Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Færð þú inngöngu í nýja heiminn?

Færð þú inngöngu í nýja heiminn?

Færð þú inngöngu í nýja heiminn?

„Ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist. En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ — PRÉDIKARINN 3:12, 13.

1. Af hverju getum við verið bjartsýn á framtíðina?

MARGIR ímynda sér alvaldan Guð sem strangan og kröfuharðan. En orðin hér að ofan eru innblásin af honum og koma heim og saman við það að hann er ‚sæll Guð‘ sem gaf foreldrum mannkyns jarðneska paradís fyrir heimili. (1. Tímóteusarbréf 1:11; 1. Mósebók 2:7-9) Það þarf ekki að koma á óvart að hann skuli lofa fólki sínu unaðslegu umhverfi til frambúðar.

2. Nefndu dæmi um það sem hægt er að hlakka til.

2 Í greininni á undan skoðuðum við þrjá staði af fjórum þar sem Biblían boðar „nýjan himin og nýja jörð.“ (Jesaja 65:17) Einn þessara áreiðanlegu spádóma er í Opinberunarbókinni 21:⁠1. Versin á eftir fjalla um þann tíma þegar alvaldur Guð gerbreytir aðstæðum á jörðinni til hins betra. Hann þerrar öll sorgartár. Harmur, vein og kvöl verður liðin tíð af því að fólk deyr ekki framar af völdum elli, sjúkdóma eða slysa. Hvílíkar framtíðarhorfur! En getum við verið viss um að þetta gerist? Og hvaða áhrif ætti þessi framtíðarsýn að hafa á okkur núna?

Ástæður til að treysta loforði Biblíunnar

3. Af hverju getum við treyst loforðum Biblíunnar um framtíðina?

3 Taktu eftir hvernig haldið er áfram í Opinberunarbókinni 21:⁠5. Þar er haft orðrétt eftir Guði sem situr í hásæti sínu á himni: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ Þetta loforð Guðs er betra en nokkur sjálfstæðisyfirlýsing, mannréttindayfirlýsing eða framtíðarsýn manna. Þetta er algerlega áreiðanleg yfirlýsing hans sem Biblían segir að ‚geti ekki logið.‘ (Títusarbréfið 1:⁠2) Það væri skiljanlegt ef þér fyndist við geta látið staðar numið hér, treyst Guði og notið þessarar unaðslegu framtíðarsýnar. En við þurfum ekki að láta staðar numið. Það er margt fleira sem hægt er að kynna sér í sambandi við framtíðina.

4, 5. Hvaða biblíuspádómar geta styrkt trúartraust okkar?

4 Rifjaðu aðeins upp það sem staðfest var í greininni á undan í sambandi við loforð Biblíunnar um nýjan himin og nýja jörð. Jesaja spáði nýrri skipan og spádómur hans rættist þegar Gyðingar sneru heim í land sitt og endurreistu sanna tilbeiðslu. (Esrabók 1:1-3; 2:1, 2; 3:12, 13) En var það allt og sumt sem spádómurinn fól í sér? Aldeilis ekki. Það sem hann boðaði átti að uppfyllast á enn stórkostlegri hátt löngu eftir hans dag. Af hverju drögum við þá ályktun? Af orðunum í 2. Pétursbréfi 3:13 og Opinberunarbókinni 21:1-5. Þar er bent á ‚nýjan himin og nýja jörð‘ sem verður kristnum mönnum um allan heim til hagsbóta.

5 Eins og áður er nefnt talar Biblían fjórum sinnum um „nýjan himin og nýja jörð.“ Við höfum skoðað þrjá þessara staða og komist að mjög hvetjandi niðurstöðu. Í stuttu máli þá boðar Biblían að Guð afmái illskuna og annað sem veldur þjáningum og blessi síðan mannkynið áfram í fyrirheitnu, nýju heimskerfi sínu.

6. Hvað boðar fjórði spádómurinn um „nýjan himin og nýja jörð“?

6 Við skulum nú líta síðasta staðinn af þeim fjórum þar sem talað er um ‚nýjan himin og nýja jörð.‘ Þetta er Jesajabók 66:22-24 þar sem stendur: „Eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti — segir [Jehóva] — eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt. Og á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér — segir [Jehóva]. Þeir munu ganga út og sjá hræ þeirra manna, er rofið hafa trú við mig. Því að ormur þeirra mun ekki deyja og eldur þeirra ekki slokkna, og þeir munu viðurstyggð vera öllu holdi.“

7. Hvers vegna getum við ætlað að Jesaja 66:22-24 rætist í framtíðinni?

7 Þessi spádómur rættist hjá Gyðingum er þeir settust aftur að í landi sínu, en hann á sér líka aðra uppfyllingu. Hún hlýtur að eiga sér stað einhvern tíma eftir að Síðara Pétursbréf og Opinberunarbókin voru skrifuð því að þar er talað um ‚nýjan himin og nýja jörð‘ framtíðarinnar. Við megum búast við stórfenglegri lokauppfyllingu í nýja heiminum. Lítum á sumt af því sem við getum hlakkað til.

8, 9. (a) Í hvaða skilningi mun fólk Guðs ‚standa stöðugt‘? (b) Hvað þýðir það að þjónar Jehóva tilbiðji hann „á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn“?

8 Opinberunarbókin 21:4 segir að dauðinn verði ekki til framar og það kemur heim og saman við Jesaja 66. kafla. Ljóst er af 22. versi að Jehóva veit að „hinn nýi himinn og hin nýja jörð“ eru ekki til bráðabirgða. Og fólk hans mun ‚standa stöðugt‘ frammi fyrir honum. Það sem Guð hefur gert nú þegar fyrir útvalda þjóna sína er einkar traustvekjandi. Reynt hefur verið að útrýma sannkristnum mönnum og þeir hafa verið ofsóttir með grimmd og ofstæki. (Jóhannes 16:2; Postulasagan 8:⁠1) En öflugum óvinum á borð við Neró Rómarkeisara og Adolf Hitler tókst ekki að útrýma hollum þjónum Jehóva. Hann hefur verndað söfnuð þjóna sinna og við megum vera viss um að hann gerir það til frambúðar.

9 Trúir þjónar Guðs tilheyra nýju jörðinni sem er samfélag sannra tilbiðjenda hans í nýja heiminum, og þeir munu standa vegna þess að þeir tilbiðja skapara allra hluta í hreinleika. Tilbeiðsla þeirra verður ekki tækifæris- eða tilviljunarkennd. Lögmálið, sem Guð gaf Ísrael fyrir milligöngu Móse, kvað á um vissar tilbeiðsluathafnir í hverjum mánuði með nýrri tunglkomu, og í hverri viku á hvíldardeginum. (3. Mósebók 24:5-9; 4. Mósebók 10:10; 28:9, 10; 2. Kroníkubók 2:4) Jesaja 66:23 bendir þannig á reglulega og samfellda tilbeiðslu á Guði viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Guðleysi og trúhræsni verður ekki til heldur mun „allt hold koma til þess að falla fram fyrir“ Jehóva.

10. Af hverju geturðu treyst að óguðlegir menn fái ekki að spilla nýja heiminum?

10 Jesaja 66:24 fullvissar okkur um að friði og réttlæti nýju jarðarinnar verði aldrei stofnað í hættu. Óguðlegir menn fá ekki að spilla henni. Þú manst að í 2. Pétursbréfi 3:7 er bent á að sá dagur sé framundan ‚þegar óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.‘ Það eru „óguðlegir menn“ sem líða undir lok en hinir saklausu verða óhultir, ólíkt því sem gerist oft í styrjöldum manna þar sem fleiri óbreyttir borgarar falla en hermenn. Dómarinn mikli lofar því að það verði óguðlegir menn sem tortímast.

11. Hvernig fer fyrir þeim sem snúast gegn Guði og tilbeiðslunni á honum?

11 Hinir réttlátu lifa áfram og sjá spádómsorð Guðs rætast. Vers 24 segir að „hræ þeirra manna, er rofið hafa trú við“ Jehóva, verði sönnun fyrir dómi hans. Þessi berorða lýsing Jesaja er byggð á sögulegum staðreyndum, þó svo að okkur þykir kannski nóg um þegar við lesum hana. Sorphaugar voru utan við múra Jerúsalemborgar að fornu og stundum var hent þangað líkum glæpamanna eftir aftöku sem ekki voru taldir verðskulda heiðvirða greftrun. * Ormar og eldur eyddu fljótt bæði sorpi og líkum þessara manna. Jesaja notaði þetta myndmál til að leggja áherslu á hve endanlegur dómur Jehóva sé yfir þeim sem brjóta lög hans.

Það sem hann hefur heitið

12. Hvað annað um lífið í nýja heiminum upplýsir Jesaja?

12 Opinberunarbókin 21:4 bendir á að sumt verði ekki til í hinum komandi nýja heimi. En hvað verður þá til? Hvernig verður tilveran? Höfum við einhverjar áreiðanlegar vísbendingar um það? Já, spádómurinn í 65. kafla Jesajabókar lýsir því við hvaða ástand við fáum að búa ef Jehóva leyfir okkur að lifa þegar hann skapar nýjan himin og nýja jörð í endanlegum skilningi. Þeir sem fá að búa við varanlegan frið á nýju jörðinni munu ekki hrörna og deyja. Tuttugasta versið lofar: „Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður.“

13. Hvernig er því heitið í Jesaja 65:20 að fólk Guðs fái að búa við öryggi?

13 Þegar þetta vers rættist fyrst á þjóð Jesaja merkti það að ungbörn væru óhult í landinu. Engir óvinir myndu koma, eins og Babýloníumenn gerðu einu sinni, til að taka með sér ungbörn eða brytja niður menn í blóma lífsins. (2. Kroníkubók 36:17, 20) Í nýja heiminum getur fólk notið lífsins óhult og öruggt og uppreisnarmenn verða fjarlægðir. Jafnvel þótt uppreisnarmaðurinn sé hundrað ára deyr hann sem ‚ungur maður‘ í samanburði við þann sem lifir að eilífu. — 1. Tímóteusarbréf 1:19, 20; 2. Tímóteusarbréf 2:16-19.

14, 15. Hvaða starfa geturðu hlakkað til samkvæmt Jesaja 65:21, 22?

14 En Jesaja fjallar ekki nánar um það hvernig þrjóskur syndari verður afmáður heldur lýsir lífsskilyrðunum í nýja heiminum. Reyndu að sjá sjálfan þig inni í myndinni. Ætli heimilið og fjölskyldan sé ekki það fyrsta sem þér dettur í hug? Jesaja fjallar um það í 21. og 22. versi: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.“

15 Ef þú hefur litla reynslu af smíðum eða garðyrkju má ráða af spádóminum að einhver fræðsla bíði þín. En værirðu ekki fús til að læra af hæfum og reyndum kennurum, kannski vingjarnlegum nágrönnum sem rétta þér hjálparhönd? Jesaja lætur ósagt hvort menn byggi sér hús með stórum, óglerjuðum gluggum þannig að hægt sé að hleypa inn hlýrri golunni á suðlægari slóðum, eða hvort menn horfi á árstíðaskiptin út um glerjaða glugga. Ætlarðu að hanna húsið með hallandi þaki svo að regn og snjór renni af því eða býður loftslagið upp á flatt þak, eins og í Miðausturlöndum, þar sem fjölskyldan getur sest niður til að matast eða rabba saman? — 5. Mósebók 22:8; Nehemíabók 8:⁠16.

16. Af hverju máttu búast við að nýi heimurinn uppfylli allar langanir þínar?

16 Þó að þetta sé áhugavert skiptir meira máli að eiga eigið húsnæði. Þetta verður þitt húsnæði — ekki eins og algengt er núna þegar einn þrælar við að byggja en annar nýtur góðs af erfiði hans. Jesaja 65:21 nefnir líka að þú munir planta og eta ávöxtinn. Þetta lýsir ástandinu í hnotskurn. Þú hefur ómælt yndi af erfiði þínu og handaverki og átt langa ævi fyrir höndum — „sem aldur trjánna.“ Það hæfir svo sannarlega þeirri lýsingu að ‚allt verði nýtt.‘ — Sálmur 92:13-15.

17. Hvaða loforð er sérstaklega hvetjandi fyrir foreldra?

17 Ef þú átt börn hljóta þessi orð að snerta hjarta þitt: „Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim. Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra.“ (Jesaja 65:23, 24) Þekkirðu af eigin raun þann sársauka að geta börn til ónæðis, erfiðleika eða „skammlífis“? Það er óþarfi að tíunda öll þau vandamál barna sem hafa í för með sér ónæði og erfiðleika fyrir foreldra og aðra. Og öll höfum við séð til foreldra sem eru svo uppteknir af starfi sínu, áhugamálum eða skemmtanalífi að þeir sinna börnunum lítið. En Jehóva lofar að hlusta á okkur og fullnægja þörfum okkar og segist jafnvel sjá þær fyrir.

18. Af hverju má búast við að dýrin verði til yndisauka í nýja heiminum?

18 Sjáðu fyrir þér myndina sem spádómsorð Guðs dregur upp af nýja heiminum: „Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra — segir [Jehóva].“ (Jesaja 65:25) Listmálarar hafa reynt að mála myndir eftir þessari lýsingu, en þetta er enginn skáldskapur heldur veruleiki. Friður mun ríkja meðal manna jafnt sem dýra. Líffræðingar og dýravinir eyða margir bestu æviárunum í að fræðast um fáeinar dýrategundir eða jafnvel eina. En hugsaðu þér hvað þú getur lært þegar dýrin óttast manninn ekki lengur. Þá geturðu notið þess að nálgast, skoða og læra af fuglum og smádýrum úti í náttúrunni. (Jobsbók 12:7-9) Og þú getur gert það án þess að þér sé nokkur hætta búin. „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra,“ segir Jehóva. Hvílík breyting frá því sem nú er!

19, 20. Hvers vegna er fólk Guðs harla ólíkt flestum öðrum?

19 Eins og áður er nefnt eru menn ófærir um að segja framtíðina fyrir með nokkurri vissu, þrátt fyrir útbreiddan áhuga á nýrri árþúsund. Margir eru vonsviknir, ráðvilltir eða örvæntingarfullir. Peter Emberley, sem er stjórnandi við kanadískan háskóla, skrifar að margir séu „loksins farnir að horfast í augu við grundvallarspurningar tilverunnar. Hver er ég? Hverju er ég eiginlega að keppa að? Hvað eftirlæt ég næstu kynslóð? Þeir eru að streitast við að finna tilganginn með lífi sínu og koma reglu á það um miðjan aldur.“

20 Þú skilur áreiðanlega af hverju margir standa í þessum sporum. Þeir reyna kannski að njóta tilverunnar með því að leggja stund á áhugavert tómstundagaman eða afþreyingu. En þeir vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sínu svo að þeim finnst lífið skorta gildi, reglu og raunverulegan tilgang. Berðu svo líf þitt saman við líf þeirra með hliðsjón af því sem við höfum fjallað um. Þú veist að á hinni fyrirheitnu nýju jörð undir nýjum himni getum við horft í kringum okkur og sagt af heilum hug: ‚Guð hefur svo sannarlega gert alla hluti nýja.‘ Það verður unaðslegt.

21. Hvað er sameiginlegt með Jesaja 65:25 og Jesaja 11:⁠9?

21 Það er enginn hroki af okkar hálfu að sjá sjálf okkur í nýjum heimi Guðs. Hann býður okkur og hvetur til að tilbiðja sig í sannleika núna og vera hæf til að fá að lifa þegar ‚enginn mun illt fremja eða skaða gjöra á heilögu fjalli hans.‘ (Jesaja 65:25) En vissirðu að það er svipaða lýsingu að finna fyrr í bók Jesaja og að þar nefnir hann nokkuð sem skiptir miklu máli til að við getum notið þess að lifa í nýja heiminum? Jesaja 11:9 segir: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“

22. Í hverju ættum við að vera staðráðin eftir að hafa kynnt okkur fjóra biblíuspádóma?

22 ‚Þekking á Jehóva.‘ Þegar Guð gerir alla hluti nýja munu jarðarbúar þekkja hann og vilja hans nákvæmlega. Það er þekking á innblásnu orði hans, ekki aðeins á heimi dýranna. Hugsaðu þér hve mikið við höfum lært af aðeins fjórum spádómum um „nýjan himin og nýja jörð.“ (Jesaja 65:17; 66:22; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:⁠1) Það er ærið tilefni fyrir þig til að lesa daglega í Biblíunni. Gerðirðu það? Ef ekki, hvað geturðu þá gert til að lesa eitthvað á hverjum degi sem Guð hefur fram að færa? Þú kemst að raun um að daglegur biblíulestur auðgar líf þitt eins og hann auðgaði líf sálmaritarans, auk þess að halda voninni um nýjan heim ljóslifandi fyrir hugskotssjónum þínum. — Sálmur 1:1, 2

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi. bls. 906, útg. af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Hvert er svarið?

• Af hverju má álykta að Jesaja 66:22-24 fjalli um óorðna atburði?

• Hvað finnst þér sérstakt tilhlökkunarefni miðað við spádómana í Jesaja 66:22-24 og Jesaja 65:20-25?

• Hvaða ástæðu hefurðu til að treysta á bjarta framtíð?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 17]

Jesaja, Pétur og Jóhannes spáðu ‚nýjum himni og nýrri jörð.‘