Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem Jesús Kristur getur gert fyrir okkur

Það sem Jesús Kristur getur gert fyrir okkur

Það sem Jesús Kristur getur gert fyrir okkur

ÞAÐ var ekkert smáræði sem Jesús Kristur gerði til að hjálpa fólki meðan hann var á jörðinni. Svo mikið var það að sjónarvotti, sem sagði frá mörgum af verkum hans, varð að orði: „Margt er það annað, sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég, að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar.“ (Jóhannes 21:25) Fyrst Jesús áorkaði svona miklu á jörðinni er eðlilegt að spyrja hvernig hann geti hjálpað okkur af himnum. Getum við notið góðs af umhyggju hans núna?

Svarið er er mjög uppörvandi og traustvekjandi. Biblían bendir á að Kristur hafi gengið „inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.“ (Hebreabréfið 9:24) Hvað gerði hann fyrir okkur þar? Páll postuli segir: „Ekki fór hann [Kristur] með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga [„sjálfan himininn“] í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar.“ — Hebreabréfið 9:12; 1. Jóhannesarbréf 2:2.

Þetta eru góð tíðindi! Góðverk Jesú í þágu manna hættu ekki þegar hann steig upp til himna heldur getur hann gert enn meira fyrir mannkynið en áður vegna þess að í gæsku sinni hefur Guð skipað hann ‚helgiþjón‘ eða æðstaprest „til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum.“ — Hebreabréfið 8:1, 2.

„Helgiþjónn“

Jesús átti sem sagt að þjóna mannkyninu af himnum og gegna svipuðu starfi og æðstipresturinn í Ísrael gerði í þágu guðsdýrkenda forðum daga. Hvað fólst í þessu starfi? Páll skýrir málið: „Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur [Jesús Kristur uppstiginn til himna] hafi líka eitthvað fram að bera.“ — Hebreabréfið 8:3.

Jesús hafði margfalt verðmætari fórn fram að færa en æðstiprestur fortíðar. „Ef blóð hafra og nauta“ gat gert menn andlega hreina að vissu marki í Forn-Ísrael, „hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda.“ — Hebreabréfið 9:13, 14.

Jesús er líka framúrskarandi helgiþjónn af því að honum er gefinn ódauðleiki. Í Ísrael fortíðar „urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.“ En hvað um Jesú? Páll skrifar: „Hann . . . hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti. Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.“ (Hebreabréfið 7:23-25; Rómverjabréfið 6:9) Já, við hægri hönd Guðs á himnum situr helgiþjónn sem ‚lifir ávallt til að biðja fyrir okkur.‘ Hugsaðu þér hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur núna.

Fólk þyrptist til Jesú þegar hann var hér á jörð til að leita hjálpar hans, og stundum ferðuðust menn langan veg til að njóta hjálpar hans. (Matteus 4:24, 25) Nú er Jesús á himnum uppi og þar á fólk af öllum þjóðum greiðan aðgang að honum. Hann er aðgengilegur öllum stundum á himneskum sjónarhóli sínum.

Hvers konar æðstiprestur er Jesús?

Sú mynd, sem guðspjöllin draga upp af Jesú, er af hjálpsömum, blíðum og umhyggjusömum manni. Og fórnfús var hann. Oftar en einu sinni var hann ónáðaður þegar hann og lærisveinarnir voru sárlega hvíldarþurfi. En í stað þess að láta sér gremjast ‚kenndi hann í brjósti um‘ fólkið sem leitaði ásjár hans. Jafnvel þegar hann var þreyttur ‚tók hann þeim vel‘ og neitaði sér jafnvel um mat ef hann gat hjálpað einlægum syndurum. — Markús 6:31-34; Lúkas 9:11-17; Jóhannes 4:4-6, 31-34.

Jesús gerði ráðstafanir til að sinna líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum þörfum fólks af því að hann kenndi í brjósti um það. (Matteus 9:35-38; Markús 6:35-44) Og hann kenndi fólki hvernig þessum þörfum yrði fullnægt til frambúðar. (Jóhannes 4:7-30, 39-42) Persónulegt boð hans er mjög svo aðlaðandi: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 11:28, 29.

Slíkur var mannkærleiki Jesú að hann lagði líf sitt að lokum í sölurnar fyrir syndugt mannkyn. (Rómverjabréfið 5:6-8) Páll postuli sagði þar um: „Hann [Jehóva Guð] sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla? . . . Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss.“ — Rómverjabréfið 8:32-34.

Samúðarfullur æðstiprestur

Sem maður kynntist Jesús hungri, þorsta, þreytu, angist, sársauka og dauða. Streitan og álagið, sem hann þoldi, gerði hann einstaklega færan um að vera æðstiprestur þjáðs mannkyns. Páll skrifaði: „Því var það, að hann [Jesús] í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.“ — Hebreabréfið 2:17, 18; 13:8.

Jesús sýndi fram á að hann var bæði fær og fús til að hjálpa fólki að styrkja tengslin við Guð. Þýðir það að hann þurfi að sannfæra harðneskjulegan og miskunnarlausan Guð sem er tregur til að fyrirgefa? Nei, Biblían fullvissar okkur um að Jehóva er „góður og fús til að fyrirgefa,“ og hún bendir á að „ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“ (Sálmur 86:5; 1. Jóhannesarbréf 1:9) Með mildi sinni í orði og verki endurspeglaði Jesús umhyggju, miskunn og kærleika föður síns. — Jóhannes 5:19; 8:28; 14:9, 10.

Jesús veitir iðrandi syndurum hugarfró þegar þeir reyna í einlægni að þóknast Guði. Páll lýsti þessu í hnotskurn í bréfi til kristinna bræðra sinna af hópi hinna smurðu: „Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna. Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ — Hebreabréfið 4:14-16.

„Hjálp á hagkvæmum tíma“

En hvað er til ráða ef við eigum við vandamál að stríða sem okkur finnst vera okkur ofviða, svo sem alvarleg veikindi, þjakandi sektarkennd, yfirþyrmandi vanmáttarkennd eða þunglyndi? Við getum notfært okkur sömu dýrmætu sérréttindi og Jesús — bænina. Nóttina áður en hann lagði lífið í sölurnar fyrir okkur „baðst [hann] enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“ (Lúkas 22:44) Jesús veit hvernig það er að biðja til Guðs af mikilli ákefð. Hann „bar . . . fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ — Hebreabréfið 5:7.

Jesús veit hve mikils virði það er fyrir menn að ‚fá bænheyrslu‘ og styrkjast. (Lúkas 22:43) Hann lofaði meira að segja: „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. . . . Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.“ (Jóhannes 16:23, 24) Við getum því beðið til Guðs í trausti þess að hann leyfi syni sínum að beita valdi sínu og lausnarfórninni í okkar þágu. — Matteus 28:18.

Við getum treyst að Jesús veiti rétta hjálp á réttum tíma af himnum ofan. Ef við höfum til dæmis syndgað og iðrumst þess einlæglega, þá getum við huggað okkur við það loforð að við eigum „árnaðarmann [hjálpara] hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Huggarinn og hjálparinn á himnum talar máli okkar svo að bænum okkar sé svarað, bænum sem við biðjum í nafni hans og í samræmi við Biblíuna. — Jóhannes 14:13, 14; 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.

Sýnum að við metum hjálp Krists

En það þarf meira til en það eitt að biðja Guð í nafni sonar hans. ‚Kristur keypti okkur‘ með lausnarfórn sinni og varð þar með ‚herra‘ og eigandi mannkynsins. (Galatabréfið 3:13; 4:5; 2. Pétursbréf 2:1) Við getum sýnt að við séum þakklát fyrir allt sem Kristur gerir fyrir okkur með því að viðurkenna að hann eigi okkur og þiggja boð hans fúslega: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ (Lúkas 9:23) Að ‚afneita sjálfum sér‘ er meira en munnleg yfirlýsing um að maður hafi skipt um eiganda. Þegar allt kemur til alls þá dó Kristur „fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Rétt mat á lausnargjaldinu hefur því djúpstæð áhrif á viðhorf okkar, markmið og líferni. Við erum eilíflega skuldbundin ‚Jesú Kristi sem gaf sjálfan sig fyrir okkur,‘ og það ætti að hvetja okkur til að halda áfram að fræðast um hann og kærleiksríkan föður hans, Jehóva Guð. Okkur ætti að langa til að vaxa í trúnni, lifa í samræmi við hinar heilnæmu lífsreglur Guðs og vera ‚kostgæfin til góðra verka.‘ — Títusarbréfið 2:13, 14; Jóhannes 17:3.

Kristni söfnuðurinn er boðleið andlegrar fæðu, hvatningar og leiðsagnar sem við þurfum á hverjum tíma. (Matteus 24:45-47; Hebreabréfið 10:21-25) Ef einhver er andlega veikur getur hann til dæmis kallað til sín „öldunga safnaðarins,“ umsjónarmennina. Og Jakob bætir við: „Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og [Jehóva] mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.“ — Jakobsbréfið 5:13-15.

Lýsum þessu með dæmi: Maður, sem afplánaði fangelsisdóm í Suður-Afríku, skrifaði safnaðaröldungi bréf þar sem hann lýsti sig þakklátan fyrir „alla votta Jehóva sem vinna hið góða starf sem Jesús Kristur hóf til að hjálpa fólki að sækjast eftir Guðsríki.“ Síðan sagði í bréfinu: „Ég var himinlifandi að fá bréfið frá þér. Ég er djúpt snortinn af umhyggju þinni fyrir andlegri endurlausn minni. Þeim mun ríkari ástæðu hef ég til að hlýða kalli Jehóva Guðs og iðrast. Í 27 ár hef ég hrasað og villst í myrkri syndar, svika, óleyfilegra ástarsambanda, siðleysis og vafasamra trúarbragða. Síðan ég kynntist vottum Jehóva finnst mér ég loksins vera farinn að rata — réttu leiðina! Ég þarf ekki annað en að fara hana.“

Meiri hjálp í náinni framtíð

Heimsástandið versnar jafnt og þétt sem er glöggt merki þess að við lifum þá örlagatíma sem áttu að vera undanfari ‚þrengingarinnar miklu.‘ Mikill múgur af öllum þjóðum, kynkvíslum, þjóðflokkum og tungum er að ‚þvo skikkjur sínar og hvítfága þær í blóði lambsins.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 13, 14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þeir fá syndafyrirgefningu með því að iðka trú á lausnarfórn Jesú, og þeim er hjálpað að eignast náið samband við Guð — reyndar að verða vinir hans. — Jakobsbréfið 2:23.

Lambið Jesús Kristur „mun vera hirðir þeirra [sem komast gegnum þrenginguna miklu] og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ (Opinberunarbókin 7:17) Þá mun Kristur fullna skyldur sínar sem æðstiprestur og hjálpa öllum vinum Guðs að njóta „vatnslinda lífsins“ að fullu — andlega, líkamlega, hugarfarslega og tilfinningalega. Jesús hefur þá fullkomnað það sem hann hóf árið 33 og hefur haldið áfram af himni æ síðan.

Sýndu því ávallt að þú metir mikils allt sem Guð og Kristur hafa gert og eru að gera fyrir okkur. Páll postuli hvatti: „Verið ávallt glaðir í Drottni. . . . Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:4, 6, 7.

Mikilvæg leið til að sýna að maður kunni að meta Jesú Krist, hjálpara sinn á himni, er fólgin í því að koma til minningarhátíðarinnar um dauða hans sem vottar Jehóva halda um heim allan eftir sólsetur miðvikudaginn 19. apríl 2000. (Lúkas 22:19) Þessi hátíðarsamkoma er gott tækifæri til að styrkja þakkarkennd sína fyrir lausnarfórn Krists. Við hvetjum þig til að koma og fræðast um það hvernig þessi hjálpræðisráðstöfun Guðs getur orðið þér til góðs að eilífu. Vottar Jehóva í byggðarlaginu geta gefið þér nánari upplýsingar um það hvar og hvenær þessi sérsamkoma verður haldin.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jesús þekkir þá tilfinningu að biðja ákaft til Guðs.

[Myndir á blaðsíðu 8]

Kristur hjálpar okkur að takast á við vandamál sem við ráðum ekki við einsömul.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Kristur liðsinnir okkur með aðstoð kærleiksríkra öldunga.