Guðspjöllin — sannsöguleg eða skáldskapur?
Guðspjöllin — sannsöguleg eða skáldskapur?
SAGAN af Jesú frá Nasaret — unga manninum sem breytti gangi veraldarsögunnar — er samgróin þjóðfélaginu. Hún er hluti af menntun okkar og menningu. Í hugum margra eru guðspjöllin uppspretta sígildra sanninda. Þaðan eru komin spakmæli eins og: ‚Já yðar sé já og nei sé nei.‘ (Matteus 5:37) Kannski hafa foreldrar þínir kennt þér margt sem byggist á frásögnum guðspjallanna.
Milljónir manna hafa hrifist svo af lýsingu guðspjallanna á Kristi að þær hafa verið fúsar til að þjást og deyja fyrir hann. Frásagnirnar hafa veitt þeim innblástur hugrekkis, þolgæðis, trúar og vonar. Menn skyldu því ekki vísa guðspjöllunum á bug án haldbærra sannana. Þegar á það er litið hve gríðarleg áhrif þau hafa haft á hugsun manna og hátterni er eðlilegt að krefjast öruggra sannana af hverjum þeim sem vill gera þau tortryggileg.
Við hvetjum þig til að líta á nokkrar athyglisverðar spurningar viðvíkjandi guðspjöllunum. Kynntu þér sjálfur afstöðu nokkurra fræðimanna sem sumir kalla sig ekki einu sinni kristna. Síðan geturðu dregið sjálfstæðar ályktanir byggðar á vitneskju.
SPURNINGAR TIL ÍHUGUNAR
◆ Er hugsanlegt að guðspjöllin séu meistaraleg blekking?
Robert Funk, stofnandi Málþingsins um Jesú, fullyrðir að „Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes hafi ‚markaðssett Messías‘ þannig að hann samrýmdist hinni kristnu kenningu sem þróaðist eftir dauða Jesú.“ En margir samtíðarmenn Jesú voru enn á lífi þegar guðspjöllin voru í smíðum, og þeir höfðu heyrt hann tala, horft á hann að verki og séð hann upprisinn. Ekki ásökuðu þeir guðspjallaritarana um fölsun af neinu tagi.
Lítum á dauða Krists og upprisu sem dæmi. Áreiðanlegar frásagnir af því er að finna bæði í guðspjöllunum og fyrra bréfi Páls postula til kristinna manna í Korintu. Páll skrifaði: „Það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.“ (1. Korintubréf 15:3-8) Þessir sjónarvottar stóðu vörð um hina sönnu sögu af ævi Jesú.
Í kristnu Grísku ritningunum vottar hvergi fyrir þeirri uppfinningagáfu sem gagnrýnendur okkar tíma vilja vera láta. Hins vegar stingur hún upp kollinum í ritum frá annarri öld í samfélögum sem gerðust fráhverf sannri kristni. Þá urðu til sögur um Krist sem áttu sér engan grunn í Ritningunni. — Postulasagan 20:28-30.
◆ Getur hugsast að guðspjöllin séu þjóðsögur einar?
Rithöfundurinn og gagnrýnandinn C. S. Lewis á erfitt með að líta á guðspjöllin sem þjóðsögur einar. „Sem bókmennta- og sagnfræðingur er ég fullkomlega sannfærður um að guðspjöllin eru að minnsta kosti ekki þjóðsögur,“ skrifar hann. „Þau eru ekki nógu listræn til að vera þjóðsögur. . . . Við vitum mest lítið um ævi Jesú og þjóðsagnahöfundar myndu aldrei láta þar við sitja.“ Hinn kunni sagnfræðingur H. G. Wells taldi sig ekki kristinn en umsögn hans er athyglisverð: „Guðspjöllin fjögur eru samhljóða í því að draga upp mjög skýra persónumynd; þau hafa á sér . . . veruleikablæ. “
Lítum á dæmi þar sem Jesús birtist postulum sínum upprisinn. Góður þjóðsagnahöfundur hefði líklega sviðsett stórbrotna endurkomu og látið Jesú flytja tímamótaræðu eða baða sig í ljóma og dýrð. En guðspjallaritararnir segja einfaldlega að hann hafi staðið frammi fyrir lærisveinunum og spurt: „Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“ (Jóhannes 21:4, 5) Fræðimaðurinn Gregg Easterbrook bendir á að „svona drættir séu merki sannrar söguritunar en ekki goðsagnagerðar.“
Sú ásökun að guðspjöllin séu þjóðsögur strandar líka á einstaklega strangri kennsluaðferð rabbína sem var í tísku um þær mundir sem guðspjöllin voru skrifuð. Hún var fólgin í utanbókarlærdómi sem byggðist á endurtekningum og það stuðlaði að því að orð og verk Jesú varðveittust nákvæmlega rétt og hindraði að sama skapi að fært væri í stílinn.
◆ Hefði verið hægt að semja þjóðsögur um Jesú svona skömmu eftir dauða hans?
Samkvæmt bestu fáanlegu heimildum voru guðspjöllin rituð á árabilinu 41 til 98 e.o.t. Jesús dó árið 33 þannig að frásögurnar af ævi hans voru samdar tiltölulega stuttu eftir að þjónustu hans lauk. Þetta setur þá sem halda því fram að guðspjöllin séu þjóðsögur í verulegan vanda því að þjóðsögur myndast og þróast á alllöngum tíma. Svo dæmi sé nefnt telja sumir að texti Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu forngríska ljóðskáldsins Hómers hafi verið nokkrar aldir í mótun. En hvað um guðspjöllin?
Sagnfræðingurinn Will Durant segir í bók sinni Rómaveldi: „Ef fáeinir einfaldir alþýðumenn hefðu . . . búið til svo máttugan og hrífandi persónuleika, svo háleita siðfræði og svo frjóvgandi framtíðarsýn um bræðralag mannanna, þá hefði það í sannleika verið enn meira undur heldur en nokkurt þeirra kraftaverka sem frá er sagt í guðspjöllunum. Eftir tveggja alda Biblíurýni stendur ævisaga Krists, einkenni hans og kenningar óhaggaðar, dýrlegasti þátturinn í sögu vestrænna manna.“ *
◆ Voru guðspjöllin snyrt og stílfærð eftir á til samræmis við þarfir hins ungkristna samfélags?
Sumir gagnrýnendur halda því fram að guðspjallaritararnir hafi skreytt og stílfært sögu Jesú vegna valdatafls innan hins ungkristna samfélags. En nákvæm skoðun á guðspjöllunum sýnir að engar slíkar „lagfæringar“ voru gerðar. Það er með ólíkindum að frásögunum af Jesú hafi verið breytt í einhverju leynimakki kristinna manna á fyrstu öld, þegar á það er litið að enn þá stendur ýmislegt miður gott um Gyðinga og heiðingja í textanum.
Nefna má dæmi um þetta í Matteusi 6:5-7 þar sem haft er eftir Jesú: „Þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“ Þetta er greinileg fordæming á trúarleiðtogum Gyðinga. Áfram hélt Jesús: „Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.“ Guðspjallaritararnir voru ekki að reyna að afla sér fylgjenda þegar þeir höfðu þetta eftir Jesú; þeir greindu einfaldlega satt og rétt frá orðum hans.
Tökum annað dæmi — frásagnirnar af konunum sem komu að gröf Jesú og fundu hana tóma. (Markús 16:1-8) Gregg Easterbrook bendir á að „í félagsfræði Miðausturlanda til forna hafi vitnisburður kvenna ekki verið talinn traustvekjandi eðli málsins samkvæmt. Til dæmis nægði framburður tveggja karla til að sakfella konu fyrir hórdóm en það var aldrei hægt að sakfella karlmann vegna framburðar konu.“ Lærisveinar Jesú trúðu konunum ekki einu sinni. (Lúkas 24:11) Það hlýtur að teljast ósennilegt að slík saga hafi verið skálduð af ásettu ráði.
Sú staðreynd að engar dæmisögur finnast í Postulasögunni eða bréfunum leggst eindregið á sveif með því að dæmisögurnar í guðspjöllunum séu ekki tilbúningur frumkristinna manna heldur hreinræktuð orð Jesú. Og nákvæmur samanburður á guðspjöllunum og bréfunum leiðir í ljós að menn hafa ekki ummyndað orð Páls eða annarra biblíuritara þess tíma og eignað þau Jesú. Ef hið ungkristna samfélag hefði gert það myndum við að minnsta kosti finna eitthvað úr bréfunum endurtekið í guðspjöllunum. En um það eru engin dæmi svo að við hljótum að álykta að efni guðspjallanna sé ósvikið og upprunalegt.
◆ Eru mótsagnir í guðspjöllunum?
Gagnrýnendur hafa löngum haldið því fram að guðspjöllin séu full af mótsögnum. Sagnfræðingurinn Will Durant lagði sig fram um að skoða frásagnir guðspjallanna fullkomlega hlutlægt, sem sagnaheimildir. Hann segir að vísu að ýmsar missagnir sýnist vera á þeim en meginniðurstaðan er þessi: „Missagnirnar eru um smáatriði, en ekki um meginefni; í því sem mestu varðar ber samstofna guðspjöllunum tiltakanlega vel saman, og þau bregða upp heilsteyptri mynd af Frelsaranum.“
Oft þarf ekki mikið til að skýra það sem virst getur missögn við fyrstu sýn. Lítum á dæmi: Matteus 8:5 segir að ‚hundraðshöfðingi hafi gengið til Jesú og beðið hann‘ að lækna þjón sinn. Í Lúkasi 7:3 stendur að hundraðshöfðinginn hafi ‚sent til hans öldunga Gyðinga og beðið hann að koma og bjarga lífi þjónsins.‘ Ljóst er að öldungarnir komu til Jesú í umboði hundraðshöfðingjans. Matteus orðar það þannig að hundraðshöfðinginn hafi sjálfur beðið Jesú þessa af því að hann kom beiðninni á framfæri fyrir milligöngu öldunganna. Þeir voru talsmenn hans. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum sem sýna hvernig hægt er að skýra það sem menn ætla vera mis- og mótsagnir í guðspjöllunum.
Hvað um þá ásökun æðri gagnrýnenda að guðspjöllin standist ekki þær kröfur sem gera þarf til raunsannrar sagnaritunar? Durant heldur áfram: „Í ákefð sinni hefur hin ‚æðri gagnrýni‘ tekið Nýja testamentið svo ströngum tökum að með sömu aðferð mætti þurrka út fjölmarga ágæta fornaldarmenn — til dæmis Hammúrabi, Davíð konung og Sókrates. Guðspjallamennirnir eru alteknir af heitri sannfæringu, en þó skýra þeir frá mörgum atriðum sem hreinir uppspunamenn hefðu dulið. Skal hér til dæmis nefnd keppni postulanna um tignarsæti í ríki Jesú, flótti þeirra eftir handtöku hans, afneitun Péturs, . . . Enginn sem les þessar frásagnir fær efazt um að þar sé lýst raunverulegri persónu.“
◆ Er nútímakristni verðugur fulltrúi þess Jesú sem guðspjöllin segja frá?
Málþingið um Jesú staðhæfir að guðspjallarannsóknir sínar séu „ekki háðar tilskipunum kirkjuþinga.“ En H. G. Wells var ljóst að það var hyldýpisgjá milli kenninga kristna heimsins og kenninga Jesú eins og þær koma fram í guðspjöllunum. Hann skrifaði: „Ekkert bendir til þess að postular Jesú hafi nokkurn tíma heyrt minnst á þrenninguna, að minnsta kosti ekki hjá honum. . . . [Jesús] sagði ekki aukatekið orð um dýrkun móður sinnar Maríu í gervi himnadrottningarinnar Ísisar. Hann sniðgekk allt sem einkennir dýrkun og siði kristninnar hvað mest.“ Kenningar kristna heimsins eru því enginn mælikvarði á gildi guðspjallanna.
HVER ER NIÐURSTAÐAN?
Hvað finnst þér eftir að hafa kynnt þér málið? Liggja sannfærandi rök fyrir því að guðspjöllin séu skáldskapur og goðsagnir? Margir komast að raun um að efasemdir þeirra um áreiðanleika guðspjallanna eru á veikum grunni reistar og ósannfærandi. Til að mynda þér sjálfstæða skoðun þarftu að lesa guðspjöllin án fordóma. (Postulasagan 17:11) Þegar þú ígrundar samræmið, heiðarleikann og nákvæmnina í lýsingum þeirra á persónu Jesú rennur upp fyrir þér að þau eru greinilega ekki samsafn þjóð- og goðsagna. *
Ef þú kynnir þér Biblíunar vel og ferð eftir ráðleggingum hennar kemstu að raun um að hún getur breytt lífi þínu til hins betra. (Jóhannes 6:68) Þar vega orð Jesú í guðspjöllunum einna þyngst. Og þar geturðu fræðst um stórkostlega framtíð sem hlýðnir menn eiga í vændum. — Jóhannes 3:16; 17:3, 17.
[Neðanmáls]
^ gr. 16 Bókin heitir á frummálinu The Story of Civilization III, Caesar and Christ. Íslensk þýðing: Jónas Kristjánsson.
^ gr. 29 Sjá 5. til 9. kafla bókarinnar The Bible — God’s Word or Man’s? og bæklinginn Bók fyrir alla menn, hvort tveggja gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 7]
Merki ósvikinnar frásagnar
ÁSTRALSKUR handritahöfundur og fyrrverandi biblíugagnrýnandi viðurkenndi fyrir allnokkrum árum: „Í fyrsta sinn á ævinni gerði ég það sem yfirleitt er talin fyrsta skylda fréttamanns: að sannprófa staðreyndirnar. . . . Og ég varð höggdofa af því að það sem ég las [í guðspjöllunum] var hvorki munnmælasögur né natúralískur skáldskapur. Þetta voru fréttafrásagnir; lýsingar sjónarvotta eða milliliða á óvenjulegum atburðum. . . . Fréttaflutningur hefur ákveðinn blæ og þennan blæ finnum við í guðspjöllunum.“
E. M. Blaiklock, prófessor í fornklassískum bókmenntum við háskólann í Auckland á Nýja-Sjálandi, tók í sama streng: „Ég þykist vera sagnfræðingur. Ég nálgast klassískar bókmenntir sem sagnfræðingur. Og ég get fullyrt að ummerkin um ævi Krists, dauða og upprisu eru sterkari en flestar staðreyndir fornsögunnar.“
[Kort/myndir á blaðsíðu 8, 9]
FÖNIKÍA
GALÍLEA
Jórdan
JÚDEA
[Myndir]
„Ummerkin um ævi Krists, dauða og upprisu eru sterkari en flestar staðreyndir fornsögunnar.“ — PRÓFESSOR E. M. BLAIKLOCK
[Credit line]
Bakgrunnur er byggður á kortum í eigu Pictorial Archive (Near Eastern History) Est. og Survey of Israel.