Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haltu þig staðfastlega við kenningu Guðs

Haltu þig staðfastlega við kenningu Guðs

Haltu þig staðfastlega við kenningu Guðs

„Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 3:5, 6.

1. Hvernig er aðgengi að þekkingu nú á tímum?

GEFIN eru út um 9000 dagblöð í heiminum. Á hverju ári koma á markað um 200.000 nýjar bækur í Bandaríkjunum einum. Talið er að í mars 1998 hafi verið nálægt 275 milljónum vefsíðna á Netinu og sagt er að í hverjum mánuði bætist við 20 milljónir. Fólk hefur greiðari aðgang en nokkru sinni fyrr að upplýsingum um nánast hvað sem er. Þetta er jákvætt á sinn hátt en upplýsingaofgnóttin hefur líka skuggahliðar.

2. Hvaða vandamál geta fylgt greiðum aðgangi að upplýsingaofgnóttinni?

2 Þess eru dæmi að fólk sé gripið svo óseðjandi upplýsingafíkn að það eyði öllum stundum í það að reyna að afla sér vitneskju um allt það nýjasta en vanræki það sem meira máli skiptir. Sumir viða að sér einhverri vitneskju á flóknu þekkingarsviði og telja sig svo vera sérfræðinga. Með takmarkaðan skilning í farteskinu taka þeir svo örlagaríkar ákvarðanir sem geta verið sjálfum þeim eða öðrum til tjóns. Og hættan á röngum, öfgakenndum eða ónákvæmum upplýsingum er alltaf fyrir hendi. Oft er engin leið að sannprófa allar þær upplýsingar sem að manni streyma.

3. Hvernig varar Biblían við mannlegri speki?

3 Forvitnin er manninum í blóð borin. Hættan á því að eyða of miklum tíma í leit að gagnslausum eða jafnvel skaðlegum upplýsingum var þekkt á dögum Salómons konungs. „Þýðstu viðvaranir,“ sagði hann. „Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.“ (Prédikarinn 12:12) Páll postuli skrifaði Tímóteusi öldum síðar: „Varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar, sem nokkrir hafa játast undir og orðið frávillingar í trúnni.“ (1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Já, kristnir menn þurfa að varast óþarfa snertingu við skaðlegar hugmyndir.

4. Nefndu dæmi um hvernig við getum sýnt traust okkar á Jehóva og kenningum hans.

4 Fólk Jehóva ætti að fara eftir hvatningunni í Orðskviðunum 3:5, 6: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Að treysta Jehóva merkir að hafna sérhverri hugmynd sem stangast á við orð hans, hvort sem hún er sprottin af okkar eigin hugsunum eða annarra. Það er nauðsynlegt að þjálfa skilningarvitin svo að við getum borið kennsl á skaðlegar upplýsingar og forðast þær. (Hebreabréfið 5:14) Þannig varðveitum við andlegt hugarfar. Við skulum kanna hvaðan slíkar upplýsingar geta borist.

Heimur á valdi Satans

5. Nefndu eina uppsprettu skaðlegra hugmynda. Hver stendur að baki henni?

5 Heimurinn er þrotlaus uppspretta skaðlegra hugmynda. (1. Korintubréf 3:19) Jesús Kristur bað til Guðs fyrir lærisveinunum: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa [„hinum vonda,“ NW].“ (Jóhannes 17:15) Beiðnin um að varðveita lærisveinana frá „hinum vonda“ er viðurkenning á ítökum Satans í heiminum. Þó að við séum kristin erum við ekki ónæm fyrir slæmum áhrifum frá heiminum. „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ skrifaði Jóhannes. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Sökum þess hve langt er liðið á hina síðustu daga er skiljanlegt að Satan og illir andar hans skuli hafa fyllt heiminn skaðlegum upplýsingum.

6. Hvernig getur skemmtanaheimurinn slævt siðferðisvitundina?

6 Það er líka við því að búast að sumt af þessu skaðlega efni virðist skaðlaust. (2. Korintubréf 11:14) Taktu skemmtanaiðnaðinn sem dæmi — alla sjónvarpsþættina, kvikmyndirnar, tónlistina og prentmálið. Æ oftar hampar það mannskemmandi hátterni eins og siðleysi, ofbeldi og fíkniefnaneyslu, um það eru margir sammála. Þegar ákveðið skemmtanaform eða skemmtiefni tekur nýja dýfu niður á við blöskrar mönnum í fyrstu en svo getur endurtekningin gert fólk ónæmt fyrir því. Aldrei skyldum við álíta skemmtun, sem heldur á loft skaðlegum hugmyndum, boðlega eða skaðlausa. — Sálmur 119:37.

7. Hvers konar mannleg viska getur grafið undan trausti okkar til Biblíunnar?

7 Til eru fræðimenn og vísindamenn sem véfengja áreiðanleika Biblíunnar og ryðja frá sér upplýsingum sem geta verið skaðlegar. (Samanber Jakobsbréfið 3:15.) Þess konar efni birtist oft í útbreiddum tímaritum og vinsælum bókum og getur grafið undan trausti manna til Biblíunnar. Sumir leggja metnað sinn í að draga úr myndugleika hennar með endalausum getgátum. Ljóst er af orðum Páls postula að svipuð hætta var fyrir hendi á postulatímanum: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:8.

Óvinir sannleikans

8, 9. Hvernig birtist fráhvarf nú á dögum?

8 Fráhvarfsmenn geta ógnað andlegu hugarfari okkar. Páll spáði stórfelldu fráhvarfi meðal þeirra sem játuðu sig kristna og orð hans rættust eftir dauða postulanna. (Postulasagan 20:29, 30; 2. Þessaloníkubréf 2:3) Kristni heimurinn spratt úr þeim jarðvegi. Ekkert stórfellt fráhvarf hefur átt sér stað meðal fólks Guðs núna þó að fáeinir hafi yfirgefið hópinn og sumir þeirra séu staðráðnir í að ófrægja votta Jehóva með því að útbreiða lygar og villandi upplýsingar. Fáeinir hafa gengið til liðs við aðra baráttuhópa gegn sannri tilbeiðslu en með því gerast þeir liðsmenn Satans sem fyrstur gerðist fráhverfur sannri tilbeiðslu.

9 Sumir fráhvarfsmenn nota fjölmiðla í vaxandi mæli, meðal annars Netið, til að dreifa röngum upplýsingum um votta Jehóva, svo að einlægt fólk rekst stundum á áróðursefni þeirra þegar það leitar sér upplýsinga. Einstaka vottar hafa óafvitandi stofnað sér í hættu af þessu skaðlega efni. Og fráhvarfsmenn eru stundum með í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Hvernig er skynsamlegt að bregðast við þessu?

10. Hvernig er viturlegt að bregðast við fráhvarfsáróðri?

10 Jóhannes postuli benti kristnum mönnum á að hleypa fráhvarfsmönnum ekki inn á heimilið. „Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu,“ skrifaði hann, „þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn. Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum.“ (2. Jóhannesarbréf 10, 11) Við verjum okkur gegn spillandi hugmyndum þessara andstæðinga með því að forðast allt samband við þá. Að kynna sér fráhvarfskenningar, sem koma fram í einhverjum fjölmiðli, er jafnskaðlegt og að bjóða fráhvarfsmanni inn á heimilið. Við ættum aldrei að leyfa forvitninni að teyma okkur út á slíka óheillabraut. — Orðskviðirnir 22:3.

Innan safnaðarins

11, 12. (a) Lýstu hvernig skaðlegar hugmyndir gátu komið upp í söfnuðinum á fyrstu öld. (b) Hvernig skorti suma festu í kenningum Guðs?

11 Við skulum líta á enn eina hugsanlega uppsprettu skaðlegra hugmynda. Kristinn maður gæti vanið sig á að vera hugsunarlaus í tali án þess að ætla sér að kenna neitt ósatt. (Orðskviðirnir 12:18) Við erum öll ófullkomin svo að við syndgum stundum í orði. (Orðskviðirnir 10:19; Jakobsbréfið 3:8) Ljóst er að einstaka safnaðarmaður á dögum Páls hafði ekki taum á tungu sinni og fór út í orðastælur við aðra. (1. Tímóteusarbréf 2:8) Sumir höfðu helst til mikið álit á eigin skoðunum og storkuðu jafnvel valdi Páls og ollu óþörfum deilum. — 2. Korintubréf 10:10-12.

12 Fyrir kom að misklíðin magnaðist upp í „þjark og þras“ og raskaði friði safnaðarins. (1. Tímóteusarbréf 6:5; Galatabréfið 5:15) Páll sagði um þá sem kveiktu þessar þrætur: „Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því, sem guðrækni vor kennir, þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt. Hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum. Af þessu fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:3, 4.

13. Hvernig breyttu flestir kristnir menn á fyrstu öld?

13 Þorri kristinna manna á postulatímanum var þó trúfastur og einbeitti sér að því að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Þeir létu sér annt um ‚munaðarlausa og ekkjur‘ og varðveittu sig ‚óflekkaða af heiminum.‘ (Jakobsbréfið 1:27) Þeir sóuðu ekki tímanum í tilgangslausar orðastælur. Þeir forðuðust jafnvel ‚vondan félagsskap‘ innan kristna safnaðarins til að varðveita andlegt hugarfar sitt. — 1. Korintubréf 15:33; 2. Tímóteusarbréf 2:20, 21.

14. Hvernig geta eðlileg skoðanaskipti breyst í skaðlegar þrætur ef við erum ekki gætin?

14 Það sem lýst er í 11. tölugreininni er alls ekki dæmigert fyrir söfnuði votta Jehóva nú á dögum. Engu að síður er ástæða til að vera vakandi fyrir því að tilgangslausar orðastælur geta farið af stað. Það er auðvitað eðlilegt að ræða saman um frásagnir Biblíunnar og velta fyrir sér ýmsu varðandi nýja heiminn sem ekki hefur verið opinberað. Og það er ekkert rangt við það að skiptast á hugmyndum um persónuleg mál svo sem klæðnað, snyrtingu eða val á skemmtiefni. En ef við erum einstrengingsleg í skoðunum og móðgumst þegar aðrir eru okkur ósammála, þá gæti orðið ágreiningur í söfnuðinum út af smáatriðum. Skaðlaust skraf getur þá orðið skaðlegt.

Varðveitum það sem okkur er trúað fyrir

15. Hversu skaðlegir geta ‚lærdómar illra anda‘ reynst og hvað er okkur ráðlagt í Ritningunni?

15 Páll postuli segir í viðvörunartón: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Já, skaðlegar hugmyndir ógna. Það er skiljanlegt að Páll skyldi biðja vin sinn Tímóteus: „Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar, sem nokkrir hafa játast undir og orðið frávillingar í trúnni.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:20, 21.

16, 17. Hverju hefur Guð trúað okkur fyrir og hvernig ættum við að varðveita það?

16 Hvernig getur þessi viðvörun hjálpað okkur? Tímóteusi var trúað fyrir verðmætum til umsjónar og varðveislu. Hver voru þau? „Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja‚“ sagði Páll. „Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú. Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.“ (2. Tímóteusarbréf 1:13, 14) Já, Tímóteusi var meðal annars trúað fyrir ‚heilnæmu orðunum,‘ því „sem guðrækni vor kennir.“ (1. Tímóteusarbréf 6:3) Kristnir nútímamenn eru ákveðnir í því að varðveita trúna og sannleikann sem þeim er trúað fyrir, eins og hér er hvatt til.

17 Til að varðveita þetta þurfum við meðal annars að vera bænrækin, temja okkur góðar biblíunámsvenjur og leggja okkur fram um að „gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10; Rómverjabréfið 12:11-17) Páll hvetur enn fremur: „Stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.“ (1. Tímóteusarbréf 6:11, 12) Orðalagið ‚trúarinnar góða barátta‘ og „höndla“ minna á að við þurfum að standa hraustlega og einbeitt á móti andlega skaðlegum áhrifum.

Hyggindi og dómgreind

18. Hvernig getum við sýnt gott jafnvægi gagnvart veraldlegum upplýsingum?

18 Hyggindi og dómgreind eru einnig liður í trúarinnar góðu baráttu. (Orðskviðirnir 2:11; Filippíbréfið 1:9) Til dæmis væri óskynsamlegt að vantreysta öllum upplýsingum af veraldlegum toga. (Filippíbréfið 4:5; Jakobsbréfið 3:17) Hugmyndir manna stangast ekki allar á við orð Guðs. Jesús vék að því að sjúklingar þyrftu að leita læknis, sérfræðings með veraldlega menntun. (Lúkas 5:31) Þó svo að læknismeðferð væri tiltölulega frumstæð á dögum Jesú viðurkenndi hann að hún gæti komið að vissu gagni. Kristnir menn sýna jafnvægi gagnvart veraldlegum upplýsingum en hafna hverju því sem getur verið þeim andlega skaðlegt.

19, 20. (a) Hvernig sýna öldungar hyggindi og dómgreind þegar þeir leiðbeina þeim sem nota tunguna óviturlega? (b) Hvernig bregst söfnuðurinn við þeim sem halda þrákelknislega á loft röngum kenningum?

19 Öldungar þurfa einnig að sýna hyggindi og dómgreind þegar þeir leiðbeina fólki sem notar tunguna óviturlega. (2. Tímóteusarbréf 2:7) Safnaðarmenn geta flækst í deilur og þrætur um aukaatriði og getgátur. Öldungarnir þurfa að vernda einingu safnaðarins og taka fljótt á öllu slíku, en þeir mega ekki eigna bræðrum sínum rangar hvatir né álykta fljótfærnislega að þeir séu fráhvarfsmenn.

20 Páll lýsir því með hvaða hugarfari eigi að veita aðstoð: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð.“ (Galatabréfið 6:1) Júdas ræddi sérstaklega um einstaklinga sem eiga í baráttu við efasemdir: „Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir, suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum.“ (Júdasarbréfið 22, 23) Ef einhver heldur hins vegar fram röngum kenningum eftir ítrekaðar áminningar þurfa öldungarnir auðvitað að ganga einbeittir fram til að vernda söfnuðinn. — 1. Tímóteusarbréf 1:20; Títusarbréfið 3:10, 11.

Fyllum hugann því sem lofsvert er

21, 22. Gagnvart hverju ættum við að vera vandfýsin og hvað ættum við að láta fylla hugann?

21 Kristni söfnuðurinn forðast skaðleg orð sem ‚eta um sig eins og helbruni,‘ hvort heldur orðin enduróma villandi ‚visku‘ heimsins, fráhvarfsáróður eða hugsunarlaust tal innan safnaðar. (2. Tímóteusarbréf 2:16, 17; Títusarbréfið 3:9) Það er heilbrigt og gott að langa til að læra eitthvað nýtt, en taumlaus forvitni getur gert okkur berskjalda fyrir skaðlegum hugmyndum. Okkur er ekki ókunnugt um vélráð Satans. (2. Korintubréf 2:11) Við vitum að hann leggur sig í líma við að beina athygli okkar frá þjónustunni við Guð þannig að við hægjum ferðina.

22 Við skulum vera góðir þjónar orðsins og halda kenningu Guðs hátt á loft. (1. Tímóteusarbréf 4:6) Notum tímann viturlega með því að vera vandlát á þær upplýsingar sem við innbyrðum. Þá er ólíklegt að áróður ættaður frá Satan komi okkur úr jafnvægi. Við skulum hugfesta „allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert.“ Guð friðarins er með okkur ef við fyllum hugann og hjartað af þessu. — Filippíbréfið 4:8, 9.

Hvað lærðir þú?

• Hvernig getur okkur stafað hætta af veraldlegri visku?

• Hvernig getum við varið okkur fyrir skaðlegum fráhvarfshugmyndum?

• Hvers konar tal ber að forðast í söfnuðinum?

• Hvernig er hægt að sýna jafnvægi gagnvart upplýsingaofgnótt nútímans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Vinsæl tímarit og bækur stangast gjarnan á við kristin gildi.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Kristnir menn geta skipst á skoðunum án þess að vera einstrengingslegir.