Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sverði andans beitt gegn spillingunni

Sverði andans beitt gegn spillingunni

Sverði andans beitt gegn spillingunni

‚Íklæðist hinum nýja manni, sem skapaður er eftir guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ — Efesusbréfið 4:24.

ÞEGAR Rómaveldi var á hátindi sínum var það öflugasta stjórnvald sem menn höfðu komið á laggirnar fram að þeim tíma. Rómversk löggjöf var svo áhrifarík að hún er enn þann dag í dag undirstaðan að löggjöf margra þjóða. En þrátt fyrir afrek Rómaveldis dugði lagamergðin ekki til að yfirbuga einn lævísan óvin — spillinguna. Og með tíð og tíma átti hún drjúgan þátt í falli ríkisins.

Páll postuli varð fyrir barðinu á spilltum embættismönnum Rómar. Rómverski landstjórinn Felix, sem yfirheyrði Pál, var einn spilltasti landstjóri síns tíma. Hann virðist hafa gert sér grein fyrir að Páll væri saklaus en frestaði réttarhöldum yfir honum í von um að Páll myndi bera á hann fé til að fá sig lausan. — Postulasagan 24:22-26.

Í stað þess að múta Felix talaði Páll opinskátt við hann um „réttlæti [og] sjálfsögun.“ En Felix breytti ekki háttalagi sínu og Páll sat frekar í fangelsi en að sniðganga lög með mútugjöf. Hann boðaði sannleika og heiðarleika og lifði samkvæmt því. „Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel,“ sagði hann í bréfi til kristinna Gyðinga. — Hebreabréfið 13:18.

Þessi afstaða stakk mjög í stúf við tíðarandann. Pallas, bróðir Felixar, var einhver ríkasti maður fornaldar. Auður hans var metinn á um þrjá milljarða króna og var næstum allur fenginn með mútum og fjárkúgun. En þetta eru smápeningar í samanburði við þau hundruð milljarða sem einstaka spilltir valdhafar tuttugustu aldar hafa falið á leynireikningum í bönkum. Það væri barnaskapur að láta sér detta í hug að stjórnvöld okkar tíma hafi unnið stríðið gegn spillingunni.

Hlýtur spillingin að liggja í mannlegu eðli fyrst hún hefur verið svona rótgróin alla tíð? Eða er eitthvað hægt að gera til að koma taumhaldi á hana?

Hvernig er hægt að koma taumhaldi á spillinguna?

Fyrsta skrefið til að stemma stigu við spillingunni er auðvitað fólgið í því að viðurkenna að hún er bæði skaðleg og röng vegna þess að hún hyglir hinum ófyrirleitnu en spillir fyrir öðrum. Vafalaust hefur eitthvað miðað í rétta átt. James Foley, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir: „Öllum er ljóst að mútur kosta sitt. Þær grafa undan góðri stjórn, hamla skilvirkni og framþróun efnahagslífsins, afskræma viðskiptalífið og bitna á almenningi um heim allan.“ Margir geta tekið undir með honum. Hinn 17. desember 1997 undirrituðu 34 af helstu þjóðum heims „samning um bann við mútum“ og vonast er til að hann „reynist áhrifaríkur í baráttunni gegn spillingu í heiminum.“ Samningurinn „kveður á um að það sé lögbrot að bjóða, lofa eða greiða erlendum embættismanni mútur í þeim tilgangi að ná eða viðhalda alþjóðlegum viðskiptasamningi.“

En mútugreiðslur til að liðka fyrir erlendum viðskiptasamningum eru aðeins toppurinn á spillingarísjakanum. Ef takast á að uppræta spillingu yfir alla línuna þarf annað að koma til sem er mun erfiðara en það eitt að viðurkenna spillinguna. Það þarf að verða almenn hugarfarsbreyting. Fjármálamisferli verður því aðeins upprætt að menn læri að hafa andstyggð á mútum og spillingu. Tímaritið Newsweek segir að sumir telji að stjórnvöld eigi að „vekja upp dyggðartilfinningu meðal almennings.“ Transparency International, sem er þrýstihópur gegn spillingu, hvetur stuðningsmenn sína til að „sá ‚sæði heiðarleika‘“ á vinnustað.

Baráttan gegn spillingunni er siðferðileg barátta þannig að löggjöf og ‚sverð‘ hegningarinnar duga ekki til ein sér. (Rómverjabréfið 13:4, 5) Það þarf að sá sæði dyggðar, heiðarleika og ráðvendni í hjörtu manna. Besta leiðin til þess er sú að nota orð Guðs, Biblíuna, sem Páll postuli kallar ‚sverð andans.‘ — Efesusbréfið 6:17.

Biblían fordæmir spillingu

Af hverju lét Páll sér ekki standa á sama um spillinguna? Af því að hann vildi gera vilja Guðs „sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur.“ (5. Mósebók 10:17) Og eflaust mundi hann mætavel eftir skýrum leiðbeiningum Móselaganna: „Þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútu, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu.“ (5. Mósebók 16:19) Davíð konungur skildi líka að Jehóva Guð hatar spillingu og bað hann að telja sig ekki til syndara sem voru með „hægri höndina fulla af mútugjöfum.“ — Sálmur 26:10.

Þeir sem tilbiðja Guð í einlægni hafna spillingu af fleiri ástæðum. „Konungurinn eflir landið með rétti,“ skrifaði Salómon, „en sá sem þiggur mútur, eyðir það.“ (Orðskviðirnir 29:4) Réttur og réttlæti stuðlar að stöðugleika — einkum þegar það er stundað jafnt af háum sem lágum — en spilling kemur þjóðum á vonarvöl. Tímaritið Newsweek bendir á athyglisverðan hlut: „Í kerfi þar sem allir vilja fá sneið af spillingarkökunni og kunna að krækja sér í hana geta hagkerfi hreinlega hrunið.“

Jafnvel þótt hagkerfið hrynji ekki algerlega er gremjulegt fyrir þá sem unna réttlætinu að horfa upp á spillinguna blómstra. (Sálmur 73:3, 13) Skaparinn gaf okkur réttlætisþrána í vöggugjöf svo að spilling er ranglæti gagnvart honum. Hann hefur áður fyrr skorist í leikinn til að uppræta grófa spillingu. Til dæmis sagði hann Jerúsalembúum umbúðalaust hvers vegna hann gæfi þá á vald óvina þeirra.

Guð sagði fyrir munn spámannsins Míka: „Heyrið þetta, þér höfðingjar Jakobs húss og þér stjórnendur Ísraels húss, þér sem hafið viðbjóð á réttvísinni og gjörið allt bogið, sem beint er. Höfðingjar hennar dæma fyrir mútur og prestar hennar veita fræðslu fyrir kaup. Spámenn hennar spá fyrir peninga . . . Fyrir því skal Síon plægð verða að akri yðar vegna og Jerúsalem verða að rúst.“ Ísraelskt þjóðfélag var í kaldakoli sökum spillingar, rétt eins og spillingin gróf undan Rómaveldi síðar. Um öld eftir að Míka skrifaði þetta var Jerúsalem eytt og hún yfirgefin, rétt eins og Guð hafði varað við. — Míka 3:9, 11, 12.

En enginn maður og engin þjóð þarf að vera spillt. Guð hvetur óguðlega menn til að snúa baki við illskunni og breyta hugsunarhætti sínum. (Jesaja 55:7) Hann vill að allir menn láti ágirnd og spillingu víkja fyrir óeigingirni og réttlæti, og hann minnir á að „sá sem kúgar snauðan mann, óvirðir þann er skóp hann, en sá heiðrar hann, er miskunnar sig yfir fátækan.“ — Orðskviðirnir 14:31.

Sannleikur Biblíunnar getur sigrað spillinguna

Hvað getur fengið mann til að gera slíka breytingu á sjálfum sér? Sami kraftur og fékk Pál til að yfirgefa faríseaflokkinn og gerast dyggur fylgjandi Jesú Krists. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt,“ eins og hann sagði. (Hebreabréfið 4:12) Enn þann dag í dag stuðlar sannleikur Biblíunnar að heiðarleika, jafnvel meðal fólks sem var á kafi í spillingu. Lítum á dæmi.

Skömmu eftir að Alexander lauk herþjónustu í landi einu í Austur-Evrópu gekk hann til liðs við óaldarflokk sem stundaði fjárbrask, fjárkúgun og mútur. * „Ég hafði það verkefni að kúga verndarfé út úr auðugum kaupsýslumönnum,“ segir hann. „Þegar ég var búinn að ávinna mér traust kaupsýslumanns hótuðu aðrir úr flokknum að beita hann ofbeldi. Ég bauðst þá til að sjá um málið — gegn háu gjaldi. ‚Viðskiptavinurinn‘ þakkaði mér fyrir að hjálpa sér út úr þessum vandræðum þó að ég hefði í rauninni valdið þeim. Þótt undarlegt megi virðast líkaði mér ágætlega við þennan þátt starfseminnar.

Ég naut peninganna og spennunnar sem þetta líferni bauð upp á. Ég ók um á dýrum bíl, bjó í skemmtilegri íbúð og gat keypt mér allt sem hugurinn girntist. Fólk óttaðist mig og ég fann að ég mátti mín einhvers. Mér fannst einhvern veginn að ég væri ósigrandi og hafinn yfir lög. Ef lögreglan var til vandræða var hægt að leysa það annaðhvort með aðstoð frá snjöllum lögfræðingi, sem kunni að fara kringum réttarkerfið, eða með því að múta rétta manninum.

En hollusta er ekki aðalsmerki þeirra sem framfleyta sér með spillingu. Einn úr hópnum fékk andúð á mér og ég féll í ónáð. Allt í einu missti ég glæsibílinn, peningana og fjárfreka vinkonu mína. Mér var meira að segja misþyrmt illilega. Þessi umskipti komu mér til að hugleiða tilgang lífsins alvarlega.

Mamma hafði gerst vottur Jehóva nokkrum mánuðum áður og ég fór að lesa rit vottanna. Textinn í Orðskviðunum 4:14, 15 kom mér til að hugsa, en þar stendur: ‚Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna. Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.‘ Þessi ritningarstaður og aðrir af sama toga sannfærðu mig um að þeir sem velja glæpabrautina eiga sér enga framtíð. Ég fór að biðja Jehóva um að beina mér inn á rétta braut. Ég kynnti mér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og vígði Jehóva svo líf mitt. Ég hef verið heiðarlegur síðan.

Ég hef að sjálfsögðu miklu minni tekjur eftir að ég fór að lifa heiðarlegu lífi. En nú finnst mér ég eiga framtíð fyrir mér og líf mitt hafa raunverulegt gildi. Mér er ljóst að líferni mitt, með öllum sínum gæðum, var eins og spilaborg sem gat hrunið hvenær sem var. Áður var samviskan ónæm en núna stingur hún mig hvenær sem ég finn fyrir freistingu til að vera óheiðarlegur — jafnvel í smáu. Ég reyni að lifa í samræmi við Sálm 37:3 sem segir: ‚Treyst [Jehóva] og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni.‘“

‚Sá sem hatar mútugjafir mun lifa‘

Sannleikur Biblíunnar getur fengið fólk til að sigrast á spillingu, eins og Alexander komst að raun um. Hann söðlaði um í samræmi við bréf Páls postula til Efesusmanna: „Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans. Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.“ (Efesusbréfið 4:22-25, 28) Framtíð mannkynsins er undir slíkum breytingum komin.

Ef ekkert er að gert getur græðgi og spilling eytt jörðina, rétt eins og hún átti drjúgan þátt í falli Rómaveldis. Sem betur fer ætlar skapari mannkyns ekki að láta tilviljun ráða því hvernig fer heldur hefur hann ákveðið að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Og hann lofar þeim sem þrá að búa í heimi án spillingar að innan skamms verði til ‚nýr himinn og ný jörð þar sem réttlæti býr.‘ — 2. Pétursbréf 3:13.

Vissulega getur verið erfitt að vera heiðarlegur nú á dögum en Jehóva fullvissar okkur um að til langs tíma litið ‚komi sá maður ólagi á heimilishag sinn, sem fíkinn er í rangfenginn gróða, en sá sem hati mútugjafir muni lifa.‘ * (Orðskviðirnir 15:27) Með því að forðast spillingu sýnum við að við erum einlæg þegar við biðjum til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10.

Meðan við bíðum þess að Guðsríki láti til skarar skríða getum við hvert og eitt ‚sáð réttlæti‘ með því að forðast spillingu. (Hósea 10:12, Biblían 1859) Ef við gerum það ber líf okkar vitni um kraftinn í innblásnu orði Guðs. Sverð andans getur sigrað spillinguna.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Nafni hans er breytt.

^ gr. 28 Það er munur á mútum og þjórfé. Mútur eru gefnar til að hindra framgang réttvísinnar eða í öðrum óheiðarlegum tilgangi, en þjórfé er goldið í þakklætisskyni fyrir veitta þjónustu eins og fram kemur í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. október 1986.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Með hjálp Biblíunnar getum við tileinkað okkur nýjan persónuleika og forðast spillingu.