Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Reynirðu að líkja eftir Jesú?

Reynirðu að líkja eftir Jesú?

Reynirðu að líkja eftir Jesú?

„Sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ — MARKÚS 6:34.

1. Af hverju er skiljanlegt að menn sýni af sér lofsverða eiginleika?

MARGIR hafa sýnt lofsverða eiginleika í aldanna rás. Það er skiljanlegt því að Jehóva Guð er kærleiksríkur, góðviljaður, örlátur og margt annað sem við metum mikils. Mennirnir eru skapaðir í mynd hans svo að við skiljum mætavel hvers vegna margir sýna kærleika, góðvild, samúð og aðra góða eiginleika að einhverju marki, alveg eins og flestir hafa samvisku. (1. Mósebók 1:26; Rómverjabréfið 2:14, 15) En þér er sjálfsagt ljóst að menn sýna þessa eiginleika í mismiklum mæli.

2. Nefndu dæmi um góðverk manna sem finnst kannski að þeir séu að líkja eftir Kristi.

2 Sennilega þekkirðu einhverja sem gjarnan heimsækja og liðsinna sjúkum og fötluðum eða gefa fátækum. Sumir finna hjá sér hvöt til að helga krafta sína holdsveikum eða munaðarlausum, sumir vinna sjálfboðastörf á spítölum eða líknarheimilum, og sumir leggja fram krafta sína í þágu heimilislausra eða flóttamanna. Þeim finnst þeir kannski vera að líkja eftir Jesú, fyrirmynd kristinna manna, enda lesum við í guðspjöllunum að hann hafi læknað sjúka og mettað hungraða. (Markús 1:34; 8:1-9; Lúkas 4:40) Með kærleika sínum, blíðu og umhyggju líkti hann eftir föður sínum á himnum. Þannig var ‚hugur Krists.‘ — 1. Korintubréf 2:16.

3. Hvað þurfum við að íhuga til að sjá góðverk Jesú í réttu ljósi?

3 En hefurðu veitt því athygli að mörgum yfirsést mikilvægur þáttur í huga Jesú Krists þótt þeir séu snortnir af kærleika hans og umhyggju? Við skulum skoða þetta nánar með því að fara vandlega yfir 6. kafla Markúsarguðspjalls. Þar er sagt frá því að fólk hafi komið með sjúka til Jesú til að hann læknaði þá. Þar kemur einnig fram að hann hafi unnið það kraftaverk að metta þúsundir manna þegar hann komst að raun um að mannfjöldinn, sem kom til hans, var hungraður. (Markús 6:35-44, 54-56) Kærleikur hans og umhyggja kom vissulega fram í því að hann skyldi lækna sjúka og metta hungraða, en var hjálp hans fyrst og fremst fólgin í því? Og hvernig getum við best líkt eftir kærleika hans, góðvild og umhyggju sem hann sýndi svo fullkomlega að fyrirmynd Jehóva?

Viðbrögð við andlegum þörfum fólks

4. Hvaða aðstæðum lýsir frásagan í Markúsi 6:30-34?

4 Jesús kenndi öðru fremur í brjósti um fjöldann vegna þess að andlegum þörfum manna var ekki fullnægt, og þessar þarfir voru enn mikilvægari en hinar líkamlegu. Lítum á frásöguna í Markúsi 6:30-34. Þar er sagt frá atviki sem átti sér stað á strönd Galíleuvatns nálægt páskum árið 32. Postularnir voru spenntir mjög, enda full ástæða til. Þeir voru nýkomnir til Jesú úr langri boðunarferð, eflaust óðfúsir að segja honum hvað drifið hefði á daga sína. En fjöldi fólks safnaðist kringum þá, svo mikill að Jesús og postularnir höfðu hvorki næði til að matast né hvílast. „Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund,“ sagði Jesús þá. (Markús 6:30-34) Þeir stigu um borð í bát, sennilega í grennd við Kapernaum, og sigldu á afskekktan stað hinum megin við Galíleuvatn. En mannfjöldinn hljóp með fram ströndinni og var kominn á undan bátnum. Hvernig brást Jesús við? Var hann ergilegur yfir því að fá ekki að vera í friði? Nei, alls ekki.

5. Hvernig leit Jesús á mannfjöldann sem kom til hans og hvað gerði hann fyrir fólkið?

5 Jesús var snortinn er hann sá þessar þúsundir manna bíða sín óþreyjufullar, þeirra á meðal sjúka. (Matteus 14:14; Markús 6:44) Markús bendir á hvað það var sem snart Jesú og hvernig hann brást við: „Sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ (Markús 6:34) Jesús sá meira en mannfjölda. Hann sá einstaklinga með andlegar þarfir. Hann sá fólk sem var eins og tvístraðir sauðir, án hirðis til að vernda sig eða leiða í grösuga bithaga. Hann vissi að hinir kaldlyndu trúarleiðtogar, sem áttu að vera umhyggjusamir hirðar, fyrirlitu almenning og hunsuðu andlegar þarfir hans. (Esekíel 34:2-4; Jóhannes 7:47-49) Jesús ætlaði að koma öðruvísi fram við fólk og gera því eins gott og hann gat, svo að hann tók að fræða það um ríki Guðs.

6, 7. (a) Hvaða þarfir fólks lét Jesús ganga fyrir? (b) Af hvaða hvötum kenndi Jesús og prédikaði?

6 Taktu eftir atburðarásinni og forgangsröðinni sem ráða má af samstofna frásögu Lúkasar, en hann var læknir og lét sér mjög annt um velferð annarra. „Mannfjöldinn . . . fór á eftir [Jesú]. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu.“ (Lúkas 9:11; Kólossubréfið 4:14) Hvað er nefnt fyrst í innblásinni frásögu Lúkasar í þessu tilfelli, þó svo að það sé ekki alltaf svo þegar hann segir frá kraftaverkum hans? Það að Jesús kenndi fólkinu.

7 Þetta kemur reyndar heim og saman við áhersluna í Markúsi 6:34. Versið segir greinilega hvernig Jesús lét meðaumkun sína fyrst og fremst í ljós. Hann kom til móts við andlegar þarfir fólks og kenndi því. Hann sagði fyrr á starfsferli sínum: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) En við megum ekki halda að Jesús hafi aðallega boðað Guðsríki af skyldurækni, rétt eins og hann prédikaði aðeins til málamynda af því að hann átti að gera það. Nei, það var öðru fremur kærleikur og umhyggja sem kom honum til að boða fólki fagnaðarerindið. Það albesta sem Jesús gat gert, jafnvel fyrir sjúka, andsetna, fátæka og hungraða var að kenna þeim sannleikann um Guðsríki og innræta þeim ást á þessum sannleika. Sannleikurinn skipti mestu máli vegna þess hlutverks sem Guðsríki hefur í því að upphefja drottinvald Jehóva og blessa mannkyn til frambúðar.

8. Hvernig leit Jesús á boðun sína og kennslu?

8 Ein meginástæðan fyrir komu Jesú til jarðar var sú að boða Guðsríki. Þegar þjónusta hans á jörð var nærri á enda sagði hann Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“ (Jóhannes 18:37) Við tókum eftir í greinunum tveim á undan að Jesús var tilfinningahlýr maður — umhyggjusamur, viðmótsþýður, tillitssamur, treysti öðrum og umfram allt kærleiksríkur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir þessum persónueinkennum hans til að skilja huga hans. Við verðum líka að átta okkur á því að sá sem hefur huga Krists leggur sömu áherslu á boðun og kennslu og hann gerði.

Hann hvatti aðra til að vitna

9. Hverjir áttu að láta boðunina og kennsluna ganga fyrir?

9 Það var ekki Jesús einn sem átti að sýna kærleika og umhyggju með boðun og kennslu. Hann hvatti fylgjendur sína til að líkja eftir sér í verki, áhuga og áherslum. Hvað áttu postularnir 12 til dæmis að gera eftir að hann hafði valið þá? Markús 3:14, 15 segir: „Hann skipaði tólf, er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika, með valdi að reka út illa anda.“ Sérðu hvað postularnir áttu að láta ganga fyrir?

10, 11. (a) Hvað sagði Jesús postulunum að gera þegar hann sendi þá út? (b) Hvað var í brennidepli þegar Jesús sendi postulana út?

10 Síðar gaf hann þeim 12 kraft til að lækna sjúka og reka út illa anda. (Matteus 10:1; Lúkas 9:1) Hann sendi þá síðan til „týndra sauða af Ísraelsætt.“ Í hvaða tilgangi? Hann sagði þeim: „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘ Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda.“ (Matteus 10:5-8; Lúkas 9:2) Hvað gerðu þeir svo? „Þeir lögðu af stað og [1] prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun, [2] ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.“ — Markús 6:12, 13.

11 Nú er kennslan ekki nefnd fyrst í öllum tilvikum svo að spyrja má hvort við séum að lesa meira út úr textanum að ofan en efni standa til í sambandi við forgangsröð eða áhugahvatir. (Lúkas 10:1-9) Við megum auðvitað ekki gera lítið úr því hve oft er minnst á kennslu á undan lækningum. Lítum á samhengið. Rétt áður en Jesús sendi út postulana 12 var hann snortinn af því hvernig mannfjöldinn var á sig kominn. Við lesum: „Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: ‚Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.‘“ — Matteus 9:35-38.

12. Hvaða tilgangi gátu kraftaverk Jesú og postulanna þjónað?

12 Með því að umgangast Jesú gátu postularnir tileinkað sér huga hans að einhverju marki. Þeir skynjuðu að þeir þurftu að boða Guðsríki og kenna til að sýna fólki raunverulegan kærleika og umhyggju — það átti að vera eitt helsta góðgerðarstarf þeirra. Önnur góðverk, svo sem það að lækna sjúka, voru því meira en hjálp við bágstadda. Eins og þú getur ímyndað þér hljóta sumir að hafa sótt til Jesú vegna lækningaverka hans og undraverðra matargjafa. (Matteus 4:24, 25; 8:16; 9:32, 33; 14:35, 36; Jóhannes 6:26) En þessi verk sannfærðu áhorfendur um að Jesús væri sonur Guðs og „spámaðurinn“ sem Móse hafði spáð um. — Jóhannes 6:14; 5. Mósebók 18:15.

13. Hvaða hlutverki átti „spámaðurinn“ að gegna samkvæmt 5. Mósebók 18:18?

13 Af hverju skipti það máli að Jesús var „spámaðurinn“? Nú, hvaða hlutverki átti „spámaðurinn“ að gegna öðrum fremur? Átti hann að vera frægur af kraftaverkalækningum og matargjöfum til hungraðra? Fimmta Mósebók 18:18 segir: „Ég vil upp vekja þeim spámann meðal bræðra þeirra, slíkan sem þú [Móse] ert, og ég mun leggja honum mín orð í munn, og hann skal mæla til þeirra allt það, er ég býð honum.“ Postularnir lærðu umhyggju en gátu jafnframt ályktað að hugur Krists ætti einnig að birtast í prédikun og kennslu. Það var það besta sem þeir gátu gert fyrir fólk. Þannig gátu þeir hjálpað sjúkum og fátækum til langframa en ekki aðeins um stutta mannsævi eða með einni eða tveim máltíðum. — Jóhannes 6:26-30.

Að tileinka sér huga Krists núna

14. Hvernig er hugur Krists tengdur boðunarstarfi okkar?

14 Enginn ætti að ímynda sér að hugur Krists sé eingöngu bundinn við fyrstu öldina — við Jesú og þá sem Páll postuli skrifaði: „Vér höfum huga Krists.“ (1. Korintubréf 2:16) Og við viðurkennum fúslega að við erum skuldbundin að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Það er samt sem áður gott að líta í eigin barm og skoða af hvaða hvötum við gerum það. Það ætti ekki aðeins að vera af skyldukvöð. Við ættum fyrst og fremst að taka þátt í boðunarstarfinu af því að við elskum Guð, og við ættum að prédika og kenna eins og Jesús vegna þess að við berum umhyggju fyrir fólki. — Matteus 22:37-39.

15. Af hverju er umhyggja viðeigandi þáttur í boðunarstarfi okkar meðal almennings?

15 Auðvitað er ekki alltaf auðvelt að bera umhyggju fyrir þeim sem eru annarrar trúar, sérstaklega þegar við mætum sinnuleysi, höfnun eða andstöðu. En ef við glötum kærleikanum og umhyggjunni fyrir fólki, þá getum við um leið glatað mikilvægri hvöt til þess að taka þátt í hinni kristnu þjónustu. Hvernig getum við þá glætt með okkur meðaumkun og umhyggju? Við getum reynt að sjá fólk sömu augum og Jesús, sem ‚hrjáð og umkomulaust eins og sauði er engan hirði hafa.‘ (Matteus 9:36) Má ekki lýsa mörgum þannig? Falstrúarhirðar hafa vanrækt fólk og blindað andlega svo að það veit hvorki af hinni heilbrigðu leiðsögn Biblíunnar né paradísinni sem Guðsríki skapar bráðlega á jörð. Það þarf að kljást við vandamál daglega lífsins — fátækt, fjölskylduerjur, sjúkdóma og dauða — án vonarinnar um Guðsríki. Við höfum það sem fólk vantar: fagnaðarerindið um ríki Guðs sem er stofnsett á himnum og býður fram björgun.

16. Af hverju ætti okkur að langa til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu?

16 Þegar þú veltir fyrir þér andlegum þörfum fólks í kringum þig, finnurðu þá ekki löngun hjá þér til að gera allt sem þú getur til að segja því frá kærleikstilgangi Guðs? Starf okkar er miskunnarstarf. Þegar við kennum í brjósti um fólk eins og Jesús gerði birtist það í raddblæ okkar, svipbrigðum og kennsluaðferðum, og boðskapurinn höfðar sterkar en ella til þeirra sem ‚hneigjast til eilífs lífs.‘ — Postulasagan 13:48, NW.

17. (a) Nefndu dæmi um hvernig við getum sýnt öðrum kærleika og umhyggju. (b) Af hverju megum við ekki einblína annaðhvort á góðverk eða boðunarstarfið?

17 Líf okkar ætti auðvitað í alla staði að bera vitni um kærleika og umhyggju, meðal annars við bágstadda, sjúka og fátæka, og við ættum að gera það sem við getum með góðu móti til að aðstoða þá. Við ættum í orði og verki að reyna að sefa sorg þeirra sem hafa orðið fyrir ástvinamissi. (Lúkas 7:11-15; Jóhannes 11:33-35) En þó svo að við sýnum kærleika, góðvild og umhyggju á þennan hátt mega góðverk okkar ekki miðast við það eingöngu, eins og hjá sumum mannvinum. Það hefur miklu varanlegra gildi þegar við tökum þátt í kristnu boðunar- og kennslustarfi sem er sprottið af sömu hvötum. Mundu hvað Jesús sagði trúarleiðtogum Gyðinga: „Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.“ (Matteus 23:23) Jesús einblíndi ekki annaðhvort á það að fullnægja líkamlegum þörfum fólks eða kenna þeim andleg, lífgandi sannindi. Hann gerði hvort tveggja. En það er engu að síður ljóst að kennslustarfið gekk fyrir og fólk gat haft varanlegt gagn af því sem hann kom til leiðar. — Jóhannes 20:16.

18. Hvað ættum við að gera þegar við kynnum okkur huga Krists?

18 Við getum verið Jehóva innilega þakklát fyrir að opinbera okkur huga Krists. Í guðspjöllunum getum við kynnt okkur hugsanir, viðhorf, eiginleika, verk og áherslur mesta mikilmennis sem lifað hefur. Við þurfum sjálf að lesa og hugleiða það sem Biblían segir um Jesú og fara síðan eftir því. Munum að ef við viljum í alvöru líkja eftir Jesú þurfum við að læra að hugsa eins og hann og sjá hlutina sömu augum og hann, að svo miklu leyti sem það er á færi ófullkominna manna. Við skulum því vera staðráðin í að tileinka okkur huga Krists og sýna hann í verki. Það er besta leiðin til að lifa lífinu, koma rétt fram við fólk og styrkja böndin við ástríkan Guð okkar, Jehóva, sem hugur Krists endurspeglaði svo fullkomlega. — 2. Korintubréf 1:3; Hebreabréfið 1:3.

Hvert er svarið?

• Hvernig lýsir Biblían viðbrögðum Jesú við þörfum bágstaddra?

• Á hvað lagði Jesús áherslu er hann leiðbeindi fylgjendum sínum?

• Hvernig getum við sýnt „huga Krists“ í verki?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 32]

Hvað er það besta sem kristnir menn geta gert fyrir aðra?