Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju þarf að sigrast á fullkomnunaráráttu?

Af hverju þarf að sigrast á fullkomnunaráráttu?

Af hverju þarf að sigrast á fullkomnunaráráttu?

Leggurðu alltaf hart að þér til að gera þitt besta? Það er að mörgu leyti gott fyrir sjálfan þig og þá sem þú umgengst. En sumir kunna sér ekki hóf í fullkomnunarviðleitninni svo að hún verður að áráttu.

FULLKOMNUNARÁRÁTTA er skýrð sem „sú árátta að geta ekki sætt sig við neitt nema fullkomnun í verkum sínum og annarra.“ Sennilega hefurðu hitt fólk með þessa áráttu. Það gerir svo óheyrilegar og ósanngjarnar kröfur til annarra að það veldur erfiðleikum, óánægju og vanmáttarkennd. Flest sæmilega yfirvegað fólk gerir sér grein fyrir því að fullkomnunarárátta á öllum sviðum lífsins er alls ekki æskileg heldur þarf að sigrast á henni. Vandinn er helst sá að við eigum oft erfitt með að greina þessa tilhneigingu í fari sjálfra okkar, þannig að það er ekki hlaupið að því að sigrast á henni.

Nelson gegnir ábyrgðarstarfi og þarf iðulega að greiða úr vandamálum. Hann þarf að liggja yfir talnaskýrslum og halda uppi framleiðni. Fullkomnun er oft talin nauðsynleg til að komast áfram og vera samkeppnishæfur á vinnumarkaðinum. Nelson er atorkusamur og margir kunna að meta það, en fullkomnunaráráttan veldur honum höfuðverkjum og streitu. Geturðu sett þig í spor hans?

Unga fólkið fær líka sinn skerf af fullkomnunaráráttunni. Rita býr í Rio de Janeiro. Sem barni fannst henni gaman í skóla. Hún reyndi að virðast ekki metnaðarfull úr hófi en var samt niðurbrotin ef hún fékk ekki hæstu einkunnirnar. „Frá barnæsku var ég alltaf að bera mig saman við krakka sem höfðu nægan tíma en ég var alltaf að flýta mér og var uppspennt,“ segir hún. „Mér fannst ég aldrei mega vera að því að hvíla mig vegna þess að ég átti alltaf eitthvað eftir ógert.“

Maria var vonsvikin og grét ef hún teiknaði ekki jafn vel og hinir krakkarnir. Og listræn fullkomnun í tónlist skipti svo miklu máli fyrir hana að hún var oft uppspennt og áhyggjufull í stað þess að njóta þess að spila og syngja. Tânia, sem býr einnig í Brasilíu, reyndi að vera háttvís og forðast samkeppni en viðurkennir að hún hafi samt sem áður gert of miklar kröfur til sjálfrar sín, bæði í skólanum og heima fyrir. Hún ímyndaði sér að fólki geðjaðist ekki að sér nema allt sem hún gerði væri fullkomið. Og stundum gerði hún ósanngjarnar kröfur til annarra með þeim afleiðingum að hún varð döpur og vonsvikin.

Færni, ástundun og fullnægjukennd skipta vissulega máli en með því að setja sér markmið, sem ekki er hægt að ná, er fólk að kalla yfir sig vanmáttarkennd og vonbrigði. Foreldrar og aðrir eiga það til að vænta fullkomnunar í námi eða íþróttum sem krakkarnir eiga erfitt með að rísa undir. Móðir Ricardos vænti mikils af honum. Hún vildi að hann yrði læknir, lærði á píanó og talaði nokkur tungumál. Ljóst er að þessi afstaða er ávísun á vandamál og vonbrigði ef of langt er gengið.

Af hverju ber að forðast fullkomnunaráráttu?

Gæði, nákvæmni og skilvirkni eru eftirsótt á vinnumarkaðinum. Mikil spurn er eftir góðum verkmönnum svo að menn þurfa að keppa hver við annan. Margir leggja meira og meira á sig af ótta við að missa vinnuna. Sumir verða eins og íþróttamaðurinn sem fórnar nánast öllu til að setja nýtt met. Þegar hörð keppni er framundan þjálfar hann sig meira en nokkru sinni fyrr og tekur jafnvel steralyf í von um að bæta árangurinn og sigra. „Óttinn við að mistakast“ og „ákefðin að vera bestur“ kemur í stað heilbrigðrar viðleitni til að standa sig vel og skila vönduðu verki — The Feeling Good Handbook.

Sumum finnst þeir reyndar alltaf geta bætt sig í listum eða íþróttum. En Robert S. Eliot, sem er læknir, bendir á að „fullkomnunarárátta sé vænting sem aldrei uppfyllist. . . . Hún er samsett úr sektarkennd, vörn og óttanum við að verða að athlægi.“ Það er mikil viska í orðum Salómons konungs: „Ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ — Prédikarinn 4:4.

Hvað geturðu gert ef þú ert með fullkomnunaráráttu? Verðurðu þeim mun vonsviknari sem þú leggur þig meira fram? Langar þig til að gera minni kröfur og slaka svolítið á? Hvað er það að vera fullkominn? Langar þig til að gera þitt besta án þess að vera með fullkomnunaráráttu? Ófullkomnir menn geta notað meðfædda hæfileika sína núna til að gera uppgötvanir sem aðrir hafa gagn af. Hugsaðu þér hverju mannkynið gæti áorkað við fullkomnar aðstæður undir handleiðslu Guðs!

[Mynd á blaðsíðu 4]

Foreldrar og aðrir eiga það til að krefjast fullkomnunar sem börnin geta ekki náð.