Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guðspjöllin — deilurnar halda áfram

Guðspjöllin — deilurnar halda áfram

Guðspjöllin — deilurnar halda áfram

Eru frásagnir guðspjallanna af fæðingu Jesú sannar?

Flutti hann fjallræðuna?

Reis hann upp frá dauðum?

Sagði hann virkilega: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“? — JÓHANNES 14:6.

EINIR 80 fræðimenn hafa fjallað um spurningar sem þessar á Málþinginu um Jesú sem haldið hefur verið tvisvar á ári síðan 1985. Óvenjuleg aðferð er notuð til að leita svara við slíkum spurningum því að greidd eru atkvæði um hver einustu ummæli sem eignuð eru Jesú í guðspjöllunum. Rautt atkvæði merkir að ummælin séu talin ósvikin orð Jesú. Bleikt atkvæði þýðir að orðin líkist einhverju sem hann kynni að hafa sagt. Grátt atkvæði merkir að hugmyndin líkist ef til vill afstöðu Jesú en orðin séu ekki hans. Svart atkvæði táknar þvert nei og er greitt ef menn telja að orðin séu byggð á síðari tíma arfsögnum.

Með þessari aðferð hafa málþingsmenn svarað öllum fjórum spurningunum hér að framan neitandi. Reyndar hafa 82 prósent þeirra orða, sem eignuð eru Jesú í guðspjöllunum, fengið svart atkvæði. Að mati málþingsmanna virðast aðeins 16 prósent þeirra atburða, sem guðspjöllin og önnur rit segja frá í tengslum við Jesú, vera ósvikin.

Slík gagnrýni á guðspjöllin er engin nýlunda. Hermann Reimarus, prófessor í austurlandatungum í Hamborg, lét eftir sig 1400 blaðsíðna handrit sem gefið var út árið 1774. Þar viðrar Reimarus djúpstæðar efasemdir um sannindagildi guðspjallanna. Hann byggði niðurstöður sínar á málvísindalegum rannsóknum og á mótsögnum sem hann taldi sig hafa fundið í frásögum guðspjallanna fjögurra af ævi Jesú. Þaðan í frá hafa gagnrýnendur viðrað óspart efasemdir sínar um sögugildi guðspjallanna og það hefur að einhverju marki grafið undan trausti almennings til þessara heimilda.

Þessir fræðimenn eiga það allir sammerkt að líta á guðspjöllin sem trúarskáldskap allmargra manna. Efunarmenn þessir spyrja yfirleitt sömu spurninga: Er hugsanlegt að guðspjallaritararnir hafi fært frásögurnar í stílinn vegna trúarskoðana sinna? Ætli valdabarátta innan hins ungkristna samfélags hafi komið þeim til að skreyta sögu Jesú eða skálda við hana? Hvar skyldu guðspjöllin fara satt og rétt með og hvar ekki?

Í þjóðfélögum þar sem áhrif trúar og kirkju eru lítil er það almenn skoðun að Biblían, þar á meðal guðspjöllin, sé samsafn helgi- og ýkjusagna. Sumum blöskrar blóðsúthellingar, kúgun, sundrung og óguðlegt hátterni kristna heimsins í aldanna rás. Þeir ímynda sér að ritsmíðar, sem eru kveikja slíkrar trúhræsni, geti ekki verið annað en fánýtur uppspuni og finnst ekki ástæða til að glugga í þær.

Hvað finnst þér? Áttu að láta fræðimenn, sem véfengja sögugildi guðspjallanna, stjórna skoðunum þínum? Áttu að láta yfirlýsingar um meintan trúarskáldskap guðspjallamannanna veikja tiltrú þína á verk þeirra? Áttu að láta syndasögu kristna heimsins vekja efasemdir hjá þér um áreiðanleika guðspjallanna? Við hvetjum þig til að kynna þér nokkrar staðreyndir.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Eru guðspjöllin sannsöguleg eða skáldskapur?

[Credit line]

Jesús gengur á vatninu/The Doré Bible Illustrations/Dover Publications

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

Bakgrunnur á bls. 3-5 og 8: Með góðfúslegu leyfi Freer Gallery of Art, Smithsonian Institution, Washington, D.C.