Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Guð, send ljós þitt‘

‚Guð, send ljós þitt‘

‚Guð, send ljós þitt‘

„Send ljós þitt og trúfesti þína [„sannleika þinn,“ NW], þau skulu leiða mig.“ — SÁLMUR 43:3.

1. Hvernig opinberar Jehóva tilgang sinn?

JEHÓVA er einkar tillitssamur við þjóna sína. Hann opinberar þeim tilgang sinn og sannleika smám saman en ekki í einu blindandi leiftri. Það má líkja göngu okkar um lífsins veg við ferð göngumanns sem á langa leið að fara. Hann leggur af stað snemma morguns og sér lítið í daufri morgunskímunni. Þegar sólin mjakast upp fyrir sjóndeildarhring greinir hann helstu drætti landslagsins en að öðru leyti sér hann aðeins ógreinilegar útlínur. En um leið og sólin hækkar á lofti sér hann lengra frá sér. Þannig er andlega ljósið frá Guði. Hann leyfir okkur að greina fáeina hluti í einu. Sonur hans, Jesús Kristur, miðlaði andlegu ljósi með svipuðum hætti. Við skulum skoða hvernig Jehóva upplýsti fólk sitt forðum daga og hvernig hann upplýsir það núna.

2. Hvernig upplýsti Jehóva þjóna sína á forkristnum tíma?

2 Sennilegt er að synir Kóra hafi ort 43. sálminn. Þeir voru levítar og það voru sérréttindi þeirra að mega kenna fólkinu lög Guðs. (Malakí 2:7) Jehóva var auðvitað kennari þeirra og þeir sóttu visku sína til hans. (Jesaja 30:20) „Guð, . . . send ljós þitt og trúfesti þína [„sannleika þinn,“ NW], þau skulu leiða mig,“ bað sálmaritarinn. (Sálmur 43:1, 3) Meðan Ísraelsmenn voru trúfastir kenndi Jehóva þeim vegi sína. Öldum síðar veitti hann þeim mjög óvenjulegt ljós og sannleika er hann sendi son sinn til jarðar.

3. Hvernig var kennsla Jesú prófraun á Gyðinga?

3 Jesús Kristur, sonur Guðs, var „ljós heimsins“ er hann var hér á jörð. (Jóhannes 8:12) Hann kenndi fólki mörg ný sannindi „í dæmisögum.“ (Markús 4:2) „Mitt ríki er ekki af þessum heimi,“ sagði hann við Pontíus Pílatus. (Jóhannes 18:36) Þetta var ný hugsun fyrir Rómverja og mjög framandi fyrir þjóðernissinnaða Gyðinga því að þeir ímynduðu sér að Messías myndi knésetja Rómaveldi og hefja Ísrael aftur í sitt fyrra veldi. Jesús endurspeglaði þarna ljós frá Jehóva en valdhafar Gyðinga voru lítt hrifnir því að þeir „kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.“ (Jóhannes 12:42, 43) Þorri manna ríghélt í erfðavenjur sínar frekar en að taka við andlegu ljósi og sannleika frá Guði. — Sálmur 43:3; Matteus 13:15.

4. Hvernig vitum við að skilningur lærisveinanna átti eftir að vaxa?

4 En fáeinar hjartahreinar manneskjur tóku fagnandi við sannleikanum sem Jesús kenndi, og skilningur þeirra á tilgangi Guðs dýpkaði jafnt og þétt. Engu að síður áttu þær margt ólært er dró að því að jarðlífi kennarans lyki. Jesús sagði þeim: „Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.“ (Jóhannes 16:12) Skilningur lærisveinanna á sannleika Guðs átti eftir að vaxa jafnt og þétt.

Ljósið skín áfram

5. Hvaða spurning vaknaði á fyrstu öldinni og hverjir höfðu það hlutverk að finna svar við henni?

5 Ljós Guðs skein skærara en nokkru sinni fyrr eftir dauða og upprisu Jesú. Jehóva opinberaði Pétri í sýn að óumskornir heiðingjar gætu þaðan í frá gerst fylgjendur Krists. (Postulasagan 10:9-17) Það var aldeilis opinberun! En síðar vaknaði sú spurning hvort Jehóva krefðist þess að þetta fólk léti umskerast eftir að það tæki við kristinni trú. Þeirri spurningu hafði ekki verið svarað í sýninni og kristnir menn deildu ákaft um það. Það þurfti að skera úr um þetta svo að deilan spillti ekki einingu þeirra. „Postularnir og öldungarnir [í Jerúsalem] komu nú saman til að líta á þetta mál.“ — Postulasagan 15:1, 2, 6.

6. Hvernig fjölluðu postularnir og öldungarnir um umskurnardeiluna?

6 Hvernig gátu viðstaddir gengið úr skugga um vilja Guðs með trúaða menn af þjóðunum? Jehóva sendi ekki engil til að stýra umræðum og ekki gaf hann viðstöddum sýn. En postularnir og öldungarnir höfðu samt ýmislegt til leiðsagnar. Þeir hlýddu á vitnisburð kristinna Gyðinga sem höfðu séð hvernig Guð var farinn að eiga samskipi við menn af þjóðunum og hafði úthellt heilögum anda yfir þá óumskorna, og þeir leituðu leiðsagnar í Ritningunni. Í framhaldi af því kom lærisveinninn Jakob með tillögu byggða á fróðlegri ritningargrein. Vilji Guðs varð ljós er þeir hugleiddu vísbendingarnar. Menn af þjóðunum þurftu ekki að umskerast til að hljóta velþóknun Jehóva. Postularnir og öldungarnir biðu ekki boðanna að setja úrskurð sinn á blað svo að trúbræður þeirra gætu haft hann til leiðsagnar. — Postulasagan 15:12-29; 16:4.

7. Hvernig voru kristnir menn fyrstu aldar framsæknir?

7 Langflestir hinna kristnu Gyðinga fögnuðu þessum athyglisverða nýja skilningi á tilgangi Guðs gagnvart þjóðunum, þó svo að það kostaði breytta afstöðu gagnvart heiðingjum almennt. Þar voru þeir ólíkir trúarleiðtogum Gyðinga sem ríghéldu í erfikenningar forfeðranna. Jehóva blessaði auðmýkt þeirra og „söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ — Postulasagan 15:31; 16:5.

8. (a) Hvernig vitum við að búast mátti við meira ljósi eftir lok fyrstu aldar? (b) Hvaða spurningar skoðum við núna?

8 Hið andlega ljós hélt áfram að skína á fyrstu öld. En Jehóva opinberaði frumkristnum mönnum ekki allar hliðar á tilgangi sínum. „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá í óljósri mynd,“ sagði Páll trúbræðrum sínum á fyrstu öld. (1. Korintubréf 13:12, Biblían 1912) Skilningurinn á andlega ljósinu yrði sem sagt takmarkaður í byrjun. Eftir dauða postulanna dofnaði ljósið um hríð, en á síðari tímum hefur þekkingin vaxið mjög. (Daníel 12:4) Hvernig upplýsir Jehóva fólk sitt nú á tímum? Og hvernig ber okkur að bregðast við þegar hann dýpkar skilning okkar á Ritningunni?

Ljósið verður smám saman skærara

9. Hvaða árangursríka námsaðferð notuðu Biblíunemendurnir í byrjun?

9 Í nútímasögu sást fyrsta ljósskíman á síðasta fjórðungi 19. aldar er hópur kristinna karla og kvenna hófst handa við alvarlegar biblíurannsóknir. Þau settu sér hentuga rannsóknaraðferð sem var fólgin í því að einhver varpaði fram spurningu og hópurinn tók svo til við að rannsaka eðli og samhengi allra tengdra ritningargreina. Ef tvö biblíuvers virtust stangast á reyndu þau að finna samsvörun. Biblíunemendurnir (eins og vottar Jehóva kölluðu sig þá) stungu í stúf við trúarleiðtoga samtíðarinnar af því að þeir voru staðráðnir í að hafa heilaga Biblíu að leiðarljósi en ekki trúarkreddur manna. Þeir skráðu hjá sér niðurstöðuna eftir að hafa rannsakað öll biblíuleg rök. Þannig glöggvuðu þeir sig á mörgum aðalkenningum Biblíunnar.

10. Hvaða biblíunámsbækur skrifaði Charles Taze Russell?

10 Charles Taze Russell fór með stórt hlutverk meðal Biblíunemendanna. Hann skrifaði sex biblíunámsbækur sem nefndar voru Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni) og ætlaði sér að skrifa sjöunda bindið með skýringum á Esekíel og Opinberunarbókinni. „Þegar ég finn lykilinn skrifa ég sjöunda bindið en ef Drottinn fær einhverjum öðrum lykilinn getur hann skrifað það,“ sagði hann.

11. Hvernig eru tímasetningar tengdar skilningi okkar á tilgangi Guðs?

11 Þessi orð C. T. Russells minna á að tímasetning er mikilvægur þáttur í skilningi okkar á vissum ritningargreinum. Hann vissi að hann gat ekkert frekar þvingað fram ljós á Opinberunarbókina heldur en ákafur göngumaður getur lokkað sólina til að rísa fyrir tímann.

Opinberun — en á tilsettum tíma Guðs

12. (a) Hvenær skiljast biblíuspádómar best? (b) Hvaða dæmi sýnir að skilningur á biblíuspádómum er háður tímaáætlun Guðs? (Sjá neðanmálsathugasemd.)

12 Postularnir skildu marga af Messíasarspádómunum fyrst eftir að Jesús var dáinn og upprisinn, og kristnir menn nú á tímum skilja ekki biblíuspádómana í smæstu smáatriðum fyrr en eftir að þeir hafa uppfyllst. (Lúkas 24:15, 27; Postulasagan 1:15-21; 4:26, 27) Opinberunarbókin er spádómsbók þannig að við getum ekki búist við að skilja hana vel fyrr en atburðirnir, sem hún lýsir, eiga sér stað. C. T. Russell gat til dæmis ekki skilið hvað skarlatsrauða dýrið í Opinberunarbókinni 17:9-11 þýddi af því að Þjóðabandalagið og Sameinuðu þjóðirnar, sem dýrið táknar, komu ekki fram á sjónarsviðið fyrir en eftir að hann var dáinn. *

13. Hvað gerist stundum þegar ljósi er varpað á tiltekið biblíulegt málefni?

13 Þegar frumkristnir menn komust að raun um að óumskornir menn af þjóðunum ættu að verða trúbræður þeirra vakti þessi breyting þá spurningu hvort þetta fólk ætti að umskerast. Það varð til þess að postularnir og öldungarnir rannsökuðu umskurnarmálið í heild sinni. Eins er það núna. Bjart ljósleiftur á eitt biblíuefni verður stundum tilefni til þess að smurðir þjónar Guðs, hinn „trúi og hyggni þjónn,“ rannsaka skyld mál á nýjan leik eins og eftirfarandi dæmi sýnir. — Matteus 24:45.

14-16. Hvaða áhrif hafði breyttur skilningur á andlega musterinu á skilning okkar á 40. til 48. kafla Esekíelsbókar?

14 Árið 1971 var gefin út bókin „The Nations Shall Know That I Am Jehovah“ — How? („Þjóðirnar skulu vita að ég er Jehóva“ — hvernig?) með skýringum á spádómi Esekíels. Í einum kafla bókarinnar var fjallað stuttlega um musterissýn spámannsins. (Esekíel 40.-48. kafli) Skýringarnar miðuðust við það hvernig musterissýn Esekíels myndi rætast í nýja heiminum. — 2. Pétursbréf 3:13.

15 En tvær greinar birtust í Varðturninum 1. desember 1972 (1. maí 1974 á íslensku) sem höfðu áhrif á skilninginn á sýn Esekíels. Þær fjölluðu um hið mikla andlega musteri sem Páll postuli lýsti í 10. kafla Hebreabréfsins. Varðturninn útskýrði að hið heilaga og innri forgarðurinn í andlega musterinu tengdist ástandi hinna smurðu meðan þeir eru á jörðinni. Þegar 40. til 48. kafli voru skoðaðir mörgum árum síðar kom í ljós að musterið, sem Esekíel sá í sýninni, hlýtur að vera starfandi núna alveg eins og andlega musterið. Hvernig þá?

16 Í sýn Esekíels ganga prestar um forgarða musterisins þar sem þeir þjóna hinum ættkvíslunum. Prestarnir tákna greinilega hið ‚konunglega prestafélag,‘ það er að segja smurða þjóna Jehóva. (1. Pétursbréf 2:9) En þeir þjóna ekki Guði í jarðneskum forgörðum musterisins allt þúsundáraríkið heldur verða þeir mestan hluta þess tíma eða allan í hinu allrahelgasta í andlega musterinu, það er að segja ‚sjálfum himninum.‘ (Opinberunarbókin 20:4; Hebreabréfið 9:24) Þar eð prestar ganga fram og aftur um forgarðana í Esekíelsmusterinu hlýtur sýnin að vera að uppfyllast núna, meðan einhverjir af hinum smurðu eru eftir á jörðinni. Þess vegna kom fram nýr skilningur á þessu máli í Varðturninum 1. apríl 1999. Þannig hefur andlegu ljósi verið varpað á spádóm Esekíels allt fram undir lok 20. aldarinnar.

Vertu fús til að leiðrétta skoðanir þínar

17. Hvernig hefurðu leiðrétt viðhorf þín síðan þú kynntist sannleikanum og hvernig hefur það gert þér gott?

17 Sá sem vill fá þekkingu á sannleikanum þarf að vera fús til að ‚hertaka hverja hugsun til hlýðni við Krist.‘ (2. Korintubréf 10:5) Það getur verið erfitt, einkum þegar skoðanir eiga sér sterkar rætur. Tökum dæmi. Kannski þótti þér gaman að halda upp á ýmsar trúarhátíðir með fjölskyldunni áður en þú kynntist sannleikanum. Svo fórstu að nema Biblíuna og uppgötvaðir að þessar hátíðir eru af heiðnum uppruna. Kannski varstu tregur í fyrstu til að fara eftir því sem þú lærðir en að lokum reyndist kærleikurinn til Guðs sterkari en trúarlegu kenndirnar og þú hættir að halda hátíðir sem eru honum ekki að skapi. Hefur hann ekki blessað ákvörðun þína? — Samanber Hebreabréfið 11:25.

18. Hvernig eigum við að bregðast við þegar biblíuskilningur okkar skýrist?

18 Það er alltaf til góðs að gera hlutina eins og Guð vill. (Jesaja 48:17, 18) Við skulum því gleðjast yfir framgangi sannleikans þegar skilningur okkar á einhverri ritningargrein skýrist. Við staðfestum að við séum á réttri braut með því að halda áfram að láta upplýsa okkur. Þetta er „gata réttlátra“ og hún er „eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ (Orðskviðirnir 4:18) Auðvitað er sumt í tilgangi Guðs sem við sjáum aðeins „í óljósri mynd“ enn sem komið er. En þegar tíminn rennur upp munum við sjá sannleikann í allri sinni fegurð, svo framarlega sem við höfum haldið okkur dyggilega á ‚götu réttlátra.‘ Þangað til getum við fagnað í sannleikanum sem Jehóva hefur opinberað skýrt og greinilega og beðið eftir því að hann upplýsi það sem enn er óskýrt.

19. Hvernig getum við sýnt að við elskum sannleikann?

19 Hvernig getum við sýnt að við elskum ljósið? Meðal annars með því að lesa að staðaldri í orði Guðs — helst daglega. Hefurðu fasta biblíulestraráætlun? Við fáum líka mikið af andlegri fæðu í tímaritunum Varðturninn og Vaknið! Líttu á bækurnar, bæklingana og önnur rit sem hafa verið gerð fyrir okkur. Og hvað um hinar hvetjandi frásögur af boðunarstarfinu sem birtast í Árbók votta Jehóva?

20. Hvaða samband er milli ljóss og sannleika Jehóva og samkomusóknar okkar?

20 Já, Jehóva hefur svo sannarlega svarað bæninni í Sálmi 43:3. Síðari hluti versins hljóðar svo: „Þau [ljósið og sannleikurinn] skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns.“ Hlakkarðu til að mega tilbiðja Jehóva ásamt öðrum? Hin andlega fræðsla á samkomunum er mikilvæg leið sem Jehóva notar til að upplýsa okkur nú á tímum. Hvernig getum við lært að meta samkomurnar? Við hvetjum þig til að skoða greinina á eftir í bænarhug.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Eftir að C. T. Russell lést var sjöunda bindi ritraðarinnar Studies in the Scriptures samið í þeim tilgangi að skýra Esekíelsbók og Opinberunarbókina. Bindið var að nokkru leyti byggt á athugasemdum sem Russell lét eftir sig um þessar biblíubækur. En það var enn ekki kominn tími til að opinbera þýðingu þessara spádóma, og á heildina litið voru skýringarnar í þessu bindi af Studies in the Scriptures fremur óljósar. Óverðskulduð góðvild Jehóva og framvindan á vettvangi heimsmálanna síðan þá hefur gefið kristnum mönnum gleggri skilning á þessum spádómsbókum.

Geturðu svarað?

• Hvers vegna opinberar Jehóva tilgang sinn smám saman?

• Hvernig útkljáðu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem umskurnardeiluna?

• Hvaða námsaðferð beittu Biblíunemendurnir í fyrstu og hvað var óvenjulegt við hana?

• Lýstu með dæmi hvernig andlegt ljós kemur fram á tilsettum tíma Guðs.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Charles Taze Russell vissi að ljós myndi skína á Opinberunarbókina á tilsettum tíma Guðs.