Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að gera alla hluti nýja – eins og spáð var

Að gera alla hluti nýja – eins og spáð var

Að gera alla hluti nýja – eins og spáð var

„Sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: . . . ‚þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — OPINBERUNARBÓKIN 21:5.

1, 2. Af hverju hika margir við að velta framtíðinni fyrir sér?

‚ENGINN veit hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.‘ Hefurðu einhvern tíma sagt eða hugsað eitthvað þessu líkt? Það er skiljanlegt að fólk skuli hika við að giska á hvað framtíðin beri í skauti sínu eða að treysta þeim sem þykjast borubrattir geta sagt fyrir hvað sé framundan. Menn eru einfaldlega ófærir um að segja nákvæmlega fyrir hvað gerast muni á komandi mánuðum eða árum.

2 Í einu tölublaði tímaritsins Forbes ASAP var fjallað ítarlega um tímann. Þar var haft eftir sjónvarpsmanninum Robert Cringely: „Tíminn auðmýkir okkur öll um síðir, en engir fá þó verri útreið en þeir sem rýna í framtíðina. Að reyna að geta sér til um framtíðina er næstum alltaf tapað spil. . . . En þrátt fyrir það halda svokallaðir sérfræðingar áfram að spá.“

3, 4. (a) Hvaða bjartsýni verður vart gagnvart nýrri árþúsund? (b) Hvaða raunsæi einkennir afstöðu margra?

3 Þú hefur kannski tekið eftir að tilkoma nýrrar árþúsundar virðist hafa vakið fleiri til umhugsunar um framtíðina en áður. Tímaritið Maclean’s sagði í byrjun síðasta árs: „Árið 2000 er kannski eins og hvert annað ártal á almanakinu í augum flestra Kanadamanna, en það gæti haldist í hendur við nýja byrjun.“ Prófessor Chris Dewdney við York-háskóla nefndi eina ástæðu fyrir þessari bjartsýni: „Árþúsundamótin merkja að við getum þvegið hendur okkar af hræðilegri öld.“

4 Ber þetta ekki nokkurn keim af óskhyggju? Í skoðanakönnun, sem gerð var í Kanada, kom í ljós að einungis 22 prósent aðspurðra „telja að árið 2000 marki nýja byrjun handa heiminum.“ Reyndar bjóst nálega helmingur aðspurðra við „nýrri heimsstyrjöld“ innan 50 ára. Flestir skynja greinilega að ný árþúsund getur ekki rutt vandamálum okkar úr vegi og gert alla hluti nýja. Sir Michael Atiyah, fyrrverandi forseti Konunglega breska vísindafélagsins, skrifaði: „Hinar öru breytingar . . . merkja að öll siðmenningin þarf að takast á við örlagarík og ögrandi viðfangsefni á 21. öldinni. Við erum nú þegar að glíma við vandamál eins og mannfjölgun, takmarkaðar auðlindir, umhverfismengun og útbreidda fátækt, og það er áríðandi að takast á við þau.“

5. Hvar er hægt að finna áreiðanlegar upplýsingar um framtíðina?

5 En er ekki best að láta skeika að sköpuðu með framtíðina úr því að menn geta ekkert um það sagt hvað hún ber í skauti sínu? Engan veginn. Það er auðvitað rétt að menn geta ekki sagt fyrir með neinni nákvæmni hvað er framundan, en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að segja það fyrir. Hver er þá fær um það og af hverju ættum við að vera bjartsýn? Svörin við þessum spurningum er að finna í fjórum spádómum. Þeir eru skráðir í bók sem er útbreiddari og meira lesin en nokkur önnur bók en jafnframt meira misskilin og hunsuð en nokkur önnur bók. Þetta er Biblían. Þú mátt til með að skoða þessa fjóra texta hvað sem þér finnst um Biblíuna og hversu vel sem þú álítur þig þekkja hana. Þessir fjórir lykilspádómar segja að framtíðin sé mjög björt og lýsa í megindráttum þeirri framtíð sem þú og ástvinir þínir geta átt.

6, 7. Hvenær spáði Jesaja og hvernig uppfylltust spár hans?

6 Fyrsti spádómurinn er í 65. kafla Jesajabókar. Áður en þú lest hann skaltu hafa umgjörð textans skýra í huga — hvenær hann var skrifaður og um hvaða aðstæður hann fjallar. Jesaja, spámaður Guðs, skrásetti spádóminn en hann var uppi um einni öld áður en Júdaríkið leið undir lok. Endalokin komu þegar Jehóva hætti að vernda hina ótrúu Gyðinga og leyfði Babýloníumönnum að eyða Jerúsalem og flytja fólkið í útlegð. Þetta gerðist meira en hundrað árum eftir að Jesaja spáði því. — 2. Kroníkubók 36:15-21.

7 Til að glöggva sig á forsögunni er gott að rifja upp að með leiðsögn Guðs sagði Jesaja fyrir nafn hins ófædda Persakonungs sem myndi vinna Babýlon síðar meir og opna Gyðingum leiðina heim árið 537 f.o.t. Hann hét Kýrus. (Jesaja 45:1) Þótt ótrúlegt sé spáði Jesaja endurreisninni eins og lesa má í 65. kafla bókarinnar og lýsti ástandinu hjá hinum heimkomnu Gyðingum.

8. Hvaða framtíðarsýn boðaði Jesaja og hvaða orð vekja sérstaka athygli?

8 Við lesum í Jesaja 65:17-19: „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði. Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.“ Jesaja boðaði óneitanlega miklu betra ástand en Gyðingar höfðu þekkt í Babýlon. Hann boðaði fögnuð og gleði. En taktu eftir orðunum ‚nýr himinn og ný jörð.‘ Þetta er fyrsti staðurinn af fjórum þar sem þessi orð standa í Biblíunni, og þessir fjórir staðir geta haft bein áhrif á framtíð þína, jafnvel sagt hana fyrir.

9. Hvernig rættist Jesaja 65:17-19 á Gyðingum fortíðar?

9 Jesaja 65:17-19 rættist fyrst á Gyðingum að fornu sem sneru heim og endurreistu hreina tilbeiðslu eins og Jesaja spáði réttilega. (Esrabók 1:1-4; 3:1-4) En þú gerir þér auðvitað grein fyrir því að landið, sem þeir sneru heim til, var á sömu reikistjörnunni en ekki annars staðar í alheiminum. Ef við höfum það í huga er ljóst hvað Jesaja átti við með orðunum nýr himinn og ný jörð. Þar þarf engar ágiskanir eins og oft vill verða með óljósa spádóma Nostradamusar og annarra mennskra spámanna því að Biblían skýrir sjálf hvað Jesaja átti við.

10. Hvað er nýja ‚jörðin‘ sem Jesaja boðaði?

10 Orðið „jörð“ er ekki alltaf notað í Biblíunni um jarðarhnöttinn. Til að mynda segir í Sálmi 96:1 í biblíunni frá 1859: ‚Syngi öll jörðin drottni!‘ Við vitum að reikistjarnan jörð — þurrlendið og úthöfin — getur ekki sungið eitt né neitt. Það er fólk sem syngur, svo að Sálmur 96:1 er að tala um jarðarbúa. * En Jesaja 65:17 nefnir líka „nýjan himin.“ Hvað er ‚nýi himinninn‘ fyrst ‚jörðin‘ táknar nýtt mannfélag í Gyðingalandi?

11. Hverju lýsa orðin ‚nýr himinn‘?

11 Biblíuorðabókin Cyclopedia of Biblical, Theological, and Ecclesiastical Literature eftir McClintock og Strong segir: „Þegar vettvangi spádómssýnar er lýst táknar himinn . . . öll stjórnvöld samanlögð . . . sem sitja yfir þegnunum og stjórna þeim, rétt eins og hinn náttúrlegi himinn er yfir jörðu og stjórnar henni.“ Um orðalagið „himinn og jörð“ segir orðabókin að ‚á spádómlegu máli lýsi orðin pólitískri stöðu manna af ólíkum stigum. Himinninn er konungsvaldið; jörðin er lýðurinn, mennirnir sem yfirboðararnir stjórna.‘

12. Hvernig rættust orðin um ‚nýjan himin og nýja jörð‘ á Gyðingum?

12 Þegar Gyðingar sneru heim í land sitt má segja að nýju kerfi hafi verið komið á. Þeir áttu sér nýja valdhafa. Serúbabel, afkomandi Davíðs konungs, var landstjóri og Jósúa var æðstiprestur. (Haggaí 1:1, 12; 2:21; Sakaría 6:11) Þeir voru ‚nýr himinn‘ yfir ‚nýrri jörð,‘ hreinsuðu þjóðfélagi manna sem voru snúnir heim í land sitt til að endurreisa Jerúsalem og musterið þar sem Jehóva var tilbeðinn. Þannig uppfylltist spádómurinn hjá Gyðingum á þeim tíma með nýjum himni og nýrri jörð.

13, 14. (a) Hvaða annað dæmi skoðum við þar sem minnst er á „nýjan himin og nýja jörð“? (b) Af hverju er spádómur Péturs sérstaklega áhugaverður núna?

13 En misstu ekki sjónar á aðalatriðinu. Þetta er hvorki æfing í biblíutúlkun né aðeins upprifjun á fornu sögubroti. Við sjáum það ef við lítum á annan stað þar sem minnst er á ‚nýjan himin og nýja jörð.‘ Þetta er 2. Pétursbréf 3. kafli þar sem við sjáum að spádómurinn tengist framtíð okkar.

14 Pétur skrifaði þetta bréf meira en 500 árum eftir að Gyðingar sneru heim frá Babýlon. Pétur var einn af postulum Jesú, þess „Drottins“ sem nefndur er í 2. Pétursbréfi 3:2, og bréfið var skrifað fylgjendum hans. Í 4. versinu nefnir Pétur ‚fyrirheitið um komu‘ Jesú sem gerir spádóminn mjög áhugaverðan núna. Það eru nægar sannanir fyrir því að nærvera Jesú hefur staðið yfir frá fyrri heimsstyrjöldinni í þeim skilningi að hann hefur verið við völd í himnesku ríki Guðs. (Opinberunarbókin 6:1-8; 11:15, 18) Þetta hefur sérstaka þýðingu í ljósi annars sem Pétur spáði í þessum kafla.

15. Hvernig er spádómur Péturs um ‚nýja himininn‘ að rætast?

15 Við lesum í 2. Pétursbréfi 3:13: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ Þú veist kannski að Jesús er krýndur á himnum núna og er aðalstjórnandi ‚nýja himinsins.‘ (Lúkas 1:32, 33) En aðrar ritningargreinar gefa til kynna að hann stjórni ekki einn. Hann lofaði því að postular sínir og fleiri slíkir myndu fara til himna. Í Hebreabréfinu kallar Páll þá ‚hluttaka himneskrar köllunar.‘ Og Jesús sagði að þessi hópur myndi sitja í hásætum með sér. (Hebreabréfið 3:1; Matteus 19:28; Lúkas 22:28-30; Jóhannes 14:2, 3) Kjarni málsins er sá að aðrir ríkja með Jesú á himnum og eru hluti nýja himinsins. Hvað er þá ‚nýja jörðin‘ sem Pétur talar um?

16. Hvaða ‚ný jörð‘ er orðin til?

16 Síðara Pétursbréf 3:13 rætist á fólki sem lýtur stjórn nýja himinsins eins og var í fortíðaruppfyllingunni þegar Gyðingar sneru heim. Milljónir manna nú á dögum lúta slíkri stjórn fagnandi, þiggja fræðslu hennar og leggja sig fram um að fara eftir lögum hennar í Biblíunni. (Jesaja 54:13) Þeir eru grundvöllur ‚nýju jarðarinnar‘ í þeim skilningi að þeir eru alheimssamfélag af öllum þjóðernum, tungumálum og kynþáttum, og þeir vinna saman undir stjórn konungsins Jesú Krists. Og það sem meira er, þú getur tilheyrt þessu samfélagi! — Míka 4:1-4.

17, 18. Af hverju eru orðin í 2. Pétursbréfi 3:13 tilefni til að horfa fram veginn?

17 En þú skalt ekki halda að þetta sé allt og sumt; að við fáum ekki frekari innsýn í framtíðina. Ef þú skoðar samhengi orðanna í 3. kafla 2. Pétursbréfs finnurðu vísbendingar um að mikil breyting sé framundan. Í 5. og 6. versi talar Pétur um Nóaflóðið sem batt enda á hinn illa heim sem þá var. Í 7. versi segir hann að „þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni,“ það er að segja bæði stjórnirnar og fólkið, geymist „til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ Þetta staðfestir að orðin ‚himnar og jörð‘ eiga ekki við alheiminn sjálfan heldur mennina og stjórnir þeirra.

18 Pétur útskýrir í versunum á eftir að hinn komandi dagur Jehóva hafi í för með sér mikla hreinsun sem ryður brautina fyrir ‚nýja himininn og nýju jörðina‘ sem nefnd eru í 13. versinu. Og taktu eftir orðunum „þar sem réttlæti býr,“ síðast í versinu. Bendir það ekki til þess að einhver stórkostleg breyting til hins betra sé í vændum? Vekur það ekki von um nýja tíma þegar menn hafa enn meira yndi af lífinu en þeir hafa núna? Ef þú kemur auga á það, þá hefurðu fengið innsýn í það sem Biblían spáir, og það eru frekar fáir sem hafa slíka innsýn.

19. Í hvaða samhengi bendir Opinberunarbókin á „nýjan himin og nýja jörð“ sem koma skal?

19 En göngum skrefi lengra. Við höfum litið á fyrsta staðinn þar sem orðin ‚nýr himinn og ný jörð‘ koma fyrir, í Jesajabók 65. kafla, og annan stað í 2. Pétursbréfi 3. kafla. Flettu nú upp á 21. kafla Opinberunarbókarinnar þar sem þú finnur þessi sömu orð. Enn sem fyrr er samhengið til skilningsauka. Tveim köflum á undan, í 19. kafla, lýsir Opinberunarbókin stríði með sterku táknmáli. En þetta er ekki stríð tveggja fjandþjóða því að annar stríðsaðilinn er „Orðið Guðs“ og þú veist sennilega að þar er átt við Jesú Krist. (Jóhannes 1:1, 14) Hann er á himnum og í sýninni eru himneskar hersveitir í för með honum. Gegn hverjum berst hann? Minnst er á „konunga,“ „herforingja“ og fólk af ýmsum stéttum, bæði ‚smáa og stóra.‘ Stríðið er þáttur í hinum komandi degi Jehóva og eyðingu illskunnar. (2. Þessaloníkubréf 1:6-10) Tuttugasti kafli Opinberunarbókarinnar hefst með lýsingu á því hvernig ‚hinum gamla höggormi, sem er djöfull og Satan,‘ er rutt úr vegi. Með þessar upplýsingar að bakhjarli skulum við snúa okkur að 21. kafla bókarinnar.

20. Hvaða merkisbreyting er framundan samkvæmt Opinberunarbókinni 21:1?

20 Upphafsorð Jóhannesar í þessum kafla eru einkar hrífandi: „Ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til.“ Með hliðsjón af því sem við höfum séð í 65. kafla Jesajabókar og 3. kafla 2. Pétursbréfs getum við verið viss um að þessi orð merkja ekki að skipt sé um hinn bókstaflega himin og reikistjörnuna jörð ásamt hafdjúpunum. Eins og fram kemur í köflunum á undan verða óguðlegir menn og stjórnir afmáðar ásamt Satan, ósýnilegum stjórnanda sínum. Hér er sem sagt lofað nýrri skipan með fólki hér á jörð.

21, 22. Hvaða loforð flytur Jóhannes okkur og hvað merkir það að þerra hvert tár?

21 Þessi niðurstaða er augljós þegar við lítum nánar á þennan stórfenglega spádóm. Þriðja versinu lýkur á því að Guð verði meðal mannanna og beini athygli sinni og góðsemi að fólki sem gerir vilja hans. (Esekíel 43:7) Jóhannes heldur svo áfram í 4. og 5. versi: „Hann [Jehóva] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ Hvílíkur spádómur!

22 Staldraðu við og njóttu þess sem Biblían boðar hér. ‚Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.‘ Varla eru þetta hin eðlilegu tár sem þvo viðkvæm augun og ekki eru það gleðitár. Nei, tárin, sem Guð mun þerra af augum manna, eru tár þjáninga, sorgar, vonbrigða, sársauka og kvala. Hvernig getum við verið viss um það? Þetta merkilega fyrirheit Guðs segir að tárin séu þerruð meðfram því að ‚dauði, harmur, vein og kvöl er ekki framar til.‘ — Jóhannes 11:35.

23. Hverju verður útrýmt samkvæmt spádómi Jóhannesar?

23 Sannar þetta ekki að krabbameini, heilablæðingum og hjartaáföllum verður útrýmt? Hver hefur ekki misst ástvin af völdum sjúkdóms, slyss eða náttúruhamfara? Guð lofar því hér að dauðinn verði ekki til framar og það bendir til þess að þau börn, sem þá kunna að fæðast, eigi það ekki fyrir sér að vaxa úr grasi til að að hrörna svo og deyja. Alzheimersjúkdómur, beinþynning, trefjavefsæxli, gláka og starblinda — sem er svo algengt í ellinni — verða ekki til framar.

24. Hvernig verður ‚nýi himinninn og nýja jörðin‘ til blessunar og hvað skoðum við í framhaldinu?

24 Þú hlýtur að fallast á að það myndi draga úr harmi og kveini ef dauði, ellihrörnun og sjúkdómar hyrfu. En hvað um örbirgð, misnotkun barna og kúgandi misrétti sökum uppruna eða litarháttar? Harmur og kvein myndu ekki hætta ef slíkt fengi að viðgangast áfram, eins algengt og það er. Þessir sorgarvaldar fá ekki að spilla lífinu ‚á nýrri jörð undir nýjum himni.‘ Hvílík breyting! En við höfum aðeins fjallað um þrjá af þeim fjórum stöðum þar sem orðin ‚nýr himinn og ný jörð‘ standa í Biblíunni. Sá síðasti tengist því sem við höfum verið að skoða og hann undirstrikar að við getum hlakkað til þess er Guð uppfyllir loforð sitt um að ‚gera alla hluti nýja.‘ Greinin á eftir fjallar um þennan spádóm og þýðingu hans fyrir okkur.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Biblíuþýðingin New English Bible orðar versið svona: „Syngið DROTTNI, allir menn á jörð.“ Contemporary English Version segir: „Allir hér á jörð, lofsyngið DROTTNI.“ Þetta kemur heim og saman við það að ‚nýja jörðin,‘ sem Jesaja talar um, er fólk Guðs heimkomið.

Manstu?

• Nefndu þrjá staði þar sem Biblían boðar „nýjan himin og nýja jörð.“

• Hvernig uppfylltist spádómurinn um „nýjan himin og nýja jörð“ á Gyðingum fortíðar?

• Hvernig á spádómur Péturs um „nýjan himin og nýja jörð“ að uppfyllast?

• Hvernig er bjartri framtíð lofað í Opinberunarbókinni 21. kafla?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 12]

Eins og Jehóva hafði boðað sneru Gyðingar heim samkvæmt leyfi Kýrusar árið 537 f.o.t.