Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kynnstu „huga Krists“

Kynnstu „huga Krists“

Kynnstu „huga Krists“

„Hver hefur þekkt huga [Jehóva], að hann geti frætt hann? En vér höfum huga Krists.“ — 1. KORINTUBRÉF 2:16.

1, 2. Hvað opinberar Jehóva um Jesú í orði sínu?

HVERNIG leit Jesús út? Hvernig var hárið á litinn, augun og hörundið? Hve hár var hann? Hve þungur? Í aldanna rás hafa myndir listamanna af Jesú verið ýmist raunsæjar, fráleitar eða eitthvað þar á milli. Á sumum málverkum er hann sýndur karlmannlegur og líflegur en á öðrum veikbyggður og gugginn.

2 En Biblían beinir ekki athyglinni að útliti Jesú heldur opinberaði Jehóva það sem meira máli skipti — hvers konar maður hann var. Guðspjöllin fjalla ekki aðeins um það sem Jesús sagði og gerði heldur einnig hvaða hugsun og tilfinningar lágu að baki. Þessar innblásnu frásagnir, fjórar að tölu, gera okkur kleift að skyggnast inn í „huga Krists“ eins og Páll postuli kemst að orði. (1. Korintubréf 2:16) Það er mikilvægt fyrir okkur að kynnast hugsunarhætti, viðhorfum og persónuleika Jesú. Af hverju? Ástæðurnar eru að minnsta kosti tvær.

3. Hvaða innsýn fáum við með því að kynna okkur huga Krists?

3 Annars vegar fáum við örlitla innsýn í huga Jehóva Guðs með því að kynnast huga Krists. Jesús var svo nákunnugur föður sínum að hann gat sagt: „Enginn veit, hver sonurinn er, nema faðirinn, né hver faðirinn er, nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann.“ (Lúkas 10:22) Það er rétt eins og Jesús sé að segja: ‚Líttu bara á mig ef þú vilt kynnast Jehóva.‘ (Jóhannes 14:9) Þegar við kynnum okkur lýsingar guðspjallanna á hugsunarhætti Jesú og viðhorfum hans erum við í reynd að kynnast hugsunarhætti og viðhorfum Jehóva. Slík þekking styrkir tengsl okkar við Guð. — Jakobsbréfið 4:8.

4. Hverju þurfum við að kynnast og hvers vegna til að líkja eftir Kristi í raun og veru?

4 Hins vegar eigum við auðveldara með að ‚feta í fótspor Krists‘ ef við þekkjum huga hans. (1. Pétursbréf 2:21) Að feta í fótspor Jesú er meira en að líkja eftir orðum hans og verkum. Þar eð orð og verk stjórnast af hugsunum, viðhorfum og tilfinningum þurfum við að tileinka okkur ‚sama hugarfar‘ og hann til að fylgja honum. (Filippíbréfið 2:5) Ef við ætlum að líkja eftir Kristi í alvöru þurfum við sem sagt að læra að hugsa eins og hann, að svo miklu leyti sem við getum í ófullkomleika okkar. Við skulum því skyggnast inn í huga Krists með aðstoð guðspjallaritaranna. Ræðum fyrst um nokkur atriði sem höfðu áhrif á hugarfar hans og viðhorf.

Fortilvera hans

5, 6. (a) Hvaða áhrif getur félagsskapur haft á okkur? (b) Í hvaða félagsskap var frumgetinn sonur Guðs á himnum áður en hann kom til jarðar og hvaða áhrif hafði það á hann?

5 Nánir félagar geta haft góð eða slæm áhrif á hugsanir okkar, viðhorf og framferði. * (Orðskviðirnir 13:20) Hvern átti Jesús samneyti við á himnum áður en hann kom til jarðar? Guðspjallaritarinn Jóhannes vekur athygli á því að Jesús hafi verið til áður en hann varð maður og kallast þá „Orðið“ eða talsmaður Guðs. Hann segir: „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði.“ (Jóhannes 1:1, 2) Þar eð Jehóva er án upphafs hljóta orðin „í upphafi“ að merkja að Orðið hafi verið með honum frá því að hann hóf sköpunarstarf sitt. (Sálmur 90:2) Jesús er „frumburður allrar sköpunar“ og var því til á undan öðrum andaverum og áður en efnisheimurinn var skapaður. — Kólossubréfið 1:15; Opinberunarbókin 3:14.

6 Sumir vísindamenn áætla að alheimurinn sé að minnsta kosti 12 milljarða ára gamall. Ef það er einhvers staðar nærri sanni átti frumgetinn sonur Guðs náin samskipti við föður sinn um óratíma fyrir sköpun Adams. (Samanber Míka 5:1.) Þeir hljóta að hafa tengst sterkum og innilegum böndum. Í fortilveru sinni kom þessi frumgetni sonur fram sem persónugervingur viskunnar og sagði: „Ég var yndi hans [Jehóva] dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma.“ (Orðskviðirnir 8:30) Náið samband við uppsprettu kærleikans um óteljandi aldir hlýtur að hafa haft djúp áhrif á son Guðs. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann kynntist og endurspeglaði hugsanir, viðhorf og vegi föður síns betur en nokkur annar gat gert. — Matteus 11:27.

Jarðlíf hans og áhrifavaldar

7. Nefndu eina ástæðu þess að frumgetinn sonur Guðs þurfti að koma til jarðar.

7 Sonur Guðs átti ýmislegt ólært því að faðirinn ætlaði honum það hlutverk að vera umhyggjusamur æðstiprestur sem gæti „séð aumur á veikleika vorum.“ (Hebreabréfið 4:15) Ein ástæðan fyrir komu hans til jarðar var að búa hann undir þetta hlutverk. Sem maður af holdi og blóði kynntist Jesús aðstæðum og áhrifum sem hann hafði aðeins horft á ofan af himni fram til þessa. Núna kynntist hann sjálfur mannlegum kenndum og tilfinningum. Hann var stundum þreyttur, þyrstur og svangur. (Matteus 4:2; Jóhannes 4:6, 7) Og hann mátti þola alls konar þrengingar og þjáningar. Þannig „lærði hann hlýðni“ og varð fullkomlega hæfur til þess hlutverks að vera æðstiprestur. — Hebreabréfið 5:8-10.

8. Hvað vitum við um æsku Jesú hér á jörð?

8 Litlar heimildir eru til um æsku Jesú. Aðeins Matteus og Lúkas segja frá atburðum tengdum fæðingu hans. Guðspjallaritararnir vissu að hann hafði verið á himnum áður en hann kom til jarðar. Þessi fortilvera skýrði betur en nokkuð annað hvers konar maður hann varð. Engu að síður var Jesús fullkomlega mennskur. Þótt fullkominn væri þurfti hann að vaxa úr grasi og læra eins og hvert annað barn og unglingur. (Lúkas 2:51, 52) Biblían segir frá sumu í sambandi við jarðlíf Jesú sem hafði eflaust áhrif á hann.

9. (a) Hvað bendir til að fjölskylda Jesú hafi verið fátæk? (b) Við hvers konar aðstæður hefur Jesús líklega alist upp?

9 Fjölskylda Jesú virðist hafa verið fátæk eins og sjá má af fórninni sem Jósef og María færðu í musterinu um 40 dögum eftir fæðingu hans. Í stað þess að færa hrútlamb að brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu að syndafórn komu þau með „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur.“ (Lúkas 2:24) Samkvæmt Móselögunum máttu fátækir færa slíka fórn. (3. Mósebók 12:6-8) Fjölskyldan stækkaði með tíð og tíma. Jósef og María eignuðust að minnsta kosti sex önnur börn með eðlilegum hætti eftir undraverða fæðingu Jesú, þannig að Jesús ólst upp í stórri fjölskyldu, sennilega á fábrotnu heimili. — Matteus 13:55, 56.

10. Hvað sýnir að María og Jósef voru guðhræddar manneskjur?

10 Hann var alinn upp af guðhræddum foreldrum sem ólu önn fyrir honum. María móðir hans var einstök manneskja. Engillinn Gabríel heilsaði henni: „Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! [Jehóva] er með þér.“ (Lúkas 1:28) Jósef var líka guðhræddur maður. Ár hvert fór hann með fjölskyldu sína 150 kílómetra leið til Jerúsalem til að halda páska. María fór með honum þótt einungis væri krafist að karlar sæktu hátíðina. (2. Mósebók 23:17; Lúkas 2:41) Það var í einni slíkri ferð, þegar Jesús var 12 ára, sem Jósef og María fundu hann eftir mikla leit mitt á meðal kennaranna í musterinu. Hann svaraði áhyggjufullum foreldrum sínum: „Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ (Lúkas 2:49) Orðið ‚faðir‘ hlýtur að hafa haft jákvæðan og hlýjan merkingarblæ í huga þessa unga drengs. Honum hafði greinilega verið sagt að Jehóva væri raunverulegur faðir hans. Og Jósef hlýtur að hafa verið Jesú góður stjúpfaðir því að Jehóva hefði ekki valið harðneskjulegan eða grimman mann til að ala upp ástkæran son sinn.

11. Hvaða iðn lærði Jesús og hvað fól hún í sér á þeim tíma?

11 Jesús lærði trésmíði á uppvaxtarárunum í Nasaret, líklega af stjúpföður sínum. Hann hefur verið góður handverksmaður því að hann var kallaður „smiðurinn.“ (Markús 6:3) Smiðir á biblíutímanum smíðuðu hús, húsgögn (stóla, borð og bekki) og jarðyrkjuverkfæri. Jústínus píslarvottur, sem var uppi á annarri öld, sagði um Jesú í ritinu Dialogue With Trypho: „Hann vann sem smiður meðal manna og smíðaði oktré og plóga.“ Þetta var erfiðisvinna því að smiðir gátu sennilega ekki keypt sér smíðavið á þeim tíma heldur þurftu trúlega að velja tré, fella það og bera viðinn heim. Jesús hefur kannski þekkt þann vanda að vinna fyrir sér, semja við viðskiptavini og láta enda ná saman.

12. Hvað bendir til að Jósef hafi dáið á undan Jesú og hvað hefur það þýtt fyrir Jesú?

12 Jesús var elsti sonurinn og hefur áreiðanlega lagt sitt af mörkum til heimilisins, ekki síst þegar á það er litið að Jósef virðist hafa dáið á undan honum. * Í Varðturninum 1. janúar árið 1900 stóð: „Samkvæmt arfsögnum dó Jósef meðan Jesús var ungur svo að Jesús stundaði trésmíðar til að sjá fjölskyldunni farborða. Þetta á sér nokkurn stuðning í Ritningunni þar sem Jesús er kallaður smiður og getið er um móður hans og bræður en ekkert sagt um Jósef. (Markús 6:3) . . . Það er því mjög sennilegt að Drottinn hafi eytt átján árum ævi sinnar, frá atvikinu [sem greint er frá í Lúkasi 2:41-49] fram til skírnar sinnar, til að annast venjulegar skyldur lífsins.“ María og börn hennar að Jesú meðtöldum þekktu trúlega sársaukann sem fylgir því að missa ástkæran eiginmann og föður.

13. Af hverju bjó Jesús yfir þekkingu, innsæi og djúpstæðum tilfinningum, sem enginn annar gat haft, þegar hann hóf þjónustu sína?

13 Ljóst er að Jesús fæddist ekki til að eiga náðuga daga heldur kynntist hann af eigin raun hvernig það var að vera almúgamaður. Árið 29 rann upp tíminn til að snúa sér að því verkefni sem Guð hafði falið honum. Um haustið lét hann skírast í vatni og var getinn sem andlegur sonur Guðs. „Himinninn opnaðist“ honum, sem merkir, að því er best verður séð, að hann minntist nú fortilveru sinnar á himni og þeirra hugsana og viðhorfa sem fylgdu henni. (Lúkas 3:21, 22) Þess vegna bjó hann við upphaf þjónustu sinnar yfir þekkingu, innsæi og djúpstæðum tilfinningum sem enginn annar maður gat haft. Það er eðlilegt að guðspjallaritararnir hafi að mestu leyti fjallað um þjónustutíma hans. Þó gátu þeir ekki greint frá öllu sem hann sagði og gerði. (Jóhannes 21:25) En það sem þeim var innblásið að skrásetja gerir okkur kleift að skyggnast inn í huga mesta mikilmennis sem lifað hefur.

Persónuleiki Jesú

14. Hvernig lýsa guðspjöllin Jesú?

14 Persónuleikinn, sem guðspjöllin lýsa, er í senn hlýlegur og tilfinningaríkur. Tilfinningaviðbrögð hans voru margþætt: meðaumkun með holdsveikum manni (Markús 1:40, 41), hryggð yfir tómlæti fólks (Lúkas 19:41, 42) og réttlát reiði í garð ágjarnra víxlara (Jóhannes 2:13-17). Jesús setti sig í spor annarra; hann faldi ekki tilfinningar sínar og hann gat tárast. Þegar hann sá Maríu, systur Lasarusar, gráta bróður sinn var hann svo snortinn að hann grét sjálfur í allra augsýn. — Jóhannes 11:32-36.

15. Hvernig birtist hlýja Jesú í viðhorfum hans til annarra og framkomu hans við þá?

15 Hlýja Jesú kom sérstaklega fram í því hvernig hann leit á aðra og kom fram við þá. Hann sinnti fátækum og kúguðum og hjálpaði þeim að ‚finna hvíld sálum sínum.‘ (Matteus 11:4, 5, 28-30) Hann var ekki of upptekinn til að sinna þörfum þjakaðra, hvort heldur konu með blæðingar sem snerti klæði hans eða blinds betlara sem lét ekki þagga niður í sér. (Matteus 9:20-22; Markús 10:46-52) Jesús leitaði hins góða í fari manna og hrósaði þeim en var jafnframt reiðubúinn að ávíta þegar þess var þörf. (Matteus 16:23; Jóhannes 1:47; 8:44) Jesús virti konur og sýndi þeim sóma á tímum takmarkaðra kvenréttinda. (Jóhannes 4:9, 27) Það er skiljanlegt að hópur kvenna skyldi hafa hjálpað honum fúslega með fjármunum sínum. — Lúkas 8:3.

16. Hvað sýnir að Jesús var öfgalaus í afstöðu sinni til lífsins og efnislegra hluta?

16 Jesús var öfgalaus í skoðunum. Efnislegir hlutir skiptu hann ekki meginmáli. Hann virðist hafa átt lítið og sagðist ‚hvergi eiga höfði sínu að að halla.‘ (Matteus 8:20) En hann lagði sitt af mörkum til að gleðja aðra. Eitt sinn var hann staddur í brúðkaupsveislu — og þar var að jafnaði tónlist, söngur og gleði — en það var greinilega ekki til að spilla gleði annarra. Meira að segja vann hann þar fyrsta kraftaverkið og breytti vatni í úrvalsvín þegar vín gekk til þurrðar. (Jóhannes 2:1-11) Vín „gleður hjarta mannsins“ og gleðskapurinn gat haldið áfram. (Sálmur 104:15) Eflaust hlífði þetta brúðhjónunum við þeim kinnroða sem vínskortur hefði valdið. En það er miklu oftar talað um eljusama þjónustu hans en atvik af þessu tagi sem ber vitni um jafnvægi hans. — Jóhannes 4:34.

17. Af hverju kemur ekki á óvart að Jesús skuli hafa verið úrvalskennari og hvað endurspeglaði kennsla hans?

17 Jesús var úrvalskennari. Kennsla hans endurspeglaði að miklu leyti veruleika daglega lífsins sem hann þekkti mætavel. (Matteus 13:33; Lúkas 15:8) Kennsla hans var óviðjafnanleg — hún var alltaf skýr, einföld og raunsæ. En inntakið var enn þýðingarmeira því að það endurspeglaði sterka löngun hans til að áheyrendur kynntust huga, viðhorfum og vegum Jehóva. — Jóhannes 17:6-8.

18, 19. (a) Hvers konar líkingamál notaði Jesús til að lýsa föður sínum? (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?

18 Jesús greip oft til líkinga og opinberaði föður sinn með lifandi myndmáli sem ekki var auðvelt að gleyma. Það er eitt að tala almennum orðum um miskunn Jehóva Guðs en annað að líkja honum við miskunnsaman föður sem er svo djúpt snortinn af því að sjá son sinn snúa heim aftur að hann ‚hleypur og fellur um háls honum og kyssir hann.‘ (Lúkas 15:11-24) Jesús hafnaði hinni ströngu menningu trúarleiðtoganna sem litu niður á almenning, og sýndi fram á að faðirinn væri viðmótsgóður Guð sem tæki áköll auðmjúkra tollheimtumanna fram yfir skrúðmálar bænir montinna farísea. (Lúkas 18:9-14) Jesús lýsti honum sem umhyggjusömum Guði er veit af smáum spörva sem fellur til jarðar. „Verið því óhræddir,“ hvatti hann lærisveinana, „þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Matteus 10:29, 31) Eins og skiljanlegt er var fólk forviða á „kenningu“ Jesú og laðaðist að honum. (Matteus 7:28, 29) Einu sinni var „mikill mannfjöldi“ með honum heila þrjá daga án matar! — Markús 8:1, 2.

19 Við megum vera þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa opinberað okkur huga Krists í orði sínu. En hvernig getum við sýnt sama huga og Kristur í samskiptum við aðra? Það er efni næstu greinar.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Af Opinberunarbókinni 12:3, 4 má ráða að andaverur geta orðið fyrir áhrifum af félagsskap sínum. Þar er Satan kallaður „dreki“ og sagt að hann hafi getað fengið aðrar ‚stjörnur‘ eða andasyni með sér í uppreisn. — Samanber Jobsbók 38:7.

^ gr. 12 Jósefs er síðast getið þegar Jesús er 12 ára og þau finna hann í musterinu. Ekki kemur fram að Jósef hafi verið í brúðkaupsveislunni í Kana um þær mundir sem Jesús hóf þjónustu sína. (Jóhannes 2:1-3) Þegar Jesús var á aftökustaurnum árið 33 fól hann Jóhannesi postula að annast Maríu sem hann hefði tæplega gert ef Jósef hefði verið á lífi. — Jóhannes 19:26, 27.

Manstu?

• Af hverju er þýðingarmikið að við kynnumst „huga Krists“?

• Með hverjum var Jesús áður en hann varð maður?

• Hvaða aðstæðum og áhrifum kynntist Jesús af eigin raun meðan hann var á jörðinni?

• Hvernig lýsa guðspjöllin persónuleika Jesú?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Jesús ólst upp í stórri fjölskyldu, sennilega á fábrotnu heimili.

[Myndir á blaðsíðu 20]

Kennararnir undruðust skilning og svör Jesú þegar hann var 12 ára.