Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heyrið hvað andinn segir

Heyrið hvað andinn segir

Heyrið hvað andinn segir

„Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ — JESAJA 30:21.

1, 2. Hvernig hefur Jehóva komið boðum til manna í aldanna rás?

STÆRSTI og næmasti útvarpssjónauki heims með einu loftneti er á eynni Púertóríkó. Vísindamenn hafa um áratuga skeið vonast til að nema boð frá öðrum geimbúum með hjálp þessa mikla tækis. En boðin hafa látið á sér standa. Það er samt hálfkaldhæðnislegt að við skulum hvenær sem er geta numið boð annars staðar frá — án flókins tækjabúnaðar. Þessi boð koma frá upphafnari veru en nokkrum hinna ímynduðu geimbúa. Hver er þessi upphafna vera og hverjir fá boð frá henni? Hvers eðlis eru boðin?

2 Biblían segir frá nokkrum dæmum þess að mannseyru hafi heyrt boð frá Guði. Stundum voru andaverur notaðar sem sendiboðar Guðs til að koma þeim á framfæri. (1. Mósebók 22:11, 15; Sakaría 4:4, 5; Lúkas 1:26-28) Rödd Jehóva sjálfs hefur heyrst þrisvar. (Matteus 3:17; 17:5; Jóhannes 12:28, 29) Hann talaði einnig fyrir munn mennskra spámanna sem margir skrásettu það sem hann innblés þeim. Núna höfum við Biblíuna og þar eru skráðar heimildir um mörg af þessum tilvikum, auk kenninga Jesú og lærisveina hans. (Hebreabréfið 1:1, 2) Jehóva hefur svo sannarlega komið upplýsingum til mannanna.

3. Hvaða tilgangi þjóna boð Guðs og hvers er vænst af okkur?

3 Þessi innblásnu boð frá Guði segja fátt um hinn efnislega alheim. Boðin fjalla um mikilvægari mál sem varða líf okkar núna og í framtíðinni. (Sálmur 19:8-12; 1. Tímóteusarbréf 4:8) Jehóva notar þau til að koma vilja sínum á framfæri og bjóða okkur leiðsögn sína. Þetta er eitt dæmi um það hvernig orð spámannsins Jesaja eru að uppfyllast: „Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ (Jesaja 30:21) Jehóva neyðir okkur ekki til að hlusta á „orð“ sín. Það er undir sjálfum okkur komið að fylgja leiðsögn hans og ganga á vegi hans. Þess vegna hvetur Biblían okkur til að hlusta á það sem Jehóva kemur á framfæri. Í Opinberunarbókinni erum við sjö sinnum hvött til að ‚heyra hvað andinn segir söfnuðunum.‘ — Opinberunarbókin 2:7, 11, 17, 29; 3:6, 13, 22.

4. Er rökrétt að búast við því að Guð sendi okkur boð beint frá himni?

4 Jehóva talar ekki beint til okkar núna af himni ofan. Það var jafnvel sjaldgæft á biblíutímanum að boð hans bærust með þeim hætti. Stundum liðu aldir milli þess að það gerðist. Í aldanna rás hefur Jehóva oftast komið boðum til fólks síns með óbeinni hætti. Sömu sögu er að segja núna. Við skulum líta á þrenns konar aðferðir sem Jehóva notar til að koma boðum til okkar núna.

„Sérhver ritning er innblásin“

5. Hver er helsta boðleið Jehóva núna og hvernig getum við nýtt okkur hana?

5 Biblían er helsta boðleiðin milli Guðs og manna. Hún er innblásin af honum og allt sem í henni er getur verið okkur til gagns. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hún er sneisafull af dæmum um raunverulegt fólk sem notaði frjálsan vilja sinn til að ákveða hvort það hlustaði á rödd Guðs eða ekki. Þessi dæmi minna okkur á hvers vegna það er mikilvægt að heyra hvað andi Guðs segir. (1. Korintubréf 10:11) Biblían inniheldur líka raunhæf ráð og visku til að leiðbeina okkur við að taka ákvarðanir í lífinu. Það er eins og Guð standi fyrir aftan okkur og tali beint í eyru okkar: „Hér er vegurinn! Farið hann!“

6. Af hverju er Biblían öllum bókum fremri?

6 Við verðum að lesa að staðaldri í Biblíunni til að heyra hvað andinn segir þar. Biblían er ekki bara ein af mörgum vel skrifuðum og vinsælum bókum sem um er að velja. Hún er innblásin af anda Guðs og inniheldur hugmyndir hans. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans,“ segir Hebreabréfið 4:12. Boðskapur Biblíunnar þrengir sér eins og sverð inn í innstu hugsanir okkar og hvatir og leiðir í ljós í hvaða mæli líf okkar samræmist vilja Guðs.

7. Af hverju er mikilvægt að lesa í Biblíunni og hve oft erum við hvött til að gera það?

7 „Hugsanir og hugrenningar hjartans“ geta breyst með tímanum og með því sem fyrir okkur ber, bæði gott og illt. Hugsanir okkar, viðhorf og tilfinningar hætta að fylgja meginreglum Guðs ef við erum ekki sífellt að nema og skoða orð hans. Þess vegna áminnir Biblían: „Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa.“ (2. Korintubréf 13:5) Ef við viljum heyra hvað andinn segir þurfum við að lesa daglega í orði Guðs eins og við erum hvött til. — Sálmur 1:2.

8. Á hvað benti Páll postuli sem hjálpar okkur að skoða biblíulestur okkar?

8 Við megum ekki gleyma að það er mikilvægt að gefa sér nægan tíma til að meðtaka það sem maður les. Það er til lítils að ætla sér að fylgja ráðinu um daglegan biblíulestur með því að æða yfir nokkra kafla á hverjum degi en skilja ekki það sem maður les. Þó svo að það sé mikilvægt að lesa reglulega ættum við ekki að lesa aðeins til að fylgja einhverri áætlun heldur ætti okkur að langa til að fræðast um Jehóva og tilgang hans. Við gætum notað orð Páls postula til sjálfsrannsóknar. Hann sagði í bréfi til bræðra sinna: „Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum. Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar . . . til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika. Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.“ — Efesusbréfið 3:14, 16-19.

9. Hvernig getum við glætt löngun okkar til að læra frá Jehóva?

9 Fólk er auðvitað misjafnlega gefið fyrir lestur, en hvað sem því líður getum við glætt löngun okkar til að læra frá Jehóva. Pétur postuli hvetur okkur til að sækjast eftir biblíuþekkingu og honum var ljóst að það getur þurft að glæða löngunina til þess. „Sækist [„glæðið . . . löngun,“ NW] eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis,“ segir hann. (1. Pétursbréf 2:2) Það kostar sjálfsögun að ‚glæða með sér löngun‘ í biblíunám. Viðhorf okkar til lestrar og náms getur breyst til hins betra ef við ögum okkur og fylgjum fastri stundaskrá, ekki ósvipað og við getum þroskað með okkur smekk fyrir nýjum mat eftir að hafa smakkað hann nokkrum sinnum.

‚Matur á réttum tíma‘

10. Hverjir mynda ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ og hvernig notar Jehóva þá núna?

10 Í Matteusi 24:45-47 bendir Jesús á aðra leið sem Jehóva notar til að tala til okkar. Þar nefnir hann hinn andasmurða kristna söfnuð, ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ sem er falið að láta í té andlegan „mat á réttum tíma.“ Einstaklingar í þessum hópi eru „hjú“ Jesú sem fá hvatningu og leiðsögn ásamt ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða.‘ (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Þessi matur á réttum tíma er að miklu leyti borinn fram í prentuðu máli í Varðturninum, Vaknið! og öðrum ritum. Auk þess er andlegri fæðu útbýtt í ræðum og sýnikennslu á mótum og safnaðarsamkomum.

11. Hvernig getum við verið opin fyrir því sem andinn segir fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns‘?

11 Efninu, sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té, er ætlað að styrkja trúna og þjálfa skilningarvitin. (Hebreabréfið 5:14) Leiðbeiningarnar eru oft almenns eðlis þannig að hver og einn getur heimfært þær á sig. Stundum fáum við líka ráðleggingar varðandi tiltekna hegðun. Hvernig ættum við að líta á þær ef við viljum í raun og veru heyra hvað andinn segir fyrir milligöngu þjónshópsins? „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir,“ svarar Páll postuli. (Hebreabréfið 13:17) Allir þessir menn eru auðvitað ófullkomnir en Jehóva notar þá samt sem áður til að leiðbeina okkur á endalokatímanum.

Rödd samviskunnar

12, 13. (a) Hvað annað hefur Jehóva gefið okkur til leiðsagnar? (b) Hvaða jákvæð áhrif getur samviskan haft á fólk sem þekkir lítið til Biblíunnar?

12 Samviskan er annar leiðarvísir sem Jehóva hefur gefið okkur. Hann áskapaði manninum eðlislæga, innri vitund um rétt og rangt. Páll postuli segir í Rómverjabréfinu: „Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál. Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.“ — Rómverjabréfið 2:14, 15.

13 Margir geta að einhverju marki lagað hugsanir sínar og hátterni að meginreglum Guðs um rétt og rangt, þó svo að þeir þekki hann ekki. Það er rétt eins og þeir heyri daufa rödd innra með sér sem vísar þeim veginn. Fyrst þeir sem búa ekki yfir nákvæmri þekkingu á orði Guðs heyra þessa innri rödd ættu sannkristnir menn að heyra hana hátt og skýrt! Samviska kristins manns getur verið áreiðanlegur leiðarvísir ef hún er fáguð af nákvæmri þekkingu á orði Guðs og starfar í samræmi við heilagan anda. — Rómverjabréfið 9:1.

14. Hvernig getur biblíufrædd samviska hjálpað okkur að fylgja leiðsögn anda Jehóva?

14 Góð, biblíufrædd samviska getur minnt okkur á veginn sem andinn vill að við göngum. Sú staða getur komið upp að hvorki Biblían né hin biblíutengdu rit fjalli beinlínis um ákveðnar aðstæður sem við lendum í. En samviskan getur látið í sér heyra og varað okkur við stefnu sem gæti reynst hættuleg. Ef við hunsuðum rödd samviskunnar værum við eiginlega að hunsa það sem andi Jehóva segir. En ef við lærum að treysta á vel þjálfaða samvisku getum við jafnvel tekið viturlegar ákvarðanir í málum þar sem engar ákveðnar leiðbeiningar eru til á prenti. Hins vegar er ákaflega mikilvægt að hafa í huga að það er ekki rétt að þröngva okkar eigin samvisku upp á trúbræður okkar í persónulegu máli þar sem Guð hefur ekki látið í té neina meginreglu, boðorð eða lagaákvæði. — Rómverjabréfið 14:1-4; Galatabréfið 6:5.

15, 16. Hvað getur valdið því að samviskan virki illa og hvernig getum við hindrað að það gerist?

15 Hrein, biblíufrædd samviska er góð gjöf frá Guði. (Jakobsbréfið 1:17) En við þurfum að vernda og varðveita þessa gjöf svo að hún spillist ekki og hætti að starfa rétt sem siðferðilegt öryggistæki. Ef við fylgjum siðum, hefðum og venjum, sem stangast á við ákvæði Guðs, getur það valdið því að samviskan virki illa og vísi ekki réttan veg. Þá erum við kannski ófær um að dæma rétt í málum og gætum jafnvel talið sjálfum okkur trú um að hið illa sé raunverulega gott. — Samanber Jóhannes 16:2.

16 Ef við hunsum viðvaranir samviskunnar æ ofan í æ veikist rödd hennar uns við forherðumst eða verðum siðferðilega ónæm. Sálmaritarinn talaði um þess konar fólk og sagði að ‚hjarta þeirra væri tilfinningalaust sem mör.‘ (Sálmur 119:70) Sumir hætta að hugsa skýrt þegar þeir sinna ekki viðvörunum samviskunnar. Þeir geta ekki tekið réttar ákvarðanir þegar þeir hætta að taka mið af meginreglum Guðs. Við þurfum að vera næm fyrir leiðsögn samviskunnar jafnvel í málum sem virðast smávægileg. — Lúkas 16:10.

Sælir eru þeir sem heyra og hlýða

17. Hvaða blessun hljótum við ef við heyrum ‚orðin að baki okkur‘ og hlýðum samviskunni?

17 Jehóva blessar okkur með anda sínum þegar við temjum okkur að hlýða áminningum biblíufræddrar samvisku og heyra ‚orðin kölluð að baki okkar‘ sem berast frá Ritningunni og hinum trúa og hyggna þjóni. Heilagur andi gerir okkur svo færari um að taka við því sem Jehóva segir okkur og skilja það.

18, 19. Hvernig getur leiðsögn Jehóva gert okkur gott bæði í boðunarstarfinu og einkalífinu?

18 Andi Jehóva hvetur okkur til að horfast í augu við erfiðleika með visku og hugrekki. Andinn getur örvað hugann og hjálpað okkur að tala og hegða okkur alltaf samkvæmt meginreglum Biblíunnar, alveg eins og hann hjálpaði postulunum. (Matteus 10:18-20; Jóhannes 14:26; Postulasagan 4:5-8, 13, 31; 15:28) Andi Jehóva og persónuleg viðleitni okkar geta í sameiningu veitt okkur brautargengi þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir og gefið okkur hugrekki til að framfylgja þeim. Kannski ertu að hugsa um að breyta um lífsstíl til að eiga meiri tíma fyrir andlegu málin. Kannski stendurðu frammi fyrir örlagaríkri ákvörðun, svo sem að velja þér maka, kaupa húsnæði eða taka afstöðu til atvinnutilboðs. Við ættum ekki að láta mannlegar tilfinningar einar ráða ákvörðunum okkar heldur heyra hvað andi Guðs segir og fara svo eftir því.

19 Við kunnum vel að meta vinsamlegar áminningar og ráðleggingar trúbræðra okkar, þeirra á meðal öldunganna. En við þurfum ekki endilega að bíða eftir að aðrir veki athygli okkar á einhverju. Ef við vitum hvað er viturlegt að gera og hverju við þurfum að breyta í viðhorfum okkar og hegðun til að þóknast Guði, þá skulum við gera það. „Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því,“ sagði Jesús. — Jóhannes 13:17.

20. Hvaða blessun uppskera þeir sem heyra ‚orðin að baki sér‘?

20 Það er ljóst að kristnir menn þurfa hvorki að heyra rödd af himni ofan til að þóknast Guði né fá vitjun engils. Þeir hafa skráð orð Guðs undir höndum og kærleiksleiðsögn hinna smurðu á jörðinni. Ef þeir hlýða ‚orðunum að baki sér‘ og fylgja rödd biblíufræddrar samvisku, þá gera þeir vilja Guðs og eru farsælir. Og þá fá þeir að sjá loforð Jóhannesar postula rætast: „Sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Örstutt upprifjun

• Af hverju kemur Jehóva boðum til mannanna?

• Hvernig getur reglulegur biblíulestur verið gagnlegur fyrir okkur?

• Hvernig ættum við að bregðast við leiðbeiningum frá þjónshópnum?

• Af hverju ættum við ekki að hunsa áminningar biblíufræddrar samvisku?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Maðurinn þarf ekki flókinn tækjabúnað til að taka við boðum frá Guði.

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi Arecibo Observatory/David Parker/Science Photo Library.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Jehóva talar til okkar fyrir milligöngu Biblíunnar og ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘