Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þannig leiðir Jehóva okkur

Þannig leiðir Jehóva okkur

Þannig leiðir Jehóva okkur

„Leið mig um slétta braut.“ — SÁLMUR 27:11.

1, 2. (a) Hvernig leiðir Jehóva fólk sitt nú á tímum? (b) Hvernig getum við notfært okkur samkomurnar sem best?

JEHÓVA er uppspretta ljóss og sannleika eins og fram kom í greininni á undan. Orð hans lýsir okkur leið um slétta braut og hann leiðir okkur með því að fræða okkur um vegu sína. (Sálmur 119:105) Við þiggjum handleiðslu hans með þökkum eins og sálmaritarinn forðum daga og biðjum: „Vísa mér veg þinn, [Jehóva], leið mig um slétta braut.“ — Sálmur 27:11.

2 Kristnar samkomur eru ein af þeim leiðum sem Jehóva notar til að vísa okkur veginn. Notfærum við okkur samkomurnar með því að (1) sækja þær reglulega, (2) hlusta vel á dagskrána og (3) taka fúslega þátt í dagskrárliðum þar sem ætlast er til þátttöku áheyrenda? Og tökum við þakklát við uppástungum sem geta hjálpað okkur að halda áfram á ‚sléttri braut‘?

Hvernig sækirðu samkomur?

3. Lýstu hvernig boðberi í fullu starfi tamdi sér að sækja samkomur að staðaldri.

3 Sumir hafa sótt samkomur að staðaldri frá barnæsku. „Þegar við systurnar vorum að alast upp á fjórða áratugnum þurftum við ekki að spyrja foreldra okkar hvort við færum á samkomu,“ segir systir sem er boðberi í fullu starfi. „Við vissum að við færum nema við værum veik. Fjölskyldan missti hreinlega ekki af samkomum.“ Þessi systir er eins og Anna spákona að því leyti að hún ‚víkur ekki úr‘ tilbeiðsluhúsi Jehóva. — Lúkas 2:36, 37.

4-6. (a) Af hverju missa boðberar stundum af samkomum? (b) Af hverju er áríðandi að sækja samkomur?

4 Sækirðu kristnar samkomur reglulega eða ertu farinn að gera það slitrótt? Nokkrir safnaðarmenn, sem héldu að þeir stæðu sig ágætlega, ákváðu að ganga úr skugga um hvort svo væri og skráðu hjá sér um nokkurra vikna skeið allar samkomur sem þeir sóttu. Þeir skoðuðu svo yfirlitið í lok ákveðins tímabils og kom þá á óvart hve mörgum samkomum þeir höfðu misst af.

5 ‚Það er nú ekkert skrýtið,‘ segir einhver. ‚Það er svo mikið álag á fólki núna að það er ekki auðvelt að sækja samkomurnar reglulega.‘ Það er hárrétt að álagið er mikið og það á eflaust eftir að vaxa. (2. Tímóteusarbréf 3:13) En er þá ekki enn mikilvægara að sækja samkomur reglulega? Við getum varla staðist álagið frá þessu heimskerfi ef við nærumst ekki reglulega á hollri andlegri fæðu. Ef við umgöngumst ekki bræður okkar að staðaldri gætum við jafnvel freistast til að yfirgefa ‚götu réttlátra‘ með öllu. (Orðskviðirnir 4:18) Okkur langar kannski ekki alltaf til að fara á samkomu þegar við komum heim eftir erfiðan dag, en þegar við gerum það þrátt fyrir þreytuna höfum við sjálf gagn af því og hvetjum bræður okkar í ríkissalnum.

6 Hebreabréfið 10:25 bendir á aðra mikilvæga ástæðu til þess að sækja samkomur að staðaldri. Þar hvetur Páll safnaðarmenn til að sækja samkomur ‚því fremur sem þeir sjá að dagurinn færist nær.‘ Við megum aldrei missa sjónar á því að ‚dagur Jehóva‘ nálgast. (2. Pétursbréf 3:12) Ef við ímynduðum okkur að endir þessa heimskerfis væri víðs fjarri gætum við látið önnur áhugamál koma í staðinn fyrir nauðsynlegar andlegar iðkanir eins og samkomusókn. Þá gæti ‚dagur sá komið skyndilega yfir okkur‘ eins og Jesús varaði við. — Lúkas 21:34.

Vertu góður áheyrandi

7. Af hverju er mikilvægt að börn fylgist með á samkomum?

7 Það er ekki nóg að sækja samkomur. Við þurfum líka að hlusta vel og taka eftir því sem sagt er. (Orðskviðirnir 7:24) Börnin þurfa að gera það líka. Þegar barn mætir í skóla er ætlast til þess að það hlýði á kennarann, jafnvel þótt því finnist námsefnið strembið eða það höfði ekki sérstaklega til þess. Kennarinn veit að barnið hefur að minnsta kosti eitthvað gagn af kennslustundinni ef það leggur sig fram um að fylgjast með. Er þá ekki eðlilegt að ætlast til þess að börn á skólaaldri fylgist með fræðslunni á safnaðarsamkomunum í stað þess að sofna um leið og samkoman hefst? Auðvitað eru sum af hinum dýrmætu sannindum Biblíunnar ‚þungskilin.‘ (2. Pétursbréf 3:16) En við ættum ekki að vanmeta námsgetu barna. Guð gerir það ekki. Á biblíutímanum sagði hann ungum þjónum sínum að ‚hlýða á og læra að óttast sig og gæta þess að halda öll orð þessa lögmáls,‘ og sum þeirra voru eflaust torskilin fyrir börn. (5. Mósebók 31:12; samanber 3. Mósebók 18:1-30.) Ætlast Jehóva til minna af börnum núna?

8. Hvað gera sumir foreldrar til að hjálpa börnunum að fylgjast með á samkomum?

8 Kristnir foreldrar vita að andlegum þörfum barnanna er að nokkru leyti fullnægt með því sem þau læra á samkomum. Þess vegna hafa sumir foreldrar fyrir sið að láta börnin fá sér blund fyrir samkomur svo að þau séu hress og námfús þegar þau koma í ríkissalinn. Sumir foreldrar leyfa börnunum ekki að horfa á sjónvarp á samkomukvöldum eða takmarka það mjög, og reyna að láta sem fæst glepja þau svo að þau geti hlustað og lært í samræmi við aldur og hæfni. — Efesusbréfið 5:15, 16; Orðskviðirnir 8:32.

9. Hvernig getum við þjálfað okkur í að hlusta?

9 Þegar Jesús sagði: „Gætið því að, hvernig þér heyrið,“ var hann að tala við fullorðið fólk. (Lúkas 8:18) Það er hægara sagt en gert að hlusta og það kostar óneitanlega áreynslu. En það er hægt að þjálfa sig í hlustun. Reyndu að einangra aðalhugmyndirnar þegar þú hlustar á ræðu. Reyndu að sjá fyrir hvað ræðumaðurinn ætlar að segja næst. Vertu vakandi fyrir atriðum sem þú getur notað í boðunarstarfinu og annars staðar. Rifjaðu jafnóðum upp í huganum það sem verið er að fjalla um. Skrifaðu hjá þér stutta minnispunkta.

10, 11. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að hlusta og hvaða aðferðir hafa reynst vel?

10 Best er að þjálfa hlustun á unga aldri. Sumir foreldrar kenna börnunum að skrifa hjá sér „minnispunkta“ áður en þau eru orðin læs og skrifandi með því að merkja við á blað þegar þau heyra kunnugleg orð eins og „Jehóva,“ „Jesús,“ og „Guðsríki.“ Þannig læra börnin að einbeita sér að því sem sagt er á ræðupallinum.

11 Stundum þarf líka að hvetja eldri börnin til að fylgjast með. Fjölskyldufaðir tók eftir því að 11 ára sonur hans var annars hugar á kristnu móti. Hann rétti drengnum biblíu og bað hann að fletta upp þeim ritningarstöðum sem ræðumennirnir vitnuðu í. Faðirinn hélt síðan áfram að skrifa hjá sér minnispunkta og las ritningarstaðina í biblíunni hjá drengnum sem fylgdist nú betur með dagskránni.

Láttu í þér heyra

12, 13. Af hverju er mikilvægt að taka þátt í safnaðarsöng?

12 Davíð konungur söng: „Ég . . . geng í kringum altari þitt, [Jehóva], til þess að láta lofsönginn hljóma.“ (Sálmur 26:6, 7) Samkomurnar eru prýðistækifæri til að tjá trú okkar í heyranda hljóði, meðal annars í sameiginlegum safnaðarsöng. Söngur er mikilvægur þáttur í tilbeiðslu okkar en auðvelt að vanrækja hann.

13 Ólæs börn geta lært söngtextana sem sungnir verða á safnaðarsamkomu vikunnar og þeim þykir mjög skemmtilegt að geta sungið með hinum fullorðnu. En þegar börnin stækka verða þau oft tregari til að syngja guðsríkissöngvana. Og fullorðnir eru stundum feimnir við að syngja á samkomum. En söngur er hluti af tilbeiðslu okkar ekkert síður en boðunarstarfið. (Efesusbréfið 5:19) Við gerum okkar besta til að lofa Jehóva í boðunarstarfinu. Getum við ekki líka lofað hann með því að hefja upp raustina og syngja innilega lofsöngva — hvort sem við erum lagvís eða ekki? — Hebreabréfið 13:15.

14. Hvers vegna er rétt að búa sig vel undir samkomurnar?

14 Við lofum Guð með því að gefa uppbyggjandi svör á samkomum þegar ætlast er til þátttöku áheyrenda. Það kostar undirbúning og það kostar tíma að kynna sér hin dýpri atriði í orði Guðs. Páll postuli vissi þetta mætavel, enda þaullesinn í Ritningunni. „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs,“ skrifaði hann. (Rómverjabréfið 11:33) Það er mikilvægt að fjölskyldufeður hjálpi öllum í fjölskyldunni að grafa eftir viskunni sem Guð opinberar í orði sínu. Ætlið tíma í biblíunámi fjölskyldunnar til að útskýra torskilin mál og hjálpa öllum að búa sig undir samkomurnar.

15. Hvað er hægt að gera til að svara á samkomum?

15 Ef þig langar til að svara oftar á samkomum er ágætt að undirbúa fyrirfram það sem þú vilt segja. Það þarf ekki að vera langt eða flókið. Það er vel metið að fá ritningarstað lesinn af sannfæringu eða heyra fáein vel valin og einlæg orð. Einstaka boðberar biðja námsstjórann að leyfa sér að koma með fyrsta svarið við ákveðna grein svo að þeir missi ekki af tækifærinu til að tjá trú sína.

Hinn óreyndi verður vitur

16, 17. Hvað ráðlagði öldungur safnaðarþjóni og hvers vegna hitti það í mark?

16 Við erum iðulega minnt á það á samkomum að lesa daglega í orði Guðs. Það hressir og hjálpar okkur að taka viturlegar ákvarðanir, bæta skapgerðargalla, standast freistingar og ná aftur andlegu jafnvægi ef við höfum stigið víxlspor. — Sálmur 19:8.

17 Reyndir safnaðaröldungar eru meira en fúsir til að gefa biblíuleg ráð sniðin að þörfum okkar. Við þurfum ekki annað en að ‚ausa af þeim‘ með því að leita biblíulegra ráða hjá þeim. (Orðskviðirnir 20:5) Ákafur, ungur safnaðarþjónn spurði öldung hvernig hann gæti komið að meiri notum í söfnuðinum. Öldungurinn, sem þekkti unga manninn ágætlega, fletti upp á 1. Tímóteusarbréfi 3:3 þar sem fram kemur að útnefndir þjónar eigi að vera ‚sanngjarnir‘ eins og það er orðað í Nýheimsþýðingunni. Hann benti unga manninum vingjarnlega á hvernig hann gæti sýnt sanngirni í samskiptum við aðra. Var ungi maðurinn móðgaður yfir því að öldungurinn skyldi gefa honum hreinskilnisleg ráð? Nei, „öldungurinn notaði Biblíuna,“ sagði hann, „svo að ég vissi að ráðin voru frá Jehóva.“ Safnaðarþjónninn fór eftir því sem honum var ráðlagt og tekur góðum framförum.

18. (a) Hvað hjálpaði ungum votti að standast freistingar í skólanum? (b) Hvaða ritningarstaði rifjarðu upp þegar þú verður fyrir freistingu?

18 Orð Guðs getur hjálpað ungu fólki að ‚flýja æskunnar girndir.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:22) Ungur vottur, stúlka sem útskrifaðist nýlega úr unglingaskóla, gat staðist freistingar öll skólaárin með því að ígrunda ákveðnar ritningargreinar og fara eftir þeim. Hún hugsaði oft um leiðbeiningarnar í Orðskviðunum 13:20: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur“ og gætti þess að stofna ekki til vináttu við unglinga sem báru ekki djúpa virðingu fyrir meginreglum Biblíunnar. „Ég er ekkert betri en aðrir,“ hugsaði hún. „Ef ég vel mér skakkan kunningjahóp langar mig til að þóknast þeim og það gæti komið mér í klandur.“ Ráð Páls í 2. Tímóteusarbréfi 1:8 hjálpuðu henni líka. Hann skrifaði: „Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn . . . heldur skalt þú . . . illt þola vegna fagnaðarerindisins.“ Hún tók þetta til sín og sagði skólafélögunum djarfmannlega frá biblíulegri trú sinni hvenær sem færi gafst. Þegar henni var falið að gera ritgerð og lesa fyrir bekkinn valdi hún efni sem gaf henni tækifæri til að bera smekklega vitni um Guðsríki.

19. Af hverju tókst ungum manni ekki að standast álag heimsins en hvað veitti honum andlegan styrk til þess?

19 Ef við villumst einhvern tíma út af ‚götu réttlátra‘ getur orð Guðs hjálpað okkur að leiðrétta stefnuna. (Orðskviðirnir 4:18) Ungur maður í Afríku lærði þetta af eigin raun. Hann þáði biblíunámskeið þegar einn af vottum Jehóva heimsótti hann. Hann kunni vel að meta það sem hann lærði en lenti fljótlega í vondum félagsskap í skólanum og fór síðar að lifa siðlausu líferni. „Samviskan kvaldi mig og ég varð að hætta að sækja samkomur,“ segir hann. Síðar fór hann að sækja samkomur á nýjan leik og kom þá með þessa athyglisverðu athugasemd: „Ég uppgötvaði að aðalástæðan fyrir þessu öllu var sú að ég svelti mig andlega. Ég nam ekkert sjálfur. Þess vegna stóðst ég ekki freistinguna. Svo byrjaði ég að lesa Varðturninn og Vaknið! og smám saman endurheimti ég andlegan þrótt og gerði hreint í lífi mínu. Það var góður vitnisburður fyrir þeim sem tóku eftir breytingunum. Ég lét skírast og nú er ég hamingjusamur.“ Hvað gaf þessum unga manni andlegan styrk til að sigrast á veikleikum holdsins? Það var reglulegt einkanám í Biblíunni.

20. Hvernig getur ungt fólk staðist árásir Satans?

20 Kristnir unglingar sæta stöðugum árásum Satans. Til að standast þær þurfið þið að nærast andlega að staðaldri. Sálmaritarinn vissi það og hann var líklega ungur að árum. Hann þakkaði Jehóva fyrir að gefa orð sitt til að ‚ungur maður gæti haldið vegi sínum hreinum.‘ — Sálmur 119:9.

Við fylgjum handleiðslu Guðs í einu og öllu

21, 22. Af hverju megum við ekki halda að vegur sannleikans sé of erfiður til að ganga hann?

21 Jehóva leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og inn í fyrirheitna landið. Leiðin, sem hann valdi, kann að hafa virst óþarflega illfær frá mannlegum sjónarhóli. Hann leiddi fólk sitt um erfiða eyðimerkurleið í stað þess að velja leiðina meðfram Miðjarðarhafi sem virtist auðveldari og beinni. En í rauninni var þetta gæskuverk af hálfu Guðs. Þótt strandleiðin væri styttri lá hún um land Filista sem voru fjandsamlegir í garð Ísraelsmanna. Með því að velja aðra leið hlífði Jehóva þjóð sinni við átökum um sinn.

22 Leiðin, sem Jehóva hefur valið handa okkur, virðist stundum ógreiðfær. Í hverri viku höfum við heilmikið á okkar könnu í kristilegu starfi, þar á meðal safnaðarsamkomur, einkanám og boðunarstarf. Það getur virst auðveldara að fara einhverja aðra leið. En við höfum lagt hart að okkur að komast á áfangastað og við komumst ekki þangað nema við fylgjum handleiðslu Guðs. Þess vegna skulum við halda áfram að taka við leiðbeiningum Jehóva og halda okkur á ‚sléttu brautinni‘ að eilífu! — Sálmur 27:11.

Geturðu svarað?

Af hverju er sérstaklega mikilvægt að sækja kristnar samkomur að staðaldri?

Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að fylgjast með á samkomum?

Hvað er fólgið í því að hlusta vel?

Hvað getur hjálpað okkur að svara á samkomum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14, 15]

Kristnar samkomur hjálpa okkur að hafa dag Jehóva í huga.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Við getum lofað Jehóva á samkomum með ýmsu móti.