Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju er spillingin svona mikil?

Af hverju er spillingin svona mikil?

Af hverju er spillingin svona mikil?

„Eigi skalt þú mútu þiggja, því að mútan gjörir skyggna menn blinda og umhverfir máli hinna réttlátu.“ — 2. Mósebók 23:8.

MÚTUR voru fordæmdar í Móselögunum fyrir 3500 árum og frá þeim tíma hafa verið sett ótal lög gegn spillingu. En löggjöf hefur ekki dugað til að hafa taumhald á spillingunni. Milljónir manna taka við mútum á hverjum degi og milljarðar manna þurfa að taka afleiðingunum.

Svo flókin er spillingin orðin og svo víðtæk að það hriktir í stoðum þjóðfélagsins. Í sumum löndum er varla hægt að gera nokkurn skapaðan hlut án þess að liðka fyrir því fyrst með mútugjöf. Ef stungið er fé að réttum manni er hægt að ná góðri einkunn á prófi, fá ökuréttindi, ganga frá samningi eða vinna málaferli. „Spillingin grúfir yfir fólki eins og dimmt mengunarský,“ segir Arnaud Montebourg sem er lögfræðingur í París.

Mútugjafir eru sérstaklega algengar í viðskiptalífinu. Sum fyrirtæki verja þriðjungi alls hagnaðar í að friða spillta embættismenn. Breska tímaritið The Economist heldur því fram að allt að 10 prósentum þeirra 25 milljarða bandaríkjadollara, sem eytt er í alþjóðleg hergagnaviðskipti á hverju ári, fari í mútur til hugsanlegra viðskiptavina. Þessi spilling hefur magnast með hrikalegum afleiðingum. „Kunningjakapítalismi“ — spilltir viðskiptahættir sem koma sér vel fyrir fáeina útvalda með góð sambönd — er sagður hafa rústað hagkerfi heilla þjóða á síðasta áratug.

Það er óhjákvæmilegt að spillingin og efnahagsþrengingarnar, sem af henni hljótast, komi harðast niður á fátækum sem eru sjaldan í aðstöðu til að bera fé á einn né neinn. The Economist orðaði það ágætlega þegar það sagði að „spilling væri ekkert annað en kúgun.“ Er hægt að vinna bug á þessari kúgun eða er spillingin óhjákvæmileg? Til að svara þessari spurningu er nauðsynlegt að koma auga á undirrót spillingarinnar.

Hvað veldur spillingu?

Af hverju kjósa sumir spillingu í stað heiðarleika? Fyrir suma er það einfaldasta eða jafnvel einasta leiðin til að fá það sem þeir vilja. Mútur geta verið þægileg leið til að sleppa við refsingu. Margir horfa upp á það að stjórnmálamenn, lögreglumenn og dómarar látast ekki sjá spillinguna eða eru jafnvel spilltir sjálfir — og líkja svo eftir þeim.

Spillingin stigmagnast uns hún kemst upp í vana og menn fara að líta á hana sem sjálfsagðan hlut. Margir þurfa að draga fram lífið á lúsarlaunum og þeim finnst þeir ekki eiga um neitt að velja svo að þeir heimta mútur til að geta lifað mannsæmandi lífi. Og fáir treysta sér til að synda á móti straumnum þegar mútuþegar eða mútugreiðendur komast upp með iðju sína. „Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er,“ sagði Salómon konungur. — Prédikarinn 8:11.

Það er tvennt sem kyndir undir spillinguna: eigingirni og græðgi. Eigingirni fær spillta menn til að látast ekki sjá þjáningarnar sem spilling þeirra veldur öðrum og þeim finnst mútugjafirnar réttlætanlegar af því að þeir hagnast á þeim. Því meira sem þeir hagnast á spillingunni, þeim mun ágjarnari verða þeir. „Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum,“ sagði Salómon. (Prédikarinn 5:9) Græðgi er auðvitað ágæt til að græða peninga en hún lætur sem hún sjái ekki spillinguna og lögleysuna.

Öðru má ekki gleyma, og það eru áhrif hins ósýnilega stjórnanda þessa heims sem Biblían kallar Satan djöfulinn. (1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 12:9) Satan er ákafur talsmaður spillingar og hann bauð Kristi hæstu mútur sem sögur fara af. ‚Ég skal gefa þér öll ríki heims ef þú fellur fram og tilbiður mig.‘ — Matteus 4:8, 9.

En Jesús lét aldrei múta sér og hann innprentaði fylgjendum sínum heiðarleika. Ætli kenningar Krists geti verið áhrifaríkt vopn í baráttunni gegn spillingu nútímans? Þessi spurning er rædd í greininni á eftir.