglisvert að ritningargreinin, sem vitnað er í hér á undan, gefur ítarlega lýsingu á aðdraganda heimshamfaranna. Biblían bendir okkur á ástæður til að vera vakandi og gera ráðstafanir til að bjarga okkur, ekki ósvipað og hraunbungan og aðrar vísbendingar gáfu borgaryfirvöldum í Shimabara tilefni til að afmarka hættusvæði umhverfis fjallið. Við getum dregið lærdóm af harmleiknum við Fúgenfjall og áttað okkur á þeirri alvarlegu hættu sem framundan er.

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

Yomiuri/Orion Press/Sipa Press