Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þið eruð svo vel að ykkur í Biblíunni“

„Þið eruð svo vel að ykkur í Biblíunni“

„Þið eruð svo vel að ykkur í Biblíunni“

ÞEGAR Jesús var 12 ára ræddi hann djarfmannlega við trúarleiðtogana í Jerúsalem, og „alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.“ (Lúkas 2:47) Margir ungir þjónar Jehóva nú á tímum taka einnig í sig kjark til að ræða við kennara sína og skólafélaga um Guð og Biblíuna og oft með jafnánægjulegum árangri.

Biblíuspádómurinn um áravikurnar 70 í Daníel 9:24-27 kom eitt sinn til tals í bekknum hennar Tiffany sem er 14 ára. Kennarinn fór aðeins fáum orðum um þessi vers en sneri sér fljótt að öðru.

Tiffany hikaði fyrst í stað við að rétta upp höndina. „En einhverra hluta vegna,“ segir hún, „angraði það mig að versin skyldu ekki hafa verið almennilega útskýrð, og áður en ég vissi af var höndin komin á loft.“ Það kom kennaranum verulega á óvart að einhver vildi tjá sig um efnið þar eð flestir nemendurnir áttu fullt í fangi með að skilja það.

Tiffany fékk leyfi til að útskýra spádóminn, stóð upp og talaði blaðalaust. Þegar hún lauk máli sínu ríkti dauðaþögn í stofunni og hún var dálítið taugaóstyrk. En þá kvað við dynjandi lófatak í bekknum.

„Þetta var glæsilegt, Tiffany, sérlega glæsilegt,“ endurtók kennarinn í sífellu. Hann viðurkenndi að sig hefði grunað að eitthvað meira hlyti að búa að baki þessum versum en hún væri fyrsta manneskjan til að skýra þau greinilega fyrir honum. Þegar kennslustundinni lauk spurði hann hana hvernig stæði á því að hún væri svona biblíufróð.

„Það er vegna þess að ég er vottur Jehóva,“ svaraði hún. „Foreldrar mínir þurftu að útskýra spádóminn fyrir mér nokkrum sinnum áður en ég skildi hann.“

Bekkjarfélagarnir voru líka forviða yfir biblíuþekkingu hennar. Einn þeirra sagði við hana: „Nú veit ég af hverju þið vottarnir farið hús úr húsi; það er út af því að þið eruð svo vel að ykkur í Biblíunni.“ Aðrir lofuðu að stríða henni aldrei aftur út af trúnni.

Þegar Tiffany sagði foreldrum sínum frá atvikinu hvöttu þeir hana til að bjóða kennaranum eintak af bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Hún gerði það, benti honum á kaflann sem útskýrir spádóm Daníels og hann þáði bókina með þökkum.

Kristnir unglingar eru Jehóva til lofs og heiðurs og sjálfum sér til blessunar þegar þeir tala hugrakkir um það sem foreldrar þeirra hafa kennt þeim um Guð og Biblíuna. — Matteus 21:15, 16.