Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fullkomið líf ekki bara draumur

Fullkomið líf ekki bara draumur

Fullkomið líf ekki bara draumur

Hvernig ímyndarðu þér fullkominn heim? Hugsaðu þér samfélag án glæpa, fíkniefna, hungurs, fátæktar og misréttis. Allir eru alheilbrigðir á huga og líkama. Sorg og vansæld er óþekkt því að dauðinn er ekki til. Er raunhæft að vonast eftir slíkri veröld?

ÞRÁTT fyrir vísinda- og tækniframfarir trúa fæstir að mannlegar gáfur eða þekking geti skapað fullkominn heim þar sem allir búi saman í friði og hamingju. Engu að síður liggur það í eðli mannsins að vilja lagfæra ástandið og bæta úr því sem ófullkomið er. En óraunsæir draumórar hjálpa ekki fátækum og heimilislausum eða fötluðum og sjúkum sem þrá að þjáningunum linni. Sköpunargáfa mannsins getur ekki skapað fullkominn heim. En þrátt fyrir eymdina og kúgunina er ærin ástæða til að trúa því að framundan sé heimur sem þú myndir kalla fullkominn.

Þegar minnst er á fullkomleika er líklegt að Jesús Kristur komi upp í hugann. Hann er þó ekki eini fullkomni maðurinn sem lifað hefur á jörð. Adam og Eva voru sköpuð í Guðs mynd og lifðu fullkomin í paradís. En þau gerðu uppreisn gegn föður sínum á himnum og glötuðu fullkomleikanum. (1. Mósebók 3:1-6) Löngunin til að lifa að eilífu er manninum ásköpuð engu að síður. Prédikarinn 3:11 ber vitni um það: „Allt hefir [Guð] gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“

Með ófullkomleikanum og syndinni varð lífið ‚fallvalt‘ og mannkynið var hneppt í „ánauð forgengileikans.“ En orð Páls postula eru hughreystandi: „Sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:19-21) Biblían sýnir fram á að Guð hefur gert ráðstafanir fyrir atbeina Jesú Krists til að gefa mönnum fullkomið líf á nýjan leik. — Jóhannes 3:16; 17:3.

En hvað sem þessari frábæru framtíðarvon líður getum við tekið okkur á og bætt okkur núna.

Reyndu að vera sanngjarn

Jesús Kristur áleit fullkomleika svo mikilvægan að hann sagði fjölmennum áheyrendahópi: „Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ (Matteus 5:48) Ætlast hann virkilega til þess að við séum gallalaus í hinu illa heimskerfi sem nú er? Nei, þó að við eigum auðvitað að temja okkur örlæti, góðvild og náungakærleika mistekst okkur oft að gera það sem rétt er. Einn af postulum Jesú skrifaði jafnvel: „Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti. Ef vér segjum: ‚Vér höfum ekki syndgað,‘ þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss.“ — 1. Jóhannesarbréf 1:9, 10.

Við getum samt sem áður breytt viðhorfum okkar og framkomu við aðra. Við getum forðast öfgar. Bestu uppskriftina að hófsömum, öfgalausum og sanngjörnum persónuleika er að finna í orði Guðs, Biblíunni. Með því að temja sér glaðværð og hófstillingu er auðveldara að semja vel við vinnufélaga, maka, foreldra eða börn. Páll postuli hvatti kristna menn: „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir. Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum.“ — Filippíbréfið 4:4, 5.

Kostir þess að vera sanngjarn

Það er gott bæði fyrir sjálfan þig og aðra ef væntingar þínar eru sanngjarnar og hóflegar og þú kvelur ekki sjálfan þig með fullkomnunaráráttu. Að þekkja getumark sitt kallar bæði á raunsæi og skynsemi í þeim kröfum sem maður gerir til sjálfs sín. Við skulum hafa hugfast að Guð skapaði okkur til að búa á jörðinni og njóta þess að vinna fyrir sjálfa okkur og aðra. — 1. Mósebók 2:7-9.

Þú gætir leitað til Jehóva í bæn ef þú hefur verið of kröfuharður við sjálfan þig. Það er mikill léttir að hljóta velþóknun hans. Hann þekkir eðli okkar og ófullkomleika, og hann er hvorki ósanngjarn né kröfuharður. Sálmaritarinn fullvissar okkur um það: „Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:13, 14) Við megum vera þakklát fyrir það að Guð skuli vera svona miskunnsamur við okkur mennina. Hann þekkir takmörk okkar en við erum engu að síður eins verðmæt í augum hans og elskuð börn.

Það er miklu betra að þroska með sér andlega dómgreind og öfgalaus viðhorf en að streitast við að gera allt fullkomlega. Og við getum treyst því að enginn getur hindrað Jehóva í að lyfta mannkyninu upp til fullkomnunar þegar ríki hans hefur tekið völd. En hvað er fólgið í mannlegum fullkomleika?

Fullkomleiki betri er fullkomnunarárátta

Fullkomnun og fullkomnunarárátta er ekki það sama. Það verða ekki kröfuharðir menn né sjálfbirgingar sem byggja paradís á jörð eftir að Guðsríki hefur tekið völdin í sínar hendur. Eitt af skilyrðunum fyrir því að komast lifandi gegnum þrenginguna miklu er að meta lausnargjaldið. Jóhannes postuli lýsir miklum múgi fólks af öllum þjóðum sem tjáir sig um það og segir: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10, 14) Allir sem komast lifandi úr þrengingunni miklu verða þakklátir fyrir það að Kristur skyldi deyja fúslega fyrir þá og alla aðra sem iðka trú á hann. Kærleiksfórn hans er forsenda þess að þeir geti losnað við ófullkomleikann og veikleikana fyrir fullt og allt. — Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 8:21, 22.

Hvernig verður fullkomið samfélag? Samkeppni, sjálfselska og metnaðargirnd víkja fyrir kærleika og góðvild svo að lífið verður þess virði að lifa því. Kvíði og minnimáttarkennd hverfa. En fullkomleikinn verður hvorki einhæfur né leiðigjarn. Þó að orð Guðs lýsi ekki í smáatriðum hvernig lífið verður í paradís upplýsir það okkur um hvers megi vænta: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis.“ — Jesaja 65:21-23.

Það er engin leið að segja til um það hvers konar skemmtiefni verður í Guðsríki né hvernig verslun, tækni eða samgöngum verður háttað. En sjáðu sjálfan þig fyrir þér í því umhverfi sem hér er lýst: „Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra — segir [Jehóva].“ (Jesaja 65:25) Fullkominn heimur verður býsna ólíkur því sem nú er. Ef þú verður talinn verðugur þess að lifa í nýjum heimi Guðs máttu treysta því að hann láti sér annt um þig og fjölskyldu þína. „Þá munt þú gleðjast yfir [Jehóva], og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.“ — Sálmur 37:4.

Fullkomið líf er ekki bara draumur. Kærleikstilgangur Jehóva með mannkynið verður að veruleika. Þú og fjölskylda þín getur verið í hópi þeirra manna sem hljóta fullkomleika og eilíft líf í nýjum heimi Guðs. Biblían boðar: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Við getum bætt álit okkar á sjálfum okkur og öðrum og forðast smámunasemi og fullkomnunaráráttu.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Reyndu að sjá sjálfan þig fyrir þér þar sem þú býrð við frið og réttlæti í paradís.