Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er voldugur að afli

Jehóva er voldugur að afli

Jehóva er voldugur að afli

„Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ — Jesaja 40:26.

1, 2. (a) Hvers konar orku eru allir háðir? (b) Útskýrðu hvers vegna Jehóva er frumuppspretta orkunnar.

MÖRGUM finnst ekkert sjálfsagðara en að hafa aðgang að orkugjafa. Til dæmis gefum við raforkunni, sem vermir okkur og lýsir, lítinn gaum eða þeim þægindum að geta stungið raftækjum í samband. Óvænt rafmagnsbilun er það eina sem minnir okkur á að öll starfsemi myndi svo að segja leggjast niður í nútímaborgum ef raforkunnar nyti ekki við. Meirihluti raforkunnar, sem við erum háð, byggist óbeint á traustustu orkulind jarðar, sólinni. * Á hverri sekúndu brennir þessi sólarkjarnaofn fimm milljónum tonna af kjarnorkueldsneyti og dælir út orku sem viðheldur lífi á jörðinni.

2 En hvaðan kemur öll sólarorkan? Hver reisti þetta himneska orkuver? Það var Jehóva Guð. Sálmur 74:16 segir um hann: „Þú gjörðir ljós og sól.“ Já, Jehóva er aðaluppspretta orkunnar, á sama hátt og hann er uppspretta lífsins. (Sálmur 36:10) Við ættum aldrei að líta á þessa orku sem sjálfsagðan hlut. Jehóva minnir okkur á, fyrir munn Jesaja spámanns, að horfa á himinhnetti eins og sólina og stjörnurnar og hugleiða hvernig allt þetta varð til. „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ — Jesaja 40:26; Jeremía 32:17.

3. Hvernig njótum við góðs af opinberun máttar Jehóva?

3 Þar sem Jehóva er voldugur að afli getum við verið þess fullviss að sólin heldur áfram að sjá okkur fyrir lífsnauðsynlegri birtu og varma. Við erum háð krafti eða mætti Guðs um annað og meira en líkamlegar þarfir því að endurlausn okkar frá synd og dauða, framtíðarvon og trúartraust á Jehóva er nátengt því hvernig hann beitir mætti sínum. (Sálmur 28:6-9; Jesaja 50:2) Biblían hefur að geyma fjölmörg dæmi um mátt Jehóva til að skapa og endurleysa, til að frelsa fólk sitt og eyða óvinum sínum.

Sköpunin ber vitni um mátt Guðs

4. (a) Hvaða áhrif hafði það á Davíð að virða fyrir sér næturhimininn? (b) Hvernig bera himinhnettirnir vitni um mátt Guðs?

4 Páll postuli benti á að ‚eilífur kraftur skaparans væri skilinn af verkum hans.‘ (Rómverjabréfið 1:20) Mörgum öldum áður hefur sálmaritarinn Davíð skynjað mikilfengleika alheimsins og mátt skaparans en hann hefur eflaust oft horft á næturhimininn þegar hann var fjárhirðir. Hann skrifaði: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ (Sálmur 8:4, 5) Þrátt fyrir takmarkaða þekkingu Davíðs á himinhnöttum gerði hann sér grein fyrir smæð sinni miðað við skapara hins mikla alheims. Nú vita stjörnufræðingar mun meira um víðáttu alheimsins og þá orku sem viðheldur honum. Þeir segja til dæmis að á hverri sekúndu sendi sólin frá sér orku á við sprengingu 100.000 milljóna megatonna af TNT. * Einungis örlítið brot af þessari orku nær til jarðar, samt nægir það til að viðhalda öllu lífi á reikisstjörnu okkar. Sólin okkar er fjarri því að vera orkumesta stjarnan í himingeimnum. Sumar stjörnur senda frá sér á einni sekúndu jafnmikilli orku og hún sendir frá sér á heilum degi. Maður getur rétt ímyndað sér þann mátt sem skapari þessara himinhnatta býr yfir. Elíhú sagði réttilega: „Vér náum eigi til hins Almáttka, til hans, sem er mikill að mætti.“ — Jobsbók 37:23.

5. Hvernig endurspeglast máttur Jehóva í verkum hans?

5 Þegar við ‚íhugum verk Guðs‘ eins og Davíð gerði sjáum við merki um mátt hans alls staðar — í vindinum og öldunum, í þrumum og eldingum, í stórfljótum og tignarlegum fjöllum. (Sálmur 111:2; Jobsbók 26:12-14) Auk þess bera dýrin vitni um mátt Jehóva eins og hann minnti Job á. Til dæmis nykurinn eða flóðhesturinn. Jehóva sagði við Job: „Sjá, kraftur hans er í lendum hans . . . . Beinin eins og járnstafur.“ (Jobsbók 40:15-18) Ógurlegur kraftur vísundarins var líka alkunnur á biblíutímanum, Davíð bað um frelsun úr „gini ljónsins, frá hornum vísundarins.“ — Sálmur 22:20-22; Job 39:9-11.

6. Hvað táknar uxinn í Ritningunni og hvers vegna? (Sjá neðanmálsathugasemd.)

6 Í Biblíunni táknar styrkur vísundarins eða uxans mátt Jehóva. * Í sýn Jóhannesar postula af hásæti Jehóva er dregin upp mynd af fjórum verum, og ein þeirra hafði ásjónu sem líktist uxa. (Opinberunarbókin 4:6, 7) Það sýnir að máttur er einn af fjórum höfuðeiginleikum Jehóva sem kerúbarnir táknuðu. Hinir eiginleikarnir eru kærleikur, viska og réttlæti. Þar sem máttur er svo mikilvægur þáttur í persónuleika Guðs tengjumst við honum betur ef við skiljum mátt hans vel og hvernig hann beitir honum. Þessi skýri skilningur hjálpar okkur að vera eftirbreytendur hans og hagnýta okkur þann mátt sem við höfum. — Efesusbréfið 5:1.

„[Jehóva] allsherjar, hinn voldugi“

7. Hvernig getum við verið viss um að hið góða sigri hið illa?

7 Jehóva er kallaður „Almáttugur Guð“ í Ritningunni. Þessi titill minnir okkur á að vanmeta aldrei mátt hans eða draga í efa að hann geti yfirbugað óvini sína. (1. Mósebók 17:1; 2. Mósebók 6:3) Óguðlegt kerfi Satans virðist ef til vill óhagganlegt en í augum Jehóva eru „þjóðirnar . . . sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum.“ (Jesaja 40:15) Máttur Guðs er slíkur að enginn vafi leikur á að hið góða sigrar hið illa. Nú þegar illskan er allsráðandi er mjög hughreystandi að vita að „[Jehóva] allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð“ mun eyða illskunni að eilífu. — Jesaja 1:24; Sálmur 37:9, 10.

8. Hvaða himneska herskara hefur Jehóva undir stjórn sinni og hvaða vísbendingu höfum við um mátt þeirra?

8 Orðalagið ‚Jehóva allsherjar‘ eða ‚hersveitanna‘ kemur 285 sinnum fyrir í Biblíunni og minnir okkur líka á mátt Guðs. ‚Herinn‘ sem vísað er til er herskari andavera undir stjórn Jehóva. (Sálmur 103:20, 21; 148:2) Aðeins einn þessara engla felldi á einni nóttu 185.000 assýríska hermenn sem ógnuðu Jerúsalem. (2. Konungabók 19:35) Ef við gerum okkur grein fyrir mætti himneskra hersveita Jehóva mun andstæðingum ekki reynast eins auðvelt að hræða okkur. Elísa spámaður var óhræddur þótt heill her umkringdi hann vegna þess að ólíkt þjóni sínum gat hann séð með augum trúar hvernig himneskar hersveitir studdu hann. — 2. Konungabók 6:15-17.

9. Hvers vegna ættum við að treysta á himneska vernd eins og Jesús gerði?

9 Jesús var líka meðvitaður um stuðning engla þegar hann stóð frammi fyrir múgi vopnuðum sverðum og bareflum í Getsemanegarðinum. Eftir að hann hafði sagt Pétri að slíðra sverð sitt sagðist hann geta beðið föður sinn að senda „meira en tólf sveitir engla“ ef nauðsyn krefði. (Matteus 26:47, 52, 53) Ef við gerum okkur á sama hátt grein fyrir þeim himnesku hersveitum sem Guð hefur til reiðu munum við líka hafa óbilandi traust á himneskum stuðningi. Páll postuli skrifaði: „Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“ — Rómverjabréfið 8:31.

10. Í þágu hverra beitir Jehóva mætti sínum?

10 Við getum verið þess fullviss að Jehóva verndar okkur. Hann notar alltaf mátt sinn til góðs og í samræmi við aðra eiginleika sem hann hefur til að bera eins og réttlæti, visku og kærleika. (Jobsbók 37:23; Jeremía 10:12) Valdsmenn troða oft á fátækum og almúganum í eiginhagsmunaskyni en Jehóva „reisir lítilmagnann úr duftinu“ og hefur „mátt . . . til að frelsa.“ (Sálmur 113:5-7; Jesaja 63:1) María móðir Jesú var auðmjúk og hæversk, hún skildi að „hinn voldugi“ beitir mætti sínum á óeigingjarnan hátt í þágu þeirra sem óttast hann og auðmýkir drembiláta en upphefur smælingja. — Lúkas 1:46-53.

Jehóva opinberar þjónum sínum mátt sinn

11. Hvaða opinberun um mátt Guðs fengu Ísraelsmenn árið 1513 f.o.t.?

11 Jehóva opinberaði þjónum sínum mátt sinn við ýmis tækifæri, til dæmis við Sínaífjall árið 1513 f.o.t. Þetta ár höfðu Ísraelsmenn þegar séð áhrifamikið tákn um mátt hans. Tíu hræðilegar plágur opinberuðu volduga hönd Jehóva og vanmátt guða Egypta. Skömmu síðar opinberaðist máttur Guðs enn frekar þegar Ísraelsmenn fóru á undraverðan hátt yfir Rauðahafið en hersveitir faraós fórust. Þrem mánuðum síðar, við rætur Sínaífjalls, bauð Jehóva Ísraelsþjóðinni að verða „eiginleg eign [sín] umfram allar þjóðir.“ Og á móti lofaði þjóðin að „gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ (2. Mósebók 19:5, 8) Jehóva birti þá mátt sinn á ljóslifandi hátt. Sínaífjall lék á reiðiskjálfi og reyk lagði frá því. Allt í kring voru þrumur og eldingar og sterkur lúðurþytur heyrðist. Fólkið stóð langt frá skelfingu lostið. En Móse sagði þeim að þeir ættu að læra af þessari reynslu að óttast hinn alvalda og eina sanna Guð, Jehóva. – 2. Mósebók 19:16-19; 20:18-20.

12, 13. Hvað varð til þess að Elía gafst upp á verkefni sínu og hvernig styrkti Jehóva hann?

12 Nokkrum öldum síðar, á dögum Elía, varð Sínaífjall aftur vitni að opinberun máttar Guðs. Spámaðurinn hafði áður séð anda Guðs að verki. Guð ‚byrgði himininn‘ í þrjú og hálft ár vegna fráhvarfs Ísraelsþjóðarinnar. (2. Kroníkubók 7:13) Á þurrkatímunum sem fylgdu sáu hrafnar Elía fyrir fæði við lækinn Krít og seinna entist fátæklegur hveiti- og olíuskammtur ekkjunnar honum til matar á undraverðan hátt. Jehóva veitti Elía meira að segja mátt til að reisa son hennar upp frá dauðum. Að síðustu fór fram stórbrotið próf á guðdómi á Karmelfjalli þegar eldur kom af himni og eyddi fórn Elía. (1. Konungabók 17:4-24; 18:36-40) Þrátt fyrir það varð Elía hræddur og niðurdreginn skömmu síðar þegar Jesebel hótaði að lífláta hann. (1. Konungabók 19:1-4) Hann flúði land og hélt að dagar sínir sem spámaður væru taldir. Jehóva birti honum mátt sinn á kærleiksríkan hátt til að styrkja hann og hughreysta.

13 Þegar Elía faldi sig í helli varð hann vitni að tilkomumikilli opinberun þriggja afla sem Jehóva ræður yfir: sterkum stormi, landskjálfta og að endingu eldi. Engu að síður ‚hvíslaði Jehóva blíðlega‘ að Elía, fól honum önnur verkefni og sagðist enn eiga 7000 trúfasta tilbiðjendur í landinu. (1. Konungabók 19:9-18) Ef við verðum einhvern tíma kjarklaus eins og Elía, vegna þess að boðunarstarf okkar ber ekki árangur, skulum við biðja til Jehóva um „ofurmagn kraftarins“ — kraft sem styrkir okkur til að halda áfram að prédika fagnaðarerindið án afláts. —2. Korintubréf 4:7

Máttur Jehóva tryggir að fyrirheit hans uppfyllast

14. Um hvað ber einkanafn Jehóva vott og hvernig tengist máttur hans nafninu?

14 Máttur Jehóva er einnig nátengdur nafni hans og því að tilgangur hans nái fram að ganga. Hið óviðjafnanlega nafn, Jehóva, þýðir „hann lætur verða“ og ber vott um að hann uppfyllir sjálfur fyrirheit sín. Ekkert getur komið í veg fyrir að Guð láti tilgang sinn ná fram að ganga, hversu fjarstæðukenndur sem efasemdamönnum kann að finnast hann vera. Jesús sagði postulum sínum eitt sinn: „Guð megnar allt.“ — Matteus 19:26.

15. Hvernig voru Abraham og Sara minnt á að Jehóva er ekkert ómögulegt?

15 Tökum dæmi. Einu sinni hét Jehóva Abraham og Söru að gera afkomendur þeirra að mikilli þjóð. Samt voru þau barnlaus árum saman. Þegar Jehóva sagði þeim að fyrirheit hans myndi brátt rætast voru þau bæði komin á efri ár og Sara hló. Þá svaraði engilinn: „Er [Jehóva] nokkuð ómáttugt?“  (1. Mósebók 12:1-3; 17:4-8; 18:10-14) Fjórum öldum síðar safnaði Móse afkomendum Abrahams loks saman á Móabsheiðum. Þeir voru þá orðnir að mikilli þjóð. Móse minnti þá á að Guð hefði uppfyllt fyrirheit sitt. Hann sagði: „Og fyrir því að hann elskaði feður þína og útvaldi niðja þeirra eftir þá og leiddi þig sjálfur af Egyptalandi með hinum mikla mætti sínum til þess að stökkva burt undan þér þjóðum, sem eru stærri og sterkari en þú ert, en leiða þig þangað og gefa þér land þeirra til eignar, eins og nú er fram komið.“ — 5. Mósebók 4:37, 38.

16. Hvers vegna leiddust saddúkearnir út í þá villu að afneita upprisu hinna dánu?

16 Mörgum öldum síðar ávítaði Jesús saddúkeana sem trúðu ekki á upprisuna. Hvers vegna neituðu þeir að trúa fyrirheiti Guðs um að vekja dána til lífs á ný? Jesús sagði við þá: „Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs.“ (Matteus 22:29) Ritningin fullvissar okkur um að „allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:27-29) Ef við vitum hvað Biblían segir um upprisuna sannfærir trúin á mátt Guðs okkur um að dánir verði reistir upp. Jehóva „mun afmá dauðann að eilífu, . . . því að [hann] hefir talað það.“ — Jesaja 25:8.

17. Hvenær í framtíðinni verður mikilvægt að treysta á Jehóva á sérstakan hátt?

17 Innan tíðar kemur að því að sérhvert okkar verður að treysta því að máttur Guðs veiti frelsun á sérstæðan hátt. Satan djöfullinn mun hefja árás á fólk Guðs sem virðist varnarlaust. (Esekíel 38:14-16) Þá beitir Guð mætti sínum okkar vegna og allir verða að viðurkenna að hann er Jehóva. (Esekíel 38:21-23) Nú er einmitt rétti tíminn til að efla trú sína og treysta alvöldum Guði svo að við hvikum ekki þegar á reynir.

18. (a) Hvers vegna er okkur hollt að íhuga mátt Jehóva? (b) Um hvaða spurningu verður fjallað í næstu grein?

18 Það er svo sannarlega margt sem fær okkur til að íhuga mátt Jehóva. Þegar við virðum fyrir okkur verk hans langar okkur til að lofa auðmjúklega hinn mikla skapara og þakka honum fyrir að beita mætti sínum með slíku hugviti og kærleika. Ef við treystum á Jehóva hersveitanna látum við aldrei bugast. Trúin á fyrirheit hans verður óhagganleg. Höfum hugfast að við erum sköpuð í Guðs mynd. Þess vegna búum við líka yfir mætti — þótt takmarkaður sé. Hvernig getum við líkt eftir skaparanum þegar við beitum þessum mætti? Næsta grein fjallar um það.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Því er almennt haldið fram að jarðefnaeldsneyti eins og olía og kol, aðalorkugjafar raforkuvera víðast hvar í heiminum, hafi upphaflega myndast við orku frá sólinni.

^ gr. 4 Til samanburðar samsvaraði sprengikraftur aflmestu kjarnorkusprengju, sem prófuð hefur verið, 57 megatonnum af TNT.

^ gr. 6 Uxinn eða vísundurinn, sem Biblían nefnir, er sennilega úruxi (á latínu urus) sem lifði villtur í Gallíu (Frakklandi) fyrir 2000 árum og Júlíus Sesar skrifaði svohljóðandi lýsingu á: „Enn er þar sú tegund dýra, er úrar nefnast. Eru þeir nokkuru minni en fílar, en ásýndum eru þeir áþekkir uxum, bæði á vöxt og lit. Þeir eru rameflir, fráir á fæti, og engri skepnu eira þeir, er þeir sjá, né nokkurum manni.“ Bellum Gallicum (Gallastríð) í íslenskri þýðingu Páls Sveinssonar.

Geturðu svarað?

Hvernig ber sköpunarverkið vitni um mátt Jehóva?

Hvaða hersveitir getur Jehóva sent til að liðsinna fólki sínu?

Nefndu nokkur dæmi um það að Jehóva opinberaði mátt sinn?

Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að Jehóva muni uppfylla fyrirheit sín?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 12]

„Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar?“

[Mynd credit line]

Ljósmynd: Malin, © IAC/RGO 1991

[Myndir á blaðsíðu 15]

Að íhuga mátt Jehóva byggir upp trú á fyrirheit hans.