Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu „huga Krists“?

Hefurðu „huga Krists“?

Hefurðu „huga Krists“?

„Megi Guð, sem veitir þolgæði og huggun, gefa ykkur að hafa sama hugarfar . . . og Kristur Jesús.“ —  RÓMVERJABRÉFIÐ 15:5, NW.

1. Hvernig er Jesús sýndur á mörgum málverkum kristna heimsins en hvers vegna gefa þau ekki rétta mynd af honum?

„HANN hefur aldrei hlegið svo vitað sé.“ Þannig er Jesú lýst í skjali sem er ranglega eignað fornrómverskum embættismanni. Sagt er að fjöldi listamanna hafi látið þetta skjal hafa áhrif á verk sín en það hefur verið þekkt í núverandi mynd frá 11. öld. * Algengt er að málverk af Jesú sýni alvörugefinn mann sem brosti sjaldan eða aldrei. En það er tæplega rétt mynd af Jesú því að guðspjöllin lýsa honum sem hlýjum, góðhjörtuðum og tilfinningaríkum.

2. Hvernig getum við tileinkað okkur ‚sama hugarfar og Kristur Jesús‘ og hvað getum við þá gert?

2 Ljóst er að við þurfum að hafa nákvæman skilning á persónuleika Jesú þegar hann var á jörðinni til að þekkja hann eins og hann var í raun og veru. Við skulum því kynna okkur sumar af frásögum guðspjallanna sem veita okkur innsýn í „huga Krists,“ það er að segja tilfinningar hans, skilning, hugsanir og rökvísi. (1. Korintubréf 2:16) Og í leiðinni skulum við hugleiða hvernig við getum tileinkað okkur ‚sama hugarfar og Kristur Jesús.‘ (Rómverjabréfið 15:5, NW) Þá erum við betur í stakk búin til að fylgja fordæmi hans í lífi okkar og samskiptum við aðra. — Jóhannes 13:15.

Viðmótsgóður

3, 4. (a) Við hvaða aðstæður gerðist það sem frá er greint í Markúsi 10:13-16? (b) Hvernig brást Jesús við þegar lærisveinarnir reyndu að hindra börnin í að koma til hans?

3 Fólk laðaðist að Jesú. Fólk leitaði frjálslega til hans óháð aldri og uppruna. Tökum sem dæmi atvikið sem sagt er frá í Markúsi 10:13-16. Það átti sér stað þegar þjónusta hans var næstum á enda og hann var á leið til Jerúsalem í síðasta sinn til að mæta kvalafullum dauða sínum. — Markús 10:32-34.

4 Sjáðu sögusviðið fyrir þér. Fólk streymir að með börn sín, allt niður í ungbörn, til að Jesús geti blessað þau. * En lærisveinarnir reyna að hindra börnin í að koma til hans. Kannski ímynda þeir sér að hann vilji ekki verða fyrir ónæði af börnum þessar örlagaríku vikur. En þar skjátlast þeim. Jesús er alls ekki ánægður þegar hann kemst að raun um hvað lærisveinarnir eru að gera. Hann kallar börnin til sín og segir: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi.“ (Markús 10:14) Síðan segir frásagan að hann hafi ‚tekið þau sér í faðm og blessað þau‘ sem lýsir mikilli blíðu og ástúð. (Markús 10:16) Börnunum líður augljóslega vel þegar Jesús tekur þau í faðm sér.

5. Hvað má ráða af frásögunni í Markúsi 10:13-16 um innræti Jesú?

5 Þessi stutta frásaga segir margt um það hvers konar maður Jesús var. Hann var hlýr í viðmóti. Hann var hvorki yfirlætislegur né ógnandi við ófullkomna menn þótt hann hefði gegnt hárri stöðu á himnum. (Jóhannes 17:5) Það segir líka sína sögu að jafnvel börnum leið vel í návist hans. Varla hefðu þau laðast að kuldalegum og döprum manni sem hvorki brosti né hló! Fólk á öllum aldri leitaði til Jesú af því að það skynjaði að hann var hlýr og umhyggjusamur, og það treysti að sér yrði ekki vísað frá.

6. Hvernig geta öldungar auðveldað öðrum að leita til sín?

6 Þegar við ígrundum þessa frásögu getum við spurt okkur hvort við höfum huga Krists og séum þægileg í viðmóti. Á þeim erfiðu tímum, sem við lifum, þurfa sauðir Guðs að eiga viðmótsgóða hirða sem eru eins og „hlé fyrir vindi“ og auðvelt er að nálgast og ná sambandi við. (Jesaja 32:1, 2; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Öldungar, bræðurnir skynja umhyggju ykkar ef þið hafið einlægan og innilegan áhuga á þeim og eruð fúsir til að gefa þeim af sjálfum ykkur. Þeir skynja hana af svipbrigðum ykkar, raddblæ og vingjarnlegri framkomu. Ósvikin hlýja og umhyggja getur skapað traust sem auðveldar bæði börnum og fullorðnum að nálgast þig og ná sambandi við þig. Systir í söfnuðinum lýsir því hvers vegna hún gat talað opinskátt við ákveðinn öldung: „Hann var svo samúðarfullur og hlýlegur í tali. Annars hefði ég sennilega ekki sagt orð. Mér fannst ég óhult.“

Tillitssamur

7. (a) Hvernig sýndi Jesús að hann var tillitssamur? (b) Af hverju ætli Jesús hafi gefið blindum manni sjónina hægt og hægt?

7 Jesús var tillitssamur og næmur á tilfinningar annarra. Það eitt að sjá sjúka og þjáða snart hann svo djúpt að hann fann sig knúinn til að lina þjáningar þeirra. (Matteus 14:14) Hann tók tillit til takmarka og þarfa annarra. (Jóhannes 16:12) Einu sinni var komið með blindan mann til hans og hann var beðinn um að lækna hann. Jesús gaf honum sjónina hægt og hægt. Fyrst sá maðurinn fólkið í kringum sig ógreinilega — „ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga,“ sagði hann. Þá gaf Jesús honum fulla sjón. Af hverju læknaði hann manninn hægt og hægt? Hugsanlega til þess að maðurinn, sem var vanur því að vera í myrkri, gæti lagað sig að sólarbirtunni og hinum margbrotna umheimi. — Markús 8:22-26.

8, 9. (a) Hvað gerðist skömmu eftir að Jesús og postularnir komu til Dekapólis? (b) Lýstu hvernig Jesús læknaði heyrnarlausa manninn.

8 Lítum einnig á atvik sem átti sér stað eftir páska árið 32. Jesús og lærisveinarnir voru staddir á Dekapólis-svæðinu austan við Galíleuvatn. Mannfjöldinn var fljótur að finna þá þar og hafði með sér fjölda sjúkra og bæklaðra sem hann læknaði. (Matteus 15:29, 30) Athygli vekur að Jesús tók sérstakt tillit til eins þeirra. Markús er eini guðspjallaritarinn sem segir frá þessu atviki. — Markús 7:31-35.

9 Maðurinn var heyrnarlaus og nærri mállaus. Kannski skynjaði Jesús að maðurinn var sérstaklega taugaóstyrkur og vandræðalegur. Nú gerði Jesús óvenjulegan hlut. Hann leiddi manninn afsíðis frá fjöldanum og sýndi honum með bendingum hvað hann ætlaði að gera. Hann „stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu.“ (Markús 7:31-35) Síðan leit hann til himins, andvarpaði og baðst fyrir. Með þessu látbragði sýndi hann manninum að það sem nú gerðist væri krafti Guðs að þakka. Loks sagði Jesús: „Opnist þú,“ og maðurinn fékk heyrnina og gat talað eðlilega. — Markús 7:34.

10, 11. Hvernig getum við sýnt tillitssemi gagnvart tilfinningum annarra í söfnuðinum og í fjölskyldunni?

10 Jesús var samúðarfullur, næmur á tilfinningar fólks og einstaklega tillitssamur í allri framkomu við aðra. Við ættum að tileinka okkur huga Krists að þessu leyti. Biblían hvetur: „Verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir.“ (1. Pétursbréf 3:8) Til að gera þetta þurfum við að taka tillit til tilfinninga annarra í öllu sem við segjum og gerum.

11 Við getum verið tillitssöm gagnvart tilfinningum annarra í söfnuðinum með því að virða þá og koma fram við þá eins og við viljum láta koma fram við okkur, meðal annars með því að hugsa um hvað við segjum og hvernig við segjum það. (Matteus 7:12; Kólossubréfið 4:6) Munum að hugsunarlaust þvaður getur verið eins og ‚spjótsstunga.‘ (Orðskviðirnir 12:18) Og hvað um fjölskylduna? Hjón, sem elska hvort annað í alvöru, eru næm hvort á annars tilfinningar. (Efesusbréfið 5:33) Þau forðast harðneskjuleg orð, sífellda gagnrýni og napra kaldhæðni sem getur sært tilfinningar svo að það er lengi að gróa um heilt. Börn hafa líka tilfinningar sem ástríkir foreldrar taka tillit til. Þau virða reisn barnanna og hlífa þeim við óþarfri skömm þegar þau þurfa að fá leiðréttingu. * (Kólossubréfið 3:21) Við sýnum huga Krists þegar við tökum tillit til annarra á þennan hátt.

Fús til að treysta öðrum

12. Hvernig var Jesús raunsær og yfirvegaður gagnvart lærisveinunum?

12 Jesús var raunsær og yfirvegaður í mati sínu á lærisveinunum. Hann gat lesið hjörtu manna og vissi að þeir voru ekki fullkomnir. (Jóhannes 2:24, 25) En hann einblíndi ekki á galla þeirra heldur kunni að meta kosti þeirra. Hann sá hvaða möguleikar bjuggu í þessum mönnum sem Jehóva hafði dregið til sín. (Jóhannes 6:44) Jákvæð afstaða hans til lærisveinanna er augljós af framkomu hans við þá. Hann var til dæmis fús til að treysta þeim.

13. Hvernig sýndi Jesús lærisveinunum traust?

13 Hvernig sýndi Jesús þetta traust? Eftir að hann yfirgaf jörðina lagði hann mikla ábyrgð á herðar smurðra lærisveina sinna og fékk þeim það verkefni að gæta hagsmuna ríkis síns um heim allan. (Matteus 25:14, 15; Lúkas 12:42-44) Meðan hann þjónaði á jörð sýndi hann jafnvel með ýmsum óbeinum hætti að hann bar traust til þeirra. Þegar hann vann það kraftaverk að margfalda matvæli til að metta mannfjöldann fékk hann þeim til dæmis það verkefni að dreifa matnum. — Matteus 14:15-21; 15:32-37.

14. Endursegðu frásöguna í Markúsi 4:35-41.

14 Lítum einnig á frásöguna í Markúsi 4:35-41. Þar segir frá því að Jesús og lærisveinarnir hafi stigið á bát og siglt austur yfir Galíleuvatn. Skömmu eftir að þeir ýttu frá landi lagðist Jesús í skutinn og sofnaði. En fljótlega „brast á stormhrina mikil“ sem var ekki óalgengt þar um slóðir. Vatnið er um 200 metra undir sjávarmáli svo að loftið er mun heitara þar en umhverfis og þetta veldur ókyrrð í lofti. Að auki liggur sterkur vindstrengur suður eftir Jórdandal frá Hermonfjalli í norðri. Veðrið getur breyst á svipstundu úr stillilogni í æðandi storm. Jesús vissi eflaust að stormar voru algengir þarna því að hann var uppalinn í Galíleu. Samt sem áður svaf hann vært og treysti á færni lærisveinanna sem voru fiskimenn sumir hverjir. — Matteus 4:18, 19.

15. Hvernig getum við líkt eftir fúsleika Jesú til að treysta lærisveinunum?

15 Getum við líkt eftir fúsleika Jesú til að treysta lærisveinunum? Sumum finnst erfitt að deila út verkefnum. Þeim finnst þeir alltaf þurfa að halda sjálfir um stýrið. Þeir hugsa kannski með sér: ‚Ef ég vil að eitthvað sé almennilega gert verð ég að gera það sjálfur!‘ En ef við þurfum að gera allt sjálf er hætta á að við slítum okkur út og tökum kannski meiri tíma frá fjölskyldunni en góðu hófi gegnir. Og ef við deilum ekki út verkefnum til annarra eftir því sem við á er hætta á að þeir fari á mis við nauðsynlega þjálfun og reynslu. Það er viturlegt að læra að treysta öðrum og fela þeim verkefni. Við ættum að spyrja okkur hreinskilnislega hvort við höfum huga Krists að þessu leyti. Felum við öðrum verkefni fúslega í trausti þess að þeir geri sitt besta?

Hann lét í ljós trú á lærisveinana

16, 17. Hvernig hughreysti Jesús postulana síðasta kvöldið sem hann lifði á jörðinni, þótt hann vissi að þeir myndu yfirgefa hann?

16 Jesús sýndi jákvæða afstöðu til lærisveinanna með öðrum hætti. Hann lét þá vita að hann treysti þeim eins og ljóst er af hughreysingarorðum hans við postulana síðasta kvöldið sem hann lifði á jörðinni. Fylgjumst með atburðarásinni.

17 Jesús átti annríkt þetta kvöld. Hann kenndi postulunum lexíu í auðmýkt með því að þvo fætur þeirra. Síðan kom hann á minningarhátíðinni um dauða sinn. Enn tóku postularnir að deila ákaft um það hver þeirra virtist mestur. Jesús var þolinmóður að vanda og rökræddi við þá í stað þess að skamma þá. Hann sagði þeim hvað væri framundan: „Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér, því að ritað er: ‚Ég mun slá hirðinn, og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast.‘“ (Matteus 26:31; Sakaría 13:7) Hann vissi að nánustu félagar hans myndu yfirgefa hann á neyðarstund en fordæmdi þá samt ekki heldur sagði þeim: „Eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu.“ (Matteus 26:32) Hann fullvissaði þá um að hann myndi ekki yfirgefa þá þó svo að þeir yfirgæfu hann. Hann myndi hitta þá aftur þegar þessi hræðilega þrekraun væri afstaðin.

18. Hvaða mikilvægt verkefni fól Jesús postulunum í Galíleu og hvernig leystu þeir það af hendi?

18 Jesús stóð við orð sín. Eftir að hann var upprisinn birtist hann hinum 11 trúföstu postulum sem voru saman komnir ásamt mörgum fleiri. (Matteus 28:16, 17; 1. Korintubréf 15:6) Þar fól hann þeim afarmikilvægt verkefni: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Postulasagan færir okkur heim sanninn um að postularnir gerðu eins og fyrir þá var lagt og fóru trúfastir með forystuna í boðun fagnaðarerindisins á fyrstu öld. — Postulasagan 2:41, 42; 4:33; 5:27-32.

19. Hvað lærum við um huga Krists af því sem hann gerði eftir upprisuna?

19 Hvað kennir þessi greinagóða frásaga okkur um huga Krists? Þó að hann hafi kynnst öllum verstu hliðum postulanna er ljóst að hann „elskaði þá, uns yfir lauk.“ (Jóhannes 13:1) Hann lét þá vita að hann hefði trú á þeim þrátt fyrir ófullkomleikann. Og það voru engin mistök hjá honum. Eflaust hefur traust hans og tiltrú styrkt þann ásetning þeirra að vinna það verk sem hann fól þeim.

20, 21. Hvernig getum við sýnt jákvæða afstöðu til trúsystkina okkar?

20 Hvernig getum við sýnt að við höfum huga Krists að þessu leyti? Vertu ekki neikvæður í garð trúbræðra þinna. Ef þú hugsar allt hið versta er líklegt að það sýni sig í orðum þínum og framkomu. (Lúkas 6:45) En Biblían segir að kærleikurinn ‚trúi öllu.‘ (1. Korintubréf 13:7) Kærleikurinn er jákvæður en ekki neikvæður. Hann brýtur ekki niður heldur byggir upp. Fólk bregst betur við kærleika og hvatningu en kúgun. Við getum uppbyggt aðra og hvatt þá með því að sýna þeim traust. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Ef við erum jákvæð í garð bræðra okkar eins og Kristur var, þá erum við hvetjandi og löðum fram hið besta í fari þeirra.

21 Að tileinka sér og sýna huga Krists er meira en aðeins að líkja eftir ýmsu sem hann gerði. Eins og fram kom í greininni á undan verðum við að tileinka okkur sömu viðhorf og hann ef við viljum líkjast honum. Í guðspjöllunum komum við auga á enn eina hlið á persónuleika hans, það er að segja afstöðu hans til þess verkefnis sem honum var falið. Þetta er efni næstu greinar.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Í skjali þessu lýsir falsarinn útliti Jesú, þar á meðal hára-, skegg- og augnlit. Biblíuþýðandinn Edgar J. Goodspeed segir að þetta falsaða skjal hafi „verið búið til svo að lýsingarnar á útliti Jesú í handbókum listmálaranna þættu trúverðugri.“

^ gr. 4 Börnin virðast vera á ýmsum aldri. Orðið, sem hér er þýtt ‚börn,‘ er notað um dóttur Jaírusar sem var 12 ára. (Markús 5:39, 42; 10:13) Í samsvarandi frásögn Lúkasar er notað orð sem getur líka merkt ungbörn. — Lúkas 1:41; 2:12; 18:15.

^ gr. 11 Sjá greinina „Do You Respect Their Dignity?“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. apríl 1998.

Geturðu svarað?

• Hvernig brást Jesús við þegar lærisveinarnir reyndu að hindra börnin í að koma til hans?

• Hvernig var Jesús tillitssamur við aðra?

• Hvernig getum við líkt eftir fúsleika Jesú til að treysta lærisveinunum?

• Hvernig getum við líkt eftir trausti Jesú til postulanna?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Börnum leið vel í návist Jesú.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Jesús var umhyggjusamur.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Viðmótsgóðir öldungar eru til blessunar.